Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Sikiley – Vindeyjar

Fararstjóri: Einar Garibaldi Eiríksson

Gönguferð 8. október í 10 nætur til Vindeyja – Le Isole Eolie – hins ævintýralega eldfjallaeyjaklasa norður af Sikiley. Í ferðinni verður farið í valdar dagsgöngur eftir ægifögrum göngustígum á milli litskrúðugra þorpa, gróðursællra unaðslunda og fjallstinda með óviðjafnanlegu útsýni yfir nokkrar af rómuðustu náttúru-perlum Suður-Ítalíu. Meðal annars verður gengið á eldfjöllin á eyjunum Vulcano og Stromboli, þar sem látlaus eldvirknin hefur réttilega fært þeim viðurnefnið "Viti Miðjarðarhafsins".

Í ferðinni kynnumst við einstakri menningu Sikileyinga er rekja má allt aftur til forsögulegs tíma, í gegnum hámenningu fornaldarinnar hjá Grikkjum og Rómverjum, til yfirtöku Mára, Normanna og Spánverja á seinni öldum. Við kynnumst ómótstæðilegu mannlífi og ósnortinni náttúru, þar sem tækifæri gefst til að njóta sérstakrar matarmenningar og gestrisni sem á sér engan sinn líkan í veröldinni.

Við heimsækjum Cefalú, fallegan bæ á norðurströnd Sikileyjar, þaðan sem haldið verður til Vindeyja, sjö eldfjallaeyja sem kunnastar eru fyrir eldvirknina á Vulcano og Stromboli. Vindeyjar eru á lista Sameinuðu Þjóðanna yfir náttúruvætti og eru rómaðar fyrir fegurð sína og einangrun, en þær draga nafn sitt af guði vindanna, Èolo er kaus að gera þær að heimkynnum sínum. Dvalið verður á Lipari og Stromboli, þaðan sem göngustígarnir bera ferðalanginn upp frá litskrúðugum fiskimannaþorpum í gegnum villtan og ilmsterkan miðjarðarhafsgróður, yfir hraunbreiður, hvítt gjall og svarta sanda, að gígum, klettum, víkum og höfðum, þar sem svalandi fagurblámi hafsins um kring er ómótstæðilegur.

Ferðalok verða í borginni Catania, við rætur eldfjallsins Etnu, þaðan sem flogið er aftur til Íslands.

Innifalið: Flug, skattar, innrituð 23 kg taska og 10 kg handtaska á mann. Gisting á 3* og 4* hótelum í 10 nætur með morgunverði. Íslensk fararstjórn miðað við lágmarksþátttöku 16 manns. Akstur til og frá flugvelli og á milli áfangastaða. 3 kvöldverðir: 8./10./14. október. Bátsferðir: 10./11./12./13./14./17. október.

Ekki innifalið: Valfrjálsar báts- og kynnisferðir, ferðamannaskattur á hótelum, þjónusta eldfjallasérfræðings á Stromboli, aðgangseyrir að söfnum, kláfum, bátum og annað sem ekki er tilgreint að ofan.

Athugið! Ferðatilhögun er birt með fyrirvara. Heimsferðir áskilja sér rétt til að breyta dagskrá ef á þarf að halda með tilliti til veðurs og annarra aðstæðna, að sjálfsögðu með heill farþega í fyrirrúmi.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Sikileyjar

8. október / mánudagur
Flug með Primera Air til Palermo á Sikiley.  Áætlað brottför er kl 8:00 og áætluð lending á Palermo flugvelli kl 15:10 að staðartíma. Ekið frá flugvelli til Cefalú (70. km.). Við komum okkur fyrir á hóteli, fáum okkur síðbúinn kvöldverð og stutta gönguferð um miðbæinn. Dvalið er í Cefalú á Hotel Santa Lucia/le Sabbie D'oro 3* í 2 nætur með kvöldverði fyrsta kvöldið.

Dagur 2 – Cefalú á Sikiley

9. október / þriðjudagur
Við hefjum daginn á því að fá okkur léttan göngutúr um Cefalú; leggjum á "heimaklettinn" sem vakir yfir bænum, skoðum dómkirkjuna og þær einstöku mosaíkmyndir sem hún hefur að geyma (12. öld), látum okkur síðan líða um þröng strætin á leið okkar á einhvern af hinum stórkostlegu fiskveitingastöðum sem bíða í röðum við gömlu höfnina og höldum aftur á hótelið.

Gönguupplýsingar: 4 km. / 3 klst. / +-200 m. 

Dagur 3 – Eyjan Lipari

10. október / miðvikudagur
Í dag er stefnan tekin á Vindeyjar. Við ökum frá Cefalú til Milazzo, þaðan sem við tökum bát til eyjunnar Lipari þar sem við munum gista í 4 nætur. Við komum okkur fyrir á gististað og fáum okkur síðan hádegisverð áður en við höldum af stað í létta gönguferð út úr bænum. Við höldum til suðurodda eyjunnar, þaðan sem við höfum stórfenglegt útsýni yfir til eyjunnar Vulcano og meðfram klettóttri ströndinni. Héðan höldum við í gegnum þéttan miðjarðarhafs-gróðurinn, áður en við tökum brattan stíg aftur niður til bæjarins í Lipari. Dvalið er á Lipari á Hotel Gattopardo Park 4* Lipari í 4 nætur með kvöldverði fyrsta kvöldið.

Gönguupplýsingar: 6 km / 4 klst / +-400 m.

Dagur 4 – Eyjan Lipari

11. október / fimmtudagur
Við byrjum daginn á því að sigla til Vulcano þar sem við göngum á eldfjallið La Fossa (391 m.). Hér lita bullandi smáhverir umhverfið og útsýnið yfir eyjaklasann og bæinn fyrir neðan er engu líkt. Er við komum aftur niður á ströndina gefst okkur tækifæri á að fara í "sjóðandi" sjó og heit leirböð áður en við tökum bátinn aftur yfir til Lipari.

Gönguupplýsingar: 5 km / 3 klst / +-400 m. 

Dagur 5 – Eyjan Salina

12. október / föstudagur
Í dag förum við til eyjunnar Salina, sem er kunn sem baksvið kvikmyndarinnar "Il Postino". Hér göngum við meðfram ströndinni í átt til bæjarins Lingua, þar sem við fáum að smakka á hefðbundinni matargerð eyjaskeggja. Leiðin liggur innan um kapers og vínvið, sem eru helstu framleiðsluvörur eyjaskeggja. Hér drekkum við í okkur angan gróðursins og njótum sérstakrar fegurðar eyjunnar, áður en við siglum aftur sem leið liggur til Lipari og höldum aftur á hótelið okkar.

Gönguupplýsingar:  6 km / 4 klst / +-100 m.

Dagur 6 – Eyjan Panarea

13. október / laugardagur
Í dag heimsækjum við Panarea, minnstu eyjuna í eyjaklasanum. Frá höfninni liggur leiðin upp brattann og eftir fjallshryggnum ofan við hvítmáluð húsin í San Pietro, þaðan sem fagurt útsýni er yfir kletta og dranga allt í kringum eyjuna. Við komum niður að vogskorinni ströndinni við Junco höfða, þar sem við virðum fyrir okkur rústir frá forsögulegum tíma. Þegar við komum aftur til bæjarins njótum við stemmningarinnar, þar sem við fáum okkur sítrónuískrap eða glas af Malvasia, sérstöku eftirréttavíni heimamanna. Siglt til baka til Lipari og haldið á hótelið.

Gönguupplýsingar: 5 km / 4 klst. / +-400 m. 

Dagur 7 – Lipari & Stromboli

14. október / sunnudagur
Í dag liggur leiðin til Stromboli þar sem við gistum næstu 3 nætur. Fyrri hluta dags notum við til þess að fara í létta gönguferð um bæinn,þar sem skoðum m.a. Kastalaborgina, klaustrið og fornminjasafnið á Lipari. Síðan fáum við okkur hádegisverð, gerum okkur ferðbúin og siglum síðan í eftirmiðdaginn til Stromboli. Hér komum við okkur fyrir á hóteli, njótum stórfenglegs
útsýnisins upp á eldfjallið og út á hafið til Strombolicchio. Dvalið er á Lipari á Hotel Villaggio Stromboli 3* Stromboli í 3 nætur með kvöldverði fyrsta kvöldið.

Dagur 8 – Eyjan Stromboli

15. október / mánudagur
Fyrri hluta dags förum við í gönguferð um bæinn okkar, virðum fyrir okkur litskrúðuga stemmninguna og fáum okkur hressingu að hætti heimamanna á einhverjum af ótalmörgum veitingastöðum í þorpinu. Undir kvöld hefjum við gönguna á sjálft eldfjallið, leið okkur liggur upp eftir bröttum og söndóttum hlíðum fjallsins, sem við skoðum í fylgd eldfjallasérfræðings. Um það leyti sem myrkrið skellur á höfum við náð fjallstindinum, þar sem við verðum vitni að einstöku sjónarspili þessa rómaða eldfjalls. Hér er virknin næstum stöðug og í rökkrinu njótum við eldhræringanna til fullnustu. Gangan á tindinn er stíf en hér er hátindi ferðarinnar náð og héðan svífum við léttilega niður í átt að ljósunum í bænum, á hótelið okkar og snæðum síðbúinn kvöldverð og gleðjumst yfir afrekum okkar.

Gönguupplýsingar; 7 km / 6 klst / +-900 m. 

Dagur 9 – Eyjan Stromboli

16. október / þriðjudagur
Fyrri hluta dags hvílum við lúin bein, njótum strandarinnar neðan við gististaðinn okkar eða göngum um bæinn. Seinnipartinn leggjum við á stað til Sciara del Fuoco til að virða fyrir okkur grjóthrunið sem fellur stöðugt niður hlíðarnar og í sjó fram frá sívirkum gígunum fyrir ofan. Við borðum síðan kvöldverð þaðan sem við njótum eldglæringanna upp í fjalli, áður en við snúum til baka inn í bæinn á hótelið.

Gönguupplýsingar: 8 km. / 5 klst. / +-400 m. 

Dagur 10 – Catania á Sikiley

17. október / miðvikudagur
Við hefjum daginn á því að sigla til Milazzo, þaðan sem við ökum er leið liggur til Catania. Eftir að við höfum komið okkur fyrir á gististað höldum við í skoðunarferð um borgina, þar sem við kynnumst betur hinni fornu menningu Sikileyinga í Catania. Um kvöldið njótum við fjölskrúðugrar matarmenningar miðjarðarhafsins, þar sem margskonar fiskmeti, grænmeti og ávextir, auk ómótstæðilegra eftirrétta heimamanna verða ekki langt undan. Dvalið í Catania á Hotel Katane Palace 4* m/morgunmat.

Dagur 11 – Flogið til Íslands

18. október / fimmtudagur
Flug með Primera Air frá Catania flugvelli.  Áætluð brottför er kl 17:30, og áætluð lending kl 20:55 á Keflavíkurflugvelli.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti