Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Madeira

Frábær ferð til hinnar fallegu blómaeyju!

22. september 2020 í 8 nætur

Madeira er stundum nefnd „skrúðgarðurinn í Atlantshafinu“ enda með fádæmum gróðursæl og býr yfir einstökum náttúrutöfrum. Eyjan sem tilheyrir Portúgal er rúmlega 800 ferkílómetrar að stærð og liggur í Atlantshafinu u.þ.b. 600 km vestur af ströndum Afríku. Hér ríkir afar þægilegt loftslag allan ársins hring. Meðalhitinn í september er um 18°C. Innan um tilkomumikil fjöll, vínekrur, ávaxtagarða og fagran hitabeltisgróðurinn hafa eyjarskeggjar skapað hina fullkomnu aðstöðu ferðamannsins. Funchal er höfuðborg eyjunnar með um 70.000 íbúa.

 

Það sem einkennir borgina öðru fremur eru stórir og fallegir skrúðgarðar með aragrúa fagurra blómategunda sem fátítt er að sjá annars staðar. En borgin hefur fleira að bjóða eins og þröngar krókóttar götur, vinaleg veitinga- og kaffihús og við höfnina vagga sér skip af öllum stærðum og gerðum frá öllum heimshornum.

Þegar út fyrir borgina er komið taka við litlir „syfjulegir“ bæir og vinaleg sjávarþorp sem gaman er að heimsækja. Íbúar eyjunnar eru heimsþekktir fyirr vínframleiðslu sína en blómarækt, dúkasaumur og körfugerð leikur einnig í höndum þeirra.

Í boði eru góð hótel sem staðsett eru skammt fyrir utan höfuðborgina Funchal á suðurströnd eyjunnar.

Fararstjórar: Ása María Valdimarsdóttir & Valgerður Hauksdóttir

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Garðarnir

Nafnið Madeira þýðir viður og eyjunni oft líkt við fljótandi blómagarð. Hún rís eins og klettur upp úr hafi, er hálend en aðeins 741 km2 að stærð. Lega landsins, hið fjölbreytta landslag og veðurfar skapa kjöraðstæður fyrir margbreytilegan gróður og ræktun á eyjunni. Á eyjunni eru margir fallegir garðar, en hér nefnum við nokkra. 

Grasagarðurinn í Madeira
Einn af fallegustu görðunum á svæðinu. Garðurinn er um 80. 000 m² og hýsir meðal annars náttúruminjasafn.

Kláfurinn – grasagarðurinn í Madeira
Kláfurinn fer yfir grasagarðinn í Madeira, en þaðan er stórfenglegt útsýni yfir garðinn, stórbrotna náttúru og Funchal.

Monte Palace Tropical Garden
Í þessum garði er m.a. að finna, læknandi plöntur, jurtabeð, kaktusa, lyngi frá Skotlandi og japanskan garð með tjörn.

Palheiro Gardens
Garðurinn er í um 500 m hæð yfir Atlantshafinu og er sönnun þess að nánast hvaða planta sem er blómstrar í jarðvegi Madeira.

Göngur

Mikið er af fallegum gönguleiðum á Madeira, en hér er urmull af þægilegum stígum umvöfðum litríkum gróðri og blómaangan.

Parque Forestal de Queimadas
Laurbærskógur. Mikill raki gefur skóglendinu létta hulu af þoku og hjúpar jörðina með mosa. Hér eru margar skemmtilegar gögnuleiðir í einstöku umhverfi.

Cabo Girão
Frábær útsýnisstaður er af þessum 580 metra kletti, en þar er útsýnispallurinn með glergólfi svo auðvelt er að horfa niður hlíðina.

Ponta de São Lourenço
Áhugaljósmyndarinn ætti ekki að láta þessa gönguleið fram hjá sér fara, Ponta de São Lourenço er friðland með fallegri klettamyndum sveipuðum rauðum blæ og mögnuðu útsýni yfir Atlantshafið  

Verslun

Flestar verslanir eru opnar frá 09:30 - 13:00 og 15:30 - 19:30 virka daga. Margar verslanir í miðborginni loka ekki yfir miðjan daginn og hafa líka opið á mánudögum. Stórverslanir hafa rýmri opnunartíma.

Í borginni er úrval sérverslana, minjagripaverslana og litskrúðugra markaða – með afar fjölbreyttan varning.

Þar eru einning verslunarmiðstöðvar með þekktum vörumerkjum, veitingastöðum og jafnvel kvikmyndahúsum. Helstu verslunarmiðstöðvarnar eru Madeira Shopping, Forum Madeira og sú nýjasta, Dolce Vita.

Tax-Free
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför. Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.

Kynnisferðir

Heimsferðir bjóða upp á kynnisferðir í Madeira í vor og farþegar okkar eru hvattir til þess að kynna sér hvað er í boði. Kynnisferðir eru bókaðar í bókunarferlinu eða hjá ferðaráðgjafa Heimsferða og eru farþegar hvattir til að bóka kynnisferðirnar fyrir 5. apríl 2020. Einnig er hægt að bóka hjá fararstjóra þegar út er komið ef enn er laust í ferðirnar. 

Vinsamlegast athugið að kynnisferðir með íslenskum fararstjóra eru háðar því að a.m.k. 20 manns bóki sig. Fararstjórar Heimsferða geta aðstoðað farþega við að bóka í ferðir með enskumælandi fararstjórum ef ekki næst næg þátttaka í ferð með íslenskum fararstjóra.

Ath. Ekki er hægt að greiða með kreditkortum ef bókað er hjá fararstjóra þegar út er komið og greiða þarf allar kynnisferðir í Evrum. Ferðirnar eru 10% dýrari ef þær eru bókaðar úti hjá fararstjóra. 
Ath. Farþegar fá upplýsingar um hvar þeir verða sóttir fyrir kynnisferðirnar úti hjá fararstjórum.

Kynnisferð um Funchal - 17. apríl

Hálfsdagsferð

Eftir morgunverð er haldið af stað í hálfsdags kynnisferð um Funchal. Í upphafi ferðar er farið í sérstaka útsaumsverksmiðju og fylgst með störfum og handbragði starfsmanna. Því næst er ferðinni heitið á líflegan og ekki síður litríka markað heimamanna en þar má sjá ótrúlegt úrval blóma, ávaxta, og grænmetis í öllum regnbogans litum. Þá verður ekið upp í fjöllin til smábæjarins Monte, þar skoðum við kirkju staðarins en þaðan er ótrúlegt útsýni yfir borgina. Í lok ferðar gefst farþegum tækifæri á að renna sér niður brekku í tágsleða – ekki á hverjum degi sem slíkt tækifæri býðst. Síðan er stutt stop í Jardim Botânico (Grasagarðinum á Madeira).
Athugið: sleðaferðin er ekki innifalin í verði / EUR 16.- á mann.
Að lokum er komið við í  vínkjallara þar farþegum gefst kostur á að bragða hinar ýmsu útgáfur af hinu fræga Madeira víni. Síðan er ekið aftur til baka á hótelin en einnig er möguleiki á að verða eftir í miðbænum og skoða sig um á eigin vegum. Leigubílar eru á hverju strái í miðbænum svo það er auðvelt að koma sér til baka á hótelið.

Innifalið: akstur, vínsmökkun og fararstjórn

Mögnuð fegurð Madeira - 18. apríl

Dagsferð

Við förum í dagsferð um austurhluta eyjunnar sem þrátt fyrir smæð sína býður upp á mjög fjölskrúðugt landslag. Við ökum í gegnum lítil  þorp og sjáum hvernig eyjaskeggjar rækta grænmeti sitt og ávexti. Leiðin liggur frá suðri til norðurs að hæstu hæð eyjunnar Pico do Arieiro sem er 1818 metra yfir sjávarmál. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir eyjuna. Þá er ekið að Ribeiro Frio sem er eiginlega eins og garður með sýnishorni af gróðri eyjunnar og einnig gefst þar einstakt tækifæri á að sjá og njóta útsýnisins yfir dali og fjöll. Næst er ekið að þorpinu Santana á norður hluta eyjunnar sem er þekkt fyrir hin sérstæðu hús sín með stráþakinu. Þar verður stoppað um stund. Hádegisverður borinn fram og farþegum gefinn frjáls tími að skoða sig betur um á staðnum. Á leiðinni til baka er ekið að útsýnisstað á austurhluta eyjunnar og stoppað þar um stund.    

Innifalið: akstur, hádegisverður og fararstjórn

Fjallstoppar, dalir og þorp - 19. apríl

Hálfsdagsferð

Hálfsdagsferð þar sem haldið verður áfram að skoða þessa fögru eyju. Í þessari ferð heimsækjum við þrjá áfangastaði.  Fyrst er ekið að útsýnishæðinni Pico Dos Barcelos þar sem við stoppum og njótum útsýnisins yfir Funchal borgina. Eira do Serrado er í um 1100 metra yfir sjávarmál og þaðan má sjá Curral das Freiras – Nunnudalinn -  og lítið þorp sem byggt er í gömlum eldgíg. Í lok ferðar er komið við í fallegu litlu sjávarþorpi Camara de Lobos og dvalið þar um stund. Camara de Lobos var ávallt mikill uppáhaldsstaður Sir. Winston Churchil sem dvaldi þar oft og málaði myndir af staðnum.

Innifalið: akstur og fararstjórn

Skrúðgarðar á Madeira - 20. apríl

Dagsferð með hádegisverði

Quinta do Palheiro garðurinn og Jardim Tropical Monte Palace garðurinn

Ath. Báðir garðarnir sem við heimsækjum í þessari ferð eru í efri hæðum Funchal upp í 500 m hæð og í halla að hluta. Hér getur verið kaldara og jafnvel rignt þó sólin skíni niðri í miðbæ Funchal. Rétt er að hafa þetta í huga bæði hvað varðar fatnað og skóbúnað. ATH. Þessi ferð er ekki fyrir þá sem eiga erfitt með gang.

Við byrjum á að aka að Quinta do Palheiro garðinum, sem talinn er með fallegustu skrúðgörðum Madeira, bæði vegna staðsetningar og vegna þeirra plantna sem hér vaxa í 500 m hæð. Eins og svo margir garðar á eyjunni var hann í upphafi skipulagður eftir hefð enskra garða í kringum villu (quintu) heldrafólks. Upphaflegi eigandinn, Conde de Carvalhal, lagði grunninn að safni Kamellíu skrautrunna sem hér er að finna ásamt fjölda annarra plöntutegunda. Eftir hádegisverð í grennd við Palheiro garðinn förum við að hverfinu Monte  sem einnig er í efri hlíðum Funchal. Hér er hin fræga kirkja Igreja de Nossa Senhora do Monte, og garðurinn Jardim Tropical Monte Palace. Hann var upprunalega stofnaður af Jesúítum á 18. öld en skipulagður í núverandi mynd af Berardo-stofnuninni og gerður opinber 1987. Garðurinn er listilega hannaður þar sem sjá má sögu Madeira sagða í myndmáli á hefðbundnum keramikflísum innanum gróðurinn, sem skipulagður er í ólík svæði eftir tegundum.  Hér er m.a. sérstakur japanskur hluti og svæði tileinkað upprunalegum plöntum eyjunnar. Eftir að hafa notið þess að fara í gegnum garðana og fræðast um hinar ólíku tegundir plantna göngum við til baka og skoðum kirkjuna í Monte þaðan sem einnig er gott útsýni yfir borgina. Á sama stað eru tágasleðar (tobbogan) (ekki ætlaðir fyrir snjó heldur götusleðar), sem á árum áður voru nýttir til að ferja heldra fólk frá hæstu hæðum að miðbænum í Funchal. Ef aðstæður leyfa gefst tækifæri til að renna sér niður stuttan spöl.

Ath. Sleðaferðin er ekki innifalin í verði.

Kvöldferð með þjóðlegu ívafi - 20. apríl

Partdagsferð

Við förum í kvöldferð á skemmtilegan stað þar sem farþegar sjá þjóðdansa og söngvasýninu innfæddra á meðan snæddur er kvöldverður með þjóðarréttum eyjarskeggja. Grillað nautakjöt ásamt meðlæti. Góð kvöldstund sem enginn vill missa af.  

Innifalið: akstur, kvöldverður og fararstjórn

Porto Moniz með tindaívafi - 21. apríl

Heilsdagsferð

Við ökum í norðvestur um einn fallegasta hluta Madeira um gróðursæl fjöll og dali með suðrænum gróðri og litlum þorpum sem kúra í fjallshliðunum. Í upphafi ferðar er ekið að Pico da Torre sem er annar hæsti tindur Madeira. Þaðan er ótrúlegt útsýni meðal annars til sjávarþorpsins Camara de Lobos á suðurströndinni sem var mikill eftirlætisstaður Sir Winston Churchill. Áfram er haldið og nú að Cabo Giarao sem er hæsti sjávarklettur í heimi. Fyrir utan það stórbrotna útsýni sem þaðan er fá farþegar tækifæri að standa á sérstökum glersvölum (svipuðum þeim sem eru í Grand Canyon í Bandaríkjunum – í smækkaðri mynd !) sem er alveg mögnuð upplifun – sér í lagi í heiðskíru veðri! Þaðan er ekið til þorpsins Ribeira Brava á suðvestur ströndinni þar er stoppað um stund og ferðinni síðan haldið áfram til Porto Moinz á norðvestur tanga eyjunnar. Sérstaða þessa litla bæjar er staðsetning hans og hinar náttúrulegu sundlaugar sem myndast hafa í klettunum í sjávarmálinu. Hádegisverður og frjáls tími til að skoða sig um áður en haldið er til baka til suðurstrandarinnar.

Innifalið: akstur, hádegisverður og fararstjórn

Skemmtiganga, Levada do Moinho - 22. apríl

Hálfsdagsferð

Eftir morgunverð er ekið til Lombada.Gangan hefst við kirkjuna  í Lombada. Í upphafi göngunnar er gengið fram hjá fjölbreyttu ræktunarsvæðum sem gefur göngunni skemmtilegt sjónarhorn. í kyrrðinni innan um fallegan  suðrænan gróðurinn með tilheyrandi litadýrð. Þægileg ganga sem þar  sem hægt er að njóta fallegrar náttúru þaðan er frábært útsýni yfir dalinn og fallega þorpið Ponta do Sol Í lok göngunnar er hópnum ekið aftur til Funchal. 

Innifalið: akstur og fararstjórn  

Kort

Click to view the location of the hotel