Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Ævintýri í Marokkó

Agadir – Taroudant – Foum Zguid – Sahara eyðimörkin – Chegaga – Zagora – Tamegroute - Ouarzazate – Marrakech – Essaouira – Agadir

Fararstjóri: Dominique Plédel Jónsson

Einstök 9 nátta sérferð 24. október 2019 þar sem farþegum gefst tækifæri til að skyggnast inn í nýjan og framandi heim. Það er sérstök upplifun að koma til Marokkó, ekki einungis í sögulegum skilningi heldur einnig til að kynnast landi og þjóð örlítið nánar. Í ferðinni er dvalið í litlum heillandi bæjum til sjávar og sveita svo og stærri borgum á borð við Marrakech og Agadir. Ekið er um stærstu pálmalundi í Norður-Afríku, ilmandi ávaxtahéruð og hin mikilfenglegu Atlasfjöll. Þá er haldið í úlfaldareið út í Zahara eyðimörkina þar sem gist er í eina nótt í Berba-tjaldi. Án efa ógleymanlegt ferðalag!

Innifalið: Flug og skattar til/frá Agadir. Innrituð 23 kg taska. Gisting á 3*+ til 4* hótelum í 9 nætur m/hálft fæði innifalið (morgunverður og kvöldverður) og 1 nótt í berbatjöldum einnig með morgunverði og kvöldverði. 5 hádegisverðir (dagana 2, 3, 4, 5 og 6). Akstur og kynnisferðir samkvæmt ferðalýsingu. Úlfaldareið í Sahara eyðimörkinni. Aðgangseyrir í minnisvarða og aðgangseyrir í Majorelle garðinn í Marrakech. Þjórfé til hótela, veitingastaða, o.s.frv.

Ekki innifalið: Aðrar kynnisferðir en þær sem tilgreindar eru í ferðalýsingu. Þjórfé til bílstjóra og innfæddra leiðsögumanna.

Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Marokkó

24. Október

Flogið í beinu flugi með Neos til Agadir. Brottför kl. 08:30 lending í Agadir kl. 14:00 að staðartíma. Sami tími í Marokkó og á Íslandi. Ekið er frá flugvellinum til Taroudant sem er um það bil 70 km akstur. Ekið er um Souss dalinn en þar er mikil ávaxtarækt og aðal ræktunarsvæði argan-trjáa. Á þessari leið má sjá geitur klifrandi í trjánum sem taka þátt í týnslu argan-hnetanna!! Gist í Taroudant, lítilli og vinalegri marókkóskri borg, með borgarvirki og lifandi markað (souk). Gisting og kvöldverður á 4* hóteli í Taroudant.

Dagur 2 – Taroudant - Foum Zguid

25. Október

Ekið frá Taroudant til Foum Zguid sem er um 230 km leið. Ekið er um stórkostlegt landslag Atlas-fjallanna og stoppað á leiðinni í Taliouine sem er þekkt fyrir mikla saffran-rækt. Uppskeru tími saffransins er frá september til október og er þetta eina svæðið í Marokkó sem ræktar saffran. Við heimsækjum framleiðanda á staðnum og skoðum framleiðslu hans og gerum væntanlega góð kaup. Við fáum okkur hádegisverð áður en ferðinni er haldið áfram til Tazenaght þar sem við ætlum að skipta um farartæki. Við höldum áfram á 4x4 jeppum til Foum Zguid, smáborg í stórbrotnu en einstaklega fallegu umhverfi. Borgin er einnig inngangur inn í Zahara eyðimörkina. Gisting og kvöldverður á 4* hóteli í Foum Zguid.

Dagur 3 – Foum Zguid & Chegaga

26. Október

Farþegar munu ferðast í 4X4 jeppum í um það bil 2 tíma þar til komið er á næsta næturstað. Sannkallað ævintýri er framundan, því nú verður gist í eina nótt í ekta „Berba“ tjaldi sem eru í Erg Chigaga sandöldunum í Sahara eyðimörkinni. Keyrt er frá Foum Zguid inn í Sahara um framandi gróður og þurrkaða árfarvegi, í átt að Chegaga sandöldunum, eftir gamalli leið sem úlfaldalestir fylgdu. Farið er yfir þornað stöðuvatnið Iriki sem vaknar við fyrstu rigningarnar og dregur að sér einstakt fuglalíf, m.a. flamingó-fugla. Þess má minnast að það stendur til að tilnefna Iriki vatnið þjóðgarð. Í kvöldroðanum ætlum við í úlfaldareið í þögn eyðimerkurinnar. Gist verður í hefðbundum tjaldbúðum en Berbatjöldin hafa þau þægindi sem hægt er að veita í eyðimörk (klósett og sturta í sér byggingu, uppbúin rúm og rafmagn). Gisting og kvöldverður í eyðimörkinni.

Dagur 4 – Chegaga & Zagora

27. Október

Eftir morgunverð er ekið eftir vegaslóð til M‘hamid í gegnum sandöldur og „hamada“, harðar og steinlagðar sléttur á 4x4 jeppunum. Þaðan er haldið áfram á leið til Zagora eftir Drâa dalnum, lengsta pálmalund í Norður Afríku (250 km). Við stoppum á leiðinni í Tamegroute, en þar er að finna afar merkilegt bókasafn sem geymir m.a. Kóraninn ritaðann á skinn frá 12 öld. Einnig er þar að finna keramikgerð eftir hefðbundnum háttum, þar sem framleiðslan er í sérstæðum grænum lit. Þegar við erum komin til Zagora fáum við okkur hádegisverð í heimahúsi í Zagora til að kynnast matargerð heimamanna. Eftir hádegi verður farið í göngutúr um pálmalundina til að skoða búskaparhætti íbúannna í þessu sérstaka vistkerfi. Gisting og kvöldverður í Zagora.

Dagur 5 – Zagora & "Hollywood" borgin Ouarzazate

28. Október

Við byrjum daginn á rólegum nótum og fáum okkur góðan morgunverð. Í dag er leiðinni haldið áfram í gegnum Draa dalinn til borgarinnar Ouarzazate. Heimamenn segja að Ouarzazate borgin sé „Hollywood „ Marokkó, en þar hafa margar stórmyndir verið kvikmyndaðar og fullkomið kvikmyndaver er í borginni. Í Ouarzazate gefst okkur tækifæri til að heimsækja eitt fallegasta „kasbah“ (virki) Marokkó sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Gisting og kvöldverður á fallegu 3*+ hóteli í Ouarzazate.

Dagur 6 – Ouarzazate & Marrakech

29. Október

Eftir morgunverð ökum við af stað yfir hin miklu Atlasfjöll. Við stoppum um stund í Ait Ben Haddou sem er á heims-minjaskrá Unesco (hefðbundið „ksar“ eða þorp með borgarvirki í lykilstöðu á leið frá Sahel til Marrakech). Við fáum okkur hádegisverð áður en ferðinni er haldið áfram til Marrakech, hinnar fornu konungsborgar sem á rætur sínar að rekja til 11. aldar. Gisting og kvöldverður á 4* hóteli í Marrakech.

Dagur 7 – Dagur í mögnuðu Marrakech

30. Október

Eftir morgunverð ætlum við að skoða Marrakech, við ætlum meðal annars að sjá hið fræga torg borgarinnar Djemaa El Fna en þar er einstök stemning. Á torginu má til dæmis sjá glæsilega dansara, ótrúlegt fimleikafólk leika listir sínar, aldna sögumenn, apa sem leika lausum hala og spilandi snákatemjara. Við höldum áfram að skoða þessa skemmtilegu borg, skoðum Koutoubia moskuna frá miðöldum, Bahia höllina og gamla borgarhlutann ásamt markaðnum sem er einskonar völundarhús sölubása. Að kvöldi dags breytist ásjón torgsins Djemaa El Fna en þá verður torgið að einum stærsta veitingastað í Marrakech – og framandi kryddlyktin fyllir loftið og gefur fyrirheit um góða máltíð. Gisting og kvöldverður á sama hóteli í Marrakech.

Dagur 8 – Marrakech & Essaouira

31. Október

Frjáls tími fyrripart dags í Marrakech. Seinni partinn er ekið til vesturstrandarinnar til sjávarborgarinnar Essaouira. Við stoppum á leiðinni til að birgja okkur upp af arganolíu afurðum. Í bænum Essaouira er heillandi gamall bæjarhluti sem gaman er að skoða og þar má gera góða kaup, en hérna þykir einstaklega gott að versla. Gisting og kvöldverður á 4* hóteli í Essaouira.

Dagur 9 – Essaourira & Agadir

1. Nóvember

Frjáls tími í Essourira fyrri part dags. Seinni partinn ökum við af stað meðfram sjávarsíðunni til Agadir. Gist á 4* hóteli í Agadir síðustu nóttina.

Dagur 10 – Flogið til Íslands

2. Nóvember

Heimferð. Brottför frá Agadir til Íslands. Flugtak kl. 16:30 og lending í Keflavík kl. 20:45 að staðartíma.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti