Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Á slóðum Jakobsstígs

Matur og menning á Norður Spáni 

Fararstjóri: Brynjar Karlsson

Í þessari ferð 19. júní 10 nætur verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá þar sem náttúra, matur og menning koma við sögu. Við ætlum að fara um slóðir Jakobsstígsins við strendur Norður Spánar, heimsækja margar fagrar borgir og einstaka staði. Við fáum innsýn í matargerð heimamanna, en Norður Spánn hefur löngum verið þekktur fyrir frábært hráefni og snilldar kokka enda margar Michelin stjörnur hérna niðurkomnar.

Við byrjum ferðina í borginni San Sebastian þar sem gist er fyrstu þrjár næturnar. Við heimsækjum því næst borgirnar Bilbao og Santander, förum m.a. á Guggenheim listasafnið og slökum á við gullnar strendur Biscayflóans. Við heimsækjum miðaldarbæinn Santillano de Mar og hina frægu Altamira hella og förum í göngutúr um þjóðgarðinn Picos de Europa þar sem við skoðum Covadonga vötnin og njótum okkar í sveitasælunni. Einnig heimsækjum við Basilíku og helgidóm Covadonga en þessi sérstaki staður á sér mikla sögu og hingað leggja margir pílagrímar Jakobsstígsins leið sína til þess að heiðra jómfrú helgidómsins (La Virgen de Covadonga).

Við skoðum hina gömlu borg Oviedo og smökkum á víni heimamanna „la sidra“. Við stoppum í sjávarþorpinu Ribadeo áður en við höldum til hinnar þekktu borgar Santiago de Compostela á Norð-vesturhorni Spánar. Þar ætlum við meðal annars að skoða hina frægu dómkirkju þar sem gröf heilags Jakobs er (St. James), en þangað liggur leið allra pílagríma Jakobsstígsins.

Innifalið í verði: Flug, skattar, 20 kg taska og handfarangur. Allur akstur samkvæmt ferðalýsingu. Gisting á fjögurra stjörnu hótelum í San Sebastian, Santander og Oviedo og á þriggja stjörnu hóteli í Galicia. Morgunverður innifalinn alla daga, einnig eru 4 kvöldverðir innifaldir. Aðgangseyrir og leiðsögn í Guggenheim listasafnið, aðgangseyrir og leiðsögn í Altamira safnið, aðgangseyrir í dómkirkju Oviedo og í dómkirkju Santiago de Compostela. Íslensk fararstjórn í allri ferðinni.

Verð er miðað lágmarksþátttöku 20 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Ferðast til San Sebastian

19. júní / þriðjudagur

Flug með Icelandair til London Heathrow. Flugtak kl. 07:40, lending kl. 11:45 að staðartíma. Flug með British Airways frá London Heathrow til Bilbao. Flugtak kl. 15:45, lending kl. 18:50 að staðartíma. Ekið frá Bilbao til San Sebastian en aksturinn tekur um 1 klst. Þar komum við okkur fyrir á góðu 4* hóteli. Gist í San Sebastian í 3 nætur. Kvöldverður á hóteli innifalinn fyrsta kvöldið.

Dagur 2 – Dvalið í San Sebastian

20. júní / miðvikudagur

San Sebastian eða Donostia eins og borgin er kölluð á „euskera“, tungumáli Baskalands, er aðeins 20 km frá landamærum Spánar og Frakklands og stendur við Biscaya flóann. Í borginni búa 186.000 manns og hefur borgin jafnan verið kölluð „Perlan“, enda falleg borg umvafin gullnum ströndum. Frægust þeirra er án efa ströndin La Concha en hún er yfir kílómetra á lengd og með frábærri aðstöðu til sólbaða; útisturtur, leiga á sólhlífum og bekkjum, o.s.frv. Margir kannast við Jazz hátíðina „Festival de Jazz“ sem haldin hefur verið árlega í borginni frá árinu 1966. Einnig er borgin þekkt fyrir hina alþjóðlegu kvikmyndahátíð „Festival Internacional de Cine“ sem haldin er hér árlega, en sú fyrsta var haldin árið 1953. Í dag er San Sebastian einnig vel þekkt fyrir matarmenningu sína en í borginni má finna 15 Michelín stjörnur sem dreifðar eru á milli 7 veitingahúsa borgarinnar. Hérna eru fjölmörg veitingahús sem bjóða upp á góðan mat á góðu verði. Mörg þeirra bjóða upp á hina frægu „Pintxos“ eða smárétti að hætti heimamanna, en þeir eru svipaðir „tapas“ nema að hér eru þessir glæsilegu smáréttir þó oftast bornir fram á spjóti. Seinni part dags ætlum við að hittast í gamla bænum en þá mun fararstjóri kynna okkur fyrir borginni og matarmenningu bæjarbúa og fara með okkur á nokkra valda staði.

Dagur 3 – Dvalið í San Sebastian

21. júní / fimmtudagur

Frjáls dagur til að njóta borgarinnar.

Dagur 4 – Bilbao & Santander

22. júní / föstudagur

Eftir morgunverð höldum við af stað til stærstu borgar Baskalands, Bilbao, en aksturinn tekur um 1 klst. Líkt og San Sebastian, stendur borgin framarlega í nýrstárlegum listum; matreiðslu en einnig í arkitektúr og hönnun. Við munum skoða þekktustu byggingu borgarinnar, Guggenheim listasafnið sem var hannað af arkitektinum Frank Gehry og er án efa, ein af frægastu byggingum Spánar. Inn á safninu skoðum við verkin sem þar eru að finna, en fyrir utan verk í eigu safnsins, eru alltaf sýningar í boði frá ýmsum nútímalistamönnum. Eftir hádegi fáum við frjálsan tíma til að skoða okkur um í Bilbao. Seinni partinn liggur leið okkar til borgarinnar Santander, höfuðborg Cantabriu, nágrannahéraðs Baskalands (1 klst. 10 mín. akstur), en þar komum við okkur fyrir á góðu 4* hóteli. Gist í Santander í 3 nætur. Kvöldverður á hóteli innifalinn fyrsta kvöldið.

Dagur 5 – Dvalið í Santander

23. júní / laugardagur

Í dag ætlum við að njóta lífsins í Santander! Santander er borg prýdd bæði fjöllum og fallegum ströndum. Hverfið og ströndin „El Sardinero“ varð vinsæll ferðamannastaður á seinni hluta 19. aldar og byrjun 20. aldar en á þessum tíma kom hefðarfólkið hingað í heilsuferðir. Í dag eru því margar virðulegar 19. aldar byggingar sem gefa borginni glæsilegan brag. Til að mynda var hótelið Hotel Real byggt árið 1916 til að geta boðið aðalnum, sem fylgdi heimsóknum konungsins, gistingu. Spilavítið „El Gran Casino de El Sardinero“ er önnur glæsileg bygging frá byrjun 20. aldar sem og bygging Santander bankans sem er einn stærsti banki Spánar. Gaman er að fara í gönguferð um Magdalena ströndina og skoða Magdalena höllina og hallargarðana en þessi höll var notuð sem sumarbústaður Spánarkonungsins Alfonso XIII á árunum 1913 til 1930.
Í Cantabria eins og í næsta nágrannahéraði, Asturias, er mikið um hefðbundna og ljúffenga rétti en grænmeti og baunir eru mikið notaðar í bland við kjötafurðir héraðana. Vert að prófa t.d. „Cocido Montanes“, „Cocido Lebaniego“ eða „Fabada Asturiana“ sem eru með þeim þekktustu í þessum héruðum.

Dagur 6 – Altamirahellirinn & Santillana del Mar

24. júní / sunnudagur

Í héruðunum País Vasco, Cantabria og Asturias er að finna marga einstaka hella og hafa 18 þessara hella verið settir saman sem heild á heimsminjaskrá Unesco þar sem þeir hafa allir að geyma minjar/teikningar frá árunum 35.600 – 13.000 f. Kr. Er þessi hópur hellna kenndur við þann þekktasta, Altamira hellinn (La Cueva de Altamira) sem er að finna í Cantabria nálægt bænum Santillana del Mar. Altamira hellirinn sjálfur er lokaður almenningi til varðveitingar, en þess í stað, nálægt hinum upprunalega helli, er hægt að heimsækja safn tileinkað honum sem fræðir okkur um alla þessa hella og þar munum við skoða eins konar afrit af Altamira hellinum í þrívídd. Eftir heimsóknina í safnið höldum við til Santillana del Mar, lítils bæjar í miðaldastíl með steini lagðar götur þar sem við ætlum að eiga frjálsan tíma áður en haldið er aftur af stað til Santander.

Dagur 7 – Cangas de Onís & Oviedo

25. júní / mánudagur

Við kveðjum nú Santander og ökum af stað til bæjarins Cangas de Onís og Covadonga vatnanna sem eru í þjóðgarðinum Picos de Europa. Covadonga vötnin eru án efa eitt helsta aðdráttarafl ferðafólks sem heimsækir Asturias héraðið. Þau eru staðsett í yfir 1.000 m. hæð og á leiðinni upp í fjöllin er líklegt að heyra dinglandi bjöllur hljóma frá kúnum sem hér ganga lausar um. Við vötnin er friðsælt og því upplagt að taka góðan göngutúr og njóta náttúrunnar. Á leið okkar til bæjarins Cangas de Onís er kapella hinnar heilögu Covadonga en hún er afar mikilvæg fyrir íbúa Asturias enda mikil saga bak við þennan stað. Hér hófst byltingin gegn márum til að endurheimta hið gríðamikla landsvæði sem þeir höfðu lagt undir sig á Íberíuskaganum. Í bænum Cangas de Onís er upplagt að fá sér hressingu og skoða þennan heillandi bæ en hann er m.a. þekktur fyrir margar áhugaverðar sælkeraverslanir sem selja ýmiss konar gómsætan varning frá þessu svæði, t.d. bestu ostana! Seinni partinn er ekið áleiðis til höfuðborgar Asturias, Oviedo (1 klst. akstur) þar sem við munum gista næstu 2 nætur á 4* hóteli . Kvöldverður á hóteli innifalinn fyrsta kvöldið.

Dagur 8 – Dvalið í Oviedo

26. júní / þriðjudagur

Borgin Oviedo er höfuðborg Asturias héraðsins og í henni búa rúmlega 200.000 manns. Talið er að borgin hafi verið byggð á 8. öld eða jafnvel fyrr en borgin var fyrsta kristna höfuðborg Íberíuskagans og mikilvægur linkur í upphaflegu pílagrímsferðunum til Santiago de Compostela. Eftir morgunverð ætlum við að fara í kynnisferð um borgina og skoða m.a. merka dómkirkju Oviedo. Við endum svo gönguna á því að smakka vín heimamanna en það er bruggað úr epplum og framreitt á sérstakan hátt!

Dagur 9 – Santiago de Compostela

27. júní / miðvikudagur

Við kveðjum Oviedo og höldum áleiðis um grænar sveitir Norður-Spánar. Við ætlum nú að aka inn í héraðið Galicia. Líkt og á Íslandi hefur sjávarútvegur verið afar mikilvægur fyrir hérað Galiciu, en á síðustu árum hefur einnig iðnaður ásamt ferðaþjónustu aukist verulega. Það má segja að íbúar Galiciu séu flestir með sjómannsblóð í æðum og því eru fiskafurðir mikið notaðar við matargerð í héraðinu. Við tökum stefnuna til borgarinnar Santiago de Compostela en á leiðinni ætlum við að heimsækja sjávarþorpið Ribadeo (1,5 klst. akstur). Eftir hádegisverð höldum við áfram leið okkar til Santiago de Compostela (2 klst. akstur). Frjáls tími í Santiago seinni partinn. Gist á þægilegu 3* hóteli í Santiago de Compostela síðustu 2 næturnar. Kvöldverður á hóteli innifalinn fyrsta kvöldið. 

Dagur 10 – Santiago de Compostela

28. júní / fimmtudagur

Eftir morgunverð á hótelinu förum við í kynnisferð um Santiago de Compostela og heimsækjum hina frægu dómkirku sem margir hafa heyrt talað um. Við kynnum okkur sögu Jakobstígsins og hvernig pílagrímsferðirnar hafa þróast í gegnum aldirnar. Eftir hádegi fáum við frjálsan tíma til þess að kynnast borginni á eigin vegum. Við mælum eindregið með að nýta síðasta daginn í að prófa sjávarrétti eldaða að hætti heimamanna en hérna er mikið um skelfisk, rækjur og kolbrabba. „Pulpo a la gallega“ er t.d. kolkrabbi eldaður að hætti heimamanna og svo er einnig algengt að fólk fái sér „mariscada“ við hátíðleg tilefni en þá er borið fram fat með úrval af skelfiski og rækjutegundum.

Dagur 11 – Ferðast til Íslands

29. júní / föstudagur

Við höldum upp á flugvöll árla dags. Flogið er frá Santiago de Compostela til London. Flugtak með Easyjet kl. 09:40, lending í London Gatwick kl. 10:35. Flogið er frá London Gatwick til Keflavíkur með Icelandair kl. 13:10, lending í Keflavík kl. 15:10.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti