Sólarferð
Borgarferð
Golfferðir
Hreyfiferðir
Sérferðir
Sportferðir
Siglingar
Flugsæti

Lungau

Lungau-skíðasvæðið er frábært fyrir fjölskylduna með allt að 300 km af skíðabrautum en svæðið hefur notið mikilla vinsælda meðal Íslendinga. Hér er fólksfjöldinn minni og frábær aðstaða fyrir alla skíðaunnendur!

Lungau í Austurríki hefur notið gífurlegra vinsælda meðal farþega Heimsferða undanfarin ár og segja má að Lungau-skíðasvæðið hafi svo sannarlega hitt í mark meðal Íslendinga en vinsældir svæðisins fara vaxandi! Lungau hefur þá sérstöðu að í bænum er rekið hótel af Íslendingum, Skihotel Speiereck.

Svæðið býður frábærar aðstæður fyrir skíðafólk, mjög fjölbreytt úrval af skíðabrekkum, sem henta getu hvers og eins, sem og þeim sem kjósa snjóbrettin fram yfir skíðin. Í Lungau er líka færra fólk á skíðasvæðunum en á mörgum öðrum skíðasvæðum og því fer, alla jafna, minni tími í bið eftir lyftunni og því að komast í næstu ferð niður brekkuna. Þá er skíðasvæðið afar fjölskylduvænt og mjög snjóöruggt. Lungau-skíðasvæðið býður alls 150 km af skíðabrautum en er hluti af Lungo-skíðasvæðinu þar sem 300 km af skíðabrautum eru í boði. Unnt er því að velja á milli þess að kaupa skíðapassa á þessi 2 skíðasvæði eftir því hvað hver og einn vill.

Greiðar leiðir eru á skíðum á milli einstakra skíðasvæða innan Lungau, t.d. frá Speiereck til Mauterndorf, frá Katschberg yfir til St. Margarethen. Þá fer skíðarúta einnig mjög reglulega á milli staðanna.

Gististaðir okkar í Lungau eru í litla snotra bænum St. Michael. Bærinn stendur við rætur Speiereck-fjallsins og er yndislegur, gamall bær sem hefur náð að varðveita uppruna sinn á skemmtilegan hátt og býður ferðamönnum ekta austurríska stemmningu.

Skíðasvæðin hér eru fjölbreytt og má m.a. finna einu lengstu skíðabrekku svæðisins. Þá hefur heilmikil uppbygging átt sér stað og þar sem áður voru T-lyftur og eldri stólalyftur eru nú kláfar og nýrri gerðir stólalyfta.

Þá hefur verið tekin í notkun skíðamiðstöð við Speiereck-Sonnenbahn kláfinn en þar er skíðaskóli, skíðaverslun og skíðaleiga ásamt veitingastað og auðvitað aprés-ski stemmara.

Grosseck/Speiereck-skíðasvæðið státar af skemmtilegum og fjölbreyttum brekkum, góðum veitingastöðum og vert er að nefna að Skihotel Speiereck er í göngufæri frá lyftunni upp að svæðinu en hótelið býður upp á íslenskan skíðakennara yfir jól og áramót.

Katschberg/Aineck-skíðasvæðið er ákaflega líflegt, fjöldinn allur af brekkum fyrir börn og fullorðna. Niðri í bænum er gríðarlega mikil stemmning eftir skíðadaginn í  aprés-ski – og þá er skylda að fá sér romm og kakó eða hressandi perusnafs! Frá Aineck má renna sér niður í St. Margarethen eftir einni lengstu brekku sem þú kemst í á svæðinu, hinni einu sönnu A1.

Almennt gildir skíðapassinn inn á Fanningberg-skíðasvæðið líka. Þangað þarf að taka sérrútu en dagur þar er fullkomlega þess virði. Alls státa ofantöldu skíðasvæðin því af 150 km af skíðabrautum sem Lungau-skíðapassinn nær yfir. Þá má bæta við –Obertauern-svæðinu og kaupa Lungo-skíðapassa, en Obertauern er af mörgum talið eitt flottasta svæðið. Þangað sækir margt fólk en það býr yfir um 100 km af skíðabrautum.

Kort

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti