Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Tenerife

Frábær ævintýri á hinni vinsælu Tenerife eyju allt árið, fallegar strendur og fjölbreytt afþreying. 

Tenerife, sem er stærst Kanaríeyjanna, býður frábærar aðstæður. Fallegar strendur, glæsilega gististaði, fjölbreytta afþreyingu og stórbrotna náttúru. Í boði er fjölbreytt úrval vinsælla gististaða á vinsælustu svæðunum á einstökum kjörum. Hingað sækja einstaklingar, pör og barnafjölskyldur til að njóta notalegs loftslags, strandlífsins, fjölbreyttrar afþreyingar og verslana að ógleymdum góða matnum sem í boði er. 

Á suðvesturströnd Tenerife eru vinsælu strandsvæðin þrjú: Costa Adeje, Los Cristianos og Playa de las Americas.

Á þessum stað er hvað mest veðursæld á Tenerife og hefur það einmitt lagt sitt af mörkum við að gera svæðið svo vinsælt sem raunin er. Eyjan býður ýmislegt fleira en frábært strandlíf. Ef maður verður þreyttur á sólhlífum og strandbekkjum er margt annað í boði. Náttúra eyjarinnar er falleg og fjölbreytt og mikil afþreying er í boði auk spennandi og skemmtilegra kynnisferða. Á svæðinu eru einnig margir fallegir golfvellir sem eru skemmtileg og freistandi viðfangsefni fyrir kylfinga. 

Sólin og ströndin
Margir fara til Suður-Tenerife til þess að njóta strandlífsins og þeir verða ekki fyrir vonbrigðum. Hér er hægt að velja milli mikils fjölda frábærra stranda. Strendurnar eru almennt barnvænar, öldurnar stilltar og sjaldnast mikið dýpi. Á sumrin eru heimamenn áberandi á ströndunum þar sem þeir leita kælingar en á veturna eru ferðamennirnir allsráðandi. 

Los Cristianos
Gamli bærinn í Los Cristianos, sem stendur við fallega sandströnd, einkennist einkum af þröngum og skemmtilegum göngugötum, þar sem finna má margar litlar sérverslanir, góða veitingastaði og kaffihús. Bærinn stendur líka við skemmtilegt hafnarsvæði, sem gaman er að rölta um og virða fyrir sér smábáta, veiðimenn að störfum og að ógleymdu fallegt útsýni frá hafnargarðinum yfir til eyjunnar La Gomera. Þá tilheyrir önnur falleg strönd bænum Los Cristianos eða lengsta sandströnd suðurhluta Tenerife, þ.e. Las Vistas ströndin, þar má m.a. finna svæði sem hefur verið útbúið sérstaklega fyrir fólk sem notar hjólastóla. 

Ameríska ströndin
Næsti bær við Los Cristianos er hinn vinsæli strandbær Playa de las Americas, þar er að finna mörg af vinsælustu hótelum Heimsferða, fjöldann allan af verslunum, fallegar strendur og gönguleiðir meðfram sjávarsíðunni með fallegt útsýni yfir til La Gomera en þar er líka notalegt og gaman að setjast á bekki og virða fyrir sér brimbrettakappa sem sækja í öldurnar víða við ströndina. Á Playa de Las Americas er líka að finna fjöldann allan af kaffihúsum og fjölbreyttum og góðum veitingahúsum sem bjóða upp á mat frá ýmsum þjóðum. Þá er fjörugt og fjölbreytt næturlíf að finna í þessum bæ, bari, diskótek og dansstaði. 

Costa Adeje
Costa Adeje er nýjasti strandbærinn á suðurhluta Tenerife og er við hliðina á Playa de Las Americas. Þar er að finna margar fallegar sandstrendur og smábátahöfnina Puerto Colón, þar sem m.a. er hægt að finna ýmislegt skemmtilegt sem tengist sjónum. Gönguleiðin meðfram ströndinni er líka ákaflega falleg og víða hægt að setjast niður á notaleg og góð kaffihús á leiðinni ásamt því að finna góða veitingastaði. Á svæðinu eru mörg vinsæl og flott hótel, sem eru í sölu hjá Heimsferðum. 

Frábært fyrir börnin Tenerife er góður og öruggur staður til að vera á ferð með börn. Strandgatan í Los Cristianos og Playa de las Americas er breið og því létt að fara þar um með barnakerru. Á mörgum stöðum eru klifurgrindur og trampólín fyrir stærri börnin. Strendurnar eru almennt barnvænar og fjölbreyttir staðir þar sem gaman er að fara með fjölskylduna.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Þú ert að fara að bóka:


Pakkaferð (flug & hótel) 

________________________________________

Raða eftir

Brottfararstað

Verði

Áfangastað

Tegund ferðar

Stjörnumat

Fæðisval

Aðstaða

Stjörnumat

Farþegar

Dagatal

Sjá leitarniðurstöður sem
Sýna verð sem
Veldu lágmarksfjölda

Veldu lengd ferðar

  • 7
  • 14
  • 21
  • 32

Fararstjórar

Heimsferðir leggja áherslu á að bjóða upp á vandaða íslenska fararstjórn af hálfu reynslumikilla og þjónustulundaðra fararstjóra ferðaskrifstofunnar. 
Á Tenerife taka þau Rún Kormáksdóttir og Trausti Hafsteinsson brosandi á móti farþegum Heimsferða með það að markmiði að sjá til þess að dvöl þeirra verði sem ánægjulegust á eyjunni fögru.  

Rún er kennaramenntuð úr Kennaraháskóla Íslands og nutu grunnskólabörn góðrar leiðsagnar hennar til margra ára ásamt því að hún var með annan fótinn tengdan ferðalögum og fararstjórn. Í dag njóta allar kynslóðir krafta hennar og jákvæðni eftir að hún sneri sér alfarið að fararstjórn. 

Trausti er einnig kennaramenntaður en staldraði þó ekki lengi við í kennslu þar sem ferðalög hafa átt hug hans allan. Hann hóf störf sem fararstjóri hjá Samvinnuferðum-Landsýn árið 1999 og hefur varla stoppað síðan, aðeins með einstaka hléum er hann starfaði sem blaðamaður við góðan orðstír. 

Fylgstu með fararstjórum okkar á Tenerife á Facebook!

Afþreying

Loro Parque https://www.loroparque.com/
Í Puerto de la Cruz er að finna hinn stórkostlega dýragarð norðursins, Loro Pargque. Þar er eitt stærsta páfagaukasafn í heiminum, yfir 300 tegundir. Þar fyrir utan eru margar aðrar tegundir dýra eins og t.d. ljón, krókódílar, skjaldbökur, hákarlar, höfrungar, simpansarm górillur o.fl. sem gaman er að skoða. Þar er einnig boðið upp á stórkostlegar sýningar, til að mynda höfrunga- og háhyrningasýningar. 

Siam Parkhttps://www.siampark.net/
Siam Park hefur í nokkur ár verið kosinn besti vatnsrennibrautagarður veraldar. Þar er að finna vatnsrennibrautir við allra hæfi, fyrrimyndar sólbaðsaðstöðu og frábært vatnsleiksvæði fyrir yngstu kynslóðirnar. Risastór öldusundlaug er í garðinum og löng flúðasigling. Vatnsrennibrautirnar henta bæði þeim sem vilja taka lífinu með ró og þeim sem vilja láta adrenalínið flæða aðeins um æðarnar. 

Jungle Park er flottur dýragarður sem staðsettur er í hæðunum fyrir ofan Los Cristianos. Þar er að finna flóru af dýrategundum í fallegu umhverfi þar sem gaman er að eyða deginum. 

Aqualand er skemmtilegur vatnsrennibrautagarður sem tilheyrir Las Americas strandbænum. Garðurinn er eldri en Siam Park en stendur engu að síður fyllilega fyrir sínu. Þar er úrval vatnsrennibrauta, leiktæki fyrir yngstu börnin, fín sólbaðsaðstaða og höfrungasýning. 

Verslun

Það er mikið af verslunum hér á Tenerife. Göngugöturnar í Los Cristianos eru fullar af fallegum verslunum og á Playa de las Americas svæðinu má finna fjölda verslana í Parque Santiago 6 og Safari verslunarkjörnunum. Á Costa Adeje svæðinu er fjöldi verslana í El Duque og Gran Sur verslunarkjörnunum, m.a. fataverslanir, húsbúnaðarverslanir, barnafataverslanir, stórmarkaðir með fjölbreytt úrval, auk veitingastaða og bara ásamt fleiru. Einnig eru reglulega útimarkaðir haldnir á svæðunum. 

Siam Mallhttps://ccsiammall.com/
Árið 2015 opnaði Siam Mall en þar er að finna allar helstu tískuvöruverslanirnar, s.s. Zara, Mango, Stradivarius, Marypaz, Bershka, Pull&Bear, Women´secret, Massimo Dutti og einnig er að finna risastóra H&M-verslun í kjarnanum. Við þetta má bæta að innan tíðar mun annar verslunarkjarni opna á suðurhluta eyjarinnar en sá kjarni verður víst með þeim stærstu í heimi. 


Santa Cruz
Þá er einnig gott að versla í höfuðborginni Santa Cruz en þar má m.a. finna verslun Primark en fararstjórar Heimsferða bjóða uppá verslunarferð til Santa Cruz í kynnisferðum sínum á eyjunni. 

Kynnisferðir

Heimsferðir bjóða upp á fjölbreytt úrval kynnisferða á Tenerife í sumar og farþegar okkar eru hvattir til þess að kynna sér hvað er í boði, bæði á komufundi sem og í upplýsingamöppum Heimsferða á gististöðum. Kynnisferðir eru bókaðar hjá fararstjóra þegar út er komið.

Náttúran og landslagið á Tenerife er mjög fjölbreytt. Hiklaust er hægt að mæla með því að þú farir í skoðunarferðir um eyjuna og njótir alls þess sem hún hefur að bjóða umfram fagrar strendur og afslöppun. 

Vinsamlegast athugið að kynnisferðir með íslenskum fararstjóra eru háðar því að a.m.k. 20 manns bóki sig. Fararstjórar Heimsferða geta aðstoðað farþega við að bóka í ferðir með enskumælandi fararstjórum ef ekki næst næg þátttaka í ferð með íslenskum fararstjóra.

Misjafnt er hvaða ferðir eru í boði hverju sinni
Bæjarrölt

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Mætum öll fyrir framan hótelið Parque Santiago III kl. 11.00 daginn eftir komu. Þaðan verður genginn stuttur spölur um miðbæinn, þar sem fararstjórar sýna og segja frá m.a. Laugaveginum, ströndinni, verslunum, veitingastöðum, útimörkuðum og samgöngumöguleikum. Bæjarrölti lýkur með kynningu á skoðunarferðum í hinni frábæru dagskrá Heimsferða á eyjunni og viðtalstíma fararstjóra. Þessi kynnisferð er farþegum að kostnaðarlausu og ekki er þörf á skráningu í ferðina.

Austrið - Píramídar & Tapas

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Hálfsdagsferð til þorpsins Güimar í 45 mínútna akstursfjarlægð. Þar virðum við fyrir okkur hina merkilegu píramída sem þar er að finna, veltum fyrir okkur uppruna þeirra, spáum í hina dularfullu frumbyggja Tenerife og síðast en ekki síst fetum við í fótspor fræði- og ævintýramannsins Thor Heyerdalh.
Í seinni hluta ferðarinnar heimsækjum vid fallega strandbæinn Puertito de Güimar þar sem glæsilegt smáréttahlaðborð med spænskum tapas-réttum bíður okkar á veitingarstað við höfnina, ásamt víni eyjarskeggja og þar eigum vid notalega stund saman.
Ekki missa af þessari!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Norðrið - ný ferð!

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Múmíur, sjóræningjar, hellabyggðir & dularfullir frumbyggjar! Meiriháttar heilsdagsferð í vetrardagskrá Heimsferða þar sem haldið er t.d. á elsta fjallgarð Tenerife þar sem beinlínis er ferðast aftur í tímann því að þar búa heimamenn enn í hellum. Á leiðinni fræðumst við m.a. um hina dularfullu frumbyggja eyjarinnar, múmíur, píramída og sjóræningja en komið er m.a. við í 16. aldar bænum í La Laguna, í hellabyggðinni Chinamada og í lárviðarskógum hins 8 milljón ára gamla fjallgarðs Anaga.
Ekið er upp eftir austurströnd Tenerife þar sem fyrstu byggðir frumbyggja mynduðust og finna má margra alda gamla píramída. Þaðan er haldið í gegnum hina fornu borg La Laguna sem Spánverjar reistu eftir að hafa náð eyjunni úr höndum frumbyggjanna dularfullu. Gamli borgarhlutinn er einstaklega fallegur enda á heimsminjaskrá UNESCO.
Frá hefðarborginni La Laguna höldum við á Anaga-skagann sem er elsti hluti eyjarinnar sem myndaðist við neðansjávareldgos. Þar er ótrúleg náttúrfegurð og gróðursæld en farið er í gegnum hina miklu Mercedes-lárviðarskóga og haldið þaðan í gömlu hellabyggðina í Chinamada-þorpinu.
Eftir heimsókn í hið dulmagnaða umhverfi Anaga-fjallgarðsins er haldið í hádegisverð á hellaveitingastað í þorpinu. Eftir hádegisverð förum við í hina afskekktu byggð Taganana þangað sem lengi vel var aðeins hægt að komast sjóleiðina. Þá höldum við yfir fjöllin til höfuðborgarinnar Santa Cruz og höldum síðan heim á leið.
Innifalið í 8 klst. langri ferðinni er margrétta kanarískur hádegisverður og vönduð íslensk fararstjórn.
Ógleymanleg ferð um dulmagnaðar slóðir og í stórkostlegri náttúrufegurð!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Hringferð um Tenerife

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Ný og betri hringferð um eyjuna!
Í Hringferðinni sýnum við ykkur allt það besta sem Tenerife hefur upp á að bjóða. Ekið er í átt til vesturs, þar sem fyrsti viðkomustaður er hinn stórbrotni fjalladalur Mascá, sem er að margra mati fallegasti staður Tenerife.
Þaðan höldum til hins „týnda” fjallaþorps Mascá sem er falið ofan í djúpu gljúfrinu. Í þorpinu fallega er gaman að rölta um áður en við höldum norður eftir ströndinni til gamla höfuðstaðarins, Garachico, en þar var aðalhöfnin á Tenerife áður en bærinn grófst undir hrauni í miklu eldgosi.
Næsti viðkomustaður er Icod de los Vinos þar sem elsta drekatré Kanaríeyja er að finna. Þar er komið við í hinu gamla Húsi drekans, La Casa del Drago, þar sem hægt er að bragða á ýmsum afurðum eyjarskeggja, t.d. kaktussultu, bananalíkjör og hunangsrommi.
Í næsta nágrenni er síðan einn gróðursælasti dalur eyjarinnar, La Orotava. Þar verður okkur boðið upp á ekta kanarískan hádegisverð í gömlu vínframleiðslufyrirtæki sem hefur verið innréttað ákaflega skemmtilega. Þar njótum við bragðgóðs hádegisverðar að hætti heimamanna og þar er einnig að finna fallega minjagripi eyjarskeggja. Eftir hádegisverð verður svo haldið í heilögustu borg eyjarinnar, Candelaria, þar sem finna má samnefnda Basilíku og skemmtilegan miðbæ, áður en hringnum er lokað niður eftir austurströnd eyjarinnar.
Frábær 8 klst. heilsdagsferð með ljúffengum hádegisverði og vandaðri leiðsögn innifalinni.
Fjölbreytt ferð sem býður þér allt það besta!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

La Gomera

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Lagt er af stað snemma og siglt til La Gomera, eyjarinnar sem Kólumbus lagði frá þegar hann fór vestur um haf 1492. Siglt er með risaferju þar sem vel fer um farþega og tekur siglingin tæpa klukkustund yfir til náttúruperlunnar. Ekið er síðan í gegnum höfuðstaðinn og upp San Sebastian dalinn þar sem útsýni er afar fallegt. Þaðan er ekið í gegnum Hermigua-dalinn, sem gjarnan er kallaður aldingarður La Gomera. 

Í dalnum heimsækjum við fallegan skrúðgarð þar sem finna má alla flóru Kanaríeyja á einum stað. Sömuleiðis er þar falleg minjagripaverslun með ýmsa handgerða muni frá La Gomera. Að skrúðgarðinum loknum borðum við þríréttaðan hádegisverð að hætti heimamanna, með drykkjum inniföldum. Þar fáum við einnig að kynnast hinu einstæða flautumáli þeirra eyjaskeggja á La Gomera.

Hápunktur ferðarinnar er þjóðgarðurinn Garajonay, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar er að finna 1000 ára gamlan regnskóg og yfir 160 tegundir af trjám. Við förum í stutta gönguferð inn í regnskóginn sem er ógleymanleg upplifun.

Frábær ferð á þessa stórkostlegu eyju!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Teide - Toppurinn á tilverunni

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

El Teide hefur haft gífurlegt aðdráttarafl fyrir eyjuna í gegnum tíðina. Þar er fjölsóttasti þjóðgarður Spánar enda landslagið þar stórbrotið. Þangað höldum við í ævintýralega heilsdagsferð.

Við byrjum á að virða fyrir okkur tvö eldfjöll, El Chinyero og El Pico Viejo, höldum síðan leið okkar áfram um hinn undurfagra þjóðgarð Canadas del Teide og að hinu tignarlega eldfjalli El Teide, hæsta fjalli Spánar, 3.718 metra hátt. Þangað höldum við upp að kláfnum sem ferðamönnum gefst tækifæri á að ferðast með upp að rótum toppsins, þetta er valfrjáls dagskrárliður og kostar aukalega. Við látum staðar numið við toppsræturnar þar sem það þarf að sækja um leyfi með allt að 4 vikna fyrirvara til að fara alla leið á toppinn. Eftir að hópurinn er búinn að njóta fallegs útsýnis úr 3.550 m hæð yfir sjávarmáli, er haldið að tveimur náttúruundrum í nágrenni við fjallið, þar sem farþegum gefst kostur á að taka fallegar myndir. Þá lækkum við flugið og föðmum hæsta furutré eyjarinnar en því næst keyrum við í gegnum hæsta byggða ból eyjarinnar, Vilaflor, sem er í um 1.500 metra hæð.

Síðan bíður okkar veislumáltíð hjá vínbónda sem tekur vel á móti okkur. Þar smökkum við á ostum og vínframleiðslu heimamanna, gæðum okkur á ljúffengum grillmat, skolum honum niður með viðeigandi drykkjum, skoðum vínakurinn, kynnum okkur vínframleiðsluna og njótum tilverunnar saman.

Að mat loknum toppum við tilveruna með því að huga vel að framtíðinni. Það gerum við með því að gróðursetja tré í hlíðum Tenerife.

Frábær heilsdagsferð í sveitasælu og óviðjafnanlegu umhverfi upp til fjalla: bragðgóð, fróðleg og skemmtileg.

Það er skyldumæting í fjallaferðina að El Teide!

 

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Beint í búðirnar

Ferð m/íslenskri fararstjórn.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa ferð. Hér er um að ræða hreinræktaða verslunarferð sem er sérsniðin fyrir okkur Íslendingana; við förum rakleiðis í H&M.
Í fyrri helmingi ferðarinnar heimsækjum við miðborg Santa Cruz, Plaza Espana og verslunargötuna El Castillo. Þar er að finna fjölda spennandi verslana, m.a. Zara, H&M, Foot Locker, C&A, Blanco, Desigual, Bata, Levi´s, Bodyshop, Stradivarius og New Yorker. Þeir sem vilja sameina verslun og menningu geta í fylgd fararstjóra heimsótt náttúru- og frumbyggjasafn Santa Cruz, tónlistarhöllina, gamla kirkju og skemmtilegan matarmarkað í miðborginni.
Í Al Campo verslunarmiðstöðinni í La Laguna, næststærstu borg Tenerife, bætast við fleiri búðir og þangað höldum við í seinni hluta ferðarinnar. Þar er einnig að finna flóru af spennandi verslunum þar sem hægt er að gera góð kaup, t.d. H&M, Desigual, Zara kids, Pimpkie, Cortefiel, Pull&Bear, C&A og Toys´r´us. Við hliðina á kjarnanum er svo að finna risavaxið íþróttavörumagasín á vegum Decathlon.
Hreinræktuð skemmtiferð okkar Íslendinga!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Loro Parque

Ferð m/enskri fararstjórn.

Stórkostlegur dýragarður sem hefur að geyma eitt stærsta páfagaukasafn í heiminum, yfir 300 tegundir. Þar fyrir utan eru margar aðrar tegundir dýra eins og ljón, krókódílar, skjaldbökur, hákarlar, höfrungar, simpansar, górillur o.fl. sem gaman er að skoða. Margar frábærar sýningar eru í boði eins og háhyrninga-, sæljóna-, páfagauka- og höfrungasýningar. Haldið er með rútu á norðurhluta eyjunnar, til Puerto de la Cruz, þar sem þessa einstöku veröld dýra er að finna. Þar er sædýrasafn þar sem hákarlarnir synda fyrir ofan okkur í glergöngum. Ef einhver saknar Íslands gæti ein magnaðasta mörgæsanýlenda utan heimskautasvæðanna, þar sem 12 tonn af snjó falla daglega, hresst viðkomandi við eða lundarnir frá Vestmannaeyjum sem eru gestum og gangandi til sýnis.

Fyrir þá sem þurfa minni tíma í garðinum gæti verið gaman að fá sér far með „minilestinni“ sem gengur á 20 mínútna fresti milli Loro Parque og miðbæjar Puerto de la Cruz en þar er ógrynni af verslunum og veitingastöðum enda var bærinn á sínum tíma einn helsti ferðamannastaður Kanaríeyja.
Frábær ævintýraferð fyrir börn á öllum aldri!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Meiriháttar Masca

Ferð m/enskri fararstjórn.

Týnda þorpið, ganga & sigling á fallegasta stað eyjunnar ... Það er ekki hægt að fela þá staðreynd að Mascá er fallegasti staðurinn á Tenerife. Þessi litli bær var lengi kallaður týnda þorpið því að það var ekki fyrr en árið 1494, 30 árum eftir hertöku Spánar á Tenerife, sem þetta fallega fjallaþorp uppgötvaðist. Í raun er ótrúlegt að nokkrum hafi hugkvæmst að velja sér þarna búsetu en sú saga gengur fjöllum hærra að þar hafi sjóræningjar átt sér dvalarstað.
Eftir að hafa eytt frjálsum tíma í sjálfu þorpinu höldum við einmitt í göngu niður gilið þar sem talið er að sjóræningjarnir hafi klifið upp með asna sína sem roguðust með ránsfenginn. Gengið er niður í stórbrotinni náttúru í þessum ólýsanlega dal og endað niðri við ströndina. Þar bíður okkar bátur sem siglir með okkur út með ógurlegum klettum, Los Gigantes, í átt til hafnar þar sem rútan bíður þess að aka með sællega ferðalanga heim á leið.
Það er aðeins til eitt orð til að lýsa þessari ferð: Meiriháttar!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Ævintýri í Adeje

Ferð m/enskri fararstjórn.

Í þessari notalegu og skemmtilegu hálfsdagsferð heimsækjum við Adeje þorpið, sem staðsett er rétt ofan við ferðamannasvæðið við strandlengjuna. Þar fáum við að kynnast rólegu lífi heimamanna en þar í fjöllunum er að finna frábæra gönguleið ofan við þorpið. Á leiðinni njótum við stórbrotinnar náttúru í rólegri göngu inn eftir dalnum þar sem háir klettar og fallegur gróður spila saman.

Að lokinni göngunni eigum við stefnumót við fjölskyldu í þorpinu sem rekur þar skemmtilegt veitingahús með æðislegu útsýni yfir suðurströnd Tenerife. Á útsýnissvölum staðarins verður borinn fram ekta hádegisverður að hætti heimamanna; kjúklingur steiktur í hvítlauk, ,,krumpaðar kartöflur” með ljúffengri mojo-sósu, salat og brauð. Með matnum fáum við að sjálfsögðu viðeigandi drykki og öll herlegheitin eru innifalin í verði ferðarinnar.
Skelltu þér með og upplifðu ekta stemningu meðal heimamanna!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Sigling á glæsiskútu

Ferð m/enskri fararstjórn.

Heimsferðir kynna með stolti nýja ferð í dagskránni, siglingu um borð í glæsiskútunni Blue Jack. Í 3 klst. siglingu um borð upplifir þú magnað útsýni yfir Tenerife. Á þessum slóðum má finna marga hvali, höfrunga og risaskjaldbökur. Áð verður við fallega strönd þar sem hægt er að svamla í svalandi sjónum og fara í snorkling-köfun. Um borð er síðan boðið upp á léttan hádegisverð með svalandi drykkjum og allt hráefni er fyrsta flokks. Skelltu þér með og upplifðu undur hafsins á glæsiskútu!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Kvöldskemmtun

Ferð m/enskri fararstjórn.

Boðið er upp á stórglæsilegan söngleik, danssýningu og tónleika í leikhúsinu Pirámide de Arona, sem er við aðalverslunargötuna, rétt hjá hótelinu Parque Santiago á Playa de las Americas.

Fyrri hluti sýningarinnar er klassískur spænskur ballett, þar sem á fjórða tug spænskra dansara og sígaunatónlistarmanna taka þátt í mjög glæsilegri sýningu. Síðan tekur við verkið Aire í nýstárlegri uppsetningu Carmen Mota.

Carmen Mota er þekkt fyrir danssýningar sínar og hin nýja sýning mun koma þér á óvart með stórkoslegum dansatriðum þar sem tugir dansara koma fram. Dansinn er samofinn hinum magnþrungna spænska Flamengo dansi og klassískum ballett. Aire er hreint út sagt algjört augnayndi þar sem fallegur dansinn leiðir þig í gegnum hugljúfa sögu.
Fyrir allan aldur og alla áhugasama um dans og tónlist!  

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

La Palma

Ferð m/enskri fararstjórn.

La Palma er gjarnan kölluð „Græna eyjan” og það er gaman að halda í heilsdagsferð um þessa gróðursælu og fallegu eyju. Þangað er haldið með flugi að morgni dags og farinn hringur um eyjuna.

Miðja La Palma er La Caldera de Taburiente, einhver stærsti gígur heims sem gerður var að þjóðgarði en gígurinn er vaxinn risavöxnum furutrjám. Hæsti punktur eyjunnar er Roque de los Muchachos, 2.423 m.y.s. og höfuðstaðurinn er Santa Cruz de la Palma, sem stendur við rætur fjallendis á austanverðri eyjunni við jaðar gígsins La Caldera.

Eftir að hafa heimsótt höfuðstaðinn er haldið á stórfenglegan útsýnisstað, El Mirador de San Bartolo, sem staðsettur er á elsta hluta eyjunnar. Þaðan er haldið í sígrænu skógana miklu, Los Tilos, sem færðir hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO. Úr skóginum er svo haldið í þorpið San Andres þar sem hina heilögu kirkju frá 15. öld er að finna en hún hefur verið vinsæll áfangastaður pílagríma í gegnum tíðina.

Eftir bragðgóðan hádegisverð að hætti heimamanna er haldið til suðurhluta eyjunnar þar sem finna má vínræktar- og hraunbæinn Fuencaliente. Þar má einnig finna eldgíginn Teneguia, sem gaus síðast á Kanaríeyjum.
Ekki missa af ferð á náttúruperluna La Palma!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Kanarískt kvöld

Ferð m/enskri fararstjórn.

Við hittumst á veitingastaðnum Otelo II, sem staðsettur er á Costa Adeje strandsvæðinu, kl. 19:00.  Á Otelo er okkur boðið upp á úrvals máltíð að hætti heimamanna; kanarískan kjúkling grillaðan í hvítlauk, krumpaðar kartöflur (papas arrugadas) með hinni bragðmiklu mojo-sósu, ferskt salat og brauð, ásamt viðeigandi drykkjum, léttvíni, vatni og gosdrykkjum.

Á meðan við njótum góðs matar verður boðið upp á lifandi kanaríska tónlist og kanaríska þjóðdansa. Að ógleymdu gríni, glensi og dansi sem við Íslendingar erum svo þekktir fyrir. Ógleymanleg kvöldstund með góðum mat. Að hætti heimamanna.

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Kafbátasigling

Ferð m/enskri fararstjórn.

Það er ekki á hverjum degi sem okkur gefst tækifæri á að sigla með kafbáti. Við erum hins vegar svo heppin að hér á Tenerife býðst okkur það einstaka tækifæri. Upplifðu með okkur ógleymanlega ferð undir yfirborð Atlantshafsins. Sjáðu hina mögnuðu veröld undirdjúpanna og hið fjölskrúðuga dýralíf sem venjulega er okkur hulið. Stórt og þægilegt farþegarými með útsýnisgluggum, loftkælingu og nýjustu tækni til að tryggja hámarksöryggi.
Einstök upplifun og einstakt tækifæri!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Tapas námskeið

Ferð m/enskri fararstjórn.

Gamall draumur að rætast? Tapas-námskeið í fjöllunum! Skemmtileg nýjung í dagskrá Heimsferða þar sem þú getur látið gamla drauma rætast hér á Tenerife. Lærðu að elda ekta spænska smárétti og bragðgóða rétti úr kanaríska eldhúsinu hjá meistaramatreiðslumanninum Andreas á hinum einstaka veitingastað El Refugio, í fjöllunum ofan við strandsvæðið.

Farþegar eru sóttir á hótelin, eyða hálfum degi í eldhúsinu með meistaranum og síðan er sest niður í margrétta veisluna að námskeiði loknu þar sem hópurinn nýtur matarins á góðri stundu. Nauðsynlegt að bóka tímanlega hjá fararstjórum því um er að ræða takmarkað sætapláss.

Einstakt tækifæri til að láta gamlan draum rætast!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Hjólaferð

Ferð m/enskri fararstjórn.

Skemmtilega hálfsdagsferð fyrir alla fjölskylduna í hlíðum Tenerife. Ferðin hefst í Teide-þjóðgarðinum og er hjólað alla leið niður til sjávarsíðunnar í suðrinu. Einungis er hjólað niður á við og ferðin er því nokkuð auðveld fyrir alla fjölskylduna.

Þess er gætt að ferðahraðinn sé aldrei of mikill og reglulega er för stöðvuð til að njóta náttúrufegurðarinnar og taka myndir af fögru útsýninu á suðurströnd Tenerife. Innifalið í verði ferðarinnar er létt tapas-máltíð sem boðið er uppá á leiðinni.

Hjólareiðaferðin hentar allri fjölskyldunni.

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Þyrluferð

Ferð m/enskri fararstjórn.

Það er ekki á hverjum degi sem þér gefst tækifæri á að fljúga í þyrlu en það býðst þér hér á Tenerife. Upplifðu fegurð eyjarinnar úr háloftunum í ógleymanlegu og öruggu þyrluflugi.

Flogið er frá flugpalli neðan við Adeje-fjallaþorpið og í fyrstu er flogið yfir hinni fögru suðurströnd Tenerife. Farið er yfir fiskimannaþorpið La Caleta og skjaldbökuvíkina svokölluðu ásamt hinum iðagræna Costa Adeje golfvelli. Þaðan er svo flogið yfir strandsvæðin Playa de las Americas og gamla bæinn Los Cristianos á leið upp til fjalla í suðrinu. Flogið er meðfram Adeje-fjallgarðinum og yfir gilin ofan við Amerísku ströndina.

Frábær leið til að upplifa þetta einstaka tækifæri og tilvalið fyrir þá sem aldrei hafa flogið í þyrlu. Einnig er hægt að fara lengri leiðir, t.d. upp í Teide-þjóðgarðinn eða hringinn um eyjuna fögru. Nánari upplýsingar fast hjá fararstjórum Heimsferða.

Njóttu stórkostlegrar fegurðarinnar á Tenerife með upplifun sem þú hefur ekki prófað áður, úr háloftunum. Athugið! Það þarf að hafa meðferðis vegabréf í þyrluflugið!
Einstakt tækifæri og ógleymanleg upplifun!

Kynnisferðir á Tenerife eru bókanlegar hjá fararstjóra á meðan dvöl stendur.

Kort

Click to view the location of the hotel

Gisting