Madeira er stundum nefnd „skrúðgarðurinn í Atlantshafinu“ enda með fádæmum gróðursæl og býr yfir einstökum náttúrutöfrum.
Eyjan sem tilheyrir Portúgal er rúmlega 800 ferkílómetrar að stærð og liggur í Atlantshafinu u.þ.b. 600 km vestur af ströndum Afríku. Hér ríkir afar þægilegt loftslag allan ársins hring. Meðalhitinn í apríl er um 18°C. Innan um tilkomumikil fjöll, vínekrur, ávaxtagarða og fagran hitabeltisgróðurinn hafa eyjarskeggjar skapað hina fullkomnu aðstöðu ferðamannsins. Funchal er höfuðborg eyjunnar með um 70.000 íbúa. Það sem einkennir borgina öðru fremur eru stórir og fallegir skrúðgarðar með aragrúa fagurra blómategunda sem fátítt er að sjá annars staðar. En borgin hefur fleira að bjóða eins og þröngar krókóttar götur, vinaleg veitinga- og kaffihús og við höfnina vagga sér skip af öllum stærðum og gerðum frá öllum heimshornum. Í borginni er úrval sérverslana, minjagripaverslana og litskrúðugra markaða – með afar fjölbreyttan varning.
Þar eru einning verslunarmiðstöðvar með þekktum vörumerkjum, veitingastöðum og jafnvel kvikmyndahúsum. Helstu verslunarmiðstöðvarnar eru Madeira Shopping, Forum Madeira og sú nýjasta, Dolce Vita. Þegar út fyrir borgina er komið taka við litlir „syfjulegir“ bæir og vinaleg sjávarþorp sem gaman er að heimsækja. Íbúar eyjunnar eru heimsþekktir fyirr vínframleiðslu sína en blómarækt, dúkasaumur og körfugerð leikur einnig í höndum þeirra. Í boði eru góð hótel sem staðsett eru skammt fyrir utan höfuðborgina Funchal á suðurströnd eyjunnar.
________________________________________
Kynnisferð um Funchal - hálfsdagsferð
Dags: fimmtudagur 6. mars
Eftir morgunverð er haldið af stað í hálfsdags kynnisferð um Funchal. Í upphafi ferðar er farið á líflegan og ekki síður litríkan markað heimamanna en þar má sjá ótrúlegt úrval blóma, ávaxta, og grænmetis í öllum regnbogans litum. Gengið verður á milli helstu kennileita borgarinnar áður en farið er aftur upp í rútu og ekið upp í fjöllin til smábæjarins Monte. Þar skoðum við kirkju staðarins en þaðan er ótrúlegt útsýni yfir borgina.
Að lokum er komið við í vínkjallara þar sem farþegum gefst kostur á að bragða hinar ýmsu útgáfur af hinu fræga Madeira víni.
Síðan er ekið aftur til baka á hótelin en einnig er möguleiki á að verða eftir í miðbænum og skoða sig um á eigin vegum. Leigubílar eru á hverju strái í miðbænum svo það er auðvelt að koma sér til baka á hótelið.
Verð kr. 8.500 á mann
Innifalið í verði: Akstur, vínsmökkun og íslensk fararstjórn
________________________________________
Fegurð Madeira, Santana – dagsferð
Dags: Laugardagur 8. mars
Dagsferð um austurhluta eyjunnar sem þrátt fyrir smæð sína býður upp á mjög fjölskrúðugt landslag. Leiðin liggur frá suðri til norðurs að þriðja hæsta tindi eyjunnar Pico do Arieiro sem er 1818 metra yfir sjávarmál. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir eyjuna.
Næst er ekið að þorpinu Santana á norðurhluta eyjunnar sem er þekkt fyrir hin sérstæðu hús sín með stráþökum. Þar verður stoppað um stund, hádegisverður borinn fram og farþegum gefinn frjáls tími að skoða sig betur um á staðnum.
Á leiðinni til baka er ekið að útsýnisstað á austurhluta eyjunnar og stoppað þar um stund.
Verð kr. 9.900 á mann
Innifalið í verði: Akstur, hádegisverður og íslensk fararstjórn
________________________________________
Fjallstoppar, dalir og þorp – hálfsdagsferð
Dags: mánudagur 10. mars
Hálfsdagsferð þar sem haldið verður áfram að skoða þessa fögru eyju. Í þessari ferð heimsækjum við þrjá áfangastaði. Fyrst er ekið að útsýnishæðinni Pico Dos Barcelos þar sem við stoppum og njótum útsýnisins yfir Funchal borgina. Eira do Serrado er í um 1100 metra yfir sjávarmál og þaðan má sjá Curral das Freiras – Nunnudalinn - og lítið þorp sem byggt er í gömlum eldgíg. Í lok ferðar er komið við í fallegu litlu sjávarþorpi Camara de Lobos og dvalið þar um stund. Camara de Lobos var ávallt mikill uppáhaldsstaður Sir. Winston Churchill sem dvaldi þar oft og málaði myndir af staðnum.
Verð kr. 4.900 á mann
Innifalið í verði: Íslensk fararstjórn og akstur.
________________________________________
Ferð: Porto Moniz - dagsferð
Dags: miðvikudagur 12. mars
Ekið í norðvestur um einn fallegasta hluta Madeira um gróðursæl fjöll og dali með suðrænum gróðri og litlum þorpum sem kúra í fjallshlíðunum.
Í upphafi ferðar er ekið til þorpsins Ribeira Brava sem er notalegur strandbær á suðvestur ströndinni, dvalið þar um stund. Þá er ekið af stað og komið við á bananaekru þar sem gert er stutt stopp og farþegar skoða og fræðast um þessa merkilegu plöntu.
Áfram er haldið og nú að Cabo Giarao sem er hæsti sjávarklettur í Evrópu. Fyrir utan stórbrotið útsýni fá farþegar tækifæri til að standa á sérstökum glersvölum (svipuðum þeim sem eru í Grand Canyon í Bandaríkjunum – bara í smækkaðri mynd !) alveg mögnuð upplifun – sér í lagi í heiðskíru veðri! Ferðinni er síðan haldið áfram til Porto Moniz á norðvestur tanga eyjunnar. Sérstaða þessa litla bæjar er staðsetning hans og hinar náttúrulegu sundlaugar sem myndast hafa í klettunum í sjávarmálinu
Verð kr. 9.900 á mann
Innifalið í verði: Akstur, hádegisverður og íslensk fararstjórn
________________________________________
Ferð: Levada skemmtiganga
Dags: föstudagur 14. mars
Stórskemmtileg gönguferð um hin fjölbreyttu ræktunarsvæði Madeira.
Madeira áveitukerfið er frá 15. öld og er einstakt í heiminum. Tilgangurinn með þessu mikla neti steinrása eða “levadas” er að fanga vatnið sem fellur í fjöllin og bera það fram á þau svæði sem voru heppileg til ræktunar.
Gallinn við ákjósanlegu ræktunarsvæðin var einmitt sá að þar rigndi lítið sem ekkert. Á hinn bóginn rigndi ríkulega á fjallasvæðum sem voru óhæf til ræktunar. Því var farið í þetta gríðarmikla verkefni sem fól í sér byggingu 2200 km af skurðum og 40 km af göngum. Í heildina erum um 200 levadas á Madeira.
Þægileg ganga í kyrrðinni innan um fallegan suðrænan gróðurinn.
Í lok göngunnar er ekið aftur til Funchal.
Verð kr. 4.600 á mann
Innifalið í verði: Akstur, og íslensk fararstjórn.
________________________________________
Ferð: Kvöldskemmtun með þjóðlegu ívafi
Dags: laugardagur 15. mars
Skemmtilegur staður þar sem farþegar sjá þjóðdansa og söngvasýningu innfæddra á meðan snæddur er kvöldverður með þjóðarréttum eyjarskeggja. Aðalrétturinn er Espetada, nautakjöt á teini sem er grillað yfir opnum eldi, ásamt meðlæti. Góð kvöldstund sem enginn vill missa af.
Verð kr. 9.900 á mann
Innifalið í verði: Akstur, kvöldverður og íslensk fararstjórn.
Ath. Lágmarksþátttaka í ferð með íslenskumælandi fararstjóra er 20 manns, en bóka þarf kynnisferðir á Íslandi í síðasta lagi 3 dögum fyrir brottför. Hafa þarf í huga að uppselt getur verið í ferðina fyrir þann tíma.