Hérna að neðan má sjá svör við algengum spurningum sem ferðaráðgjafarnir okkar hafa fengið í gegnum tíðina.
Bókun á netinu. Tókst bókunin?
Bókun verður til á vefnum þegar fylltar hafa verið út farþegaupplýsingar og smellt hefur verið á gula BÓKA hnappinn. Við bókun á vefnum skal greiða staðfestingargjald. Staðfesting á bókuninni verður send á netfangið þitt en athugaðu að það getur tekið allt að 30 mínútur. Athugðu enn fremur að bókunarstaðfestingin gæti farið í aðrar möppur á pósthólfinu en innhólfið.
Bólusetningar ferðamanna.
Þarf ég bólusetningu vegna ferðarinnar?
Ef þú átt bókaða ferð með okkur til suðlægra landa, einkum í hitabeltinu, þá bendum við á vef landlæknis þar sem sjá má nánari upplýsingar vegna bólusetninga ferðamanna en að mörgu þarf að huga þegar bólusetningarþörf er metin. Eins þarf að ofast nær að ferðast með nýlegt PCR próf ef viðkomandi er ekki með bólusetningarvottorð fyrir Covid 19.
Ferðagögn.
Hvenær fæ ég ferðagögnin mín afhent?
Þegar bókuð hefur verið ferð eða flug fær farþegi senda bókunarstaðfestingu á netfangið sem gefið var upp við bókun. Þegar ferð er fullgreidd gilda þessi ferðagögn sem staðfesting fyrir flugi, hóteli eða annarri þjónustu sem pöntuð hefur verið.
Forfallatrygging.
Við bendum farþegum á að kynna sér forfallatryggingar í greiðslukortum sínum eða í gegnum tryggingafélögin. Heimsferðir selja ekki forfallatryggingu.
Innifalið í fæði.
Hvað er innifalið í hálfu fæði, fullu fæði eða "allt innifalið"?
Innifalið í hálfu fæði er morgunverður og kvöldverður. Innifalið í fullu fæði er morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. Innifalið í allt innifalið er morgunverður, hádegisverður og kvöldverður ásamt innlendum áfengum og óáfengum drykkjum. Athugið að afgreiðsla á drykkjum og öðru fæði er í boði á ákveðnum tímum dags og geta opnunartímar fyrir þessa þjónustu verið misjafnir á milli gististaða.
Lokagreiðsla.
Fer lokagreiðsla sjálfkrafa út af kreditkortinu mínu?
Fyrirtækjum er óheimilt að geyma kreditkortaupplýsingar viðskiptavina og verða því viðskiptavinir að hafa samband við ferðaráðgjafa í síma 595-1000 til að ganga frá lokagreiðslu.
Stökktu. Hvað felur Stökktu tilboð í sér?
Þegar bókað er Stökktu tilboð felur það í sér að viðskiptavinur kaupir flugsæti og gistingu. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að sú gisting sem úthlutuð verður sé almennt í sölu hjá Heimsferðum. Gæði gistingar eru að lágmarki skv. bókun Stökktu tilboðs hverju sinni eða sambærilegt, hvort heldur sem er skv. stjörnumati Heimsferða eða opinberri stjörnugjöf. Vert er að taka fram að farþegar verða að vera undir það búnir að þurfa að skipta um gististað meðan á dvöl stendur. Athugið einnig að þegar bókað er Stökktu þá er mögulegt að farþegar fái ekki upplýsingar um hver gistingin er fyrr en degi fyrir brottför eða jafnvel ekki fyrr en við lendingu á áfangastað.
Vegabréf.
Þarf ég að hafa vegabréf meðferðis?
Íslenskir ríkisborgarar skulu ávallt hafa vegabréf meðferðis þegar ferðast er til og frá Íslandi þar sem vegabréf eru einu gildu íslensku ferðaskilríkin. Ökuskírteini sýnir t.d. ekki fram á íslenskt ríkisfang. Athugið að framlengd vegabréf teljast ekki lengur gild ferðaskilríki. Þeir sem hyggjast ferðast utan EES verða að hafa vegabréf sem gilda í a.m.k. 6 mánuði frá áætluðum ferðalokum. Rétt er að kynna sér hvaða kröfur er gerðar í þeim ríkjum sem heimsótt eru. Sjá nánari upplýsingar um vegabréf á vef utanríkisráðuneytisins.
Vegabréfsáritanir.
Þarf ég vegabréfsáritun?
Rétt er að kynna sér tímanlega hvort vegabréfsáritunar / landgönguleyfis (e. Visa) sé krafist í því landi sem heimsækja á. Almennt þurfa íslenskir ríkisborgarar vegabréfsáritun en frá því gilda þó margar undantekningar samanber það sem gildir um ferðalög til aðildarríkja Schengen. Athugið einnig hvað Schengen vegabréfsáritun varðar að hafa fleiri en "single-entry" áritun ef til stendur að ferðast á milli landa sem eru utan Schengen svæðisins á meðan dvöl stendur. Sjá nánari upplýsingar um vegabréfsáritanir á vef utanríkisráðuneytisins.
Börn sem ferðast ein. Reglur hjá flugfélögum:
Neos Börn 4 – 15 ára þurfa fylgd Undir 4 ára verða að ferðast með öðrum
Norwegian Air Börn 5 – 11 ára þurfa fylgd Undir 5 ára verða að ferðast með öðrum Hægt að fá fylgd með 12 – 15 ára börnum
Travel Service/Smart wings Börn 6 – 12 ára þurfa fylgs, þarf að bóka með minnst 2ja daga fyrirvara Undir 6 ára verða að ferðast með öðrum Hægt að fá fylgd fyrir 13 – 17 ára
Iceland Air 5 – 11 ára þurfa fylgd Undir 5 ára ferðast með öðrum Hægt að fá fylgd með 12 – 15 ára
Ferðaöryggi
Á vef utanríkisráðuneytisins má finna upplýsingar um atriði sem rétt er að huga sérstaklega að áður en haldið er af stað í ferðalag erlendis. Þar er að finna m.a. upplýsingar um:
*Ferðaviðvaranir
*Upplýsingar um næsta íslenska sendiráð og/eða ræðisskrifstofu
*Vegabréf
*Vegabréfsáritanir
*Ökuskírteini
*Peningar
*Farmiðar
*Ferðatryggingar
*Vottorð – sjúkratryggingakort
*Bólusetningar
*Ferðalög með börn
*Lög, reglur og siðvenjur í því landi sem heimsækja á
Öryggishólf.
Þarf að greiða sérstaklega fyrir öryggishólf á gististöðum? Misjafnt er hvort greiða þarf fyrir þessa þjónustu á gististöðum en oftast nær er það raunin að greitt sé fyrir notkun á öryggishólfum.
Töskutjón.
Heimsferðir bera ekki ábyrgð á skemmdum á töskum sem kunna að verða í leiguflugi, áætlunarflugi, áætlunarbifreiðum eða öðrum farartækjum. Verði skemmdir á töskum í flugvél ber farþega að fylla út skýrslu hjá flugvallaryfirvöldum á staðnum. Flugfélagið sér um greiðslu skaðabóta samkvæmt alþjóðlegum reglum og er greiðsla send beint til farþega. Sé um íslenskt flugfélag að ræða þarf að sýna tjónaskýrslu frá flugvallaryfirvöldum, farseðil og töskumiða, en farþegar snúa sér einnig beint til flugfélagsins. Hafi farþegi ekki tjónaskýrslu, getur hann ekki fengið tösku bætta. Heimsferðir bera ekki ábyrgð ef farangur tapast eða hann berst farþega seint vegna rangrar afgreiðslu á flugvelli. Nánari upplýsingar um rétt farþega vegna seinkunar í flugi og skemmd á tösku má sjá á vef samgönguráðuneytisins www.samgongustofa.is
Seinkun á flugi.
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef töf verður á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðili á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel gistingu eftir lengd og eðli seinkunarinnar. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Nánari upplýsingar um rétt farþega vegna seinkunar í flugi má sjá á vef samgönguráðuneytisins www.samgongustofa.is Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.
Greiðslumöguleikar hjá Heimsferðum.
Hægt er að greiða með kreditkortum, bæði Visa og Mastercard, þegar bókað er á netinu eða þegar hringt er í söludeild Heimsferða í síma 595 1000. Hægt er að greiða inn á bankareikning Heimsferða: 133-26-6563 kt. 461295-2079
Vinsamlegast settu bókunarnúmer í skýringu og sendu kvittun á sala@heimsferdir.is. Hægt er að greiða með reiðuféi eða debetkortum á skrifstofu Heimsferða. Unnt er að gera raðgreiðslusamning til allt að 36 mánaða eða fá vaxtalaust staðgreiðslulán til allt að 4 mánaða á skrifstofu Heimsferða eða í gegn um síma 595 1000. Hjá okkur getur þú fengið Pei greiðsludreifingu í allt að 12 mánuði og að hámarki 1.900.000. Hægt er að greiða með Pei í gegn um síma: 595 1000 eða koma til okkar í Skógarhlíð 18, 105 Reykjavík.