Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Deildu dvölinni í Marokkó

Deildu dvölinni í Marokkó!

Njóttu þess að dvelja í Marrakech í 3 nætur á Hotel Savoy Le Grand 5* og 6 nætur í Agadir á Royal Atlas Agadir 4*+, m/morgunmat innifalinn allan tímann

Í Marrakech er að finna hið fræga torg borgarinnar Djemaa El Fna en þar er einstök stemning. Á torginu má til dæmis sjá glæsilega dansara, ótrúlegt fimleikafólk leika listir sínar, aldna sögumenn, apa sem leika lausum hala og spilandi snákatemjara. Þar er margt að skoða, t.d. Koutoubia moskuna frá miðöldum, Bahia höllina og gamla borgarhlutann ásamt markaðnum sem er einskonar völundarhús sölubása. Að kvöldi dags breytist ásjón torgsins Djemaa El Fna en þá verður torgið að einum stærsta veitingastað í Marrakech – og framandi kryddlyktin fyllir loftið og gefur fyrirheit um góða máltíð. 

Agadir er stærsti sólstrandarstaður Marokkó en Agadir er einn af þessum einstöku áfangastöðum sem maður verður að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Borgin stendur við hinn fallega Agadir flóa, sem jafnan er talinn einn af þeim fallegri í heiminum en meðfram flóanum liggur gullin strandlengjan eins langt og augað eygir. Á þessum fallega stað skín sólin um 300 daga á ári en svæðið er umlukið fjöllum á einn veg og loftslagið því afskaplega milt og þægilegt. Notalegan andvara leggur svo frá hafi hinu megin frá, svo dagarnir verða aldrei of heitir. 

Strandlengjan í Agadir er um 9 km, en við ströndina er nýleg 6 km löng strandgata sem iðar af mannlífi, en hér er fólk að spóka sig frá morgni til kvölds, á göngu, úti að skokka eða bara sitja og horfa á mannlífið. Á aðra höndina eru veitingastaðir, hótel og barir en á hina liggur breið og falleg ströndin. Snekkjubátahöfnin í Agadir er við annan enda göngugötunnar, en hún er hönnuð í stíl við hinar andalúsísku „marina“ sem svo margir þekkja frá Spáni, með um 300 bátalægi fyrir skútur og snekkjur alls staðar að úr heiminum, umlukin lúxusíbúðum og verslunum. Höfnin í Agadir kemur svo í framhaldinu og þar er afskaplega margt um manninn eins og gefur að skilja, en hér má sjá fiskibáta af öllum stærðum og gerðum, allt upp í stóra togara, hér eru fiskimarkaðir, slippur og menn og konur að karpa um verð og gæði aflans. Einnig má svo sjá fiskimenn elda á staðnum og gæða sér á gómsætum aflanum.

Flogið er til Agadir í Marokkó og ekið frá flugvellinum til Marrakech og dvalið þar í 3 nætur. Athugið! Dvölin í Marrakech er án fararstjórnar og því farþegar á eigin vegum. Þá er ekið til Agadir og dvalið þar í 6 nætur með íslenskri fararstjórn Heimsferða en að dvöl lokinni er ekið til flugvallarins í Agadir. Allur akstur er innifalinn.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti