Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Töfrandi borgir Marokkó

Agadir – Marrakech – Essaouira

Fararstjóri: Vilborg Halldórsdóttir

Í þessari ferð gefst farþegum tækifæri til að skyggnast inn í framandi heim Marokkó. Heimsóttar eru þrjár ólíkar borgir: Marrakech, Essaouira og Agadir.
Marrakech er forn konungsborg sem á rætur sínar að rekja til 11. aldar. Í dag er borgin fjórða stærsta borg Marokkó eftir Casablanca, Fez og Tanger. Í borginni er mikið um að vera, þá sérstaklega á miðbæjartorginu Djemaa El Fna en þar er einstök stemming. Sagt er að hvergi í Marokkó finnist betur þessi samruni gamla tímans og nútíma en í Marrakech, borgin dáleiði, töfri og kryddi upplifun þess sem sæki hana heim! Í Marrakech er dvalið fyrstu 5 næturnar.

Frá Marrakech er ekið til sjávarplássins Essaouira, þar sem gist er í 3 nætur. Essaouira er ein af elstu hafnarborgum Marokkó og hér er einnig vel varðveitt borgarvirki frá 18. öld sem er á Heimsminjaskrá Unesco (Medina of Essouira). Hér kvikmyndaði Orson Welles myndina Óþelló og upp úr 1970 fóru hipparnir að flykkjast í borgina. Í bænum er gaman að vafra um gamla bæjarhlutann en ólíkt Marrakech er auðvelt að rata um borgina. Essouira er einnig þekkt fyrir áhugaverðar verslanir og hér hefur þróast sérstakur naive myndstíll sem kallast Gnawa og finna má á markaðnum og í galleríum.

Síðustu 3 næturnar er dvalið í hinni vinsælu ferðamannaborg Agadir þar sem upplagt er að slaka á í sólinni, fara í arabískt Hammam nudd / gufubað og njóta góða veðursins! Agadir er einn af þessum einstöku áfangastöðum sem maður verður að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Borgin stendur við hinn fallega Agadir flóa, sem jafnan er talinn einn af þeim fallegri í heiminum en meðfram flóanum liggur gullin strandlengjan eins langt og augað eygir. Á þessum fallega stað skín sólin um 300 daga á ári en svæðið er umlukið fjöllum á einn veg og loftslagið því afskaplega milt og þægilegt. Notalegan andvara leggur svo frá hafi hinu megin frá, svo dagarnir verða aldrei of heitir.

Innifalið: Flug og skattar með Primera Air til og frá Agadir. Innrituð taska / 23 kg og handfarangur 10 kg. Gisting á 4* hótelum í 11 nætur í hálfu fæði (morgunverðarhlaðborð og kvöldverður). Hádegisverður daga númer 2, 3, 4, 6 og 8. Akstur og kynnisferðir samkvæmt ferðalýsingu. Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ekki innifalið: Aðrar kynnisferðir en þær sem tilgreindar eru í ferðalýsingu. Þjórfé til bílstjóra, innfæddra leiðsögumanna, o.s.fr.

Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ferðatilhögun er birt með fyrirvara. Heimsferðir áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Ferðast til Marrakech

9. maí / miðvikudagur
Flogið í beinu flugi með Primerair til Agadir. Brottför kl. 08:00 lending í Agadir kl 13:25 að staðartíma. Sami tími er í Marokkó og á Íslandi. Akstur til 4* hótelsins Atlas Asni í Marrakech en aksturinn tekur u.þ.b. 2 klst. 30 mín. Stoppað er á leiðinni til þess að grípa samlokur og teygja úr fótunum. Þegar komið er til Atlas Asni njótum við kvöldverðar á hótelinu. Gist er í 5 nætur á Atlas Asni í Marrakech.

Dagur 2 – Kynnumst Marrakech

10. maí / fimmtudagur
Eftir morgunverð förum við í kynnisferð um Marrakech en þessi forna borg er talin hafa verið byggð árið 1062. Við byrjum á að skoða hinn fallega Majorelle garð. „Le Jardin Majorelle“ er sköpunarverk franska málarans Jacques Majorelle (1886 – 1962) sem í dundaði sér við það af ástríðu í 40 ár að búa til þennan heillandi garð í hjarta borgarinnar.

Í garðinum má finna margar tegundir kaktusa ásamt ýmsum framandi plöntum alls staðar að frá heiminum, fallega gosbrunna og rennandi læki og laugar fylltar liljum og Lotus blómum. Franski tískuhönnuðurinn Ives Saint Laurent keypti garðinn og bjargaði honum frá niðurníðslu eftir dauða Majorelle og lagði sig fram við að halda garðinum í því ásigkomulagi sem Majorelle vildi hafa garðinn og að garðurinn yrði ávallt opinn almenningi.

Við höldum áfram að skoða þessa skemmtilegu borg, skoðum Koutoubia moskuna frá miðöldum, Bahia höllina og gamla borgarhlutann ásamt markaðnum sem er einskonar völundarhús sölubása. Boðið verður upp á hádegisverð á veitingastaðnum El Bahía sem eru fallegur veitingastaður í marokkóskum stíl. Seinni part dags ætlum við meðal annars að skoða hið fræga torg Djemaa El Fna en þar er einstök stemming. Á torginu má til dæmis sjá glæsilega dansara, ótrúlegt fimleikafólk leika listir sínar, aldna sögumenn, apa sem leika lausum hala og spilandi snákatemjara. Á kvöldin breytist ásjón torgsins en þá opnar aragrúi af veitingastöðum og framandi kryddilmur fyllir loftið. Við njótum svo kvöldverðar við þetta skemmtilega torg á veitingastaðnum „Islane“ áður en haldið er upp á hótel.

Dagur 3 - Dagsferð til Ourika

11. maí / föstudagur
Eftir morgunmat er haldið af stað til Ourika dalsins sem er hlíðum Atlas-fjallanna (um 1 klst. akstur). Áin Ourika rennur í gegnum dalinn og því er þó nokkur gróður í þessum dal og á vorin er mikið af villtum blómum. Dalurinn er heimastaður margra þekktra Berba ættbálka sem framfæra sér m.a. með ræktun á ólífu – og möndlutrjám. Boðið verður upp á hádegisverð á veitingastaðnum Chez Larbi. Seinni partinn er ekið að nýju af stað til Marrakech. Kvöldverður og gisting á Atlas Asni.

Dagur 4 – Asni & Ouirgane dalurinn

12. maí / laugardagur
Í dag er haldið til „Asni héraðsins“ en þar er þorpið „Asni“ sem stendur við rætur Toubkal fjallsins, hæsta tinds Norður Afríku (4.167 m.) Við ökum í gegnum fallegt landslagið, í gegnum mörg berbaþorp og heimsækjum fallegt stöðuvatn umkringt glæsilegum fjöllum. Eftir hádegisverð skoðum við mosku Tin Mel sem var byggð í byrjun 12. aldar en moskan er einnig opin þeim sem ekki eru múslimir. Seinni partinn förum við aftur til Marrakech. Kvöldverður og gisting á Atlas Asni.

Dagur 5 – Dvalið í Marrakech

13. maí / sunnudagur
Frjáls dagur í Marrakech. Kvöldverður og gisting á Atlas Asni.

Dagur 6 – Ferðast til Essaouira

14. maí / mánudagur
Eftir morgunverð höldum við til vesturstrandarinnar þar sem borgin Essaouira er. Á leiðinni munum við stoppa í sérstökum kaupfélögum kvenna sem selja hina víðfrægu arganolíu en framleiðslan hjá þeim er 100% lífræn.
Við fáum hádegisverð á veitingastað í Essaouira. Frjáls eftirmiðdagur. Gisting og kvöldverður á fjögurra stjörnu hótelinu Des Iles.

Dagur 7 – Dvalið í Essaoira

15. maí / þriðjudagur
Á flestum árstímum er nokkur vindur við strendur Essaouira sem gerir það að verkum að fólk leitar annað til að stunda sólböð. Borgin dregur hins vegar að sér brimbrettafólk og gesti sem koma hér á vorin og haustin til þess eins að reika um göturnar sem liggja innan borgarmúranna og ilma af kryddi, skoða verk listsala og verslanirnar eða horfa á hvernig hefðbundnir bátar eru smíðaðir, hvernig heimamenn veiða fiskinn sinn eða fá sér nýveiddan grillaðan fisk við höfnina. Eftir morgunverð ætlum við að fara í göngutúr um borgina með fararstjóra. Frjáls tími það sem eftir er dags í Essaouira. Kvöldverður og gisting á Des Iles.

Dagur 8 – Frjáls dagur m/fiskiívafi

16. maí / miðvikudagur
Frjáls dagur í Essaouria. Sameiginlegur hádegisverður á fiskiveitingastaðnum El Khamima. Kvöldverður og gisting á Des Iles.

Dagur 9 – Ferðast til Agadir

17. maí / fimmtudagur
Eftir hádegi ökum við af stað meðfram sjávarsíðunni til Agadir. Borgin stendur við hinn fallega Agadir flóa en meðfram honum liggur gullin strandlengjan eins langt og augað eygir. Sjá nánari upplýsingar um Agadir á vefsíðu Heimsferða / www.heimsferdir.is. Þegar komið er til borgarinnar ætlum við að heimsækja „Kasbah“ sem eru rústir af borgarmúr sem byggður var árið 1540 til varnar Portúgölum. Frá borgarmúrnum er gott útsýni yfir alla borgina. Kvöldverður og gisting á 4* hóteli þar sem gist er síðustu þrjár næturnar.

Dagur 10 – Dvalið í Agadir

18. maí / föstudagur
Frjáls dagur í Agadir. Í Agadir er fjölbreytt afþreying, hérna er til dæmis hægt að fara í marrókóskt nudd- og gufubað „Hammam“ með skrúbbi með svartri sápu sem er mikið notuð hér. Kvöldverður og gisting á 4* hóteli.

Dagur 11 – Dvalið í Agadir

19. maí / föstudagur
Frjáls dagur í Agadir. Kvöldverður og gisting á 4* hóteli.

Dagur 12 – Flogið til Íslands

20. maí / laugardagur
Um miðjan morgun höldum við af stað út á flugvöll. Flugtak frá Agadir kl. 15:45 og lending í Keflavík kl. 21:20 að staðartíma.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti