Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Indland & Nepal

0

Framandi ferð til Indlands og Nepal

11. október

Dehli – Agra – Jaipur – Varanasi – Katmandu – 13 nátta ferð

Fararstjóri: Brynjar Karlsson

Það er draumur margra að ferðast á nýjar slóðir og kynnast siðum og menningu annarra þjóða. Það er líka ákaflega gefandi og lærdómsríkt að öðlast þekkingu á ólíkum menningarheimum og án efa, búum við að þeirri reynslu alla ævi. Heimsferðir kynna stolt nýja ferð um Indland og Nepal. Við upplifum öngþveiti stórborgarinnar Nýju Delhi og sjáum  grafhýsið Taj Majal í Agra ásamt öðrum stórkostlegum virkjum, höllum og hofum. Við skoðum heilaga ána Ganges í Varanasi og sjáum hvernig trúarathafnir við ána fara fram. Við kynnumst borginni og lífinu í Kathmandu í Nepal. Auk þess sem við upplifum ekta Bollywood stemmingu í frægum bíósal í borginni Jaipur, förum á fílsbak og endum ferðina á því að fara á söngleik og í heimahús í Delhi þar sem við höldum veislu að indverskum hætti.

Verð er miðað lágmarksþátttöku 16 manns. 

Hápunktar ferðarinnar
 • Íslenskur fararstjóri
 • Gisting í 13 nætur á fjögurra til fimm stjörnu hótelum
 • Fullt fæði innifalið (morgunverður, hádegisverður og kvöldverður)
 • Reiðtúr á fílsbaki í 40 mín. og ferð í jeppum á bakaleið
 • Ferð í hjólvagni (Rickshaw)
 • Sigling í Varanasi
 • Jógatími í Varanasi
 • Söngleikur í Kingdom of Dreams
Og margt fleira...

Ferðatilhögun

Dagur 1
Brottför
Brottför

11. október / föstudagur

Brottfarartími frá Keflavík kl. 09:25. Flogið er með Finnair með viðkomu í Helsinki, lent að nóttu til í Nýju Delhi (12. október kl. 05:25). Farþegum er ekið upp á hótel (Holiday Inn Mayur Vihar) þar sem allir geta hvílt sig eftir ferðalagið.

Dagur 2
Nýja Delhi
Nýja Delhi

12. október / laugardagur

Við förum á fætur í rólegheitunum og fáum okkur góðan morgunverð. Eftir hádegi höldum við í hálfdagsferð um gamla borgarhluta Nýju Delhi (“Gamla Delhi”).

Upprunalegt nafn gamla borgarhlutans var Shahjahanabad. Árið 1639 lét keisarinn Shah Jahan, byggja borgina og færa höfuðstöðvar Mugahl keisarafjölskyldunnar frá Agra til Delhi. Þrátt fyrir að í dag búi 11 milljónir manns í Nýju Delhi og borgin hafi dreift verulega úr sér, er Gamla Delhi enn táknrænt hjarta borgarinnar. Veggir gömlu borgarinnar umluktu Lal Qila (rauða virkið), moskuna Jama Masjid, markaðinn Chandni Chowk og íbúðarbyggðina. Þegar keisaraveldi Mughal Empire stóð sem hæst var borgin með breiðum götum og líflegum búðum (”bazars”). En Gamla Delhi þróaðist smátt og smátt í risavaxna borg með ógrynni verslana og mergð af húsum í lélegu ásigkomulagi. Chandni Chowk sem var verslunarsvæði gömlu Delhi, er enn áberandi viðskiptasvæði í borginni þó svo að sjarmi þess sé minni en í þá daga. Engu að síður, er eitthvað við Chandni Chowk sem heillar. Á meðan okkur er ekið um í hjólvögnum um Chandni Chowk þá er margt sem grípur augað; vespur og hjólvagnar, verslanir og markaðir af öllum stærðum og gerðum. Hér er fólk að selja skartgripi, brúðarkjóla, bækur, krydd, bakkelsi, þurra ávexti, rafrænar vörur og svo margt, margt fleira. Við skoðum einnig Jama Masjid eða Föstudags moskuna sem er stærsta moskan á Indlandi (rúmar allt að 25.000 tilbiðjendur í einu) og kryddmarkaðinn Khari Baoli.

Hádegisverður á veitingahúsi í Delhi. Eftir hádegisverð heimsækjum við hofið Akshardham sem er merkilegt vegna þess að það er byggt án nokkurs stáls. Það samanstendur eingöngu af bleiklituðum sandsteini og hvítum marmara. Hofið var byggt úr 234 fagurlega útskornum súlum, 9 íburðarmiklum hvelfingum, fallegum sökklum með fílastyttum og 20.000 styttum af ýmsum guðdómlegum verum úr hindúisma.

Kvöldverður á hóteli.

Dagur 3
Delhi - Agra
Delhi - Agra

13. október / sunnudagur

Við ökum af stað til borgarinnar Agra. Frá Delhi til Agra eru 210 km en gera má ráð fyrir að ferðalagið taki allt að 4 klukkustundir því vegakerfið á Indlandi er frumstætt og ekki er t.d. ólíklegt að einhverjar kýr verði á vegi okkar. Við slökum því bara á í þægilegri loftkældri rútunni og horfum á lífið í kringum okkur þar til áfangastað er náð. Hádegisverður á hóteli áður en við höldum aftur af stað.

Við byrjum á því að skoða hið fræga grafhýsi Taj Majal. Sagan af Taj Majal er án efa falleg. Þegar uppáhalds kona keisarans Shah Jahan dó, lét hann byggja þessa fögru byggingu úr hvítum marmara fyrir gröf hennar. Í dag er Taj Majal heimsótt af 7-8 milljónum manns á ári hverju og hefur grafhýsið verið krýnt sem eitt af „7 nýju undrum veraldar“. 

Eftir það heimsækjum virkið Agra sem eitt sinn voru höfuðstöðvar Muhal keisaraveldisins. Röð fjögurra keisara lét byggja þetta virki í hindú og múslima stíl.

Við komum okkur fyrir á hótelinu í Agra (Ramada Plaza). Kvöldverður á hóteli.

Dagur 4
Agra
Agra

14. október / mánudagur

Í dag skoðum við m.a. minnisvarða Mughal keisaraveldisins, förum á Sadar Bazaar markaðinn og göngum um austurhluta Taj Mahal. Við fáum að sjá minna grafhýsi sem er einnig afar fallegt, Itmad – Ud – Daulah, en Taj Mahal svipar mikið til þessa grafhýsis og Itmad – Ud - Daulah talið hafa gefið hönnuðumTaj Mahal innblástur.

Dagur 5
Agra - Fatehpur - Sikri - Jaipur
Agra - Fatehpur - Sikri - Jaipur

15. október / þriðjudagur

Eftir morgunverð kveðjum við Agra og höldum til borgarinnar Jaipur. Í 40 mínútna fjarlægð frá Agra er finna draugaborgina Fatehpur Sikri, höfuðborg hins mikla keisara Akbar. Hann lét reisa á skömmum tíma mikla borg með höllum, virkjum og moskum. En aumingja Akbar keisari þurfti síðan að yfirgefa borgina sína þar sem lítið sem ekkert vatn var að finna á svæðinu. Eftir að skoða hina yfirgefnu borg fáum við okkur hádegisverð og höldum síðan áfram leiðinni til Jaipur þar sem við komum okkur fyrir á hótelinu okkar.

Um kvöldið förum við í eitt elsta og frægasta leikhús Indlands „Raj Mandir Cinema Hall“. Þar ætlum við að sjá ekta indverska Bollywood bíómynd! Þó svo að við skiljum ekki tungumálið komumst við heldur betur í Bollywood gírinn með tónlistinni og þátttöku áhorfenda í salnum!

Gist á hóteli í Jaipur (Lemon Tree /Ramada). Kvöldverður á hóteli.

Dagur 6
Jaipur
Jaipur

16. október / miðvikudagur

Það hafa ekki allir farið á fílsbak á ævinni. Það er ákúrat það sem við ætlum að gera eftir morgunverð. Við förum í u.þ.b. 40 mínútna reiðtúr frá Jaipur til virkisins Amber. Á bakaleiðinni er ekið í jeppum. Hádegisverður á veitingastað.

Seinnipart dags förum við í kynnisferð um höfuðborg Rajasthan, Jaipur sem var byggð á 18. öld og er þekkt undir nafninu „bleika borgin“ því mikið er um bleikan sandstein á þessum slóðum sem var notaður í byggingar borgarinnar. Við tökum okkur einnig tíma til þess að kíkja á litríka markaði borgarinnar.

Kvöldverður á hóteli.

Dagur 7
Jaipur - Varanasi
Jaipur - Varanasi

17. október / fimmtudagur

Eftir morgunverð er haldið af stað út á flugvöll Jaipur. Næsti viðkomustaður er borgin Varanasi. Brottfarartími kl. 13:35, lent í Varanasi kl. 15:15. Þegar við erum komin upp á hótelið okkar og búin að láta frá okkur töskurnar förum við á veitingastað í borginni. Um kvöldið verður farið með hjólavögnum meðfram ánni Ganges en þar munum við sjá hina daglegu trúarathöfn „Deepmala“ en í henni fleyta hindúítar m.a. lömpum á heilagri ánni til þess að biðja um að fá óskir sínar rættar.   

Gist á hóteli í Varanasi (Rivatas by Ideal). Kvöldverður á hóteli.

Dagur 8
Varanasi
Varanasi

18. október / föstudagur

Á Indlandi trúir fólk því að þegar maður deyr þá opnast dyr að nýju lífi. Þá skiptir máli hverjar gjörðir manns voru í lifandi lífi fyrir næsta líf (karma). Áin Ganges er talin heilög og eru  margar trúarathafnir sem hér eiga sér stað. Það er því mikið um að fólk safnist við ána. Við ætlum að byrja daginn árla morguns og fara í bátsferð um ána Ganges. Sjón er sögu ríkari.  

Eftir siglinguna höldum við aftur upp á hótel og fáum okkur morgunverð. Við höldum svo í skoðunarferð um borgina Varanasi eftir hádegi og skoðum m.a. Banaras Hindu háskólann, listasafnið Kala Bhavan og Vishwanath musterið. Hádegisverður á veitingastað.

Eftir mat heimsækjum við mjög sérstakan stað sem heitir Sarnath og er 10 km fyrir norðan Varanasi. Í Sarnath er talið að Buddha hafi byrjað að dreifa boðskap búddatrúar eftir að hann fékk uppljómun. Hér er að finna rústir klaustra sem voru byggð fyrir meira en 2.000 árum og koma pílagrímar buddisma hingað langt að.

Kvöldverður á hóteli.

Dagur 9
Varanasi - Kathmandu
Varanasi - Kathmandu

19. október / laugardagur

Kathmandu er höfuðborg Nepal, staðsett í 1.317 m. hæð. Borgin er oft heimsótt af fjallgöngumönnum sem hingað koma til þess að láta á það reyna að klifra upp á einhvern af mörgum tindum Himalaya fjallgarðsins, eins og t.d. Monte Everest. Í borginni búa um milljón manns.

Nepal er nágrannaland Indlands og ekki svo langt frá Varanasi. En vegirnir eru slæmir og svo má ekki gleyma að Kathmandu er staðsett í Himalayafjallgarðinum þannig að akstur til borgarinnar getur tekið um 15 tíma! Við fljúgum því frá Varanasi til Delhi (08:05 - 09:35) og þaðan tökum við annað flug til höfuðborgar Nepal, Kathmandu (12:50 – 14:35).

Fyrir þá sem vakna snemma og eldhressir, verður boðið upp á jógatíma á hótelinu í Varanasi áður en haldið er upp á flugvöll. Þegar komið er til Kathmandu verður okkur ekið til hótelsins til þess að skilja töskurnar eftir. Hádegisverður á veitingastað í borginni.

Frjáls tími seinnipart dags til þess að spóka sig um á Thamel markaðnum í Kathmandu.

Gist á hóteli í Kathmandu (Fairfield by Marriott). Kvöldverður á hóteli.

Dagur 10
Kathmandu
Kathmandu

20. október / sunnudagur

Við nýtum daginn og skoðum merka staði í Kathmandu og nágrenni. Sá fyrsti heitir því skrítna nafni Swayambhunath og er á heimsminjaskrá Unesco. Um er að ræða einn merkasta stað Budisma í Nepal, einnig vinsæll viðkomustaður pílagríma. Á staðnum er að finna hof og á öllum hliðum hofsins má sjá máluð augu; því augu Buddha sjá allt. Hádegisverður á veitingastað.

Við Kathmandu Durbar torgið eru mörg falleg hof. Í Nepal er trúin mikilvæg og algengt er að tilbiðja ýmis líkneski, styttur, myndir og málverk. Í Nepal tilbiðja bæði hindu og búddatrúaðir einnig lifandi stúlkur. Ein stúlka er vandlega valin á 6-8 ára fresti og er kölluð Kumari. Hún er valin þegar hún er u.þ.b. á aldrinum 4-6 ára en hættir svo að vera heilög þegar hún kemst á unglingsárin og þarf þá aftur að lifa venjulegu lífi. Þau ár sem stúlkan er talin heilög býr hún í húsi við Durbar torgið kallað „hús Kumari“ (Kumari´s house). Hún má ekki yrða á neinn nema fjölskyldu sína, hún má ekki ganga á eigin fótum þegar hún fer út og því er haldið á henni í fanginu. Verk hennar er að halda blessun sinni yfir borginni og íbúum hennar. Þessi hefð er mjög umdeild en hefur viðgengist frá því á 12. Öld.

Við skoðum einnig Bhaktapur, miðstöð miðalda lista og arkitektúrs. Borgin var stofnuð árið 1889 og hér er mikið um vefnað og leirmunagerð.

Kvöldverður á hóteli.

Dagur 11
Kathmandu
Kathmandu

21. október / mánudagur                                            

Eftir staðgóðan morgunverð höldum við í skoðunarferð til Boudhanath sem er mjög sérstakur staður. Buodhanath er stærsta trúarmiðstöðin í Nepal og í raun, með þeim stærstu í heimi. Hér kemur fólk saman til þess að biðja. Útlit byggingarinnar er þó ólíkt því sem við eigum að venjast, því trúarmiðstöðin lítur meira út eins og sirkustjald í fjarlægð! Boudhanath er staðsett í 11 km fjarlægð frá Kathmandu. Mikill fjöldi flóttamanna kom frá Tíbet til Nepal í kjölfar uppreisnar í Tíbet árið 1959 og margir hverjir tóku sér aðsetu á þessu svæði og því má hér einnig finna mörg klaustur tíbetbúa.

Rétt austan við Kathmandu er Pashupatinath hofið staðsett. Það hefur verið á heimsminjaskrá Unesco frá árinu 1979 og er afar mikilvægt hindúum því þarna hefur verið hof frá því 400 árum fyrir Krist. Margir hverjir kalla það apahofið því mikill fjöldi apa býr hér. Hádegisverður á veitingastað.

Gömlu borgina Patan er einnig að finna rétt fyrir utan Kathmandu. Í Patan kemur á óvart fjöldi listaverka, alls kyns útskorin listaverk sem mörg eru mjög gömul. Við notum einnig daginn í dag til þess að heimsækja flóttamannabúðir Tíbeta sem voru settar upp með hjálp Rauða Krossins árið 1960. Megintilgangur þessara flóttamannabúða var að styðja við flóttafólkið og hjálpa því til þess að hafa eitthvað fyrir stafni. Teppaiðnaður og handverk hefur t.d. verið eitt að því sem Tíbetbúar hafa unnið við og selt á þessum stað.

Frjáls tími seinnipart dags við Thamel markaðinn. Kvöldverður á hóteli.

Dagur 12
Kathmandu – Delhi
Kathmandu – Delhi

22. október / þriðjudagur        

Eftir morgunverð njótum við þess að byrja daginn rólega. Því næst ökum við út á flugvöll Kathmandu. Flugið frá Kathmandu er kl.14:45, lent í Nýju Delhi kl. 16:15.

Þegar við lendum förum við í heimahús í Nýju Delhi þar sem við fáum að taka þátt í veislu að hætti heimamanna. Á borðum verður indverskt snakk ásamt drykkjum (óáfengir sem og áfengir). Hér geta konur prófað að klæðast indversku “sarees” og karlmenn geta sett upp konunglega indverska túrbana sem er einkar skemmtilegt fyrir myndartökur! Spiluð er hindí tónlist og þeir sem treysta sér til geta látið reyna á danshæfileikana og lært nokkur indversk dansspor.

Gist á hóteli í Nýju Delhi (Holiday Inn M.V). Kvöldverður á hóteli.

Dagur 13
Delhi
Delhi

23. október / miðvikudagur

Við nýtum þennan síðasta dag til þess að skoða annan borgarhluta Nýja Delhi. Við skoðum mannlífið og sjáum ýmsar mikilvægar byggingar í höfuðborg Indlands, m.a. þinghúsið og aðsetur forsetans.

Um kvöldið ætlum við að skella okkur á söngleik í „Kingdom of Dreams“ sem er eins konar afþreyingarsetur. Hérna er boðið upp á ýmis skemmtiatriði, söngleiki /leiksýningar. Einnig eru hér fjölmörg veitingahús og verslanir þannig að það er erfitt að láta sér leiðast!

Kvöldverður á hóteli.

Dagur 14
Heimkoma
Heimkoma

24. október / fimmtudagur        

Flogið er með Finnair frá Nýju Delhi kl. 09:45 með viðkomu í Helsinki, lending í Keflavík kl. 17:00.

Bókaðu hér

Úps! Hér er bara ekkert að finna Vinsamlegast kannaðu hvort rétt lengd ferðar og/eða brottför er valin. Einnig er þér velkomið að hringja í ferðaráðgjafa okkar í síma 595-1000 fyrir nánari aðstoð

Innifalið í ferðinni

 • Flug og skattar
 • 20 kg taska og 5 kg handfarangur
 • Allur akstur samkvæmt ferðalýsingu
 • Gisting í 13 nætur á fjögurra til fimm stjörnu hótelum
 • Fullt fæði innifalið (morgunverður, hádegisverður og kvöldverður)
 • Íslenskur fararstjóri
 • Enskumælandi fylgdarfarastjóri og bílstjóri ásamt enskumælandi fararstjórum í öllum borgunum sem heimsóttar eru
 • Aðgangseyrir í hallir/minnisvarða
 • Reiðtúr á fílsbaki í 40 mín. og ferð í jeppum á bakaleið
 • Ferð í hjólvagni (Rickshaw) í Chandni Chowk
 • Aðgangseyrir í bíó í Raj Mandir
 • Ferð í hjólavagni (Rickshaw) í Varanasi
 • Sigling í Varanasi
 • Jógatími í Varanasi
 • Aðgangseyrir á söngleik í Kingdom of Dreams
 • 3 vatnsflöskur á dag (afhentar í rútu)
 • Túristaskattar

Ekki innifalið

 • Drykkir með máltíðum
 • Visa fyrir Indland
 • Visa fyrir Nepal
 • Myndavélaskattar sem borgaðir eru í sumum höllum/minnisvörðum ef maður vill taka myndir (yfirleitt 1-6 evrur)
 • Þjórfé

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti