Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Alcudia & Can Picafort

Alcudia og Can Picafort eru um 50 km norðaustur af Palma. Hótelin standa nær öll á strandlengjunni við Alcudia-flóann en elsti bæjarhlutinn, gamli bærinn, er í um 3 km fjarlægð frá ströndinni. Markaðir eru haldnir tvisvar í viku og þar kennir ýmissa grasa, allt frá matvöru til minjagripa.

Á dvalarsvæðunum Alcudia, Can Picafort og í nágrenni er að finna eitthvað við allra hæfi, úrval verslana, veitingastaða, bara og næturklúbba. Í næsta nágrenni við bæinn er vatnsrennibrautagarðurinn Hidropark þar sem einnig eru minigolfvellir og veitingastaðir og tilvalið fyrir fjölskyldur að eyða þar heilum degi. Fyrir fjörkálfana eru hér „go-kart“ brautir og fjölbreytt vatnasport. Náttúrufegurðin þykir líka einstök í Alcudia og ströndin ein sú fallegasta á eyjunni með hvítum sandi eins langt og augað eygir. Sjórinn er talinn þarna tærastur við Mallorca.


Höfnin og svæðið þar í kring þykir mjög líflegt og ekki er úr vegi að eyða tíma þar, sérstaklega seinni partinn eftir „siestuna“ en þá er mannlífið fjörugt. Í Alcudia er að sjálfsögðu „Laugavegur“ eins og Íslendingar þekkja frá öðrum ferðamannastöðum og er hann kallaður „Dollar Street“ af innfæddum. Á kvöldin lýsist strætið upp af neonljósum þeirra fjölmörgu veitingastaða og diskóteka sem þar er að finna og fyrir þá sem vilja vaka lengur er næturlífið einstaklega líflegt. Fyrir þá sem vilja skoða umhverfið betur eru afar góðar samgöngur til og frá Alcudia. Þaðan ganga rútur til allra átta en við bendum einnig á þann kost að leigja bílaleigubíl og aka um eyjuna. Starfsfólk Heimsferða eða fararstjórar á svæðinu geta séð um pöntun á bílaleigubílum. Alcudia-ströndin á norðurhluta Mallorca er einn vinsælasti fjölskyldustaðurinn á eynni enda bjóða Heimsferðir þar glæsilegan aðbúnað. Strendurnar í Alcudia eru frábærar, aðbúnaður fyrir ferðamenn til fyrirmyndar og nóg við að vera í fríinu.

Kort

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti