Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Puglia á Ítalíu

Ítalía á sér margar hliðar sem  skemmtilegt er að kynnast. Sumar eru  betur þekktar  en aðrar en allar eiga þær sér það sameiginlegt að vera afar áhugaverðar hver á sinn hátt. Í þessari ferð könnum við spennandi slóðir undir einstakri fararstjórn Ólafs Gíslasonar listfræðings, sem þekkir menningu og listir lands og þjóðar flestum Íslendingum betur. Leiðin liggur um Puglia héraði á “hælnum” á Ítalíu-skaganum. Við skoðum margar áhugaverðar borgir, bæi, þorp kastala og komumst að syðsta hluta skagans. Einstaklega fjölbreytt og áhugaverð ferð þar sem við sjáum enn nýja hlið á Ítalíu.

Innifalið: Flug, skattar, 1 taska / 20 kg. Gisting á 4* hótelum í Bari og Lecce með morgunverðarhlaðborði. 4 kvöldverðir, 1 hádegisverður. Kynnisferðir og akstur samkvæmt dagskrá hér að ofan. Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 15 manns.
Ekki innifalið: Hádegisverðir, aðgangseyrir á söfn, tónleika, siglingar og aðrar kynnisferðir en þær er tilgreint eru ofan.

Ferðatilhögun

Dagur 1 - Flogið til Ítalíu

19. sept / þriðjudagur
Flug með Primera Air til Trieste. Flugtak kl 6:10. Lending í Trieste kl 12:10. Ekið frá flugvelli til miðbæjar Trieste. Trieste er falleg hafnarborg við Adríahafið og er höfuðborg Friuli-Venezia Giulia. Í borginni eru mikið af fallegum byggingum, tilkomumiklum torgum og breiðgötum. Boðið verður uppá létta gönguferð um miðbæinn. Um kvöldið er flogið er frá Trieste til Bari. Flugtak kl. 21:00 og lending kl. 22:30. Ekið frá flugvelli til hótels í Bari, þar sem gist verður næstu 5 næturnar á góðu hóteli í miðbænum.

Bari er höfuðstaður Puliga-héraðsins, og mikilvæg hafnarborg við sunnanvert Adríahafið. Þar er miðstöð viðskipta, m.a. við lönd við austanvert Miðjarðarhaf. Upphaflega var Bari grísk nýlenda og síðar rómverskur verslunarstaður. Eldri hluti borgarinnar stendur á höfða á milli gömul og nýju hafnanna. Þar eru gamlar og fallegar byggingar og torg frá 11.-12. öld, og þröngar og krókóttar götur sem gefa heilsteypta mynd af ítölskum miðaldabæ. Nýrri hluti Bari er nútímaleg borg með breiðstrætum, viðskiptamiðstöð, háskólahverfi og menningarstofnunum, leikhúsi, óperu, en þar er einnig úrval kaffihúsa, veitingastaða og verslana.

Dagur 2 - Létt gönguferð um Bari

20. sept / miðvikudagur
Við förum í létta gönugferð um borgina Bari. Skoðum meðal annars Dómkirkju heilags Nikulásar frá Bari, sem var vinsæll dýrlingur á Íslandi í kaþólskum sið og lifir enn í mynd jólasveinsins. Heilagur Nikulás var biskup í Myra í núverandi Tyrklandi á 4. öld, en sæfarar frá Bari höfðu líkamsleifar hans með sér á 11. öld og gerðu hann að verndardýrling borgarinnar. Eftir hádegið er frjáls tími til að skoða sig um í Bari.

Dagur 3 - Castel del Monte & Trani

21. sept / fimmtudagur
Eftir morgunverð er ekið til Castel del Monte, kastala sem byggður var á árunum 1240-1250 að frumkvæði Friðriks II. keisara af Hofenstaufen, sem ríkti yfir "Konungsríki tveggja Sikileyja" á 13. öld sem síðasti arftaki Normanna-konunganna er kristnuðu Sikiley á 11. öld og stofnuðu þar eitt öflugasta konungsríki miðalda í Evrópu. Kastalinn þykir eitt af furðuverkum evrópskrar byggingarlistar frá miðöldum og er á menningarminjaskrá UNESCO. Þaðan er ekið til sjávarbæjarins Trani við Adríahafið þar sem við skoðum einn af köstulum Friðriks II. og Dómkirkjuna sem kennd er við Heilagan Nikulás pílagrím. Í Trani ríkir andrúmsloft hins gamla fiskimannabæjar frá miðoldum sem laðar að sér fjölda ferðamanna á okkar tímum. Í bænum ríkir notalegt andrúmsloft sem heillar hina fjölmörgu ferðamenna sem heimsækja bæinn. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 4 - Sögufræga Matera

22. sept / föstudagur
Í dag er haldið til hinnar sögufrægu borgar Matera. sem talið er að Rómverjar hafi stofnað á 3. öld f. Kr. en á sér þó mun lengri sögu, því þar hafa fundist mannvistarleifar allt frá steinöld. Elsti hlutinn sem kallast Sassi di Matera stendur í hlíðum djúps dals (Gravina di Matera) sem vatn hefur sorfið niður í um 500 m háan móbergs- og kalksteinshrygg sem borgin stendur á. Sassi di Materra er í raun neðanjarðarborg, mynduð af hellum sem hafa verið mannabústaðir allt fram á 7. og 8. áratug síðustu aldar, þegar íbúarnir voru fluttir í nýrri byggingar uppi á fjallinu og gömlu hellabústaðirnir friðaðir. Hellabústaðirnir mynda í raun neðanjarðarborg þar sem íbúðarhús, bænahús, gripahús, vatnsbrunnar og forðabúr mynda einn samfelldan vef sem er samofinn landslaginu og yfir 2000 ára sögu. Sassi di Matera voru friðlýstir af Unesco sem "menningararfur mannkyns" árið 1993. Bærinn hefur verið sviðsmynd fjölda kvikmynda, m.a. kvikmyndar Pasolini um Mattheusarguðspjall, þar sem Matera er einn áhugaverðasti viðkomustaður okkar í þessari ferð og var skráður á minjaaskrá UNESCO 1993. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 5 - Frjáls dagur í Bari

23. sept / laugardagur
Nú gefst tími til að skoða Bari og nágrennið á eigin vegum.

Dagur 6 - Alberobello & Lecce

24. sept / sunnudagur
Í dag verður ekið í suðurátt til borgarinnar Lecce. Notum daginn vel og skoðum okkur um á leiðinni. Lagt verður af stað eftir morgunverð og ekið til Alberobello í Itria-dalnum sem er í hjarta Puglia-héraðs. Dalur "trulli"-steinhúsanna sem eru svo einkennandi fyrir þetta landssvæði. Hin víðfrægu “trulli” steinhús eru sívöl, næpulaga og hlaðin úr lausum náttúrusteini án sements fyrir um það bil 200 árum. Eitt sérstæðasta og fallegast landslag á Ítalíu þar sem gróðursælar hlíðar vaxnar ólívulundum og víngörðum skarta sínu fegursta með fjölda “trulli” steinhúsa á víð og dreif. Þessi steinhús eru einkenni Puligahéraðs og á heimsverndarskrá UNESCO. Höldum síðan til smábæjarins Cisternino þar sem boðið verður upp á hádegisverð með hinni sérstöku matreiðsluhefð héraðsins. Í lok dagsins er ekið til borgarinnar Lecce þar sem gist verður í 4 nætur. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 7 - Létt gönguferð í Lecce

25. sept / mánudagur
Í dag verður farið í létta gönguferð um miðbæinn. Við skoðum dómkirkjuna og umhverfi hennar og heimsækjum verkstæði og verslanir með sérstæðu listhandverki. Lecce er höfuðborg samnefnds héraðs, og nær yfir syðsta og austasta hluta Salento-skagans. Borgin Lecce er gjarnan nefnd Flórens hin syðri. Lecce er menningarmiðstöð héraðsins og státar af yfir 2000 ára sögu og háskóla auk þess sem hún er víðfræg fyrir byggirgarlist sína og heilsteypta borgarmynd frá barokk-tímanum, þegar hún var undir stjórn Aragon-vísikónganna frá Spáni Gamli bærinn er mikið uppáhald ferðamanna. Auðvelt að röllta þar um og skoða sig um. Þar er einnig fjöldi verslanna, kaffihúsa og veitingastaða sem bjóða uppá girnilega sérrétti héraðsins.

Dagur 8 - Frjáls dagur í Lecce

26. sept / þriðjudagur
Nú gefst tími til að skoða Lecce og nágrennið á eigin vegum.

Dagur 9 - Salentoskagi & Otranto

27. sept / miðvikudagur
Við hefjum daginn á því að aka til Santa Maria di Leuca sem er táin á Salento-skaganum þar sem styst er til Afríku. Einstök strandlengja með safírbláum ströndum vöxnum lágvöxnu Miðjarðarhafskjarri. Frá strandbænum S.maria di Leuca er ekið til Otranto, sem er austasti hafnarbærinn á Ítalíu og víðfrægur baðstrandarbær. Gamli miðbærinn Otranto telst meðal fegurstu bæja Ítalíu og var skráður á minjaskrá UNESCO 2010 sem "menningarborg friðarins". Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 10 - Flogið til Íslands

28. sept / fimmtudagur
Heimferð. Ekið til Bari en þaðan er flogið með Easyjet til Gatwick flugvallar. Flugtak kl. 16:40 – komutími til Gatwick kl. 18:30. Flug með WOWair til Keflavíkur kl. 21:00 og lending í Keflavík kl. 23:20.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7