Sólarferð
Borgarferð
Golfferðir
Hreyfiferðir
Sérferðir
Sportferðir
Siglingar
Flugsæti

Unesco borgir

Granada – Baeza – Toledo – Madrid – Ávila – Segovia

Fararstjóri: Árni Hermannsson

Í þessari ferð kynnumst við mörgum af fallegustu borgum Spánar og skoðum frægar minjar og byggingar sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Í upphafi ferðar er gist í borginni Granada í 2 nætur. Í Granada heimsækjum við hina frægu Alhambrahöll og Generalife garða hennar en við fáum einnig tíma til að kynnast sjálfri borginni sem hefur upp á margt að bjóða.

Á þriðja degi er stefnan tekin til bæjarins Baeza í Jaén héraði. Bærinn er mjög sérstakur þar sem flestar byggingarnar í gamla bænum eru byggðar í endurreisnarstíl. Á leið okkar til Baeza er ekið um fallegt landslag Jaén, en í héraðinu er framleitt 25% af allri ólívuframleiðslu heims og er því landslagið ótrúlegt því maður sér „grænt haf“ ólívutrjáa svo langt sem augað eygir. Það er því tilvalið að stoppa um stund hjá bændum á svæðinu og skoða, bragða og fræðast um ólívuframleiðsluna. Gist er í Baeza eina nótt.

Á fjórða degi verður haldið til borgarinnar Toledo í Castilla La Mancha héraðinu, glæsileg borg sem hýsti löngum konunga Spánar. Gist er í Toledo 2 nætur.

Næst er stefnan tekin til höfuðborgar Spánar, Madrid. Þar ætlum við m.a. að skoða hið fræga listasafn „El Prado“ og fara í kynnisferð um borgina þar sem helstu byggingar og kennileiti verða skoðuð. Gist verður í eina nótt á glæsilegu hóteli sem staðsett er í aðalgötu miðbæjar Madrid (Gran Vía).

Eftir heimsóknina í stórborgina höldum við til bæjarins Ávila þar sem við ætlum að borða hádegisverð og dvelja um stund umlukin stórbrotnum varnarmúrum sem prýða þennan fallega bæ.

Við endum ferðina í borginni Segovia en þar gistum við síðustu tvær næturnar. Í Segovia verður farið í kynnisferð en einnig gefst góður tími til að njóta þess að skoða okkur um á eigin vegum. Á brottfaradegi verður farið af hótelinu um hádegi og ekið til hinnar frægu hallar El Escorial, sem tilheyrir Madrid héraði, og hún skoðuð. Á leiðinni út á flugvöll verður stoppað um stund í skemmtigarðinum Parque de Europa þar sem hægt verður að fá sér létt snarl áður en haldið er af stað út á flugvöll.

Hotel Urban Dream 4* í Granada 
Urban Dream Granada hótelið býður 103 herbergi og er staðsett í 10 mínútna göngufæri frá miðbæ Granada. Öll herbergi hótelsins eru með loftkælingu, þráðlausu interneti (Wi-FI) gervihnattasjónvarpi, litlum ískáp og baðherbergi með baðkeri og hárþurrku. Í 5 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu eru að finna margar búðir, banka og veitingastaði. Á hótelinu er snarlbar en einnig veitingasalur þar sem boðið er upp á m.a. tapas.

Hotel TRH Ciudad Baeza 4* í Baeza 
TRH Ciudad Baeza hótelið var upphaflega nunnuklaustur á 17. öld. Þessi sögulega bygging er staðsett í gamla bæ Baeza og byggð í endurreisnarstíl eins og svo margar aðrar byggingar bæjarins. Hótelið býður upp á þráðlaust internet (Wi-FI), gervihnattasjónvarp, hárþurrku og öryggishólf. Á hótelinu er veitingahús þar sem boðið er upp á rétti héraðsins.

Hotel Alfonso VI 4* í Toledo 
Alfonso VI hótelið er staðsett í hjarta borgarinnar. Hótelið er með 83 herbergi sem öll hafa gervihnattasjónvarp, öryggishólf og hárþurrku. Hótelið og herbergin eru innréttuð á hefðbundinn Kastillíustíl og á veitingahúsi hótelsins er boðið upp á dæmigerða spænska sem og alþjóðlega rétti.

Hotel Catalonia Gran Vía 4* í Madrid
Catalonia Gran Vía hótelið er staðsett á besta stað í miðbæ Madrid og er tilvalið fyrir þá sem ætla að heimsækja þekktustu byggingar og staði í Madrid. Hótelið er mitt á milli Puerta del Sol og Plaza de Cibeles. Það er einnig nálægt listasafninu Museo del Prado. Öll herbergin á þessu glæsilega hóteli eru loftkæld, með ókeypis þráðlausri internettengingu (Wi-Fi), gervihnattasjónvarpi og baðherbergi með hárþurrku. Á hótelinu er verönd með upphitaðri sundlaug og útsýni yfir Gran Vía. Hótelið býður upp á morgunverðarhlaðborð en einnig er að finna á hótelinu veitingastað sem býður upp á miðjarðarhafs- og alþjóðlega matargerð.

Hotel Real Segovia 4* í Segovia 
Real Segovia 4* hótelið er 37 herbergja hótel staðsett í 5 mínútna fjarlægð frá hinni fornu rómversku áveitubrú sem og dómkirkju borgarinnar. Öll herbergi hótelsins eru vel búin með sjónvarpi, síma, míníbar, loftkælingu, ísskáp, hárþurrku, straujárni og þráðlaust internet (Wi-Fi) svo eitthvað sé nefnt. Á hótelinu er kaffi- og veitingasalur þar sem boðið er upp á morgun-, hádegis- og kvöldverð.

Innifalið: Flug, skattar, innrituð 23 kg taska og handfarangur 10 kg. Gisting á 4* hótelum með morgunverðarhlaðborði. Tveir kvöldverðir og þrír hádegisverðir. Inngangseyrir og leiðsögn í: Alhambra og Generalife garðana, ólívusafnið „La Laguna“, listasafnið El Prado og í höllina El Escorial. Kynnisferð í Toledo, Segovia y Madrid. Rúta og íslensk fararstjórn.

Verð miðað við lágmarksþátttöku 16 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Spánar

1. sept / föstudagur
Flug með Primera Air til Almería á Spáni. Flugtak kl. 06:00, lending kl. 12:50 að staðartíma. Frá Almería til Granada eru 161 km (1 klst. 45 mín. akstur). Frjáls eftirmiðdagur í Granada. Granada er ein af þekktustu borgum Andalúsíu enda sérstök að mörgu leiti. Borgin liggur í hlíðum Sierra Nevada fjallanna sem er vinsælt skíðasvæði en borgin er líka aðeins í klukkutíma fjarlægð frá sólarströndum Miðjarðarhafs. Fyrir ofan borgina stendur  hin fræga Alhambra höll og tilheyrandi Generalife garðar en hún var byggð af márum á stjórnartíma þeirra á Spáni og er á heimsminjaskrá Unesco. Í Granada er m.a. að finna tvö fræg hverfi, annars vegar gamla arabahverfið Albaícin og hins vegar hverfið Sacromonte sem í er að finna tugi hella þar sem sígaunar settust að á 18.öld og búa í enn þann dag í dag. Flamenco tónlistin á rætur að rekja til Sacromontes hverfisins og sagt er að ljóðskáldið Federico García Lorca hafi oft lagt leið sína þangað og samið ljóð við flamencosöngva. Gisting á 4* hóteli með morgunverði í 2 nætur. Kvöldverður á hótelinu er innifalinn í verði. 

Dagur 2 – Dvalið í Granada

2. sept / laugardagur
Eftir morgunmat ökum við til hallarinnar Alhambra. Nafnið Alhambra kemur úr arabísku og þýðir „rauði kastalinn“. Hluti af honum var byggður á 9. öld e.Kr. en það var ekki fyrr en á miðri 13. öld sem máríski Emírinn Mohammed ben Al-Ahmar byggði höllina líkt og við þekkjum hana í dag. Árið 1492 voru márar reknir frá völdum í Granada en þá tóku kristnu konungshjónin Ferdinand og Isabella við völdum. Márarnir skildu eftir sig mikla arabíska arfleifð í borginni og þykir Alhambra höllin eitt besta dæmi mudéjarstíls á Spáni,  byggingarnar eru með fallegum gifs- og flísskreytingum og garðarnir með rennandi vatni og gosbrunnum. Við skoðum höllina og göngum um Generalife garðana og fræðumst um sögur staðarins undir öruggri leiðsögn leiðsögumanns frá Alhambrahöllinni. Eftir heimsóknina verður farið í hádegisverð á veitingastað sem staðsettur er í nautaatshring Granada. Seinni partur dags fáum við frjálsan tíma til að skoða borgina á eigin vegum.

Dagur 3 – Ólívusafn & Baeza

3. sept / sunnudagur
Við kveðjum Granada og höldum til bæjarins Baeza en á leiðinni ætlum við að heimsækja ólívusafnið „La Laguna“ sem er að finna mitt í víðfeðmum ólívuökrum Jaén héraðsins. Á safninu lærum við ýmislegt um ólívuræktun, gerð ólívuolíu, o.s.fr. Þegar heimsókninni líkur er ekið til bæjarins Baeza en hann er á heimsminjaskrá Unesco líkt og Úbeda, nágrannabær hans. Báðir bæirnir eru sérstakir, þar sem gamli bæjarhlutinn þeirra skartar mjög mörgum byggingum í gotneskum- og endurreisnarstíl. Við fáum okkur ljúffengan hádegisverð á veitingastað í Baeza. Frjáls tími seinnipart dags. Gist á 4* hóteli í Baeza.

Dagur 4 – Forna Toledo

4. sept / mánudagur
Við förum af hótelinu í Baeza eftir morgunmat og leggjum af stað til Toledo (Castilla la Mancha). Aksturinn tekur um 2,5 klst. Við komum okkur fyrir á Hótel Alfonso VI í Toledo en þar munum við gista næstu 2 nætur. Frjáls tími í Toledo. 

Dagur 5 – Dvalið í Toledo

5. sept / þriðjudagur
Toledo er mikil söguborg, hún var lengi vel aðsetur kónga Spána og því er að finna margar fallegar byggingar í borginni. Hún hefur líka verið nefnd borg hinna þriggja menninga því talið er að gyðingar, márar og kristnir menn hafi í lengri tíma búið í borginni í sátt og samlynd. Toledo hefur verið á heimsminjaskrá Unesco frá árinu 1986. Við byrjum daginn á því að fara í kynnisferð um borgina. Frjáls tími seinni part dags.

Dagur 6 – Madrid höfuðborgin

6. sept / miðvikudagur
Eftir góðan morgunmat kveðjum við Toledo og höldum til höfuðborgar Spánar, Madrid en þangað er um 1 klst. akstur. Í Madrid búa yfir 3 milljónir manns en ef að úthverfi borgarinnar eru talin með, eru íbúar yfir 5,5 milljónir talsins. Í þessari stórborg eru margar glæsilegar byggingar og borgin býður einnig upp á mikla fjölbreyttni og úrval áhugaverða staða. Við ætlum að fara í kynnisferð um borgina. Við heimsækjum einnig safnið El Prado, eitt aðal listasafn Spánar sem hefur að geyma mörg mikilvægustu listaverk Evrópu. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir El Prado á ári hverju enda er safnið talið eitt besta listasafn heims. Hérna er að finna verk eftir fræga listamenn eins og Goya, El Greco og Velázquez og því ætti engum að leiðast að skoða þetta merka safn. Frjáls tími seinnipart dags. Gist á 4* hóteli í Madrid.

Dagur 7 – Ávila og Segovia

7. sept / fimmtudagur
Eftir morgunmat er ekið af stað til Ávila (Castilla y León) en ferðin tekur um 1 klst. 20 mín. Það er mjög sérstakt að keyra upp að Ávila, gamli bærinn er umkringdur stærðarinnar múr frá miðöldum sem er yfir 2,5 km á lengd, afar vel varðveittur sem og aðrar sögulegar byggingar í bænum sem einnig eru í miðaldastíl. Ávila er á heimsminjaskrá Unesco frá árinu 1985 og er vel þess virði að fá að njóta þess að vera komin til miðalda í einn dag! Eftir hádegisverð og frjálsan tíma í bænum, er ekið til borgarinnar Segovia sem er í 67 km fjarlægð eða um 55 mín. akstursfjarlægð. Í Segovia er gist á 4* hóteli í miðbænum þar sem við fáum kvöldmat þegar við erum búin að koma okkur fyrir. 

Dagur 8 – Dvalið í Segovia

8. sept / föstudagur
Án efa er rómverska áveitubrú Segovia merkasta bygging borgarinnar, yfir 5 metra há og 818 m. löng. Gamli bærinn, ásamt áveitubrúnni eru á heimsminjaskrá Unesco, enda ekki hægt að sjá slíkar minjar í öllum borgum. Við förum í kynnisferð um Segovia og eigum síðan frjálsan tíma til að njóta okkar í þessari fallegu borg! Mælum með því að prófa grísasteik að hætti heimamanna, það svíkur engan!

Dagur 9 – Flogið til Íslands

9. sept / laugardagur
Við skráum okkur út af hótelinu í Segovia um morguninn og setjum töskurnar í geymslu á hótelinu. Frjáls tími í Segovia til kl. 15:00 en þá ætlum við að hitta rútuna okkar og aka til frægu hallararinnar El Escorial, staðsett í sveitum Madrid héraðs. Þessi mikla höll var byggð undir leiðsögn kóngsins Filipe II og arkitektanna Juan Bautista de Toledo og Juan de Herrera. Hún er 33.327 m2 og er talin ein merkasta bygging endurreisnarstíls í Evrópu, því kemur ekki á óvart að hún sé á Heimsminjaskrá Unesco. Höllin var lengi vel aðsetur kóngafólks Spánar og hér var það einnig grafið. Eftir að hafa skoðað þessa merku byggingu, höldum við í garðinn Parque de Europa. Garðurinn er opinn fyrir almenning og í honum er að finna ýmsar eftirlíkingar af þekktum evrópskum byggingum. Staðurinn er tilvalinn til þess að viðra okkur og fá okkur snarl áður en haldið er upp á flugvöll. Flogið er til Keflavíkur með Icelandair kl. 23:25. Komutími til Keflavíkur kl. 01:40. 

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7