Sólarferð
Borgarferð
Golfferðir
Hreyfiferðir
Sérferðir
Sportferðir
Siglingar
Flugsæti

Fagra Slóvenía

Fagra Slóvenía
27. júní í 7 nætur

Fararstjóri:Ágústa Sigrún Ágústsdóttir 

Í þessari fjölbreyttu ferð munum við kynnast hinni gullfallegu Slóveníu en landið er löngum þekkt fyrir náttúrufegurð sína: alpa, skóga, ár og vötn, hella og glæsilega kastala sem prýða útsýnið. Við munum kynnast mörgum fallegum bæjum í þessari ferð og heimsækjum einnig höfuðborgina, Ljubljana. Við endum ferðina í Portoroz eða „Rósahöfninni“, sem stendur við Adríahafið en þar munum við gista seinnipart ferðarinnar. Frá Portoroz förum við í dagsferð til Króatíu, ökum til bæjanna Porec og Motovun á Istríuskaganum, heillandi bæir sem vert er að skoða.

Flogið er með Primera Air til Trieste á Ítalíu. Við byrjum á að aka til fjallaþorpsins Kranjska Gora sem liggur í hlíðum slóvensku alpanna (Júlíönsku Alparnir), en þar munum við gista fyrstu nóttina. Á leið okkar til Kranjska Gora ökum við meðfram þjóðgarðinum Triglav sem fær nafn sitt af hæsta fjalli Slóveníu en þar kynnumst við mörgum fallegum þorpum á leið okkar.

Við byrjum næsta dag á að aka til vatnanna Bohinj og Bled og höldum áfram að njóta undurfagurrar náttúrunnar sem lætur engan ósnortinn. Við gistum í bænum Bled sem stendur við samnefnt vatn í hlíðum Karawanks fjallgarðsins, rétt við landamæri Austurríkis. Næst liggur leið okkar til höfuðborgarinnar Ljubliana sem hefur verið mjög vinsæl borgarferð hjá Heimsferðum, en hún þykir afar falleg og þægileg að stærð til að fara um hana fótgangandi. Dvalið er í Ljubljana í 2 nætur. Við getum ekki heimsótt Slóveníu án þess að koma við í hinum frægu Postojna dropasteinshellum og kastalanum Predjama. Næst liggur leið okkar til strandarbæjarins Portoroz.

Á sjötta degi ætlum við að heimsækja Króatíu, við ökum til bæjarins Porec og þaðan til sveitaþorpsins Motovun. Porec er falleg hafnarborg og um tvö þúsund ára gömul.Hún þykir sérstök m.a. þar sem hún stendur á afar þröngu nesi. Motovun er sveitaþorp í miðaldastíl sem stendur upp á 270 m. hárri hæð. Í nágrenninu rennur áin Mirma og skógurinn Motovun stendur hjá þorpinu, en hann er þekktur fyrir eðal hvítar og svartar trufflur (sveppir). Við njótum síðasta dagsins í rólegheitunum í Portoroz en flogið er daginn eftir frá Trieste til Keflavíkur með Primera Air.

Innifalið: Flug og skattar. Akstur samkvæmt ferðatillögun. Gisting á 4* hótelunum Kranjska Gora, Bled og Portoroz og 3* hótelinu Ljubljana með morgunverði alla daga, kvöldverður alla daga nema tvö kvöld í Ljubljana. Einnig er innifalið í verði: Sigling um Bled vatnið og aðgangseyrir í Bled kirkjuna og kastalann, kynnisferð í Ljubljana og sigling með drykk um ána Ljubljanica, aðgangseyrir í Postojna hellana og í Predjama kastalann, kynnisferð í Porec, íslensk fararstjórn. Miðað við lágmarksþáttöku 20 manns.

Ekki innifalið: Forfallatrygging, bókunargjald á skrifstofu Heimsferða, valfrjálsar kynnisferðir.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Trieste

27. júní / þriðjudagur
Flogið er með Primera Air í beinu flugi til Trieste á Ítalíu. Brottfarartími í Keflavík er kl. 06:00 en komutími til Trieste er kl. 12:10. Frá flugvellinum í Trieste ökum við um glæsilegt landslagið vestan við þjóðgarðinn Triglav í Slóveníu. Ekið er meðfram ánni Soca á leið okkar til fjallabæjarins Kranjska Gora sem er þekktur skíðaáfangastaður sem stendur við slóvensku alpana og er því umhverfið einstaklega fallegt. Á leið okkar til Kranjska Gora ökum við í gegnum mörg falleg þorp: Nova Gorica, Tolmin, Bovec, Predel pass og Tarvisio. Ferðin tekur um 3 klst. og því munum við stoppa í einhverju þorpanna og teygja úr fótunum og fá okkur hressingu. Í Kranjska Gora munum við gista í eina nótt á hótelinu Ramada Resort, kvöldverður og morgunverður innifalinn.

Dagur 2 – Kranskja Gora - Bohinj - Bled

28. júní / miðvikudagur
Við borðum morgunmat á hótelinu og öndum að okkur ferska fjallaloftinu í Kranjska Gora áður en við ökum af stað til Bohinj og Bled. Vatnið Bled, er á sérlega fallegu, skógi vöxnu svæði með fjöllum sem prýða útsýnið allt í kring. Kastalinn Bled skemmir ekki útsýnið, hann stendur tignarlegur í klettunum fyrir ofan vatnið. Gengið er um bæinn og fararstjóri sýnir helstu staði og kennileiti. Síðan ætlum við að sigla út í Bled eyjuna á „pletna“ bátum sem eru einkennandi fyrir staðinn og skoðum m.a. kirkjuna á eyjunni. Vatnið Bohinj er í þjóðgarði Triglav og er það stærsta vatn Slóveníu. Þar eru fjöllin hærri á að líta, enda sést til Júlíönsku Alpanna í norðri en þar er hæsta tind Slóveníu að finna, Triglav 2.864 m. Við bendum þeim allra hugrökkustu á að hægt er að fara í kláfi upp fjallið Mount Vogel yfir 1.500 m. og kostar um €14. Við endum daginn í bænum Bled þar sem við munum gista eina nótt á hótelinu Lovec, kvöldverður og morgunverður innifalinn.

Dagur 3 – Bled & Ljubljana

29. júní / fimmtudagur
Eftir að hafa snætt morgunverð á hótelinu í Bled, ökum við af stað til höfuðborgar Slóveníu, Ljubljana en aksturinn tekur um 45 mínútur. Í Ljubljana byrjum við á því að fara gangandi í stutta kynnisferð um borgina. Borgin er einstaklega notaleg, með lífleg torg, falleg hús og fjöldamörg veitinga- og kaffihús, listasmiðjur og verslanir. Það má segja að Ljubljana sé notaleg blanda af smáborg og stöðugt vaxandi heimsborg. Eftirmiðdagur frjáls. Við gistum í 2 nætur á City Hotel, morgunverður innifalinn.

Dagur 4 – Upplifum Ljubljana

30. júní / föstudagur
Frjáls dagur í Ljubljana. Við bendum á að gaman er að fara upp í Ljubljana kastalann, kostar um €10. Seinnipart dags ætlum við svo að fara í siglingu á ánni Ljubljanica sem rennur í gegnum borgina, þar sem við fáum drykk á meðan við njótum siglingarinnar og útsýnisins í kring. Siglingin er innifalin.

Dagur 5 – Postojna - Predjama - Portoroz

1. júlí / laugardagur
Við förum af hótelinu um morguninn og ökum áleiðis til Portoroz. Á leiðinni heimsækjum við Postojna hellana og Predjama kastalann en Postojna hellarnir eru án efa stærstu og frægustu dropasteinahellar þessa svæðis. Þá er ekið til strandbæjarins Portoroz þar sem við munum gista það sem eftir er ferðar á einu hóteli keðjunnar Lifeclass, morgunverður og kvöldverður innifalinn alla dagana.

Dagur 6 – Porec & Motovun

2. júlí / sunnudagur
Kynnisferð verður farin til bæjanna Porec og Motovun í Króatíu. Við byrjum á að fara í kynnisferð um Porec sem er í klst. fjarlægð frá Portoroz. Porec er ein af perlum Króatíu. Um er að ræða 2.000 ára gamlan bæ sem er byggður á mjög þröngu nesi og búa því flestir íbúar bæjarins í útjaðri bæjarins eða fyrir utan nesið. Dómkirkjan í Porec er frá 5. öld og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997. Eftir heimsóknina í Porec, ætlum við að aka áleiðis til þorpsins Motovun en aksturinn mun taka um 40 mínútur. Motovun er pínulítið þorp byggt í miðaldastíl sem situr upp á 270 m. hárri hæð og hérna ætlum við að stoppa og skoða okkur um. Frá árinu 1999 hefur þorpið verið aðsetur alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar „Motovun Film Festival“. Við ökum til baka til Portoroz seinni partinn en áætlað er að aksturinn taki um 45 mínútur.

Dagur 7 – Njótum Portoroz

3. júlí / mánudagur
Frjáls dagur í Portoroz. Við mælum með að taka strætó til bæjarins Piran sem stendur yst á skaganum en er einungis í 10 mínútna akstursfjarlægð.

Dagur 8 – Flogið til Íslands

4. júlí / þriðjudagur
Eftir góða dvöl í Portoroz kveðjum við Króatíu og höldum upp á flugvöll í Trieste. Flogið er heimleiðis kl. 13.10 með Primera Air. Áætlaður komutími til Keflavíkur kl. 15:40.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti