Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti
  • Heimsferðir bjóða nú í fyrsta sinn sólarferðir til strandbæjanna Loutraki & Isthmia á meginlandi Grikklands

Loutraki

Heimsferðir bjóða nú í fyrsta sinn sólarferðir til strandbæjanna Loutraki & Isthmia á meginlandi Grikklands. Loutraki er gamall og fallegur strandbær við Corinth-flóa en skammt frá kúrir Isthmia strandbærinn við Saronic-flóa. Á milli flóanna sem bæirnir standa við liggur Corinth-skurðurinn en um 15 mínútna akstur er á milli bæjanna, sem eru á Suður-Grikklandi. Hér er að finna ekta gríska stemmningu en strendurnar í Grikklandi eru alveg einstaklega fallegar og góðar.

Sjórinn er einstaklega tær og blár á þessum slóðum en hér er töfrandi andrúmsloft og óvenjulegt landslag, sérstök náttúrufegurð og eitt besta loftslag í heiminum. Landið er heittemprað en meðalhitinn í maí og september er um 20°C sem er notalegt hitastig og hentar bæði til sólbaða og fyrir þá sem vilja verja tímanum til að skoða sig um.

Í Loutraki er að finna ekta grískt andrúmsloft en hér eru veitingastaðir á vogskornum klöppum meðfram strandlengjunni sem töfra fram Miðjarðarhafsrétti af sinni alkunnu snilld. Við ströndina eru ótal sjávarréttastaðir og úrval annarra grískra staða en Grikkir leggja mikið upp úr hollu fæði, góðum kryddum og olíum í matargerðinni. Þá er einnig að finna við strandlengjuna kaffihús, bari og lifandi tónlist má heyra óma. Þar má einnig sjá fjölda fiskveiðibáta sem halda út á haf til fiskveiða á hverjum degi.

Grikkir eru þekktir fyrir að töfra fram það besta úr hráefni sínu og sameina þeir grískan og Miðjarðarhafsmatarmenningu af sinni alkunnu snilld. Grikkir leggja mikið upp úr að hafa allt gert frá grunni og oftar en ekki eru mömmurnar eða ömmurnar að hjálpa til við eldamennskuna á veitingastöðum, þar sem veitingastaðirnir eru yfirleitt fjölskyldufyrirtæki. Þar af leiðandi verður maturinn alveg einstakur. Einnig eiga eigendur veitingastaðanna oft lönd og rækta eins mikið sjálfir og þeir geta. Þannig að oft er grænmetið, kryddið, olían og vínin komið frá þeirra eigin jörð en það eiga nánast allir ólífutré, til að sjá sér og sínum fyrir olíu allt árið.

Við Loutraki strandbæinn er að finna bæði steinvölustrendur og sandstrendur með sólbaðsaðstöðu. Fyrir neðan Loutraki bæinn er steinvöluströnd en ströndin þar er talsvert aðdjúp. Á Oasis svæðinu skammt frá Loutraki bænum er sandströnd sem er aðgrunn og öldurnar koma hægt að ströndu en þar eru Wyndham og Ramada hótelin staðsett. Þá er steinvöluströnd á Vrachati svæðinu hinum megin þar sem Alkyon hótelið er staðsett. Ýmis konar afþreying er við ströndina, t.d. fjölbreytt vatnasport en einnig er fjallaklifur, fjallahjólreiðar og svifdrekaflug vinsælt á þessum slóðum. Þess má geta að fyrsta spilavítið í Grikklandi var opnað í Loutraki árið 1928 en stærsta spilavítið í Evrópu opnaði í Loutraki árið 1995.

Loutraki er forngrískt borgríki en bærinn hét áður Thermae vegna fjölda vatnslinda sem þar er að finna en Loutraki nafnið vísar einnig til lindanna. Í bænum eru heilsulindir og baðhús en vatnsuppsprettan á þessum slóðum er ein af ástæðunum fyrir búsetu Grikkja þar. Vatnið í lindunum er frábrugðið venjulegu vatni en það hefur hátt hitastig og í því eru sjaldgæf efni sem Grikkir nota í náttúrulegu lækningarskyni í heilsulindum sínum og baðhúsum. Mikið er lagt upp úr slökun, vellíðan og endurnæringu á líkama og sál en hér er t.d. að finna "Thalassotherapy" líkamsmeðferð sem er blanda af slökun, endurnýjun, afþreyingu og heilun.

Skammt frá Loutraki kúrir Isthmia strandbærinn en þetta er lágreistur og fallegur grískur smábær. Við strandlengjuna er steinvöluströnd sem teygir sig vogskorin að Kavos svæðinu en þar er King Saron hótelið skammt fyrir utan bæinn. Í Isthmia strandbænum er að finna fjölda grískra minnisvarða og því er tilvalið að virða fyrir sé forngripi frá fyrri tíð. Þetta er afar lítill og rólegur bær en dvölin hér er tilvalin fyrir þá sem vilja vera út af fyrir sig í ró og næði. Þá er stutt að fara til nágranna bæjanna Corinth og Loutraki.

Í Loutraki og nágrenni Isthmia er margt að sjá en hér eru fornminjar hvert sem litið er, enda hér yfir 100 merkir fornleifastaðir. Þá eru hér einnig margir helgir staðir, kirkjur, minnisvarðar ásamt fjölbreyttri og skemmtilegri menningu. Hér eru siglingar vinsælar en það er einstaklega dásamlegt að sigla á spegilsléttum túrkísbláum sjónum.

Þá er höfuðborgin Aþena í um 80 km fjarlægð en borgin rís 150 metra yfir sjávarmáli. Akrópólis í Aþenu er þekktasta gríska háborgin en hér áður voru grískar borgir byggðar í hlíðum og voru því kallaðar háborgir en skynsamlegt þótti, út frá hernaðarlegu sjónarmiði, að byggja þær hátt uppi. Einnig voru byggingar sem gegndu trúarlegu hlutverki líka staðsettar í hlíðum en það var vegna þess að Grikkir trúðu því að þá væru þeir nær grísku guðunum. Það er tilvalið að fara í dagsferð til höfuðborgarinnar en Aþena er afar lifandi borg og ein stærsta borg Evrópu og þar er margt að sjá, s.s. aldargamlar byggingar eins og Meyjarhofið, sem er þekktasta hofið, Níkuhofið og Erekþeion, styttur og fjölbreytt hverfi.

Það er töfrandi andrúmsloft í Loutraki & Isthmia og einstök grísk stemmning! Grikkland er landið sem er með goðsögn, hefðir, sögu og lifandi menningu. Hér sækja ferðamenn í töfrandi umhverfi sem býr yfir óviðjafnanlegri náttúrufegurð, áhugaverðum stöðum, á sögulegum og mögnuðum slóðum.

Kort

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7