Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Annecy í frönsku Ölpunum

Hvítasunnuferð til Annecy, Feneyjar frönsku Alpanna.

Fararstjóri: Ólöf Steinunnardóttir

Komdu með okkur til Annecy um Hvítasunnuna, 19. maí í 4 nætur. Annecy er töfrandi og rómantísk frönsk borg sem margir muna ef til vill eftir frá því að landsleiksmenn Íslands spiluðu hér leik á EM árið 2016. Fallegt myndefnið sem var sjónvarpað frá borginni heillaði marga upp úr skónum enda er borgin afburðafalleg.

Annecy er umkringd Ölpunum, stendur við tært stöðuvatn og áin Thiou rennur í gegnum borgina. Húsin eru byggð við bakka ánnar og svipar borginni því til Feneyjum að því leitinu til, enda oft kölluð „Feneyjar alpanna“. Í borginni eru litríkar og skemmtilegar göngugötur og hér er að finna margvíslegar verslanir og úrval veitingastaða.


Innifalið: Flug og skattar báðar leiðir, 20 kg innrituð taska. Rúta til og frá flugvelli til Annecy. Gisting á 3* hóteli með morgunverði. Kynnisferð um Annecy og 1 klst. sigling um vatn Annecy. Íslensk fararstjórn.

Íslensk fararstjórn miðuð við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 - Ferðast til Annecy

19. maí / laugardagur

Flogið er með Icelandair frá Keflavík til Genfar. Flugtak frá Keflavík er kl.07:20, lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Á flugvelli í Genf tekur íslenskur fararstjóri á móti farþegum og ekið er til Annecy (um 45 km). Þegar komið er til Annecy komum við okkur fyrir í hjarta borgarinnar á snyrtilegu 3* hóteli, Ibis Annecy Centre Hotel. Við gistum á sama hótelinu í 4 nætur með morgunverði inniföldum í verði.

Dagur 2 – Kynnisferð um Annecy

20. maí /sunnudagur

Eftir morgunverð er haldið í gönguferð um borgina með fararstjóra. Við njótum þess að rölta um gamla bæinn en hér er engin bílaumferð. Við skoðum meðal annars dómkirkjuna, ráðhúsið, gamla fangelsið, kíkjum á úrval sérverslana á matvöru en hér er t.d. að finna eina af bestu ostabúðum Frakklands, 5 stjörnu ostabúð! Við endum fyrir utan kastala Annecy sem var byggður á 12.-16. öld og er í dag aðsetur áhugaverðs safns um listir og sögu Annecy og nágrennis. Frjáls seinni partur dags.

Dagur 3 – Frjáls dagur & sigling

21. maí / mánudagur

Frjáls dagur fyrripart dags. Seinnipartinn er öllum boðið að koma í siglingu í fylgd fararstjóra um Annecy vatnið. Siglingin hefst í höfn Annecy og er siglt í stóran hring um vatnið þar sem sést til annarra bæja í grennd við Annecy eins og Talloires, Servier og Duingt. Siglingin tekur um 1 klst. og er hún tilvalin til þess að njóta útsýnisins og náttúrunnar í kring um borgina.

Dagur 4 – Frjáls dagur

22. maí / þriðjudagur

Frjáls dagur til að njóta alls þess sem Annecy hefur upp á að bjóða. Spurning um að kíkja aftur í ostabúðina?

Dagur 5 – Flogið til Keflavíkur

23. maí / miðvikudagur

Farþegar eru sóttir snemma um morguninn á hótelið og ekið með þá upp á flugvöll. Flogið er með Easyjet, flugtak frá Genf kl.14:05, lending í Keflavík kl. 16:10 að staðartíma.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti