Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Perlur Kúbu

Perlur Kúbu
Fegurstu staðir Kúbu í einni ferð
Fararstjóri: Ólafur Gíslason

Sannkölluð ævintýraferð 5. febrúar - 15. febrúar 2018 til Kúbu þar sem farþegar njóta og upplifa allt það besta sem þessi fagra eyja hefur uppá að bjóða. Ferð til Kúbu lætur engan ósnortinn og Íslendingar hafa svo sannarlega tekið ástfóstri við þessa eyju Karíbahafsins og heimsækja hana aftur og aftur og upplifa alltaf eitthvað nýtt og spennandi í hvert sinn. Hér kynnist maður stórkostlegri náttúrufegurð eyjunnar og þjóð sem er einstök í mörgu tilliti. Gamla Havana er ein fegursta borg frá nýlendutímanum, lífsgleði eyjaskeggja er einstök og viðmót fólksins heillandi. Í Havana er gist á góðu 4* hótel í Miramarhverfinu í Havana. Á meðan á dvöl stendur verður haldið í kynnisferð um borgina og nágrenni hennar. Eftir dvöl í Havana er ekið til Trinidad með viðkomu í Cienfuegos bænum. Hér kynnast farþegar þessari fallegu eyju nánar, náttúrufegurð hennar og skemmtilegu mannlífi. Í lok ferðar er dvalið í 2 nætur á góðu 4* hóteli á einni yndislegustu strönd Karíbahafsins í strandparadísinni Varadero.


Innifalið: Flug, skattar, innrituð taska 23 kg, gisting í 10 nætur. Morgunverður innifalinn í Havana. Allt innifalið í Trinidad og Varadero. Kynnisferðir samkvæmt ferðatilhögun. Akstur til/frá flugvelli og á milli áfangastaða. Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ekki innifalið: Aðrar kynnisferðir, ferðamannaáritun til Kúbu.

Ferðatilhögun

Dagur 1 - Flogið til Kúbu

5. febrúar / mánudagur
Flugtak frá Keflavík kl. 06:00. Lending kl. 11:50. Á leiðinni er millilent í Kanada til eldsneytistöku.

5. - 9. febrúar er dvalið í Havana
Dvalið 4* Miramar hótelinu í Havana, sem er um það bil 15 km frá miðborginni. Morgunverður innifalinn.

Dagur 2 - Borgarferð um Havana

6. febrúar / þriðjudagur
Gamli miðbærinn er friðlýstur af UNESCO og geymir minjar frá fyrri tíð. Hér er glæsilegur arkitektúr og á hverju ári er búið að gera upp fleiri af merkum byggingum borgarinnar. Við skoðum byltingartorgið, dómkirkjutorgið, casco antiguo (gamla hlutann), markaðinn heimsækjum vindlaverksmiðju ofl. Þá munum við einnig fara á slóðir rithöfundarins Hemingway. Hér er mikil saga á hverju horni.
Innifalið: akstur, hádegisverður, fararstjórn, aðgangur að vindlaverksmiðjunni og heimili

Dagur 3 - Frjáls dagur

7. febrúar / miðvikudagur
Dagur til að njóta lífsins í Havana.

Dagur 4 - Dagsferð til Vinales-dalsins

8. febrúar / fimmtudagur
Ekið til Pinar del Rio-héraðsins. Við lítum á borgina Pinar del Rio og höldum síðan til Vinales dalsins sem er algjör náttúruperla. Skoðum indíánahellinn þar og stoppum á útsýnisstað við Jasmin hótelið. Borðum þá hádegisverð í fögru umhverfi. Á bakaleiðinni heimsækjum við kúbverskt sveitaheimili.
Innifalið: akstur, hádegisverður og fararstjórn.

Dagur 5 - Ekið til Cienfugos

9. febrúar / föstudagur
Ekið frá Havana til Cienfuegos, um 4 klst. akstur. Bærinn var stofnaður árið 1819 af frönskum innflytjendum og margt áhugavert að sjá. Hádegisverður í Cienfuegos og síðan er farið í kynnisferð um bæinn áður en haldið er áfram til Trinidad, um 1 klst. akstur. Gisting og kvöldverður í Trinidad.

9. – 13. febrúar er dvalið í Trinidad
Dvalið á góðu 3*+ hóteli í Trinidad m/allt innifalið.

Dagur 6 - Borgarferð um Trinidad

10. febrúar / laugardagur
Trinidad er ein elsta borg Karíbahafsins, stofnuð af Spánverjum á 16. öld og er á minjaskrá UNESCO.

Dagur 7 - Topes de Collantes

11. febrúar / sunnudagur
Eftir morgunverð er ekið til Escambray fjallanna og þaðan áfram til La Sierrita dalsins þar sem áð verður í fallegum þjóðgarði, Guanayara Park. Þaðan verður ekið í “trukkum” að Centinelas del Rio Melodioso og haldið í gönguferð. Farþegar njóta hinnar undurfögru náttúru svæðisins sem einkennis af suðrænum gróðri með fossum og sérkennilegum fuglum. Borðaður verður hádegisverður. Í lok ferðar gefst tækifæri að fá sé sundsprett áður en haldið er til baka. Gisting og kvöldverður í Trinidad.
Þessi ferð hentar ekki fólki sem á erfitt með gang. Þeir sem ekki geta tekið þátt í þessari ferð njóta lífsins á hótelinu í Trinidad.

Dagur 8 - Frjáls dagur

12. febrúar / mánudagur
Frjáls dagur í hinni fögru Trinidad. Um kvöldið er fyrirhugað að fara á skemmtistað í Trinidad þar sem við hlustum á kúbverska tónlist eins og hún gerist best. Gisting og kvöldverður í Trinidad.

Dagur 9 - Ekið til Varadero

13. febrúar / þriðjudagur
Ekið til Santa Clara. Þar skoðum við m.a. grafhýsi Che Guevara. Þaðan er ekið til Varadero þar sem gist verður síðustu 2 næturnar á góðu 4* hóteli m/allt innifalið á Varadero ströndinni.

13. – 15. febrúar er dvalið í Varadero.
Dvalið á góðu 4* hóteli í Varadero m/allt innifalið

Dagur 10 - Frjáls dagur

14. febrúar / miðvikudagur
Frjáls dagur til að njóta alls þess besta sem Varadero býður uppá.

Dagur 11 - Flogið til Íslands

15. febrúar / fimmtudagur
Brottför frá Varadero kl. 15:20 og lending í Keflavík kl. 05:40 að morgni 16. febrúar að staðartíma.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti