Sól
Borg
Golf
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Salou

Sólarperlan á Costa Dorada ströndinni en þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.  

Salou hefur notið mikilla vinsælda vegna fjölbreytileika bæjarins en þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Salou er fallegur strandbær í Suður-Katalóníu á Costa Dorada ströndinni, um 100 km sunnan Barcelona. Við Salou er Port Aventura, einn stærsti og glæsilegasti skemmtigarður Spánar. Þessi bær er frábær dvalarstaður fyrir fjölskyldur. Salou skartar fallegum ströndum, fjölbreyttri aðstöðu og veðurfar er einstakt. Menning, verslanir og litríkt næturlíf taka síðan við þegar sólböðum lýkur.

Veitingastaðir og skemmtun
Gott úrval veitingastaða er í Salou. Þar er að finna fjölbreytta matargerð Miðjarðarhafsins auk veitingastaða frá öllum heimshornum. Veitingastaðir Salou eru ekki síst frægir fyrir úrvalsfiskrétti sem enginn ætti að láta ógert að smakka. Hér er einnig að finna fjölda skyndibitastaða. Næturlífið er fjölbreytt og velja má um fjölda bara og diskóteka, þar sem fjörið stendur iðulega fram undir morgun.

Ströndin
Ströndin er breið og 1,2 km að lengd og einkennist af fínum gylltum sandi. Mjög aðgrunnt er við ströndina og er hún því tilvalin fyrir barnafjölskyldur. Fjölbreytt sjósport er í boði.

Verslanir
Í Salou er prýðilegt úrval af verslunum sem gaman er að skoða. Einnig er mjög gott að versla í Tarragona þar sem úrval er enn meira. Tarragona er í um 15 km fjarlægð frá Salou, en þar er verðlag mun hagstæðara en í Barcelona.

Flugtími til Barcelona: Um 4 klst.
Gjaldmiðill: Evra
Tímamismunur: +2 klst. á sumrin, +1klst á veturna
Akstursfjarlægð frá flugvelli: Um 60-75 mínútur.

Gisting

Kort

Kynnisferðir

Njóttu dagsins í Barcelona

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Lagt er af stað frá Salou kl.09:00. Þegar komið er til Barcelona er fyrst farið að Sagrada Familia kirkjunni, meistaraverki Antoni Gaudi. Þar gefst tími til að ganga í kringum kirkjuna, virða fyrir sér þessa stórkostlegu byggingu og taka myndir.

Síðan er keyrt fram hjá fleiri byggingum sem hannaðar voru af Antoni Gaudi; Casa Mila og Casa Batllo.

Við Catalunya torgið fá farþegar tíma til að skoða sig um, fá sér hádegisverð eða versla í miðborginni í u.þ.b. 2-2 ½ klst. Þar er t.d. hægt að skoða fjölskrúðugt mannlífið við aðalgöngugötuna Las Ramblas og nágrenni hennar.

Í gotneska hverfinu er dómkirkjan, verslanir, gallerí, veitingastaðir og kaffihús. Í þessum hluta borgarinnar eru einnig nokkur fræg listasöfn, eins og Picasso safnið og Nýlistasafnið.

Eftir frjálsa tímann er haldið að Plaza España torginu og upp á Montjuïc hæðina, þar sem við fáum að sjá ýmsar byggingar sem gerðar voru fyrir sumar-ólympíuleikana 1992. Frá hæðinni er fallegt útsýni yfir borgina og höfnina.

Ferð sem enginn ætti að missa af!

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Dýragarðurinn í Barcelona

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Oft er farið með sömu rútu og þeirri sem fer í verslunarferðina. Ágætt er að sameina þetta tvennt, kíkja aðeins í verslanir og skoða dýragarðinn. Lagt af stað frá Salou um kl.08:45 og haldið til Barcelona.

Í dýragarðinum í Barcelona eru meira en 7.500 dýr af um 450 dýrategundum. Meðal annars má þar sjá slöngur, gíraffa, fíla, rostunga, ljón, apa, margar tegundir af fuglum, skjaldbökur, dverghesta og ýmiskonar skriðdýr, svo eitthvað sé nefnt. 

Rútan stoppar við Plaza Catalunya (Katalóníutorgið) skammt fyrir ofan Römbluna. Hægt er þá að taka leigubíl í dýragarðinn eða ganga Römbluna á enda til sjávar og þá er dýragarðurinn skammt frá á vinstri hönd.

Haldið til baka frá Barcelona um kl.16:30, en fararstjóri ferðarinnar gefur upp nákvæmari tímasetningu hvenær farþegar verða sóttir á Katalóníutorgið. Komið er aftur til Salou um kl.18:00.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Fótbolti o.fl. í Barcelona

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Lagt af stað frá Salou um kl. 08:45 og keyrt til Barcelona. Byrjað á því að fara á Camp Nou fótboltavöllinn sem er hápunktur þessarar ferðar. Þar er fræðst um sögu þessa fræga fótboltaliðs, Nuñes safnið skoðað, þar sem t.d. er hægt að sjá athyglisverða þróun í fótboltaskóm og fleiru síðan fótboltaklúbburinn var stofnaður árið 1899. Einnig er fjöldinn allur af verðlaunagripum sem liðið hefur fengið í gegnum tíðina.

Farið er inn í búningsklefa liðsmanna, herbergi blaðamanna, ljósmyndara og sjónvarpsmanna og jafnvel farið inn á völlinn sjálfan sem er óskadraumur allra áhugamanna um fótbolta.

Vinsamlegast athugið að ekki er allsstaðar aðgengi fyrir hjólastóla í þessari skoðunarferð um Camp Nou.

Eftir um 2 klst. skoðun á Camp Nou er keyrt niður á Katalóníutorgið (Plaza Catalunya) þar sem gefinn er frjáls tími fyrir málsverð, til að versla eða skoða sig um. Stutt er að ganga á Römbluna eða í gotneska hverfið.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Sædýrasafnið í Barcelona

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Lagt af stað frá Salou um kl. 08:45. Oft eru 3 kynnisferðir sameinaðar í eina rútu, þ.e. fótboltaferð, verslunarferð og síðan annað hvort dýragarðsferð eða sædýrasafnsferð.

Þegar komið er til Barcelona er fyrst farið á Camp Nou leikvanginn, stærsta leikvang í Evrópu. Þar eru farþegar skyldir eftir sem hafa keypt inngang inn á völlinn. Þá er farið á Katalóníutorgið (Plaza Catalunya). Þar fara þeir úr sem ætla að fara að versla og fara í dýragarðinn eða sædýrasanfið.

Sædýrasafnið er staðsett við Port Vell – gömlu höfnina og þurfa farþegar sjálfir að koma sér þangað. Hægt er að taka leigubíl frá Katalóníutorgi eða ganga niður alla Römbluna og yfir göngubrúna sem liggur yfir á Port Vell svæðið, trúlega um hálftíma gangur.

Á hafnarsvæðinu stutt frá sædýrasafninu er verslunarmiðstöðin Mare Magnum, með fjöldan allan af veitingastöðum og verslunum.

Sædýrasafnið í Barcelona er sagt annað stærsta safn í Evrópu og það eina sem leggur áherslu á lífríki Miðjarðarhafsins. Þar eru tuttugu gríðarstórir tankar og er hver og einn tileinkaður sérstöku svæði hafsins með ágætum upplýsingum.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Verslaðu í Barcelona

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Lagt af stað frá Salou um kl.08:45 og haldið til Barcelona. Byrjað á því að stoppa við fótboltavöllinn Camp Nou, ef einhverjir eru með í för sem hafa keypt “fótbolta og frjálsan tíma”, þeir eru þá skildir þar eftir og síðan haldið niður á Plaza Catalunya-torgið. Farþegar eru sóttir aftur á sama stað á fyrirfram ákveðnum tíma. Yfirleitt er það á milli kl.16-17, en fararstjóri mun segja betur frá því í ferðinni.

Við Katalóníutorgið er t.d. stóra verslunarmiðstöðin El Corté Inglés og fleiri smáverslanir. Þá er hægt að ganga upp götuna Passeig de Gracia þar sem eru margar verslanir t.d. H&M. Frá Katalóníutorginu er einnig stutt að ganga niður á Römbluna og skoða mannlífið.

Við enda Römblunnar sjávarmegin er minnismerki um Kristófer Kólumbus og ef farið er yfir göngubrú við Port Vell, gömlu höfnina þar stutt frá, er komið að verslunarmiðstöðinni Mare Magnum, þar eru einnig veitingastaðir.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Montserratklaustrið

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Lagt af stað frá Salou um kl. 09:00 í dagsferð til Montserrat klaustursins, sem er af Benetiktusar-reglunni og stendur á fögrum stað í 725 m hæð. Klaustrið er trúarleg miðstöð Katalóníu og í basilíkunni er aðaldýrlingur Katalóníumanna “La Moreneta” - Svarta Jómfrúin.

Montserrat er talinn vera einn af fallegri stöðum landsins, en þaðan er einnig ægifagurt útsýni yfir Katalóníuhéraðið. Á svæðinu eru áhugaverð söfn, minjagripaverslanir og veitingastaðir.

Drengjakór Montserrat “Escolania” samanstendur af um 50 drengjum á aldrinum 10-14 ára og er einn elsti starfandi kór sinnar tegundar í Evrópu. Hægt er að heyra drengina syngja um hádegisbil í basilikunni flesta daga nema laugardaga, en þeir eru í fríi í júlí og fyrri hluta ágúst.

Eftir heimsókn í Montserrat klaustrið er keyrt til strandar og farið í fiskimannaþorpið San Roc Gaietá. Þetta er ekta spænskt þorp við ströndina, þar sem sjá má t.d. mismundandi byggingarstíl; gotneskan, rómanskan og svokallaðan modernista stíl. Frjáls tími til að skoða sig um og fá sér hressingu.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Peñíscola & Tortosa

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Farið frá Salou um kl. 09:00 og ekið í suðvestur með ströndinni í átt að Valencia. Stoppað er í Peñíscola, sem er lítið þorp við ströndina með þröngum götum og borgarmúrum frá miðöldum. Hægt að skoða kastala Papa Luna eða eiga frjálsan tíma (valkvætt). Benedicto páfi XIII (Papa Luna) dvaldi í kastalanum í 6 ár, þegar honum hafði verið vikið úr páfastóli á 15. öld, eftir klofningu kirkjunnar. Kastalinn var upphaflega byggður á 13. öld.

Þá er einnig farið til bæjarins Tortosa, sem stendur við Ebro ána. Fallegur gamall miðbær, dómkirkja sem hægt er að skoða en aðgangseyrir er ekki innifalinn í verði ferðarinnar. Þá er einnig fallegur kastali frá 10. öld -“Parador”, sem í dag er hótel en þaðan er mjög fallegt útsýni. Í júlímánuði er haldin mikil Renaissance hátíð, en þá er bærinn færður aftur til 16. aldar.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Jeppasafarí

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Dagsferð

Stórskemmtileg ferð fyrir alla aldurshópa en í þessari ferð er einsök náttúra Katalóníu í fyrirrúmi.

Ferðast er í lest af jeppum, keyrt í gegnum lítil þorp og stoppað víða á leiðinni, áður en haldið er til fjalla.

Stoppað á útsýnisstað þar sem er mjög fallegt útsýni yfir Costa Dorada - Gullnu ströndina.

Í ferðinni er boðið upp á ódýran málsverð að hefðbundnum hætti heimamanna (ekki innifalinn í verði). Þá gefst farþegum kostur á því að fá sér sundsprett í vatninu Siruana og skola af sér ferðarykið. Komið til baka um kl. 17:30.


Munið að taka með ykkur höfuðfat, vatn, sundföt,
handklæði og sólarvörn.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Catamaran sigling

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Partdagsferð

Þessi ferð býður uppá 3 klst. siglingu á Catamaran báti sem er s.k. tvíbyttna.

Siglt er frá Cambrils og í um klukkustund norður með Costa Dorada strandlengjunni.

Stoppað er nokkra stund á leiðinni og hægt að fá sér hressandi sundsprett, snorkla og skemmta sér.

Um borð er opinn bar og ágæt sólbaðsaðstaða. Á leiðinni norður með ströndinni er gaman að skoða Salou frá sjónum.

Unnt er að kaupa 2 tegundir af miðum í þessa ferð; með drykkjum inniföldum eða drykkjum og snarli.

Munið að taka með ykkur sólarvörn, sundföt og handklæði.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Hjólaferð

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Hálfsdagsferð

Farþegar sóttir á fyrirfram ákveðna staði (á hótel eða nálægt gististað). Í morgunferð eru farþegar sóttir um kl.08:45, í eftirmiðdagsferð um kl.13:45.

Hálfdagsferðir eru farnar alla daga nema fimmtudaga og sunnudaga. Á fimmtudögum er hægt að fara í heilsdagsferð, sem inniheldur fjögurra rétta barbeque hádegisverð, ólífuolíu smökkun, vín- og líkjörasmökkun. Ekki fyrir börn yngri en 10 ára.

Þessar hjólaferðir hafa verið nr.1 á Tripadvisor síðan 2010. Upplagt tækifæri fyrir þá sem vilja gera eitthvað öðruvísi. Fararstjórar með í ferðum sem upplýsa fólk um sögu Katalóníu og menningu þeirra staða og þorpa sem hjólað er í gegnum.

Eftir að farþegar hafa verið sóttir á hótel er um 25 mín sem fara í að velja hjól, koma þeim á kerru og fara yfir öryggisreglur.

Þá er keyrt um 25 mínútur frá Salou, í átt til fjalla, í Mont Sant þjóðgarðinn. Hjólað er á malbikuðum stígum og fáförnum vegum. Hægt er fá barnastóla á hjólin fyrir 4 ára og yngri (frítt fyrir þau). Fyrir börn sem ekki eru örugg að hjóla er hægt að fá “Trail-A-Bike” – þá er barnahjól tengt aftan við hjól einhvers fullorðins. Farin er auðveld leið um 25 km í hálfsdagsferð með hvíld á milli, í heilsdagsferð samtals um 48 km. Frítt vatn er í ferðunum, en hægt að kaupa snakk.

Ferðir fyrir alla, unga, gamla, í góðu formi eða ekki, börn og foreldra. Kaldara loftslag fjær ströndinni.

Búnaður þátttakenda: þægileg föt, íþróttaskór, sólgleraugu, sólarvörn, peningar fyrir minjagripum og hressingu.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Fjórhjólasafarí

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Partdagsferð

Unnt er að velja á milli ferða sem standa yfir í 3 klst. eða 5 klst. Ferðirnar eru í boði alla daga vikunnar, lagt af stað frá Salou kl.10:00 að morgni.

Safarí í 3 klst.
Keyrt er um nágrenni bæjarins Mont Roig.
Hægt að vera 1 eða 2 á hverju fjórhjóli.

Safarí í 5 klst.
Farið er til lítilla þorpa, klaustur Maríu Guðsmóður heimsótt, San Ramón frá 12.öld og kastala Escornalbou.
Hægt að vera 1 eða 2 á hverju fjórhjóli.

Þess er krafist að ökumaður hafi bílpróf og er hann beðin um að hafa með sér ökuskírteini.

Nauðsynlegur búnaður: þægilegir skór, sólgleraugu,sólarvörn, vatn.

Fjórhjólin eru af gerðinni Polaris 350cc, 400cc. Fyrirtækið sér fólki fyrir hjálmum. Leyfilegt er að hafa barn með á hjólinu en ekki yngri en 7 ára.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Go-Kart

Ferð án fararstjórn
Partdagsferð

Rétt fyrir ofan Salou, við Autovia Salou-Reus er Go Kart braut, 2.1 km frá Salou. Þar er hægt að leigja sér Go Kart bíla af mismunandi stærðum og gerðum. Brautin er 800 metra löng fyrir fullorðna eða frá 14 ára aldri.

Fyrir yngri kynslóðina 4-13 ára er 300 metra löng braut.

Einnig er boðið upp á teygjustökk “Bungee Jumping”. Svo er kúlan alltaf vinsæl, sem er kölluð “Bungee Rocket”, en þá er kúlunni skotið upp í loftið!

Athugið að þeir sem eru 14-18 ára gætu þurft að sýna skilríki til að sanna aldur sinn.

Hægt að kaupa miða hjá fararstjóra og þá er einnig ókeypis rútuferð þangað.
Einnig gengur þangað strætó sem merktur er GO KART eða KARTING SALOU. Hann stoppar víða, t.d. við strandgötuna og við Evróputorgið.

Þeir vilja fara fótgangandi ættu að hafa í huga að leiðin liggur eftir hraðbraut sem liggur inn í Salou og þar eru ekki gangbrautir.

Opið frá kl.10:00.

Töfrabragðasýning

Ferð án fararstjórn
Kvöldferð

Frábært töfrabragðasýning í House of Illusion þar sem maður fær að sjá og upplifa útskýranleg töfrabrögð, hugsanalestur, spilagaldra og hið ómögulega er gert mögulegt.

Fararstjóri Heimsferða selur miða inn á sýninguna og pantar fyrir ykkur. Betra er að kaupa miða senmma, þar sem oft er uppselt.

Tvær sýningar eru á kvöldi: kl.18.30-21.30 & kl.22.00-00.30.

Fyrri sýningin er með léttum kvöldverði nema á föstudögum, þá eru báðar sýningar með kvöldverði: kjúklingur, salat, franskar og eftirrétt ásamt léttvíni og bjór. Athugið að drykkir eru aðeins innifaldir á meðan á sýningu stendur. Á borðum er flaska af rauðvíni og hvítvíni og kanna af bjór. Ef fólk vill meira eða eitthvað annað þarf að greiða fyrir það.

Seinni sýning er er án kvöldverðar en drykkir eru innifaldir, léttvín og bjór. Athugið að drykkir eru aðeins innifaldir á meðan á sýningu stendur. Á borðum er flaska af rauðvíni og hvítvíni og kanna af bjór. Ef fólk vill meira eða eitthvað annað þarf að greiða fyrir það.

Staðsett í Salou við götuna Calle Penedes 12, á móti hótelinu Playa Margarita, farþegar þurfa að koma sér sjálfir þangað.

Vinsamlegast verið komin á staðinn hálftíma fyrir sýningu.

Ævintýri í skóginum

Ferð án fararstjórn
Partdagsferð

Fjölskyldugarðurinn Bosc Aventura er í hjarta Salou við Barbastre stræti nr. 15. Hann nær yfir skógivaxið svæði, sem er um 8000 m2 að stærð.

Þar eru línur strengdar milli trjáa og hægt að njóta þar um 55 leikja fyrir alla aldurshópa. “Aparólur”, “Litbolti” og margt margt fleira.

Fjögur mismunandi erfiðleikastig, sem merkt eru með litum, einnig klifurveggur. Fyrir börn frá 3ja ára aldri er að sjálfsögðu auðveldasta stigið, 7 ára og eldri geta farið á línu sem er í allt að 3 m hæð, fyrir eldri börn og fullorðna eru línur í um 10m hæð. Notaður er búnaður svipaður þeim sem notaður er í fjallaklifi, öryggi í fyrirrúmi.

Litbolti (paintball) er leikur sem upprunnin er í Bandaríkjunum milli 1970 og ´80 meðal þeirra sem voru að merkja tré og nautgripi. Þeir fengu þá frábæru hugmynd að hægt væri einnig að nota þetta til skemmtunar og þar með var fyrsta svæðið opnað. Leikurinn barst til Katalóníu um 1995. Í Bosc Aventura eru notaðar loftbyssur af gerðinni CO2, en þær eru kallaðar “merkibyssur”. Þátttakendur fá ýmsan hlífðarbúnað eins og grímur, vesti og hálshlíf. Leiknum lýkur þegar allar kúlurnar eru búnar.

Opnunartími:
Júní kl.11-14 og 17-21
Júlí/Ágúst kl.11-14 og 17-23
September kl.11-14 og 17-21

Einn drykkur innifalinn fyrir hvern, ef keypt er hjá fararstjóra.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 10