Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Króatía

Króatía er einn eftirsóttasti áfangastaður ferðamanna í Evrópu, enda er landið stórkostleg náttúruperla sem státar af fegurstu ströndum og tærasta sjó Evrópu, heillandi menningu og glæsilegum gististöðum. Heimsferðir bjóða beint flug í allt sumar til þessa einstaka áfangastaðar sem heillar alla sem þangað koma. Þar er að finna gott úrval gististaða með frábærum aðbúnaði, glæsilegri umgjörð og góðri þjónustu. Menning Króatíu er heillandi blanda, sem Grikkir, Rómverjar, Slavar, Frakkar, Ítalir og Austurríkismenn hafa sett mark sitt á. Strandlengja Adríahafsins er sú fegursta í Evrópu með vogskornum ströndum, eyjum og skerjum þar sem aldagamlir bæir skaga út í hafið. Mannlífið í Króatíu er engu líkt og þeir sem þangað koma eru sammála um að þar sé að finna Evrópu eins og hún var og hét.

Sólaráfangastaðurinn Porec er á Istria skaganum en Istria skaginn er nyrsti hluti Króatíu og þar eru margir þekktustu sumardvalarstaðirnir, svo sem Porec, Umag og Rovinj. Aðaláfangastaður Heimsferða í Króatíu er Porec á Istria skaganum ásamt Umag þar sem er að finna glæsilega gististaði með frábærri aðstöðu en gististaðirnir standa gjarnan aðeins fyrir utan bæina.

Porec 
Bærinn í Porec er stórkostlega fallegur og geymir aldagamla sögu á hverju götuhorni, frábæra veitingastaði og iðandi mannlíf jafnt að nóttu sem degi. Það er yndislegt að ganga um bæinn og snæða á góðum veitingastað við sjávarsíðuna. Staðsetningin er frábær, á miðjum skaganum, og því stutt að fara, hvort sem er í kynnisferð til Pula, Rovinj eða í siglingu til Feneyja.

Í Porec eru einnig toppaðstæður fyrir þá sem vilja hafa nóg að gera í fríinu og aðstæður til hverskonar íþróttaiðkunar á mörgum gistivalkostunum eru frábærar. Allir gistivalkostir okkar eru t.d. með hjólreiðageymslu og/eða hjólaleigu og þá er nær alltaf unnt að iðka tennis.

Umag
Strandlengjan við Umag er um 20 km löng en Umag er mjög vinsæll sólarstaður og gamli bærinn afar aðlaðandi með sínum þröngu götum. Mest þekktu strendurnar í Umag eru Katoro, Aurora, Kanegra og Laguna Stella Maris en Katoro er allra vinsælust og býður fjölbreytta þjónustu. Líkt og í Porec þá eru hér í Umag góðir gistivalkostir, fjölmargir veitingastaðir og barirnir raða sér við sjávarsíðuna.

Gott verðlag
Verðlag í Króatíu er hagstætt og enn sem komið er ódýrara en á Ítalíu og Spáni. Hér er gott að gera við sig í mat og drykk og ódýrt er að ferðast um landið.

Veðurfar
Veðrið er einstakt á þessum stað, sem liggur við Adríahafið. Sumrin eru hlý en ekki of heit því hafgolu gætir alltaf. Gróðursældin er einstök og sólríkt yfir sumarmánuðina.

Hvað viltu gera í fríinu? 
Í Porec eru ótrúlega fjölbreyttir kostir til afþreyingar og sportiðkunar. Istrialandia, sem er stærsti vatnsskemmtigarður Króatíu er staðsettur á milli Porec og Umag. Tennisíþróttin er ofarlega á lista og fjöldi tennisvalla hjá öllum hótelum, hafið er það tærasta sem maður sér og því algjört ævintýri að kynnast heiminum neðansjávar við þessar fallegu aðstæður. Við nefnum hér aðeins nokkur atriði sem allir ættu að njóta.

Veisla í mat og drykk 
Króatía er fræg fyrir fjölbreytta og ljúffenga matargerð, enda landið afar frjósamt. Króatar eru stoltir af víngerð sinni, en á Istria skaganum eru framleidd mörg af frægustu vínum landsins. Fjöldi fallegra lítilla veitingastaða er í gömlu bæjunum og skemmtilegt að njóta hinnar einstöku stemningar þar.

Verslanir 
Í Porec er fjöldi lítilla verslana með listmuni, skart og allt það sem ferðamanninn vanhagar um í fríinu. Þeir sem vilja meira úrval verslana ættu að fara til Pula, stærstu borgarinnar á Istria skaganum eða í dagsferð til Trieste, þar sem þú finnur alla ítölsku hátískuna og allt það sem stórborg hefur að bjóða.

Pula
Pula er stærsta borgin á Istria skaganum og sérstaklega þekkt fyrir víngerð og sem góður ferðamannastaður ásamt fiskveiðum og skipabyggingum. Í Pula búa um 90 þúsund manns og þar er að finna margar vel varðveittar byggingar frá tíma Rómverja sem vert er að skoða. Þá líkt og í Porec er hér einstök náttúrufegurð við Adríahafið og Brioni eyjan er algjör perla en þar er hinn vinsæli Brijuni þjóðgarður.

Spennandi kynnisferðir 
Á Istria skaganum, eins og reyndar í Króatíu allri, er endalaust eitthvað fallegt og markvert að sjá. Í landinu eru 8 þjóðgarðar og því tilheyra um 1.100 eyjar. Fararstjórar Heimsferða bjóða úrval kynnisferða meðan á dvöl ykkar stendur.

Lengd flugs: Um 4 klst. 40 mín. 
Gjaldmiðill: Kuna 
Tungumál: Króatíska 
Tímamismunur: +2 klst. á sumrin, +1klst á veturna
Akstursfjarlægð frá flugvelli: Um 3-4 klst.
Ath.  Gert er stutt stopp í Slóveníu og einnig er oft bið við landamærin á álagstímum yfir hásumartíma svo akstursfjarlægð gæti farið upp í 4 klst.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Kynnisferðir

Feneyjar

Heilsdagsferð
Ferð m/íslenskri fararstjórn

Feneyjar er án efa ein af glæsilegustu og rómantískustu borgum heims og þar af leiðandi einn af mest sóttu ferðamannastöðum í heiminum. Tekin er ferja snemma morguns sem tekur tæpar 3 klst frá Porec/Umag að sigla.

Öll borgin er meistaraverk í byggingarlist og arkitektúr og þar er að finna verk sumra þekktustu listamanna heims eins og Giorgione, Titian og Tintoretto í smærri byggingum borgarinnar. Einstök upplifun að upplifa Feneyjar. Einnig er vert að skoða hina undurfögru St. Marks Basiliku, brú andvarpanna (e. Bridge of Sighs) og Rialto brúnna. Eins er boðið upp á gondólasiglingar fyrir þá sem vilja prófa það enda borgin þekkt fyrir það. Athugið að hægt er að bóka allskyns skoðunarferðir um borð í ferjunni en einungis er hægt að greiða með reiðufé.

Innifalið: Bátsferð og leiðsögn.
Ath! Þörf er á vegabréfi!

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Ath! Bóka verður í kynnisferðir í viðtalstímum á gististað í Króatíu og greiða við bókun. Við bókun í þessa ferð er nauðsynlegt að framvísa vegabréfsnúmeri við bókun ferðarinnar. Ef kynnisferðir eru ekki bókaðar í viðtalstíma er ekki hægt að tryggja að laust sé í viðkomandi ferð.

Sigling

Heilsdagsferð
Ferð m/íslenskri fararstjórn

Strendur Króatíu státa af sjaldgæfri náttúrulegri fegurð þar sem klettar og fallegir bæir prýða umhverfið. Í þessari siglingu gefst gestum tækifæri á að
skoða strandlengjuna og tæran sjóinn sem einkennir Adríahafið. Báturinn stoppar í fallegum flóa þar sem hægt er að taka sundsprett, snorkla
eða bara njóta sólar og sóla sig. Síðan er stoppað í Rovinj sem er talinn vera fegursti bærinn á Istria skaganum bær sem oft kallaður er “Litlu Feneyjar” þar sem bærinn þykir minna á Feneyjar. Munið að taka sundföt og handklæði með.

Innifalið: Bátsferð og hádegismatur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Athugið! Bóka verður í kynnisferðir í viðtalstímum á gististað í Króatíu og greiða við bókun. Ef kynnisferðir eru ekki bókaðar í viðtalstíma er ekki hægt að tryggja að laust sé í viðkomandi ferð.

Postojna hellar & Predjama kastali

Heilsdagsferð
Ferð m/íslenskri fararstjórn

Dropasteinshellarnir í Postojna eru meðal stærstu, fegurstu og frægustu neðanjarðarhella í heimi. Yfir 20 km af göngum, sölum og náttúrulistaverkum . Í milljónir ára hafa neðanjarðarár grafið sér leið um karst jarðveginn og eru enn að. Vatnið sem seytlar niður, myndar síðan nokkurs konar grýlukerti sem verða að ótrúlegum og litríkum listaverkum. Niðri í hellunum er einnig að finna hina mjög sjaldgæfu og forvitnilegu veru, mannfisk (Proteus Anguinus). Farþegar eru sóttir snemma morguns og keyrt er norður til Slóveníu. Farið er niður í hellana í ferðamannalest, um 4 km. Þá tekur við gönguferð í 1-1 ½ km á góðum stígum. Örlítill hæðarmunur en allir sem eiga ekki í erfiðleikum með gang fara þetta léttilega.

Í lokin er lestin tekin upp aftur og alls tekur þessi ferð rúmlega klukkutíma. Haldið er áfram til Predjama kastala sem er í um 12 km fjarlægð frá hellunum. Kastalinn er byggður inn í klettavegg og einstakur í sinni röð. Inni er afar áhugavert safn. Eftir skoðunarferð um kastalann er haldið til baka til Króatíu og komið tilbaka um kl 20:00. 

Verð: 610 kn.

Innifalið í verði: Rútuferðir, aðgangseyrir í hella og kastala, hádegisverður og íslensk fararstjórn.

Lágmarksþátttaka í ferð með íslenskumælandi fararstjóra er 20 manns. 

Athugið! Nákvæmur brottfarartími í ferðir verður auglýstur á staðnum. Farþegar fá nánari upplýsingar um hvar þeir verða sóttir í kynnisferðirnar úti hjá fararstjórum, en yfirleitt er um 3-4 staði að ræða svo þetta taki sem styðstan tíma og hægt sé að láta hverja kynnisferð fyrir sig byrja sem fyrst án þess að þurfa koma við á mörgum hótelum áður.

Munið að taka með ykkur vegabréf.

 

Istriuhæðir

Heilsdagsferð
Ferð m/íslenskri fararstjórn

Grožnjan, Motovun og Pazin. Fyrst er keyrt til þorpsins Grožnjan í hæðum Istríu. Miðaldabær þar sem margir listamenn hafa sest að og ber bærinn þess glögg merki. Þröngar götur sem lagðar eru náttúrusteinum og verslanir listamanna á hverju horni. Bærinn er einnig þekktur fyrir sérstaka neðanjarðarsveppi sem kallaðir eru Truffles og eru sérþjálfaðir hundar notaðir þegar dimmt er orðið í Mirna skóginum til að finna sveppina. Mjög skemmtilegt þorp að heimsækja.


Því næst er farið til þorpsins Motovun, sem stendur í 277 m hæð, en efst á hæðinni trónir kirkja heilags Stefáns. Elsti og efsti hluti þorpsins er umlukinn varnarmúr, síðustu 20 metrarnir upp á hæðina er töluvert brött brekka. Fagurt útsýni yfir Mirna árdalinn og Motovun skóginn.  Síðasta þorpið sem heimsótt er í þessari ferð er Pazin. Þar er miðaldakastali þar sem nú er áhugavert safn. Kastalinn stendur við bjargbrún og þar undir er hellir og djúpt árgil. Kastalinn, hellirinn og árgilið varð innblástur fyrir rithöfundinn Jules Verne, þegar hann skrifaði bókina Mathias Sandorf árið 1885, enda er þorpið með sérstaka Jules Verne daga á hverju ári.

Í Pazin er snæddur hádegisverður á sveitakrá, þar sem tekið er á móti fólki með drykk og harmonikkuleik. Ekta ístrískur sveitamatur, vín og vatn. Hvert skref í þessari ferð gefur manni tilfinningu fyrir sögu og menningu Istríaskagans. Á leið okkar sjáum við vínakra, hveiti og hafra-akra, ólífutré, náttúrulegan skóg og margt margt fleira. 

Komið til baka á hótel um kl. 18:30. Æskilegt er að vera á góðum gönguskóm.

Innifalið: Rúta, leiðsögn, truffles smökkun og hádegismatur. Ath. brekkur í ferð.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.
Verð: 450 kn

Athugið! Bóka verður í kynnisferðir í viðtalstímum á gististað í Króatíu og greiða við bókun. Ef kynnisferðir eru ekki bókaðar í viðtalstíma er ekki hægt að tryggja að laust sé í viðkomandi ferð.