Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Nýársheit á Fuerteventura

Fyrsti janúar er tilvalinn dagur til að setja sér nýársheit um heilsusamlegra líf og byrja árið með krafti!

Komdu með okkur í hreyfiferð til hinnar dásamlegu eyju Fuerteventura undir fararstjórn einkaþjálfara með áralanga reynslu í þjálfun. Í þessari ferð verður lögð áhersla á styrktaræfingar og brennslu en einnig verður farið í göngur, hlaupið á ströndinni og stundaðar aðrar skemmtilegar æfingar.

Flogið er í beinu flugi til Fuerteventura þar sem dvalið er á Hotel Occidental Jandía Mar, glæsilegu 4* hóteli í 10 nætur, með hálft fæði innifalið. Occidental Jandia Mar er í 8 mínútna göngufjarlægð frá Jandía ströndinni sem þykir með fallegri ströndum Kanaríeyja, en þetta er 12 km. löng strönd með hvítum sandi. Á hótelinu er stór íþróttasalur með fjölda tækja til að stunda fjölbreyttar æfingar sem við munum nýta okkur alla daga!

Á Occidental Jandía Mar eru einnig 2 glæsilegar sundlaugar með sólbaðsaðstöðu og sundlaugabar og á kvöldin er boðið upp á skemmtidagskrá og diskótek. Hótelherbergin eru öll vel búin og smekklega innréttuð með svölum eða verönd. Einnig er heilsulind á hótelinu sem þátttakendur þessarar ferðar geta nýtt sér*. Það verður því auðvelt að byrja árið vel! Á milli æfinga er upplagt að njóta sín í heilsulindinni, fara niður í bæinn Morro Jable sem er í 3 km fjarlægð, fara í köfun, windsurf, o.s.frv. eða bara slaka á við ströndina undir róandi nið aldanna. Ferðin hentar öllum, bæði þeim sem hreyfa sig að staðaldri og þeim sem vilja byrjað að hreyfa sig þar sem fararstjórinn mun sjá til þess að allir fái æfingar við sitt hæfi. Þessi ferð er því tilvalinn fyrir alla sem vilja nýta fríið í hreyfingu en einnig njóta sín á góðu hóteli á fallegum stað eins og Fuerteventura er.

Innifalið í verði er: Flug og skattar, innrituð 23 kg taska og 10 kg handfarangur. Rútuferðir til og frá flugvelli. Gisting með hálfu fæði á Hotel Occidental Jandía. Æfingaprógram, (fyrirlestrar), þjálfun og æfingar í ferð undir leiðsögn fararstjóra. *Frír aðgangur í heilsulind hótelsins í 6 skipti (2 klst. í senn) en þar eru innisundlaugar, heitir pottar, sauna og slökunaraðstaða.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Fuerteventura

1. janúar / mánudagur
Flogið er til Fuerteventura í beinu flugi með Primera Air. Brottför frá Keflavík kl. 08:00, lent í Fuerteventura kl. 13:50. Ekið er frá flugvelli til hótelsins, aksturinn tekur um 1 klst. Þegar komið er á hótelið, komum við okkur fyrir og hittum fararstjóra í andyri hótelsins um kvöldið þar sem farið verður yfir prógram og markmið ferðarinnar. Kvöldverður á hóteli er innifalinn alla daga.

Dagur 2-10 – Dagskrá ferðar

2.-10. janúar / þri-mið
Við ætlum að byrja alla daga á því að hittast í íþróttasal hótelsins þar sem við munum einbeita okkur að styrktaræfingum og brennslu. Hver tími er í 90 mínútur. Seinnipart dags, ætlum við að hafa fjölbreytt og skemmtilegt íþróttaprógram þar sem farið verður m.a. í göngur, hópíþróttir, hlaupið á ströndinni, o.fl. Allar æfingar eru valfrjálsar en venjan er að nýta þær vel, enda tilgangur ferðarinnar að njóta samtímis þess að æfa vel.

Dagur 11 – Flogið til Íslands

11. janúar / fimmtudagur
Eftir morgunmat á hótelinu pökkum við niður í töskur og höldum út á flugvöll. Brottför frá Fuertventura kl. 14:50, komutími til Keflavíkur kl. 20:30.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti