Flug og flugvöllur
Flugvöllurinn á Mallorca heitir Palma de Mallorca airport (PMI). Flugtíminn til Mallorca frá Keflavík er um 4 ½ klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en 2 klst fyrir áætlaða brottför. Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að fá flugtíma sína staðfesta.
Farangur og farangursheimild
Flogið er til Mallorca með flugfélaginu Neos Air, leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri er 20 kg taska á hvern farþega auk 8 kg handfarangurs (hámarks stærð á tösku í handfarangri 54x40x20 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu um málið hjá þjónustuaðila á flugvelli áður en komusalur er yfirgefinn. Ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið einfaldlega ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni!
Sími, rafmagn og tölvur
Á Spáni er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Spáni og í íslenskt númer skal setja inn 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í spænskt númer skal setja inn 0034- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu WI-FI, að þá er netsamband mismunandi gott eftir stöðum.
Þjónusta á áfangastað
Ef farþegi telur að eitthvað sé ábótavant varðandi þjónustu hótels eða ónægja er með íbúð eða herbergi skal gera fararstjóra Heimsferða og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið. Hægt að hringja á skrifstofu Heimsferða í Skógarhlíð 18 í síma 00354 5951000 milli 09:00 – 16:00 virka daga.
Ferðamannaskattur og trygging
Á gisti- og áfangastöðum þarf að greiða ferðamannaskatt fyrir hverja gistinótt á mann en gjaldið er misjafnt og miðast við opinbera stjörnugjöf gististaðarins. Skattinn greiða ferðamenn á viðkomandi gististað en ferðaskrifstofur geta ekki innheimt skattinn.
Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.
Upplýsingar fyrir farþega sem eiga bókaðan akstur á vegum Heimsferða
Akstur frá flugvelli að hótelum er mismunandi eftir því hvert er verið að fara. Það tekur um 20-30 mín til Santa Ponsa, Palmanova og Magaluf en um 50 mín til Alcudia en í öllum tilvikum fer það eftir umferð hverju sinni og á hversu mörg hótel rútan fer. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni.
Verslanir
Verslanir eru almennt opnar frá kl. 10.00-13.30 og 16.30-20.00 mánudaga til föstudaga. Flestar verslanir eru opnar fyrir hádegi á laugardögum en sumar hafa lokað eftir hádegi. Á sunnudögum er yfirleitt lokað. Verslanir eins og Carrefour, El corte inglés, Zara, H&M og verslunarmiðstöðin Porto Pi eru yfirleitt opnar frá 10:00 – 21:00. ATH! Opnunartími verslana getur verið breytilegur.
Tax-Free
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför. ATH! Þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.
Þjórfé
Almennt er þjónustugjald ekki innifalið á veitingastöðum og tíðkast því að gefa um 10% þjórfé. Oftast er einnig gefið þjórfé til leigubílstjóra, burðarmanna og annarra sem veita góða þjónustu.
Læknar og apótek
Góð læknisþjónusta er á staðnum og er hægt að fá enskumælandi lækni heim á hótel með milligöngu fararstjóra. Íslendingar eru tryggðir innan EES ef um ríkisrekna heilsugæslu og sjúkrastofnanir er að ræða en ekki á einkareknu stofunum. Mikilvægt er að vera vel tryggður. Opnunartími apóteka er frá 9:00-13:00 og 16:30-20:00. Nætur- og helgidagaþjónusta: Leigubílstjórar vita yfirleitt hvaða apótek er á vakt hverju sinni sem og starfsfólk í hótelmóttöku.
Golf
Golf á Mallorca er algjör paradís fyrir golfáhugamenn. Hér er fjöldi golfvalla fyrir jafnt áhugamenn sem atvinnumenn. Um 18 golfvellir eru á suðurströnd Mallorca svo það er um nóg að velja. Golf Pollensa er um 15 mín akstur frá Alcudia, Golf Son Vida er einnig vinsæll völlur en hann er um 20 mín akstur frá Santa Ponsa en um 50 mín frá Alcudia.
Áhugaverðir staðir
Puerto Portals // Snekkjur, mannlíf, veitingastaðir og tíska.
Agualand Arenal & Agualand Magaluf // Vatnsrennibrautagarðar.
La Lonja // Veitingastaðir, barir og mannlíf í hjarta Palma.
Abaco // Frægur ávaxtabar í La Lonja.
Marineland // Sædýragarður í Portals Nous.
La Granja // Byggðasafn skammt frá Valldemossa.
Palma Aquarium // Fiskasafn í hjarta Playa de Palma.
Brottför
Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000 (skrifstofan er opin alla virka daga frá kl. 09:00-16:00). Upplýsingar um brottfarartíma frá Mallorca fást á heimasíðu flugvallarins: http://www.mallorcaairport.com. Þetta er nauðsynlegt þar sem oft geta tímabreytingar frá áður útgefinni áætlun, breyst. Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi. Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda.
Íslenskur ræðismaður
Ræðismaður Íslands á Palma de Mallorca er Joaquin Gual de Torrella. Skrifstofa: Calle Concepcio N. 13, 1° 1a, Palma de Mallorca. Sími: 0034 971 716 045. Netfang: gdet@mallorcanet.com.