Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Leyndardómar Sri Lanka

Keflavík – Colombo – Dambulla – Kandy – Nuwara Eliya – Yala – Beruwela – Colombo – Keflavík


Einstaklega áhugaverð ferð til Sri Lanka 9. október í 13 nætur en þar af er gist í 11 nætur á hótelum. Sri Lanka er stórkostleg eyja út af suðaustur strönd Indlands. Eyjan er heimili margra menningarheima tungumála og þjóðernis. Sri Lanka var þekkt frá upphafi bresku nýlendustjórnarinnar sem Ceylon allt til ársins 1972. Fallegt landslag fagurgrænir regnskógar, hvítar strendur og fjölskrúðugt dýralíf er aðeins brot af því sem að þessi fallega eyja hefur upp á að bjóða. Tímalausar rústir, hlýlegt fólk, hagstæð verð og bragðgóður matur er aðeins hluti af því sem gerir Sri Lanka ómótstæðilegt. Fáir staðir hafa eins margar fornminjar á skrá UNESCO á svo litlu svæði og Sri Lanka.
Helstu undirstöður efnahags Sri Lanka eru ferðaþjónusta,fataframleiðsla og landbúnaður. Sri Lanka hefur lengi verið þekkt fyrir framleiðslu á kanill, hrágúmmí og tei.

Íbúar Sri Lanka eru um 20 milljónir og þar af búa rúmlega 5 milljónir í stærstu borginni Colombo. Einungis 50 km breitt sund skilur eyjuna frá Indlandi. Tímamismunur á Sri Lanka og Islandi er 5,5 klst. Þegar klukkan er 20:00 í Sri Lanka er hún 14:30 á Íslandi. Gjaldmiðillinn er Sri Lanka rúpía LKR.

Ferðin hefst í Colombo þar sem að við gistum fyrstu 2 næturnar. Fjölmargar áhugaverðar kynnisferðir eru innifaldar í ferðinni og þess ávallt gætt að heimsækja áhugaverða staði eins og Sigirya virkið / ljónakletturinn, forn hof og fleira. Skoðum te-ekrur og kryddræktun einnig förum við á „munaðarleysingjaheimili“ fyrir fíla og ævintýralegt jeppasafarí um Yala þjóðgarðinn sem eru heimkynni fíla, krókódíla og fleiri framandi dýra.

Innifalið: Flug, skattar, innrituð 30 kg taska, gisting í 11 nætur á 3*+ og 4* hótelum með morgun- og kvöldverði á hótelunum ásamt 5 hádegisverðum. Kynnisferðir skv. ferðatilhögun. Aðgangseyrir þar sem við á. Ferðmannaáritun og íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið: Annað sem ekki kemur fram í ferðatilhögun.

Staðfestingargjald 80.000.- á mann

Netverð á mann í tvíbýli 429.895.- aukagjald fyrir einbýli 110.000.-

Miðað við lágmarksþátttöku 20 manns

Ferðatilhögun

Dagur 1/2 – Ferðast til Colombo

9.-10. október / þriðju-miðvikudagur
Flogið með Icelandair til London og þaðan með Qatar til Colombo með millilendingu í Doha. Brottför frá Íslandi 9. október kl.16:10 og lent í Colombo 10. október kl.17:45. Lent verður á Bandaranaike flugvellinum rétt fyrir utan Colombo og þaðan ökum við til Colombo sem er stærsta borg Sri Lanka með 5,6 milljónir íbúa. Hópurinn skráir sig inn á Hilton Colombo hótelið þar sem dvalið verður næstu 2 nætur. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 3 – Dvalið í Colombo

11. október / fimmtudagur
Eftir morgunverð, höldum við í kynnisferð um borgina. Við heimsækjum Colombo Fort, gömlu stjórnsýslu- og viðskiptamiðstöðina þar sem aðal bankar landsins eru til húsa. Við skoðum einnig Pettah bazarinn, götu gullsmiðanna og þræla eyjuna (slave island) þar sem hindú musterið Sri Murugan er. Ráðhúsið og Viharamahadevi garðurinn er einn af okkar viðkomustöðum og einnig skoðum við Cinnamon garðana og þann borgarhluta sem hýsir yfirstétt Colombo. Í lok kynnisferðar er ekið framhjá torgi sjálfstæðisins, aþjóðlegu ráðstefnuhöllinni BMICH og við endum á viðkomu í ODEL innkaupaparadísinni þar sem hægt er að kaupa merkjavöru á mjög góðu verði. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 4 – Sigiriya „Ljónakletturinn“

12. október / föstudagur
Eftir morgunverð höldum við af stað til Sigiriya en Sigiriya er fornt virki staðsett inn í miðju landi nærri borginni Dambulla. Fornleifarannsóknir á Sigiriya benda til þess að hér hafi verið þróað samfélag þar sem arkitektúr, verkfræði og listir voru í hávegum höfð. Það tók 7 ár að byggja Sigiriya og er virkið nú á heimsminjaskrá Unesco. Það var konungurinn Kasyappa sem lét byggja virkið á 5.öld upp á 200 metra háum kletti og það má sjá hvernig hluti af klettinum er mótaður eins og risastórt ljón, þaðan kemur nafnið Sigirya /Sinhagiri sem þýðir “Ljónaklettur”. Á efri hluta klettarins má sjá móta fyrir fornteikningum (“frescur”). Eftir að konungurinn Kasyappa dó var virkið yfirgefið en seinna var það notað sem Búddaklaustur. Við endum daginn á hótelinu Amaya Lake þar sem við munum gista næstu 3 nætur. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 5 – Polonnaruwa&Minneriya

13. október / laugardagur
Við förum í dagsferð og byrjum á borginni Polonnaruwa sem er ein elsta borg Sri Lanka. Þar skoðum við helstu kennileiti þessarar fornu borgar og byrjum daginn á því að fara í fornleifasafnið. Eftir heimsóknina á safnið skoðum við rústir bæði hallar konungsins Prarakrama Bahu hins mikla og fjögurra mikilvægra hofa Polonnaruwa: Thuparamaya, Hringhofið (Vatadage), gamla hof hinnar heilögu tannar og hof Sath Mahal Prasadaya. Við sjáum einnig hinn fræga stað Galvihara þar sem gengið er undir berum himni á milli risastórra Búddalíkneskja sem höggvin eru inn í granítstein.

Eftir heimsóknina til Polonnaruwa höldum við til Minneriya sem er þjóðgarður. Á þessu svæði Sri Lanka eru meiri þurrkar en á öðrum svæðum í landinu og því leita dýr úr nærliggjandi skógum hingað til að drekka vatn úr lóni sem er í þjóðgarðinum. Hérna er jafnvel hægt að sjá fíla, og mögulega fílahjarðir ef við erum heppin. Eftir skemmtilegan dag höldum við aftur hótelið þar sem við fáum kvöldverð áður en lagst er til hvíldar. Kvöldverður á hótelinu. 

Dagur 6 – Dagsferð í Dambulla hofið

14. október / sunnudagur
Eftir morgunverð höldum við til bæjarins Dambulla en í Dambulla er að finna merkilegt hof frá 1. öld f. Kr. Hofið var notað sem athvarf af konunginum Valagambahu frá Anuradhapura þegar hann var rekinn í útlegð. Hofið er á heimsminjaskrá Unesco og er samansafn af 5 hellum sem í er að finna fjölmörg Búdda- og helgilíkneski en einnig eru hellarnir fagurlega skreyttir teikningum frá 15. til 18. öld. Við eyðum deginum í Dambulla og höldum síðan aftur á hótelið. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 7 – Ferðast til Kandy

15. október / mánudagur
Þennan dag liggur leið okkar til bæjanna Matale og Kandy. Á þessu svæði er mikið um ræktun á grænmeti, te og kryddi. Í Matale ætlum við að heimsækja kryddgarða og fá innsýn í mismunandi krydd sem hér eru ræktuð og eru mikið notuð í Sri Lanka. Fyrir þá sem vilja er hér í boði endurgjaldslaust 15 mínútna nuddmeðferð þar sem notaðar eru olíur sem búnar eru til með mismunandi kryddjurtum úr görðunum. Því næst höldum við til Kandy og við byrjum á að innrita okkur inn á hótelið Amaya Hills þar munum við gista næstu 2 næturnar.

Kandy er miðstöð Sinhalese menningar og Búddisma í Sri Lanka og var síðasta aðsetur konunga Sri Lanka. Kandy er á heimsminjaskrá Unesco, aðallega vegna þess að hér er staðsett „Musteri hinnar heilögu tannar“ eða Daladamaligawa. Sagan segir að þegar Búdda dó árið 543 f. Kr. hafi líkami hans verið brenndur en augntönn hans fannst svo í öskunni. Augntönnin var síðan gefin konungi og með tímanum jókst sú trú að sá sem geymdi tönn Búdda hefði rétt á að stjórna landinu. 800 árum seinna var meira að segja efnt til stríðs um hver ætti að halda þessari frægu tönn. Musterið, sem til forna var konungshöll, stendur við vatnið Kandy og er mikill sjarmi og ró yfir staðnum. Fyrir ofan borgina er einnig mikið fuglalíf.

Seinni part dags höldum við í menningarsetur í borginni og sjáum þar hefðbunda dansa innfæddra. Við ljúkum síðan deginum með því að heimsækja Musteri hinnar heilögu tannar þar sem við munum vera viðstödd athöfn þar sem heilagt líkneski Búdda er vígt („pooja“). Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 8 – Dagsferð til Pinnawala

16. október / þriðjudagur
Eftir morgunverð er haldið til Pinnawala en þar er munaðarleysingaheimili fyrir fíla. Heimilið var opnað árið 1975 með nokkrum fílsungum og með tímanum hefur staðurinn þróast í stóran ferðamannastað. Fílsungunum er gefin mjólk í pela og þeir eru baðaðir í nærliggjandi ánni Maha Oya. Það er gaman að horfa á hve vel fílarnir skemmta sér í baðinu og því ekki skrítið að margir stoppi hér til að skoða þessi fallegu dýr. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 9 – Ferðast til Nuwara Eliya

17. október / miðvikudagur
Eftir morgunverð ökum við af stað til Nuwara Eliya. Ekið er í gegnum te akra, við heimsækjum teverksmiðju og sjáum hvernig svart te er búið til. Við fáum einnig að prófa ferskt og hressandi teið! Borgin Nuwara Eliya eða „Litla England" eins og hún er einnig kölluð, er byggð í næstum 2.000 metra hæð. Héðan sést til hæsta fjalls Sri Lanka, Pidurutalagala sem er 2.524 metra hátt. Í Nuwara Eliya og nágrenni er margt sem minnir á það að Bretar byggðu upp borgina á 19. öld en á þeim tíma var hún vinsæl meðal Breta því hérna stunduðu þeir áhugamál sín eins og veiðar á dádýrum, fílum og refum eða spiluðu polo, golf og kriket. Í dag er hér að finna glæsilegan 18 holu golfvöll, fyrir utan margar fallegar byggingar í Victoriu stíl. Á þessu svæði er einnig mesta framleiðsla landsins á tei og borgin er enn vinsæll áfangastaður bæði meðal innlendra sem erlendra gesta til að eyða fríinu sínu því hér er svalara en á öðrum stöðum í landinu. Gist verður á Blackpool hótelinu í Nuwara Eliya næstu nótt. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 10 – Ferðast til Yala

18. október / fimmtudagur
Nú liggur leiðinni til Yala en Yala er annar stærsti þjóðgarður Sri Lanka og er staðsettur við Indlandshaf. Á leið okkar þangað heimsækjum við Little Adams Peak og njótum fallegs útsýnis. Við komum okkur fyrir á Laya Safari hótelinu í Yala. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 11 – Yala þjóðgarðurinn

19. október / föstudagur
Tökum daginn snemma og höldum í jeppasafarí þar sem við munum aka um kjarri gróið land, sléttur, kletta og vötn. Á þessum slóðum er mikið dýralíf og vonandi sjáum m.a. dádýr, krókódíla, fíla, villisvín, apa og búffaló-naut. Erfiðara er að sjá birni og hlébarða en maður veit aldrei! Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 12 – Ferðast til Beruwela

20. október / laugardagur
Eftir morgunverð á hótelinu kveðjum við Yala og höldum til Beruwela. Við munum gista næstu nótt á The Palms hótelinu sem er staðsett við strandlengjuna en hægt er að ganga úr garðinum beint út á fallega ströndina. Nú er tilvalið að slaka á við ljúfan ölduniðinn frá sjónum og láta sér líða vel! Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 13/14 – Beruwela&Heimferð

21/22. október sunnu- / mánudagur
Frjáls tími í Beruwela. Kvöldverður á hótelinu
Brottför frá hóteli rétt fyrir miðnætti 21. október en athugið að við verðum með herbergin fram að brottför.

Flogið er frá Colombo 22. október kl. 03:15 til Osló með millilendingu í Doha og þaðan til Íslands en áætluð lending er kl. 15:25 í Keflavík.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti