Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Draumaferð til Kína - Aukaferð

0

Beijing – Pingyao – Xi‘an – Zhangjiajie – Ningbo - Shanghai

22. apríl – 9. maí 2020

Kína virðist mörgum vera framandi land. Ímynd Kína hefur löngum einkennst af mannhafi, troðningi, mengun og framandi tungumáli og menningu. En Kína leynir á sér og víða má finna fámenna staði, þar sem náttúra og lífríki fær að njóta sín. Það er einnig ríkur þáttur í menningu kínverja að hafa gott aðgengi að náttúrunni til að njóta lífsins sem best. Í þessari ferð verður leitast við að ferðast um minna þekkta staði, í bland við þekktar ferðamannaperlur og menningarstaði. Við kynnumst náttúru Kína, bæði manngerðri og ósnortinni. Einnig verður leitast við að heimsækja frekar færri staði en fleiri og njóta þess að eyða lengri tíma á hverjum stað.

Fararstjóri:
Fararstjóri þessarar ferðar er Brynhildur Magnúsdóttir. Brynhildur er jarðfræðingur að mennt og hefur hún brennandi áhuga á Kína og öllu kínversku. Brynhildur útskrifaðist úr kínverskum fræðum frá H.Í. vorið 2017 og bjó í Kína á árunum 2015-2016 sem skiptinemi við Ningbo háskóla og notaði hún tímann einnig til ferðalaga innan Kína. Brynhildur sinnir jarðfræðikennslu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og er einnig starfsmaður Kínverska sendiráðsins á Íslandi.

Verð er miðað lágmarksþátttöku 16 manns.
Hámarksfjöldi er 30 manns.

Hápunktar ferðarinnar
 • Stórborgirnar Shanghai & Beijing
 • Vorupplifun í Kína, þar sem allt er ferskt og blómstrandi
 • Hraðlestarferðir & útsýni yfir margbreytilegt landslag
 • Stórbrotin náttúra Zhangjiajie Í Hunan héraði
 • Tækifæri til að prófa kláfa og glerbrýr
 • Leirhermenn, borgarmúrar og verslunarmenning í Xi'an
 • Mismunandi matarmenning eftir landshlutum
 • Innsýn inn í daglegt líf heimamanna
Og margt fleira...

Ferðatilhögun

Dagur 1
Flogið til Beijing
Flogið til Beijing

22. apríl – miðvikudagur

Flogið er í gegnum Helsinki til Beijing (Peking) með Finnair. Flugtak kl. 09:25 frá Keflavík, lending kl. 15:50 í Helsinki. Flugtak frá Helsinki 18:20, lent kl. 06:55 að staðartíma í Beijing þann 23.apríl.

Dagur 2
Komið til Beijing
Komið til Beijing

23. apríl – fimmtudagur

Beijing er höfuðborg Kína, og nafnið þýðir bókstaflega höfuðborgin í norðri. Borgin er elsta borg í heimi og getur rakið sögu sína aftur um 3 þúsund ár. Mörg stórfyrirtæki, menntastofnanir og háskólar eru í borginni. Hér er einnig að finna nokkra hápunkta kínverskrar menningar bæði matar og lista t.d. Peking óperuna og hina margrómuðu Peking önd.

Wangfujing stræti
Við komuna til Beijing er byrjað á að fara upp á hótel og hvíla sig í nokkra klukkutíma eftir langt flug, en seinnipartinn verður farið á Wangfujing stræti. Wangfujing stræti er gríðarlega stór verslunargata með mörgum heimsþekktum merkjavörum. Gatan er nokkuð vestræn, en samt með sterk kínversk einkenni. Við hliðina á Wangfujing stræti er síðan að finna þröngar götur sem einkenna gömlu Beijing og þar má skoða sölubása með allskyns varningi, hægt að prútta og gera góð kaup og einnig kynna sér hið sérstæða “Beijing snakk” sem er allskyns kjöt, grillað á teini, hunangshjúpaðir ávextir og einnig ákaflega framandi “grillspjót” þar sem hægt er að smakka sporðdreka, köngulær, bjöllur og ýmis sjávarkvikindi af grillinu.

Dagur 3
Beijing
Beijing

24. apríl – föstudagur

Við höldum áfram að skoða fleiri áhugaverða staði þessarar borgar:                       

Torg hins himneska friðar (Tian‘anmen square)
Þetta er eitt stærsta torg í heimi, 440.500 m2 , og liggur frá innganginum að forboðnu borginni að grafhýsi Maós í suðri. Margar þjóðþekktar byggingar eru umhverfis torgið og má þar nefna, Þjóðminjasafnið og Höll fólksins. Torgið hefur verið vettvangur pólitískra viðburða og átaka í gegnum tíðina, til að mynda, stúdentaóeirðirnar sumarið 1989.

Forboðna borgin (Forbidden city)
Forboðna borgin var aðsetur keisaraættarinnar frá 1420 (Ming keisaraættin) til ársins 1912 þegar síðasta keisaraveldið, Qing, leið undir lok. Forboðna borgin hefur verið á heimsminjaskrá síðan 1987 og er nú opin almenningi. Hægt er að skoða bæði húsakost og innviði og fá innlit inn í líf heldra fólks í gegnum tíðina.

Heimsókn í Hutong
Hutong er hið hefðbundna byggingarform í norður Kína og þar með í Beijing.

Þetta eru n.k. aflokaðir ferkantaðir garðar þar sem íbúðarhúsunum er raðað við jaðra garðsins og útveggirnir mynda lokaðan vegg. Þarna var venjan að fjölskyldur byggju saman og hafði hver kynslóð sinn hluta af húsunum. Í garðinum í miðjunni var sameiginlegt svæði þar sem var hægt að elda, rækta grænmeti og lifa lífinu saman. Hvert Hutong var heimur út af fyrir sig og íbúar í sumum stærri Hutongum þurftu margir hverjir ekkert að leita út fyrir sitt Hutong með eitt eða neitt. Farið verður í eitt slíkt Hutong þar sem við getum fengið innsýn inn í daglegt líf kynslóðanna.

Dagur 4
Beijing
Beijing

25. apríl – laugardagur

Ferð á Mutianyu hluta Kínamúrsins (Mutianyu great wall)
Kínamúrinn þekkja allir, enda er hann eitt af undrum veraldar. Múrinn er í heildina 21.196 km langur, og er veglegastur á svæðinu fyrir norðan Beijing. Elstu heimildir og ummerki um einhvers konar múr til að verja Kína fyrir Mongólum í norðri ná allt aftur til 7. aldar f.Kr. en hann var svo stækkaður mikið á tíma fyrsta keisara Kína, Huang Qin Shi (220–206 f.Kr). Þekktustu og voldugustu hlutar múrsins voru byggðir á tímum Ming keisaraættarinnar (1368–1644).  Múrinn þjónaði sem landamæraeftirlit og vörn gegn árásum í norðri og þróuðu menn flókið kerfi merkjassendinga með reykmerkjum til að senda skilaboð á milli varðturna og umhverfisins. Múrinn er einnig það sterkbyggður að hann var notaður sem samgönguleið. Mutianyu er hluti af þessum merkilega múr, sem byggður var á árunum 550 - 577 og liggur um 70 km fyrir utan miðborg Beijing. Á þessum stað liggur múrinn eftir fögru skógi vöxnu landslagi (ath. múrinn er á stöku stað með ansi bröttum tröppum).

Sumarhöllin og Kunming vatn
Sumarhöllin er í rauninni gríðarstórt svæði eða 2,9 km2 sem var sumardvalarstaður keisarafjölskyldunnar á Qing tímabilinu (1644 – 1912). Byggingarnar og göngustígarnir liggja í kringum Kunming stöðuvatn og hæð sem er um 60 m há. Hvorutveggja er manngert þar sem hæðin er búin til úr því efni sem mokað var upp úr vatnsstæðinu. Þarna er að finna fjölmargar veglegar byggingar og íverustaði ásamt hinum 96 m. langa marmarabát sem keisaraynjan Cixi lét byggja.

Dagur 5
Beijing - Pingyao
Beijing - Pingyao

26. apríl – sunnudagur

Himnahofið, Temple of heaven
Himnahofið er hluti af svæði sem tileinkað er ýmsum trúarviðburðum og fornum hefðum. Þetta svæði er mun stærra en forboðna borgin, enda máttu engar mannlegar byggingar vera voldugri en þær sem tilheyrðu guðunum. Hofið var fyrst byggt 1420 og þangað fóru keisararnir einu sinni á ári til að færa fórnir og biðja um gott árferði og uppskeru. Árið 1988 var svæðinu breytt í almenningsgarð og safn um forna heimspeki, sögu og trúarbrögð í Kína.

Markaðurinn í silkiverksmiðjunni
Við hliðina á Himnahofinu er einn af mörkuðunum sem einkenna Kína. Þarna er umhverfið nútímalegt og varningurinn er af öllu tagi, bæði klæðnaður, leikföng, nýjustu tækniundrin, skartgripir, minjagripir og margt fleira. Markaðurinn er gríðarstór, á 4-5 hæðum og þarna er um að gera að prútta sem mest! Hægt að gera góð kaup því inn á milli má finna mjög vandaðar vörur.

Eftir hádegi tökum við hraðlest til borgarinnar Pingyao.

Háhraðlest Beijing – Pingyao: D2005, 15:29 -19:33

Við komum okkur fyrir á notalegu hóteli sem líkist helst sveitasetri í Pingyao.

Dagur 6
Pingyao
Pingyao

27. apríl – mánudagur

Pyngyao er ævaforn borg staðsett í miðju Shanxi fylkis þar sem u.þ.b. 50.000 manns búa. Borgin stendur við árbakka Fen árinnar sem ásamt Gulá fóstraði vöggu kínverskrar menningar, hún er talin frá 800 f.Kr. og var mikilvæg í þróun efnahagssögu Kína. Pingyao er þekkt fyrir vel varðveitta borgarskipulagningu og arkitektúr frá tímum Ming og Qing keisaraættanna (1368 – 1912) og er í dag á Heimsminjaskrá Unesco.

Við skoðum borgarmúr Pingyao, götur Ming og Qing og förum á rafmagnsbílum inn í gamla bæinn. Sjálfur gamli bærinn er lítill og því auðvelt að rölta um hann. Einnig er auðvelt að leigja hjól eða rafmagnshjól ef áhugi er fyrir hendi.

Dagur 7
Pingyao - Xi'an
Pingyao - Xi'an

28. apríl – þriðjudagur

Eftir morgunverð er okkur ekið út á lestarstöð þar sem við tökum hraðlest til Xi‘an. Á leiðinni gefst gott tækifæri til þess að njóta landslagsins. Þegar komið er til Xi‘an er okkur ekið upp á hótel.

Háhraðlest Pingyao – Xi‘an:  D2561; 10:08 /13:02

Muslimahverfið og frjáls tími
Við ætlum að kíkja í Muslimahverfi Xi’an sem er endalaus suðupottur af litlum smáverslunum, götusölum og útiveitingastöðum með þjóðþekkta rétti. Ekki er hægt að sleppa “hamborgaranum” úr lambakjöti sem hefur mallað lengi í einkennandi kryddum og brauði sem er útbúið er á staðnum. Hér er líka að finna stærstu mosku í Kína sem nær yfir 12.000 m2 svæði. Moskan var byggð á tímabili Ming keisaraættarinnar (1368–1644) og samanstendur af mörgum görðum og fordyrum. Byggingarstíllinn sameinar skemmtilega hefðbundin kínverskan byggingastíl og hefðbundin byggingarstíl á moskum.

Dagur 8
Xi'an
Xi'an

29. apríl – miðvikudagur

Xi’an „Vesturfriður“ er höfuðborg Shaanxi héraðs. Borgin var ein af endastöðum hinnar fornu silkileiðar í Kína og er ein elsta borg Kína. Borgin var fyrsta höfuðborg Kína og bar upphaflega nafnið Chang'an. Hér liggur saga við hvert fótmál og kunnugir segja að varla sé hægt að stinga niður skóflu á svæðinu án þess að finna fornminjar. Á svæðinu hafa fundist 6.500 ára gamlar mannvistarleifar og leifar af hinum 500.000 ára gamla Lantian manni segja sömu sögu um langa mannvist á svæðinu. Í miðbænum er að finna ævifornar byggingar en einnig fjölmargar gríðarstórar verslunarmiðstöðvar, enda hefur borgin verið þekkt fyrir verslun og viðskipti í gegnum aldirnar. Matarhefðin á þessum slóðum er líka sérstök þar sem þarna er að finna stórt samfélag kínverskra múslima, og uppistaðan í fæði þeirra er lambakjöt en ekki svínakjöt eins og víða annarsstaðar.                                                     

Borgarmúrinn í Xi‘an (City wall)
Borgarmúrinn sem umlykur hina fornu Xi’an er elsti, stærsti og best varðveittasti borgarmúr sem finnst í Kína. Múrinn er á heimsminjaskrá UNESCO, hann er ferkantaður og um 14 km á lengd. Borgarmúrinn var fyrst byggður á 14. öld og umlykur 14 km2 svæði. Hægt er að leigja reiðhjól og hjóla eftir múrnum, en það er líka notalegt að rölta eftir þessum volduga borgarmúr og virða fyrir sér borgina, bæði innan múra og utan.

Leirhermennirnir (Terracotta warriors)
Fáir eða nokkrir fornleifafundir hafa verið eins mikilvægir eins og fundur leirhermannanna árið 1972. Þeir fundust fyrir tilviljun þegar bóndi einn var að grafa eftir vatni á landareign sinni. Þetta eru leirstyttur í fullri stærð af hermönnum, embættismönnum, hestum og hestakerrum sem komið var fyrir til að verja gröf Huang Qin Shi (210–209 F.Kr.). Huang Qin Shi var fyrsti keisari Kína og hann var einnig fyrstur til að sameina hin mörgu þjóðarbrot sem voru á því svæði sem nú er Kína í eitt voldugt ríki. Gröfin sjálf hefur ekki fundist, en fjöldinn sem gætir grafarinnar er ótrúlegur, um 8.000 hermenn, með hin ýmsu vopn, 130 hestvagnar og um 700 hestar.

Hádegisverður og frjáls tími.

Dagur 9
Xi'an - zhangiajie
Xi'an - zhangiajie

30. apríl – fimmtudagur

Frjáls tími fram eftir degi. Við höldum út á flugvöll og tökum kvöldflug til Zhangjiajie (flug MU2431, 21:45 – 23:10) og þegar þangað er komið er okkur ekið til hótelsins sem við gistum á næstu nótt.

Dagur 10
Zhangiajie
Zhangiajie

1. maí – föstudagur

Zhangjiajie þjóðgarðurinn er einhver þekktasti þjóðgarður kínverja. Landslagið, sem samanstendur af ýmis konar snarbröttum tindum og hásléttum, er myndað í ævafornt sjávarset (aðallega granít sand- og völustein) sem reis úr sæ við myndun Himalayafjallanna. Auk klettadrangana er hér að finna fjölmargar tegundir bæði, dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, en fá hér skjól. Hér munum við eyða 3 dögum í ægifagurri náttúru. Það eru margar stórkostlegar glerbrýr og kláfar á þessu svæði og allt er traust og vel hannað. Ef fólk hins vegar treystir sér ekki í einhverjar ferðir, er í boði að bíða niðri á jafnsléttu og skoða það sem fyrir augu ber hverju sinni.

Zhangjiajie
Í dag er haldið í ferð með kláf upp á Tianzi fjöllin. Þaðan er hægt að virða fyrir sér hinn svokallaða “steindrangaskóg” sem eru óteljandi langar og mjóar klettastrýtur, og njóta útsýnis yfir Wuling fjallendið, sem er fjallgarður með djúpum dölum sem liggur eftir endilöngu mið Kína og er búsetusvæði fjölmargra minnihlutahópa.

Hádegisverður.

Eftir hádegi tökum við kláf upp (og niður) að útsýnissvæðinu i Yuanjiajie, en þetta svæði var innblástur landslagsins í kvikmyndinni Avatar. Hér er einnig að finna hina svokölluðu „fyrstu himnesku brú“  First Bridge under Heaven sem er náttúruleg steinbrú milli tveggja steindranga.

Dagur 11
Zhangjiajie
Zhangjiajie

2. maí – laugardagur

Heimsókn í Huangshi þorpið, sem liggur í meira en 1200 m.h.y.s. Þorpið er umkringt snarbröttum steindröngum og er ævafornt með stórfenglegu útsýni, ævafornum klettaristum og sérkennilegum klettamyndunum eins og t.d. „hina gylltu skjaldböku sem horfir til hafs“. 

Hádegisverður.

Eftir hádegi liggur leiðin að“læk hinnar gylltu svipu ” (Golden Whip Creek). Lækurinn rennur eftir þröngum skógi vöxnum dal sem er um 7,5 km langur. Við munum ganga upp með læknum sem er kristaltær fjallalækur umlukin háum hömrum með klettamyndum sem bera hin ýmsu nöfn. Í dalnum er einnig að finna fjölskrúðugt plöntu og dýralíf og ekki er ósennilegt að rekast á litla apa sem búa þarna í góðu yfirlæti. Farið á hótel til næturdvalar.

Dagur 12
Zhangjiajie
Zhangjiajie

3. maí – sunnudagur

Dagurinn byrjar á að fara með lengsta kláf í heimi upp á hið stórfenglega “Fjall Himnahliðsins” (Tianmen Mountain). Fjallið skagar upp í 1.200 m.h.y.s. en toppurinn er tiltölulega flatur og þarna uppi er að finna sérstakt dýra og plöntulíf, enda hefur allt lífríki verið tiltölulega einangrað uppi á þessu snarbratta fjalli í töluverðan tíma. Hér er einnig að finna ýmsar glerbrýr sem liggja yfir hyldýpið og útsýnið er óviðjafnanlegt yfir nágrennið og “Himnahliðið” sjálft (Tianmen), sem er risastórt gat í hlið fjallsins. Einnig eru ýmsar gönguleiðir uppi á fjallinu sjálfu eins og t.d. “göngustígurinn til himna” (Tongtian avenue) og ýmislegt að sjá, til að mynda hof og minjar um forna menningu.

Dagur 13
Zhangjiajie - Ningbo
Zhangjiajie - Ningbo

4. maí – mánudagur

Við nýtum morguninn til þess að skoða fallegt vatn kallað Baofeng og þar gefst okkur tækifæri til þess að hlusta á fallegan söng stúlkna sem tilheyra Tujia ættbálknum á dæmigerðum lögum þessa svæðis.

Seinnipartinn er haldið út á flugvöll og flogið til borgarinnar Ningbo.

Flug CZ8547, 15:45-17:25. 

Ningbo er staðsett á einhverju elsta bæjarstæði í Kína. Í borginni er lítið er um gamlar byggingar þar sem hún hefur oft verið skotspónn innrásarherja sem hafa lagt borgina í rúst hvað eftir annað. Ningbo var nánast gjöreytt við innrás Japana 1940 og Japanir vörpuðu þar að auki keramiksprengjum á borgina sem innihéldu flær sem báru með sér svarta dauða (Bubonic plage). Eitthvað er þó eftir af gömlum byggingum og görðum og er borgin í dag aðlaðandi og snyrtileg háskólaborg, en Ningbo Háskóli er samstarfsháskóli Háskóla Íslands og er staðsettur nokkra kílómetra fyrir utan miðborgina.

Dagur 14
Ningbo
Ningbo

5. maí – þriðjudagur

 

Gamla þorpið í Cicheng 
Við byrjum daginn á að heimsækja Cicheng sem er aldagamalt þorp frá 8. öld rétt fyrir utan Ningbo borg. Þetta er dæmi um hefðbundna borg eða þorp innan gamalla borgarveggja. Hægt er að rölta um þorpið og virða fyrir sér byggingarlistina, fræðast um aldagamlar aðferðir við allskyns heimilisstörf og handverk og gleyma sér augnablik við að reyna að ímynda sér lífið til forna í þessu aðlaðandi þorpi. Menningarráð Ningbo borgar hefur staðið fyrir því að handverksmenn sem nota hefðbundnar aðferðir fái vinnuaðstöðu í þorpinu og er hægt að fylgjast með þeim að störfum.

Tianyi bókasafnið
Tianyi bókasafnið er staðsett á heimili Fan Qin sem var menntamaður og bókasafnari á tímum Ming keisaraættarinnar. Bókasafnið var sett á stofn 1561 og státaði upphaflega af um 70.000 bókum og ritum, sumum ævafornum. En mikið af bókum hefur týnst í áranna rás, innrásarherir, þar á meðal Bretar í ópíum stríðunum, fóru ránshendi um safnið og stálu gífurlegu magni bóka. Fjöldi rita fór á tímabili niður í 20.000 eintök. Eitthvað hefur skilað sér til baka og eru nú um 50.000 titlar varðveittir á safninu. Umhverfis heimili Fan Qin og fjölskyldu hans er síðan snotur hefðbundin einkagarður með tjörnum, brúm, steinhæðum, trjám og jurtum og hér og þar leynast upplýsingaskilti (á ensku og kínversku) um hitt og þetta sem tengist staðnum.

Neðjanjarðarlest (metro) er tekin frá Tianyi bókasafninu að Gulou stræti.

Gulou stræti
Í Gulou er að finna margar litlar smáverslanir og veitingastaðir og upplagt að eyða parti af deginum til að skoða sig um. Við hliðina á markaðssvæðinu er að finna eina af pagóðum (hof) borgarinnar og leifar af vöruhúsi frá tímum Yuan keisaraveldisins. Við enda strætisins er síðan að finna mjög huggulegan lítinn almenningsgarð, Zhongshan garðinn, þar sem heimamenn koma saman til að æfa sig á hljóðfæri, gera Qigong æfingar, eða bara til að spjalla, tefla skák og njóta lífsins.

Mánavatns almenningsgarðurinn Yehu
Þessi almenningsgarður í miðborg Ningbo getur rakið sögu sína um þúsund ár, allt aftur til tímabils Song og Yuan keisaraveldanna. Til að byrja með notaði menntaelítan garðinn til gönguferða og náttúruskoðunar, en núna er hann opin öllum og algengt er að heilu fjölskyldurnar fari í garðinn með nesti og eyði öllum deginum hér. Í garðinum er að finna langa göngustíga, opin grassvæði og trjálundi í kringum hið aflanga Mánavatn. Við slökum á í garðinum áður en rútan kemur og sækir okkur.

Dagur 15
Ningbo
Ningbo

6. maí – miðvikudagur

Í miðbæ Ningbo er 61 m. háa pagóðan Tianfeng (hof). Pagóðan var fyrst byggð árið 695 á tímum Tang keisaraættarinnar, og er þess vegna oft kölluð Tang pagóðan. Hún hefur oft verið eyðilögð, en jafnharðan byggð upp aftur í sama stíl, og úr sama efni. Tianfeng hefur verið einkenni Ningbo borgar í gegnum tíðina. Fjöldamargir fornir munir hafa fundist í og við pagóðuna, sem eru þar til sýnis. Hægt er að fara upp og njóta útsýnisins.  Við hliðina á Tianfeng er síðan að finna bráðskemmtilegan ekta kínverskan markað sem eru nokkur 4 - 5 hæða hús sem eru tengd saman með göngubrúm og alls kyns ranghölum. Þar er hægt að versla allt milli himins og jarðar og prútta, jafnvel þó íslendingum finnist ekki taka því þar sem allt er hræódýrt!

Tianyi torg
Upplagt er að enda daginn á hinu gríðarstóra Tianyi torgi sem er umlukið allskyns nútímalegum veitingastöðum, verslunum og verslunarmiðstöðvum. Torgið er á því svæði sem miðborg Ningbo var staðsett, en eins og áður sagði var gamli miðbærinn sprengdur í tætlur við innrás Japana árið 1940. Þarna er hægt að rölta um fram á kvöld eða tylla sér niður og virða fyrir sér mannlífið, fá sér síðan að borða og skoða hina fjölmörgu upplýstu gosbrunna sem einkenna torgið.

Dagur 16
Ningbo - Shanghai
Ningbo - Shanghai

7. maí – fimmtudagur

Í dag kveðjum við Ningbo og höldum til stórborgarinnar Shanghai. Ekið er yfir 36 km langa hengibrú yfir Hangzhou flóa en brúin telst verkfræðilegt afrek. Byggingu brúarinnar lauk í júní 2007 og er hún lengsta hengibrú heims yfir sjó.Shanghai er stærsta borg Kína og er einnig „vestrænasta“ borgin. Þó að borgin sé mjög nútímaleg með jarðlestarkerfi og þekktum rándýrum merkjavöruverslunum er borgin samt mjög kínversk og heldur mjög í hefðbundin gildi, matarmenningin er einnig í hávegum höfð og víða er hægt að fá hefðbundna kínverska rétti. Nanjing gata er einhver stærsta verslunargata í heimi og er skemmtilegt að rölta þar um í iðandi mannlífinu á kvöldin og fá sér eitthvað kínverskt snarl eða prófa nýjasta æðið, svokallað „bubble tea“. Rútuferð á hótel og frjáls dagur.

Sjónvarpsturninn í Shanghai og rölt um “Bundið” og nágrenni „The Bund“ er eitt af fáum hafnarsvæðum Kína sem erlendum verslunarmönnum leyfðist að leggjast að landi og stunda verslun og viðskipti eftir að ópíum stríðunum lauk árið 1842. Við árbakkann er því að finna fjölmargar vestrænar byggingar og þar eru margir af stærstu bönkum heims með útibú. Útsýnið frá “Bundinu” er eitt af einkennum Shanghai borgar og þar gnæfir sjónvarpsturninn yfir nágrennið. Ferð upp í hinn rómaða sjónvarpsturn sem gnæfir rúma 350 m. y.s. er ógleymanleg. Turninn gengur einnig undir nafninu “perla austursins”, vegna kúlunnar sem einkennir hann og á björtum degi er útsýnið óviðjafnanlegt yfir borgina og nágrennið.

Yu garðurinn og gamli bærinn
Yu garðurinn er staðsettur innan borgarmúra gamla borgarhluta Shanghai. Yu garðurinn var fyrst byggður árið 1559 í tíð Ming keisaraveldisins og er hefðbundin kínverskur einkagarður með smáum steinhæðum, göngubrúm, litlum útsýnisturnum, tjörnum og lækjum og afskaplega friðsælu og fallegu umhverfi. Eftir notalegt rölt um þessa friðsælu paradís gefst tækifæri til að rölta um gamla borgarhlutann og virða fyrir sér hefðbundnar byggingar og litlar litskrúðugar minjagripaverslanir og listmunabúðir. Einnig gefst tækifæri til að bragða á ýmsu kínversku snakki, t.d. þurrkuðum ávöxtum, ávaxtabúðingum, hefðbundnu jarðhnetu- og sesam snakki ásamt ýmsu öðru.

Dagur 17
Shanghai
Shanghai

8. maí – föstudagur

Frjáls dagur í Shanghai.

Shanghæ er stærsta borg Kína og er einnig „vestrænasta“ borgin. Þó að borgin sé mjög nútímaleg með jarðlestarkerfi og þekktum rándýrum merkjavöruverslunum er borgin samt mjög kínversk og heldur mjög í hefðbundin gildi, matarmenningin er einnig í hávegum höfð og víða er hægt að fá hefðbundna kínverska rétti. Nanjing gata er einhver stærsta verslunargata í heimi og er skemmtilegt að rölta þar um í iðandi mannlífinu á kvöldin og fá sér eitthvað kínverskt snarl eða prófa nýjasta æðið, svokallað „bubble tea“. Rútuferð á hótel og frjáls dagur.

Dagur 18
Flogið til Íslands
Flogið til Íslands

9. maí – laugardagur

Haldið út á flugvöll. Flogið með Finnair frá Shanghai með millilendingu í Helsinki, brottför kl. 09:20. Lent í Helsinki kl. 14:20. Brottför frá Helsinki kl. 16:10, lent í Keflavík kl. 17:00.

Bóka

Úps! Hér er bara ekkert að finna Vinsamlegast kannaðu hvort rétt lengd ferðar og/eða brottför er valin. Einnig er þér velkomið að hringja í ferðaráðgjafa okkar í síma 595-1000 fyrir nánari aðstoð

Innifalið í ferðinni

 • Flug frá Keflavík til Beijing (í gegnum Helsinki)
 • Flug heim frá Shanghai til Keflavíkur (líka í gegnum Helsinki)
 • Hraðlest frá Beijing til Xi'an
 • Innanlandsflug frá Xi‘an til Zhangjiajie
 • Innanlandsflug frá Zhangjiajie til Ningbo
 • Akstur til og frá hótelum
 • Akstur milli staða samkvæmt ferðaáætlun
 • Íslenskur fararstjóri
 • Gisting á 4–5* hótelum í 16 nætur með morgunverði
 • 3 hádegisverðir
 • Aðgangseyrir á þá staði sem taldir eru í ferðalýsingu

Ekki innifalið

 • Forfallatrygging
 • Ferðatryggingar
 • Vegabréfsáritun
 • Þjórfé til bílstjóra og staðarleiðsögumanna
 • Annað fæði sem ekki er nefnt í ferðalýsingu

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti