Sólarferð
Borgarferð
Golfferðir
Hreyfiferðir
Sérferðir
Sportferðir
Siglingar
Flugsæti

Sorrentoskaginn á Ítalíu

Gönguferð um Sorrentoskagann
9. október í 10 nætur

Hið virta tímarit National Geography hefur útnefnt Amalfi-ströndina sem einn af þeim 50 stöðum sem mælt er með að heimsækja á lífsleiðinni.

Í þessari ferð er flogið í leiguflugi Heimsferða til Palermo á Sikiley. Frá Palermo er flogið til Napolí en það er um 1 klst. flug. Dvalið er í Napolí í 2 nætur á góðu hóteli í miðborginni. Þá er dvalið í 4 nætur í fallega smábænum Amalfi á Amalfi-ströndinni og í lokin 4 nætur í Sorrento bænum.

Farið verður í gönguferðir um Sorrentoskagann, Vesúvíus og Capri. Í sumum tilfellum er ekið að upphafstað göngustaðanna sem löngum hafa verið taldir til helstu náttúruperlna á Ítalíu. Gönguferðirnar eru fjöbreyttar og gefa kjörið tækifæri til að kynnast menningu og náttúru svæðisins í kringum Napolíflóann Leiðir liggja jafnt um skógivaxnar hlíðar Amalfi-strandarinnar og ógnvænlegan hátind Vesúvíusar, sem ilmandi gróðurbreiðurnar á Capri. Gengið er innan um vínvið og ólífuviðarlundi er fela minjar ævafornrar menningar, þar sem villt blóm og síturstré fylla loftið af sætri angan.

Hér ríkja skærir litir Miðjarðarhafsins sem varpa draumkenndum blæ yfir náttúruna og útsýnið meðfram ströndinni er algjörlega einstakt. Draumaferð allra þeirra sem vilja blanda saman hæfilegri útiveru og þægindum í fögru og rómantísku umhverfi.

Innifalið í verði er: Flug – skattar – 1 innrituð taska 20 kg – gisting í 10 nætur á 4* hótelum með morgunverðarhlaðborði – 3 kvöldverðir – allur akstur samkvæmt ofangreindri dagskrá. Innlendur enskumælandi leiðsögumaður ásamt íslenskum leiðsögumanni miðað við lágmarksþátttöku 16 manns.

Lágmarksþátttaka: 16 manns / Hámarksþátttaka: 20 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Napolí

9. október / mánudagur
Flug í beinu flugi til Palermo á Sikiley með Primera Air. Flugtak kl. 08:00, lending kl. 15:10. Frá Palermo er brottför kl 19:30, og komið til Napoli flugvallar kl. 20:30 Um 1 klst. flug. Ekið frá flugvelli til hótels í Napolí þar sem gist verður í 2 nætur.

9. – 11. október
Gisting á Hotel Palazzo Salgar**** 
Gott 4* hótel staðsett skatt frá höfninni í Napolí. Falleg loftkæld herbergi, með öryggishóli og minibar.

Dagur 2 – Pompei & Vesúvíus

10. október / þriðjudagur
Dagurinn hefst kl. 08.30 á kynnisferð um Pompei þar sem minjar atburðanna frá því árið 79 eru skoðaðar. Við skoðum og fræðumst um rústir þessarar fornu rómversku borgar sem grófst í ösku árið 79 e.Kr. En borgin er afar merkileg heimild um hvernig lífi hins „venjulega borgara“ var háttað á þessum tíma. Síðan er haldið til Vesúvíusar þar sem ekið er upp í ríflega 1000m. hæð. Héðan er stefnan tekið upp á hátind fjallsins sem er í 1.281 m hæð yfir sjávarmáli. Þar heldur gangan áfram eftir gígbarminum hringinn í kringum fjallið, með stórbrotið útsýni yfir Napolíflóann og niður í ógnvænlegan gíg eldfjallsins. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 3 – Frjáls dagur í Amalfi

11. október / miðvikudagur
Ekið frá Napolí til Amalfi, lagt af stað kl. 09:00.

11. – 15. október
Gisting á Hotel la Bussola Amalfi**** 
Dagurinn frjáls til að njóta í þessum fallega bæ Amalfi.

Dagur 4 – Ravello & Torrello

12. október / fimmtudagur
Ekið frá Minori til Ravello, lagt af stað kl. 09:00. Einstaklega fallegur staður norðaustan við Amalfi. Þar er frjáls tími til að byrja með. Tilvalið tækifæri að fá sér hádegisverð og skoða hina dásamlega fallegu garða Villa Rufolo með stórbrotnu útsýni. Þá er haldið af stað í göngu til smáþorpsins Torrello. Stöldrum þar við í skamma stund og höldum svo leið okkar áfram í átt til strandar. Hluti leiðarinnar er niður nokkuð margar steintröppur. Á leiðinni er stórkostlegt útsýni yfir Amalfi ströndina og smábæina þar í kring. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 5 – Guðastígur

13. október / föstudagur
Hinn svolkallaði Guðastígur er vafalaust kunnasta gönguleiðin á Sorrentoskaganum. Við leggjum af stað kl. 09.00 og ekið til bæjarins Agerola í litlum rútum, þar sem vegirnir eru svo þröngir, en þetta er um 16 km akstur. Í um 700 m hæð hefst gangan um þröng sund og krókóttir stígar liggja í áttina til strandar utan í snarbrattri hlíð með ægifögru útsýni á alla vegu. Stígurinn sveigir á milli kýprustrjáa og ilmandi sítursviðar áður en hann þræðir sig niður til Positano bæjarins þar sem gönguleiðin endar. Dvalið um stund í Positano sem er einn fallegasti bærinn á þessum slóðum sem eru þó ófáir. Ekið tilbaka til Amalfi.

Dagur 6 – Amalfi hringurinn

14. október / laugardagur
Ekið frá Amalfi til Pontone sem er bær sem kúrir í hlíðunum fyrir ofan Amalfi bæinn, lagt af stað kl.08.30. Þaðan hefst ganga sem er ein vinsælasta gönguleiðin á þessum slóðum. Stígurinn þræðir sig um hlíðarnar ofan við Amalfi en þaðan er stórfenglegt útsýni yfir bæinn og Salerno flóann. Gangan vindur sig um eikar og kastaníuskóga í um það bil 500 m hæð. Á leiðinni er gengið mefram rennandi lækjum og árfarvegum. Þar má víða sjá leifar af gömlum myllum. Farið er um þorp sem virðist hafa staði óbreytt um aldir og ofan við okkur blasa fagrar kalksteins-myndanir sem gefa umverfinu sérstakan blæ. Göngunni lýkur í Amalfi.

Dagur 7 – Frjáls dagur í Sorrento

15. október / sunnudagur
Ekið frá Amalfi meðfram Amalfi ströndinni, lagt af stað kl. 09:00. Ekið yfir skagann til Sorrento en þetta er ein fallegasta akstursleið á þessum slóðum. Frjáls eftirmiðdagur í Sorrento þar sem gist verður i 4 nætur.

Sorrento
Við safírbláan Napolíflóann kúrir bærinn Sorrento í hlíðum fyrir ofan flóann innan um vínekrur og sítrustré. Frá Sorrento er stórkostlegt útsýni yfir flóann, með eyjarnar Capri á vinstri hönd og Ischia beint af augum. Þá trjónir Vesuvíus á hægri hönd sem fullkomnar þessa mynd. Stórkostleg umgjört um þennan fallega bæ. Í bænum hafa um 20.000 manns fast búsetu en þar sem að bærinn er einn af eftirlætis stöðum ferðamanna margfaldast þessi tala þegar ferðamannatíminn gengur í garð. Það er ekki einungis einstök fegurð staðarins sem hefur þetta aðdráttarafl heldur einnig staðsetning hans.

15. – 19. október
Gisting á Hotel Conca Park**** 

Dagur 8 – Sorrentoskaginn

16. október / mánudagur
Gengið er út á ysta höfða Sorrentoskagans, lagt er af stað kl.08.30. Við göngum fram á hvítar klettabrúnir þar sem gefur að líta sérstakar kalksteinsmyndanir og óviðjafnanlegt útsýni. Leiðin liggur á milli gamalla kapellna og fornra varðturna,innan um villt blóm og ólífuvið. Héðan er fagurt útsýni inn eftir Monti Lattari fjöllum, Amalfi-ströndinni og yfir til eyjunnar Carpi.

Dagur 9 – Eyjan Capri

17. október / þriðjudagur
Ekið frá hótelinu til hafnar, lagt er af stað kl. 07.30. Siglt til eyjunnar Capri um það bil 20 mínútna sigling. Á Capri er gengið eftir göngustígum sem tengja saman byggðina á eyjunni. Leiðin liggur á milli vandlega skipulagðra víngarða og ólífutrjáa, um ilmandi breiður villtra jurta og sítrusávaxta. Gengið er um snarbratta klettaveggi er gnæfa yfir fagurbláu hafi og heimsóttar eru minar frá tímum Rómverja. En einnig gefst tími til að skoða sig um á þessari fallegu eyju. Brottför frá Capri til Sorrento er kl. 16:20. Kvöldverður á hótelinu.

Dagur 10 – Frjáls dagur í Sorrento

18. október / miðvikudagur
Frjáls dagur í Sorrento.

Dagur 11 – Flogið til Íslands

19. október / fimmtudagur
Brottfarardagur. Nú er komið að ferðalokum og kl. 06:45 kemur rúta sem ekur út á flugvöll í Napoli. Flug með Alitalia til Catania á Sikiley. Flugtak kl. 10:05 og áætluð lending í Catania kl. 11:30.
Flugtak frá Catania kl. 17:30, komutími til Keflavíkur kl. 20:55.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti