Sikiley kemur á óvart með áhugaverða blöndu af öllu því helst sem ferðamenn óska sér. Samfelld 2700 ára menningarsaga, einstök náttúrufegurð, ótrúlegar fornminjar, fallegar byggingar og söfn, ásamt áhugaverðri matarmenningu og blómlegu mannlífi – allt þetta og miklu meira finnur þú á Sikiley.
Sikiley er stærsta og fjölmennasta eyja Miðjarðarhafsins. Eyjan liggur á milli suður Ítalíu og norður Afríku. Aðalkennileiti Sikileyjar er eldfjallið Etna sem er á austurströnd eyjunnar.
Saga og menning Sikileyjar er einstök og byggir á gömlum menningarlegum grunni og arfleið en hún hefur að geyma menningarminjar frá Forn-grikkjum. Einnig hafa Rómverjar, Býsanska ríkið, Arabar, Norðmenn, Spánverjar og Frakkar sett mark sitt á sögu eyjunnar. Fornminjar eru víða og stórkostlegt er að skoða kirkjur og kastalar frá miðöldum, grísk hof og hringleikahús. Þá má sjá mikilfenglegar hallir og herragarða sem voru undir áhrifum barokk stílsins og endurreisnartímabilsins sem voru einkennandi fyrir rómverska byggingarlist fyrr á tímum.
Jarðvegurinn er frjósamur á Sikiley og sumrin sólrík og þurr. Mest er ræktað af hveiti, sítrusávöxtum, vínviði og möndlum. Bestu baðstrendurnar á Sikiley eru á austurströndinni og þar er þjónusta við ferðamanninn eins og best verður á kostið. Skemmtilegir bæir og þorp með blöndu af fortíð og nútíð eru einstök upplifun. Matarmenning er mikil á Sikiley, með áhugaverðri blöndu af ítölskum og arabískum áhrifum. Á Sikiley eru einnig framleidd afar góð vín, en þeirra kunnust eru rauðvínið Nero d´Avola og Marsala desertvín, sem er ein aðal útflutnings vara heimamanna.
Fararstjórar haust 2025: Gréta Valdimarsdóttir
Ferð: Kynnisferð um Cefalú - VINSÆL!
Dags: Þriðjudagur 21. október
Tími: Um 4 klst.
Lýsing:
Cefalu er lítill baðstrandarbær á norðurströnd Sikileyjar um 70 km fyrir austan höfuðborgina Palermo. Bærinn er á Campofelice di Rocella ströndinni. Lítill og notalegur bær sem kúrir við ströndina í skjóli hárra kletta. Við skoðum okkur um í gamla miðbænum með þröngum hellulögðum strætum, torgum og byggingum í miðaldar-stíl. Í miðbænum eru veitingastaðir, kaffihús og verslanir sem gaman er að kíkja í. Dómkirkja Cefalú er stolt bæjarbúa en hún er afar fögur og áhugaverð bygging byggð árið 1131, á tímum Normanna á eyjunni. Í þessari ferð kynnum við okkur sögu kirkjunnar en hún er á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig verður skoðað miðalda þvottahúsið sem byggt var í klettinum. Leiðsögnin tekur um tvær klukkustundir. Eftir kynnisferð um miðbæinn er frjáls tími fyrir farþega til að skoða sig um á eigin vegum áður en haldið er aftur á hótelið.
Verð: 9.800 kr. á mann
Innifalið í verði: Rútuferð og íslensk leiðsögn.
Ferð: Dagsferð til Palermo og Monreale
Dags: Fimmtudagur 23. október
Tími: Um 8 klst.
Lýsing:
Við byrjum á því að keyra til Monreale en þar heimsækjum við hina stórkostlegu dómkirkju staðarins og klaustur heilags Benedikts. Þaðan er keyrt niður til Palermo en þar stöðvum við fyrir framan Normanna höllina og skoðum hana að utan. Þaðan röltum við niður í gamla bæinn og skoðum merkar byggingar og kennileiti, förum í Santa Catarina klaustrið og fáum að smakka ekta sikileyskar kökur. Í hádeginu borðum við saman á „street food“ veitingastað þar sem smakkað verður á ekta réttum frá Palermo. Eftir matinn er um tveggja tíma frjáls tími fyrir farþega til að skoða sig um á eigin vegum áður en haldið er aftur á hótelið.
Verð: 17.900 kr. á mann
Innifalið í verði: Rútuferð, hádegismatur með drykk, aðgangseyrir í kirkju í Monreale og íslensk leiðsögn.
Ferð: Dagsferð til Corleone
Dags: 25. október – dagsferð
Tími: Um 8 klst.
Corleone er lítill bær með um 12.000 íbúa, staðsettur miðja vegu á milli Palermo og Agrigento. Bærinn stendur á hæð um 500 metra fyrir ofan sjávarmál. Nafn bæjarins er þekktast fyrir að vera notað sem eftirnafn persónu í bók eftir Mario Puzo svo og í kvikmyndum Francis Ford Coppola um Guðföðurinn. Um 1960 hafði höfuðpaur Corleone gengisins höfuð stöðvar sínar í bænum. Þekktastur þessa gengis var mafíósinn Toto Riina. En Corleone er einnig þekktur sem bær hinna hundraða kirkna sem þar eru fjölmargar og margar afar fagurlega skreyttar. Varðturninn Saracena sem byggður var á 11 öld stendur enn og þaðan er frábært útsýni yfir sveitirnar í kring og Corleone ánna. Fyrr á tímum var bærinn umlukin borgarmúr sem tengdu Soprano kastalann og Sottano kastalann. Í dag stendur aðeins hluti af þessum múr eftir og Sottano kastalanum hefur verið breytt í klaustur. Það tekur tæplega 2 tíma að aka frá Campofelice di Rocella ströndinni til Corleone. Dvalið um stund í þessum nafnkunna bæ - skoðum okkur um áður en haldið er á ekta ítalskan veitingastað í grenndinni þar verður boðið uppá vínsmökkun svo og gómsætan hádegisverð Komið til baka á hótel um eftirmiðdaginn.
Verð: 19.900 á mann
Innifalið: Akstur, fararstjórn, vín smökkun og hádegisverður í Corleone.
Ferð: Dagsferð - Etna og Taormina
Dags : 27. október
Tími: Um 7 - 8 klukkustundir
Kynnisferð að stærsta og virkasta eldfjalli Evrópu, Etnu sem er 3323 metra hátt. Við ökum eins nálægt eldfjallinu og hægt er og njótum stórkostlegs útsýnis til allra átta. Þaðan er haldið til Taormina sem er skemmtilegur bær er stendur á 200 metra háu fjalli með einstöku útsýni yfir hafið með Etnu í suðri og Messínu í norðri. Í bænum skoðum við Grísk – rómverska leikhúsið og njótum óviðjafnanlega náttúrufegurðar staðarins. Í lok ferðar gefst frjáls tími til að skoða sig um í Taormina á eigin vegum. Innifalið: Akstur, fararstjórn, aðgangseyrir í Grísk-rómverska leikhúsið og hádegisverður.
Verð: 22.900 á mann
Innifalið: Akstur, fararstjórn, aðgangseyrir í Grísk-rómverska leikhúsið og hádegisverður
Ferð: Dagsferð til Siracusa
Dags : 28. október
Tími: Um 8 klukkustundir
Siracusa er á suðausturhluta eyjarinnar í tæplega 2 klukkustunda akstursleið frá Giardini Naxos. Siracusa var ein helsta nýlenda Forn-Grikkja á Sikiley og varðveitir í dag samfellda sögu eyjarinnar frá valdatímum Grikkja, Rómverja, Býsans, Mára, Normanna og Spánverja. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO. Á eyjunni Ortigia er elsti bæjarhlutinn, og þar skoðum við m.a. rústir hofs Apollons, Dómkirkjuna og kirkju heilagrar Lúsíu, verndardýrlings borgarinnar og Maniace-kastalann frá tímum Normanna, Aretusa-uppsprettulindina og fjölskrúðugt bæjarumhverfi í barokkstíl frá því um 1700.
Á meginlandinu förum við í Paradísarnámurnar og skoðum „Eyra Dionysusar“, Gríska leikhúsið og rómverska hringleikahúsið.
Gamli bærinn í Siracusa er yndislegur og þar er að finna grískar rústir bókstaflega út um allt sem er helsta ástæða þess að bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Í Siracusa sjáum við elstu og best varðveittu minjar forngrískrar menningar i álfunni, enda var borgin talin mikilvægast borg grikkja til forna. Frjásl tími fyrir hádegisverð ekki innifalið í verði,
Verð: 14.500.- á mann.
Innifalið: Akstur, fararstjórn og aðgangseyrir að dómkirkjunni
Ferð: Catania - hálfsdagsferð
Dags : 29. október
Tími: Um 5 klukkustundir
Verð: 9.800.- á mann.
Innifalið: Akstur, “streed food” smökkun og fararstjórn
Catania staðsett við rætur Etnu. Catania er næststærsta borg Sikileyjar staðsett við rætur Etnu á austurströndinni, miðja vegu milli Messínu og Siracusa. Dómkirkjan við fílatorgið skoðuð og borgarumhverfi elsta hluta borgarinnar sem ber merki barokktímans, þegar borgin var endurreist í kjölfar jarðskjálfta. Eftir kynnisferð um miðborgina er frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum.
Ath. Lágmarksþátttaka í ferð með íslenskumælandi fararstjóra er 15-20 manns, en bóka þarf kynnisferðir á Íslandi í síðasta lagi 3 dögum fyrir brottför. Hafa þarf í huga að uppselt getur verið í ferðina fyrir þann tíma.
Ath. Hægt er að bóka kynnisferðir þegar ferð er bókuð á netinu eða í gegnum síma 595-1000
Ath. Verð miðast við farþega í pakkaferðum á vegum Heimsferða
Vinsamlegast athugið að verð og tímasetningar eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur, Heimsferðir áskilja sér rétt að breyta slíku án fyrirvara. Athugið að nákvæmar tímasetningar liggja endanlega fyrir rétt fyrir brottför og er öllum farþegum tilkynnt um þær.