Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Listin að lifa - Ferð um Andalúsíu

0

Ása Marin Hafsteinsdóttir24. maí í 11 nætur

Andalúsíubúar eru þekktir fyrir að kunna að njóta lífsins, eiga glaðar stundir og vera ekki alltaf á hraðferð heldur njóta augnabliksins hverju sinni. 
Markmið þessarar ferðar er að allir finni tíma til þess að slaka á í sjarmerandi umhverfi og hlaði orkustöðvarnar.

Því er ferðin ekki uppsett með stífu prógrammi. Reynt er að finna jafnvægi á milli þess að heimsækja áhugaverða staði og frjáls tíma sem hver og einn getur notað að vild. Gist er í Ronda í 5 nætur á glæsilegu 4ra stjörnu hóteli „Catalonia Reina Victoria“ þar sem finna má sundlaug og heilsulind. Í Granada er gist í 2 nætur á vel staðsettu hóteli í miðbæ Granada sem heitir „La casa de la trinidad“ og síðustu 4 næturnar er gist í Malaga á „Salles Malaga Centro“ sem er einnig fallegt 4ra stjörnu hótel með sundlaug (morgunverður innifalinn á öllum hótelunum). Fararstjóri mun bjóða upp á göngutúra og afþreyingu í ferðinni en prógrammið er að mestu leyti valfrjálst og getur því hver og einn ákveðið hvort hann vilji fara með hverju sinni.

Verð: 254.000 kr. á mann m.v. 2 í herbergi og 359.995 kr. á mann m.v. 1 í herbergi
Fararstjóri: Ása Marin Hafsteinsdóttir

Hápunktar ferðarinnar
 • Dagsferð til Sevilla
 • Alhambra höllin
 • Fjallabærinn Ronda
 • Ekta spænskir gítartónleikar
 • Granada og Albaicín hverfið
 • Göngutúr á Malagueta ströndinni
Og margt fleira...

Ferðatilhögun

Dagur 1
Ferðast til Ronda
Ferðast til Ronda

Flogið með Neos til Malaga á Spáni. Áætlað flugtak kl. 07:45, lending kl. 14:15 að staðartíma.

Frá Malaga til Ronda eru um 102 km og tekur um 1,5 klst. að aka þangað.

Ronda er afar fallegur bær með u.þ.b. 36.000 íbúa. Bærinn er einn þekktasti fjallabær Málaga og er 100 metra há gjá sem klýfur bæinn í tvennt helsta kennileiti hans. Einnig er nautaatshringur Ronda talinn einn af elstu og merkustu nautaatshringjum Spánar.

Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á hótelinu er rölt með fararstjóra um bæinn til að staðsetja sig og fá hugmyndir um hvað er hægt að gera í bænum í frjálsa tíma ferðarinnar.

Dagur 2
Frjáls dagur og gítartónlist inn í nóttina
Frjáls dagur og gítartónlist inn í nóttina

Á þessum fyrsta morgni í Ronda fer hver af stað inn í daginn á sínum hraða og nýtur þess að vera komin á þennan yndislega stað. Hægt er að slaka á með góða bók við sundlaugarbakkann, panta sér dekur í heilsulind hótelsins eða rölta niðri í bæ. 

Um sex leytið hittist hópurinn í móttökunni og gengur saman á sjarmerandi bar. Þar skálum við fyrir fríinu og öllu góðu í lífinu. Því næst höldum við á gítartónleika þar sem leikin eru bæði klassísk lög og flamenco. Eftir ljúfa tóna, sem sannarlega draga fram stemmingu Andalúsíu, verður í boði að fara með fararstjóra á tapasbar þar sem hægt er að smakka úrval smárétta sem kitla bragðlaukana (tapasréttir ekki innifaldir – greitt á staðnum).

Dagur 3
Sevilla
Sevilla

Við byrjum daginn snemma því við ætlum að aka til borgarinnar Sevilla sem er höfuðborg Andalúsíuhéraðs. Haldið er af stað frá Ronda kl. 09:00 og geta þeir sem eru syfjaðir lagt sig í rútunni (1 klst og 45 mín akstur).

Við sjáum m.a. La Torre del Oro (Gullturninn), borgarmúrinn, Plaza de Espana (spænska torgið), gyðingahverfið, verslunargötuna Tetuan og glæsilega dómkirkjuna, sem er þriðja stærsta dómkirkja í heimi.

Lagt verður af stað frá Sevilla kl. 18:00 þannig að það ætti að gefast góður tími til að kynnast þessari fallegu borg, bæði með leiðsögn og á eigin spýtum.

Dagur 4
Gönguferð í Jardines de Cuenca
Gönguferð í Jardines de Cuenca

Fararstjóri mun bjóða upp á 3ja km morgungöngu.

Stígarnir eru góðir þannig að það er jafnvel hægt að vera í sandölum. Gengið er fram hjá rósagörðum Jardines de Cuenca, máraböðum og gömlum borgarmúr sem márar reistu upphaflega í kringum Ronda.

Um er að ræða léttgöngu og ættu því allir að geta tekið þátt.

Dagur 5
Ronda
Ronda

Frjáls dagur í Ronda.

Dagur 6
Ronda - Granada
Ronda - Granada

Eftir morgunmat er haldið með rútu til borgarinnar Granada sem er í u.þ.b. 2 klukkutíma fjarlægð.

Í Granada búa um 240.000 manns og þangað koma þúsundir erlendra nema í skiptinám á ári hverju. Höllin Alhambra gnæfir upp í hæðum yfir borginni en hún, ásamt Generalife görðunum, var byggð af márum en þeir bjuggu á Spáni í yfir 700 ár.

Seinnipartinn höldum við upp í Alhambra höllina og skoðum þetta einstaka mannvirki.

Dagur 7
Granada
Granada

Fyrir þá sem vakna hressir verður í boði göngutúr með fararstjóra upp í Albaicín hverfið.

Stoppað verður við útsýnispallinn „Mirador San Nicolás“ en þaðan er útsýnið yfir borgina og Alhambra höllina hreint út sagt frábært.

Seinnipartinn er einnig valfrjálst að heimsækja dómkirkjuna og kapelluna „Capilla Real“.

Dagur 8
Granada - Malaga
Granada - Malaga

Haldið er til Malaga í rólegheitunum upp úr hádegi.

Aksturinn tekur um 1 klst og 30 mín. Í Malaga búa u.þ.b. 570.000 manns. Hér er mikið úrval af afþreyingu og verslunum, gaman að rölta um gamla bæinn, kíkja niður á höfn eða á ströndina „Playa de la Malagueta“ og slaka á í sandinum.

Dagur 9
Malaga
Malaga

Við byrjum daginn með morgungöngu niður að strönd.

Gengið er meðfram strandlengjunni til Pedregalejo (um 5 km) og þar er hægt að fá sér kaffisopa áður en farið er með strætó til baka til Malaga (muna að hafa klink með sér fyrir strætó!).

Þeir sem vilja sleppa göngutúrnum geta gengið með niður á strönd og flatmagað á ströndinni í Malaga eða nýtt daginn til annars.

Dagur 10
Malaga
Malaga

Frjáls dagur. Hægt að skoða eitthvert safnanna sem finna má í Málaga;

Pompidou safnið, Picasso safnið, frábært flugvélasafn, bílasafn og glermunasafn eru meðal áhugaverða safna í borginni.

Hægt er að skoða minjar rómversks leikhúss sem enn er að finna inn í borginni. Einnig er hægt að fara í gullfallegan grasagarð „La Concepción“ eða í afslöppun í „Hammam Al Andalus“ þar sem hægt er að fara í arabísk böð og fá afslöppunarnudd.

Dagur 11
Malaga
Malaga

Síðasti dagurinn til þess að kíkja í búðir, á söfn, sleikja sólina á ströndinni eða njóta aðstöðunnar á hótelinu!

Dagur 12
Flogið heim
Flogið heim

Farið verður af stað út á flugvöll Malaga um hádegi.

Flogið frá Malaga kl. 14:35 með Neos í beinu flugi til Íslands. Komutími í Keflavík kl. 17:45.

Bóka

Úps! Hér er bara ekkert að finna Vinsamlegast kannaðu hvort rétt lengd ferðar og/eða brottför er valin. Einnig er þér velkomið að hringja í ferðaráðgjafa okkar í síma 595-1000 fyrir nánari aðstoð

Innifalið í ferðinni

 • Flug & skattar
 • Farangursheimild - 20 kg. innritaður & 5 kg. handfarangur
 • Gisting í 5 nætur á 4* hótelinu Catalonia Reina Victoria í Ronda m/morgunverði
 • Gisting í 2 nætur á hótelinu La Casa de la Trinidad í Granada m/morgunverði
 • Gisting í 4 nætur í Malaga á hótelinu Salles Malaga Centro m/morgunverði
 • Heilsdagsferð til Sevilla á degi 3
 • Fordrykkur og gítartónleikar
 • Aðgangseyrir í Alhambra
 • Göngutúrar/kynnisferðir með íslenskri fararstjórn (á degi 1, 2, 3, 4, 6, 7 og 9)
 • Akstur samkvæmt ferðalýsingu (á degi 1, 3, 6, 8 og 12)
 • Íslensk fararstjórn á meðan á allri ferðinni stendur sem er hópnum innan handar

Ekki innifalið

 • Annað sem ekki er tekið fram í listanum yfir „innifalið“

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti