Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Sardinía

Sardinía er eitthvert best geymda leyndarmál Ítala, en hún hefur um áraraðir verið einn vinsælasti sumarleyfisstaður heimamanna. 

Eyjan þykir einstaklega fögur með heillandi andrúmsloft. Helsta einkenni eyjunnar er tær sjórinn og einhver hreinasta strandlengja sem Miðjarðarhafið státar af. Ósnortin náttúran skartar sínu fegursta og fjölbreytnin í landslaginu er slík að eyjunni hefur verið líkt við heila heimsálfu.  

Fararstjórar eru Ólafur Gíslason og Una Sigurðardóttir.

Sardinía er önnur stærsta eyja Miðjarðarhafsins næst á eftir Sikiley, 24.000 ferkm að stærð. Eyjan tilheyrir Ítalíu og hefur gert það síðan 1861. Strandlengjan er um 1.800 km löng að smáeyjum meðtöldum. Eyjan er 12 km sunnan við frönsku eyjuna Korsíku og hefur löngum verið sveipuð ævintýraljóma. 

Saga eyjarinnar einkennist af viðkomu og yfirráðum siglingaþjóða við Miðjarðarhafið: Fönikíumanna, Karþagómanna, Rómverja, Spánverja og hún var hluti af konungsríki Savoia-ættarinnar í Piemonte og Sardiníu áður en hún varð hluti ítalska konungsríkisins 1861. Elstu forsögulegu minjarnar á Sardiníu tilheyra svokallaðri Nuraga-menningu. Þær eru um 3000 ára gamlar og sjást víða. Það eru elstu minjar byggingarlistar við Miðjarðarhafið. Höfuðstaðurinn er Cagliari á suðaustur ströndinni.  

Vinsælustu ferðamannastaðirnir eru við norðurströndina og strandlengjan á norðaustur hlutanum, Costa Smeralda, er eftirlætis sumarleyfisstaður auðugra snekkjueigenda. Ströndin þar er mótuð af ævintýralegum veðruðum klettamyndunum úr grá-bleiku og sæbörnu graníti, ljósbleikum sandi og safírbláum sjónum. 

Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi á Sardiníu, hvort sem fólk leitar að gullfallegum ströndum, einmannalegri víðáttu, gömlum miðaldabæjum, fornminjum, golfvöllum eða einstakri gestrisni íbúanna.

Dvalið verður á norðaustur strönd Sardiníu við Costa Smeralda strandlengjuna. Yfir sumartímann margfaldast íbúatala vegna ferðamannastraumsins. Svæðið er einkum þekkt fyrir frábærar sandstrendur  af öllum stærðum og gerðum og er þetta svæði eftirlæti þeirra sem njóta sín best á brimbrettum. Einnig er þar smábátahöfn og mikið af seglskútum og bátum. Strandlengjan er vogskorin með litlum fallegum víkum með hvítum sandi og safírbláum sjó. Frábær staður til að fá sér sundsprett eða einfaldlega fá sér góðan göngutúr á ströndinni og njóta útsýnisins til allra átta.  Hægt er að fara í fjölbreyttar siglingar um skerjagarðinn úti fyrir ströndinni og til Magdalenu eyjunnar. Einnig er hægt að skreppa í dagssiglingu til hinnar frönsku Korsíku sem er skammt undan.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Kynnisferðir

Heimsferðir bjóða upp á kynnisferða með íslenskri fararstjórna á Sardiníu og farþegar okkar eru hvattir til þess að kynna sér hvað er í boði. Kynnisferðir eru bókaðar í bókunarferlinu eða hjá ferðaráðgjafa Heimsferða. Einnig er hægt að bóka kynnisferðir hjá fararstjóra Heimsferða þegar út er komið ef enn er laust í ferðirnar.

Vinsamlegast athugið að kynnisferðir með íslenskum fararstjóra eru háðar því að a.m.k. 20 manns bóki sig. Fararstjórar Heimsferða geta aðstoðað farþega við að bóka í ferðir með enskumælandi fararstjórum ef ekki næst næg þátttaka í ferð með íslenskum fararstjóra.

Eyjan Maddalena

Föstudagur 11. október kl. 9.00

Undan strönd Palau er undurfagur skerjagarður þar sem eyjarnar S. Stefano (Stefánsey), La Maddalena (Magdalenueyja) og Caprera (Hafursey) er að finna. Farþegar eru sóttir upp á hótel og stefnan tekin á bæinn Palau en þaðan er siglt í gegnum skerjagarðinn til Maddalenueyjar. Við fáum frjálsan tíma í gamla bæ Maddalenueyjar en þar eru fallegar sérverslanir og markaður með fersku sjávarfangi og öðrum vörum sem gaman er að skoða. Einnig geta gestir notið þess að setjast niður með drykk og einfaldlega notið umhverfisins og fylgst með hversdagslífi eyjaskeggja. Frá Maddalenu ökum við til eyjunnar Capera sem þykir afburðafalleg með grænbláum lónum og himneskum ströndum. Ekið er yfir brú sem liggur á milli eyjanna og á meðan bílferðinni stendur er upplagt að njóta fallegs útsýnisins yfir hafið og eyjarnar í kring. Á Caprera skoðum við m.a. búgarð Giuseppe Garibaldi sem var foringi þjóðfrelsishersins sem sameinaði Ítalíu í eitt konungsríki. Garibaldi settist að á eyjunni eftir sameininguna og er safnið merkileg heimild, ekki aðeins um hann heldur gefur það einnig innsýn í ítölsk sveitaheimili og búskaparhætti á 19. Öld.

Innifalið: Akstur, sigling, aðgangseyrir í búgarð Garibaldi og íslensk fararstjórn.
Ekki innifalið: Hádegisverður.

Sassari/Alghero

Sunnudagur 13. október kl. 9.00

Dagsferð til borganna Sassari og Alghero. Í upphafi ferðar er ekið til borgarinnar Sassari sem er önnur stærsta borg Sardiníu með um 130.000 íbúa. Borgin er í senn nútímaleg og virtur háskólabær, með mikið af sögulegum minjum, sér í lagi í gamla bæjarhlutanum. Sassari er líklega sá staður á Sardiníu sem hve best hefur varðveitt gömul handverk og listmuni heimamanna í gegnum tíðina. Við stoppum um stund í Sassari og heimsækjum fornleifasafnið Sanna sem var stofnað árið 1878 og gefur góða innsýn í þróun mannkynsins á eyjunni. Eftir hádegisverð er haldið til „katalónsku“ hafnarborgarinnar Alghero sem er á norðvestur strönd Sardiníu. Fallegur miðaldabær sem stundum er nefndur Barcellonetta (litla Barcelona) því þar má enn finna glögg merki frá veldistíma Spánarkonunga. Bærinn er miðstöð ferðamanna á þessum slóðum. Hjarta borgarinnar er umlukt borgarmúrum frá veldistíma Spánverja. Hægt er að ganga á borgarmúrnum með útsýni til hafs og inn í elsta bogarhlutann, þar sem fjöldi veitingastaða og verslana ásamt smærri gististaða þjóna ferðamannastraumnum í Alghero.

Innifalið: Akstur, aðgangseyrir í safnið Sanna og íslensk fararstjórn. 
Ekki innifalið: Hádegisverður.

Olbia/Porto Verco/Costa Smeralda

Mánudagur 14. október kl. 8.30

Ferðast er um Costa Smeralda ströndina sem er eitthvert fegursta strandsvæði Miðjarðarhafsins. Þar verður m.a. komið við á eftirlætis sumarleyfisstöðum hinna útvöldu („jet set“) í San Pantaleo, Baja Sardinia og Porto Cervo. Stutt kynnisferð um Porto Cervo, en bærinn er aðal ferðamannabærinn á þessu svæði. Farþegar fá frjálsan tíma til að skoða sig um í þessum fallega bæ, gaman er að ganga niður að höfninni og kíkja á lúxus snekkjurnar eða meðfram öllum fínu merkjavöruverslununum. Við mælum líka með að skoða kirkjuna „Stella Maris“ sem er einstaklega falleg. Byggingin er óhefðbundin en sjálf kirkjan er listaverk út af fyrir sig. Inni í kirkjunni er síðan að finna málverk eftir hinn fræga listmálara El Greco og 600 ára gamalt orgel. Olbia er næsti viðkomustaður og þar gefst okkur frjáls tími. Upplagt að fá sér hádegisverð því hér er mikið úrval veitingastaða. Á bakaleiðinni er stoppað á stað sem heitir Arzachena en þar skoðum við athyglisverða gröf Coddu Vecchju (giant´s grave Coddu Vecchju) en hún er talin frá árunum 1300 – 1800 e.Kr. og gefur okkur vitneskju um trúarbrögð Sardiníubúa fyrr á öldum.

Innifalið: Akstur, aðgangseyrir í Coddu Vecchiu og íslensk fararstjórn.
Ekki innifalið: Hádegisverður.

Nuoro/Orgosolo

Miðvikudagur 16. október kl. 8.30 

Ekið til Nuoro, þar sem hjarta Sardiníu slær! Bærinn er í 600 m hæð við rætur fjallsins Ortobene.  Bæjarbúar halda afar fast í gamla siði og hefðir í sínum daglegu störfum. Hér fæddist Garzia Deledda sem hlaut Nóbels verðlaunin í bókmenntum 1926. Farið er í kynnisferð um bæinn. Meðal annars skoðum við afar áhugavert safn tileinkað lífi og starfi Sardiníubúa í gegnum tíðina (þjóðminjasafn). Við höldum ferð okkar áfram til bæjarins Orgosolo, sem er hvað þekktastur fyrir skemmtilega málaðar veggmyndir (Murales)  sem sjást víða í bænum bæði á húsveggjum og hinum ýmsu byggingum. Upphaf þessara veggmynda má rekja til ársins 1960 þegar bæjarbúar létu í ljós sínar pólitísku-skoðanir  gegn  stjórnvöldum á afskaplega hljóðlegan og áhrifamikinn hátt. Í lok ferðar er svo ekta sardinísk sveitaveisla við opinn eld í skógarrjóðri í útjaðri bæjarins, þar sem við fáum að kynnast matarhefðum og bændamenningu eyjaskeggja með eftirminnilegum hætti.

Innifalið: Akstur, aðgangseyrir í þjóðminjasafn og íslensk fararstjórn. Hádegisverður er innifalinn.