Blómahátíð á Madeira

29. apríl í 10 nætur

Margir þekkja eflaust til blómaeyjunnar Madeira, náttúruperlunnar sem kunn er fyrir mikilfenglega náttúru, fjölbreyttan gróður og blómaskrúð. Heimsferðir hafa boðið upp á ferðir til eyjunnar undanfarin ár og í vor verður einnig boðið upp á sérstaka blóma- og náttúruskoðunarferð fyrir blómaáhugafólk frá 29. apríl til 9. maí, á sama tíma og hin fræga árlega blómahátíð Madeira fer fram.

Madeira er sjálfstjórnarsvæði sem heyrir undir Portúgal. Íbúar eru um 260.000 en 2/3 hluti þeirra búa við suðurströnd eyjunnar í höfuðborginni Funchal. Nafnið Madeira þýðir viður og eyjunni oft líkt við fljótandi blómagarð. Hún rís eins og klettur upp úr hafi, er hálend en aðeins 741 km2 að stærð. Eyjan liggur rúmlega 600 km vestur af ströndum Afríku. Hnattstaða hennar gerir það að verkum að hér ríkir þægilegt loftslag árið um kring, að meðaltali 15 – 23˚C. Vindar, hafstraumar og brattar fjallshlíðar skapa ólík gróðurbelti og veðurfar, þannig að töluverður mismunur getur verið hvort dvalið er við sjávarmál eða við hæstu tinda. Lega landsins, hið fjölbreytta landslag og veðurfar skapa kjöraðstæður fyrir margbreytilegan gróður og ræktun á eyjunni. Vegna hinna bröttu hlíða einkennist akuryrkjan af ræktun á uppbyggðum stöllum með vatnsáveituleiðum til vökvunar. Þessar vatnsáveituleiðir eru nú einnig vinsælar gönguleiðir.

Vitað var um tilvist eyjunnar á fornöld, en föst búseta hófst ekki fyrr en um miðja 15. öld. Madeira varð fljótlega kunn fyrir gott loftslag. Heldra fólk, einkum frá Bretlandi, lagði komur sínar til eyjunnar í lok 18. aldar sér til heilsubótar. Margir byggðu hús og villur með fallegum görðum í kring, einkum í höfuðborginni Funchal. Í dag eru margir þessara listilega gerðu garða opinberir þar sem sjá má mörg þúsund tegundir blóma, trjáa og jurta, bæði frá eyjunni sjálfri og frá flestum heimshlutum. Blóma- og náttúruunnendur leggja því leið sína til Madeira allt árið um kring til þess að skoða hið fjölbreytta úrval plantna sem þarna fyrirfinnst. Árlega er haldin stórkostleg hátíð blóma, táknmynd vors, endurfæðingar og frjósemi. Höfuðborgin Funchal umbreytist þá í haf blóma þar sem blómabreiður þekja stræti og torg. Fjölmargir viðburðir með skrúðgöngum, tónlist og skemmtun umkringd ótrúlegu blómaskrúði eru á hátíðinni sem vorið 2019 verður haldin á tímabilinu 2. – 26. maí.

Í blómaskoðunarferðinni til Madeira í vor verður ferðast í um 20 manna hópi með fararstjóra og sérfróðum staðarleiðsögumanni. Lögð verður áhersla á að veita fræðslu en jafnframt góðan tíma til að skoða og njóta gróðursins og umhverfisins í rólegheitum. Heimsóttir verða helstu garðar Funchal og nágrennis. Einnig verða farnar rútuferðir um eyjuna þar sem ferðast verður í gegnum hin ólíku gróðurbelti frá sjávarmáli til hæstu hæða og fræðst um gróður og sögu eyjunnar. Jafnframt verða farnar léttar gönguferðir á hinum frægu vatnsáveituleiðum Madeira þar sem hægt verður að skoða náttúruna gangandi. Blómahátíðin í Funchal er svo hluti af þeirri dagskrá sem er í boði. Það er því margt sem hægt er að gera á þessari undurfallegu eyju, sem þrátt fyrir smæð sína hefur endalaust eitthvað nýtt upp á að bjóða.

 

Innifalið í verði:   Flug, skattar, 1 x 20 kg innrituð taska á mann, akstur til og frá flugvelli. Gisting í 10 nætur á 5* hótelinu Melia Madeira Mare með morgunverðarhlaðborði inniföldu. Leiðsögn, kynnisferðir og aðgangseyrir í garða og söfn.

Ath.! Lágmarksþátttaka í blómaskoðunarferðinni er 15 manns. (Afsláttur er í boði fyrir pör / tvo í herbergi ef aðeins annar aðilinn er í blómaferðinni).

Ferðatilhögun: (Skipulag ferða er sett fram með fyrirvara um breytingar og tímaröð)

Ferðatilhögun & Kynnisferðir

Dagur 1 – Flogið til Madeira

29. apríl / mánudagur

Flug til Funchal á Madeira með Travel Service. Brottför frá Keflavík kl. 08:00 lent á Madeira kl.13:45.
Stuttur kynningarfundur með fararstjóra

Dagur 2 – Upplifðu Funchal

30. apríl / þriðjudagur 

Gönguferð í gegnum miðbæinn í Funchal (um 4 klst.).
(Ath. Rútan sækir okkur á hótelið í upphafi ferðar og ekur okkur í bæinn. Í lok ferðar eru farþegar á eigin vegum í miðbænum).

Við göngum í gegnum Santa Catarina garðinn að hinum litríka markaði Mercado dos Lavradores þar sem sjá má framandi blóm, ávexti, grænmeti og fiskimarkað.  Þaðan leggjum við leið okkar í handverksmiðstöð og fáum að kynnast fallegum útsaum og handverki heimamanna. Áfram höldum við gegnum þröng stræti  miðbæjarins, skoðum kirkjur og torg og endum í vínsmökkun í Sao Francisco vínkjallaranum og fáum að smakka hið fræga Madeira vín.

Dagur 3 – Quinta do Palheiro & Jardim Tropical Monte Palace

1. maí / miðvikudagur

Quinta do Palheiro garðurinn og Jardim Tropical Monte Palace garðurinn heimsóttir (heilsdagsferð m/hádegisverði).
Ath. Báðir garðarnir sem við heimsækjum í þessari ferð eru í efri hæðum Funchal upp í 500 m hæð og í halla að hluta. Hér getur verið kaldara og jafnvel rignt þó sólin skíni niðri í miðbæ Funchal. Rétt er að hafa þetta í huga bæði hvað varðar fatnað og skóbúnað.

Við byrjum á að aka að Quinta do Palheiro garðinum, sem talinn er með fallegustu skrúðgörðum Madeira, bæði vegna staðsetningar og vegna þeirra plantna sem hér vaxa í 500 m hæð. Eins og svo margir garðar á eyjunni var hann í upphafi skipulagður eftir hefð enskra garða í kringum villu (quintu) heldrafólks. Upphaflegi eigandinn, Conde de Carvalhal, lagði grunninn að safni Kamellíu skrautrunna sem hér er að finna ásamt fjölda annarra plöntutegunda. Eftir hádegisverð í grennd við Palheiro garðinn förum við að hverfinu Monte  sem einnig er í efri hlíðum Funchal. Hér er hin fræga kirkja Igreja de Nossa Senhora do Monte, og garðurinn Jardim Tropical Monte Palace. Hann var upprunalega stofnaður af Jesúítum á 18. öld en skipulagður í núverandi mynd af Berardo-stofnuninni og gerður opinber 1987. Garðurinn er listilega hannaður þar sem sjá má sögu Madeira sagða í myndmáli á hefðbundnum keramikflísum innanum gróðurinn, sem skipulagður er í ólík svæði eftir tegundum.  Hér er m.a. sérstakur japanskur hluti og svæði tileinkað upprunalegum plöntum eyjunnar. Eftir að hafa notið þess að fara í gegnum garðana og fræðast um hinar ólíku tegundir plantna göngum við til baka og skoðum kirkjuna í Monte þaðan sem einnig er gott útsýni yfir borgina. Á sama stað eru tágasleðar (tobbogan) (ekki ætlaðir fyrir snjó heldur götusleðar), sem á árum áður voru nýttir til að ferja heldra fólk frá hæstu hæðum að miðbænum í Funchal. Ef aðstæður leyfa gefst tækifæri til að renna sér niður stuttan spöl.

Ath. Sleðaferðin er ekki innifalin í verði.

Dagur 4 – Madeira lystigarðurinn & orkídeu garðurinn

2. maí / fimmtudagur

Madeira lystigarðurinn Jardim Botânico og Quinta de Boa Vista orkídeu garðurinn (um 5 klst. m/kaffihléi).

Í dag skoðum við einn af frægustu görðum Funchal, Madeira lystigarðinn Jardim Botânico. Garðurinn liggur einnig í hlíðum Funchal, þó ekki eins hátt og þeir sem við skoðuðum daginn áður. Hann er fallega hannaður og upprunalega skipulagður í kringum villuna La Quinta do Bom Sucesso seint á 19. öld en gerður opinber árið 1960. Hér má finna um 3000 plöntutegundir víðsvegar að úr heiminum. Við fræðumst um plönturnar en gefum okkur jafnframt góðan tíma til að skoða svæðið á eigin vegum og setjast niður til að fá okkur smá hressingu. Á leiðinni til baka stoppum við í litlum en ekki síður sérstökum garði: Quinta de Boa Vista, sem er með safn orkídea.

Dagur 5 – Eyjan Madeira, vesturhluti

3. maí / föstudagur

Eyjan Madeira – vesturhluti (dagsferð m/hádegisverði).

Þennan dag kynnumst við vesturhluta eyjarinnar sem býður upp á ótrúlega fallegt og fjölskrúðugt landslag og gróður. Við ökum í vesturátt meðfram suðurströnd, yfir hálendið að norðvestasta hluta eyjunnar að smábænum  Porto Moniz sem er m.a. frægur fyrir staðsetningu sína nálægt náttúrlegum hraunlaugum í sjávarmálinu. Við stoppum fyrir hádegisverð og ökum svo með norðurströndinni í austurátt og yfir fjöllin aftur til Funchal. Á leiðinni gefst tækifæri til að skoða ólíkt mannlíf í smáþorpum og bæjum og njóta gróðursins og náttúrufegurðarinnar. Þar sem við förum í gegnum ólík gróðurbelti frá sjávarmáli til hæstu hæða upp í um 1500 m hæð kynnumst við hvernig ræktunin og gróðurinn breytist eftir því í hversu hátt er yfir sjávarmáli. Við skoðum m.a. banana- og vínrækt, lárviðar- og mímósuskóga og heiðagróðurinn á hálendinu. Við stoppum eins oft og unnt er og göngum smá spöl til að skoða ræktunina og gróðurinn og ekki síst til að njóta útsýnis og náttúrufegurðar Madeira.

Dagur 6 – Blómahátíð, frjáls dagur

4. maí / laugardagur

Frjáls dagur - Blómahátíð í Funchal á eigin vegum.

Blómahátíð Madeira er táknmynd vorsins, endurfæðingar og frjósemi. Hátíðin fer fram árlega á tímabilinu apríl til maí og að þessu sinni 2. – 26. maí. Dagana á undan eru íbúar Funchal í óðaönn að undirbúa hátíðina.  Borgin fyllist af blómum og blómaskreytingum sem m.a. þekja hluta af götum miðbæjarins. Dagskráin er fjölbreytt en er þó sérstaklega mikilvæg helgina 4. og 5. maí þar sem tveir stórir viðburðir fara fram. Laugardagsmorguninn 4. maí fara börnin uppáklædd fyrir hátíðina í skrúðgöngu að ráðhústorginu Praca do Municipo þar sem þau móta vegg úr blómum. Blómaveggurinn er nefndur Veggur vonar (Muro da esperança). Hann er táknmynd sakleysis barnanna og fíngerðra blómanna og er byggður með ósk um heimsfrið.

Vegna mannfjöldans reynum við ekki að halda hópinn heldur njótum hátíðarinnar eins og hver hefur áhuga á.

Kvöldferð – þjóðlegur kvöldverður  Ath. Valmöguleiki - ekki innifalið í verði. Um kvöldið eigum við þess kost að taka þátt í þjóðlegri kvöldskemmtun með þjóðdönsum og kvöldverði, þ.e. þjóðarrétti Madeirabúa Espetada (kjöt á teini).

Dagur 7 – Frjáls dagur

5. maí / sunnudagur

Blómahátíð í Funchal á eigin vegum. Sunnudagseftirmiðdag  fyllast götur Funchal af fólki, tónlist og blómum. Þennan dag fer fram ein aðal skrúðgangan, þar sem ímyndunarafl og sköpunarkraftur Madeirabúa fá notið sín við gerð ótrúlegra blómabúninga sem fólk klæðist í skrúðgöngunni.

Sökum fólksfjöldans gerum við eins og daginn áður og tökum þátt í hátíðarhöldunum eins og hver hefur áhuga á.

Dagur 8 – Eyjan Madeira, austurhluti

6. maí / mánudagur

Eyjan Madeira – austurhluti (dagsferð m/hádegisverði).

Í þessari dagsferð ferðumst við um austurhluta eyjunnar. Við ökum  í austurátt í átt að Machico, annar stærsti bær Madeira og stoppum við útsýnisstað sem nefndur er eftir skáldinu Francisco Álvares Nóbrega fæddur í Machico 1773. Hér er fallegt útsýn yfir Machico dalinn og austasta tanga eyjunnar Ponto Sao Lourenco. Áfram höldum við út á tangann að næsta útsýnisstað Ponta do Rosto nálægt Caniça. Hér er útsýn yfir bæði norður og suðurhluta eyjunnar og  á sólríkum dögum má sjá alla leið til Porto Santo eyjunnar norð-austur af Madeira. Ponta do Rosto sem staðsettur er á norðurhluta Ponto Sao Lourenco skagans er einstakur bæði fyrir gróður og náttúru, sem um margt minnir á Ísland m.a. með fallegum móbergs- og hraunmyndunum í sjó fram. Við höldum áfram meðfram norðurströndinni að Porto da Cruz og göngum eftir stígum svæðisins. Við norðurströndina heimsækjum við þorpið Santana sem þekkt er fyrir A-laga stráþakshús og fáum okkur hádegisverð. Eftir hádegisverð leggjum við leið okkar þvert yfir eyjuna aftur í suðurátt eftir hlykkjóttum fjallvegum í gegnum stór svæði lárviðarskóga. Á öldum áður var eyjan þakin lárviðarskógum, en í dag eru þeir verndaðir og eru á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 2000. Við stoppum á leiðinni til að skoða gróðurinn og göngum stuttar vegalengdir eftir stígum og vatnsáveituleiðum. Áfram höldum við upp fjöllin að einum hæsta tindi Madeira, Pico Arieiro, (1818m) en þaðan er tignarlegt útsýni til allra átta (ef veður leyfir). Á leiðinni til baka niður fjöllin ökum við í gegnum náttúruverndarsvæðið Parque Ecológico do Funchalfyrir ofan höfuðborgina. Hér er lögð áhersla á að vernda blóm og plöntur sem upprunnar  eru á Madeira. Við stoppum eins oft og unnt er og göngum smá spöl til að skoða gróðurinn og ekki síst til að njóta útsýnis og náttúrufegurðar Madeira.

Dagur 9 – Levada

7. maí / þriðjudagur

Ganga meðfram vatnsáveituskurði, levada (um 5 klst.).

Eftir langan gærdaginn er upplagt að fara í rólega göngu á einum af hinum þekktu vatnsáveituleiðum. Hálendar og brattar hlíðar eyjunnar hafa ætíð verið erfiðar til akuryrkju og því snemma ráðist í að hlaða upp stalla fyrir ræktun og að byggja vatnsáveituskurði (levadas) um alla eyjuna.  Þetta áveitukerfi er enn í dag nýtt til vökvunar akranna en áveituleiðirnar eru jafnframt vinsælar gönguleiðir um eyjuna.

Við ökum með rútunni út fyrir bæinn og göngum meðfram einni af vatnsáveituleiðunum og njótum þess að kynnast gróðrinum sem vex í kring í návígi. Við stoppum á leiðinni og fáum okkur hressingu en rútan sækir okkur að lokinni göngu og ekur okkur aftur að hótelinu.

Dagur 10 – Frjáls dagur

8. maí / miðvikudagur

Frjáls dagur í Madeira

Dagur 11 – Heimferð

9. maí / fimmtudagur

Heimferð. Flogið með Travel service  frá Funchal til Keflavíkur. Brottför frá Madeira kl. 14:45  áætluð lending í Keflavík kl. 18:40.

Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti