Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Jóga á Krít

Jóga á grísku eyjunni Krít 
Jógakennari: Auður Bjarnadóttir

Heimsferðir bjóða upp á jógaferð til hinnar grísku eyju Krítar með Auði Bjarnadóttur jógakennara. Í þessari ferð gefst tækifæri á að rækta líkama og sál við góðar aðstæður í sólinni á þessari dásamlegu eyju. Krít lætur engan ósnortinn með fegurð sinni, menningu, góðum mat og yndislegum eyjaskeggjum!

Iðkun á hinni ævafornu hefð jóga nýtur sífellt aukinna vinsælda. Við munum njóta lífsins við ástundun jóga og slökunar á milli þess sem við leyfum sólargeislunum að leika við líkamann eða skoðum okkur um á þessari fallegu eyju; hvort sem er til að upplifa náttúruna eða fræðast um sögu og menningu.

Í ferðinni verður boðið uppá morgunjóga, síðdegisjóga, hugleiðslu ásamt kvöldhugleiðslu á fullu tungli. Þá verður einnig boðið upp á fyrirlestur um jógafræðin og vinnustofu um leiðir til að finna vellíðan og jafnvægi í daglegu lífi. Jafnframt verður farið í dagsferðina Helgistaðir & Elafonisi sem er innifalin í verði ferðarinnar en unnt er að bóka á Krít almennu kynnisferðirnar Hjarta Chania, Samariaglúfrið ásamt dagsferð til Santorini.

Auður Bjarnadóttir, sem rekur Jógasetrið, mun bjóða upp á fjölbreytt jóga, hugleiðslu og slökun kvölds og morgna undir berum himni. Auður hefur kennt jóga í nær 20 ár og státar af mörgum kennaraprófum í jóga, þ.á.m. Hatha/Ashtanga-jóga, Kundalini-jóga ásamt Yoga Nidra og Yoga Therapíu. Auður elskar að kenna en líka að læra og lítur á sig sem eilífan nemanda í jóga, og að lifa lífinu lifandi.

Krít er afar sjarmerandi staður fyrir ferð sem þessa, enda er eyjan þekkt fyrir náttúrfegurð og kyrrð. Eyjan státar af fjölbreyttum og fallegum strandlengjum, kristaltærum sjó og stórkostlegu fjalllendi. Í þessari ferð er dvalið á 3* gististöðunum Omega Apartments og Toxo Apartments.  

Innifalið: Flug, skattar, innrituð 23kg taska, akstur til og frá flugvelli, gisting á 3* íbúðahóteli, jóga, hugleiðsla og vinnustofa, dagsferðin Helgistaðir & Elafonisi, kvöldverður án drykkja á kveðjuhófi. Íslensk fararstjórn m.v. 20 manna þátttöku.

Ekki innifalið í verði: Kynnisferðirnar Hjarta Chania, Samariaglúfrið og Santorini.

Athugið! Dagskrá getur breyst lítillega ef ástæða þykir til. 

Dagskrá & Kynnisferðir

Dagur 1 – Flogið til Krítar

25. maí / föstudagur 
Flugtak frá Keflavík kl. 08:30 og lent á Krít kl. 17:25. Ekið á hótel, áætluð koma er um kl. 19:30. Eftir innritun verður stutt kynning á hvoru hóteli fyrir sig.

Í þessari ferð er dvalið á 3* gististöðunum Toxo Apartments og Omega Apartments. 

 

Dagur 2 – Jóga & Hjarta Chania

26. maí / laugardagur
Morgunjóga
Fræðsla um jóga
Kynnisferðin Hjarta Chania, valfrjálst.

Hjarta Chania
Bókaðu á Krít
Ferð m/íslenskri fararstjórn

Hálfsdagsferð

Þessi ferð er tilvalin til að kynnast gamla bænum í Chania, annarri stærstu borg Krítar og elstu borg í Evrópu, og fræðast um sögu og menningu hennar. Þar hefur verið stöðug búseta í meira en 4000 ár og er stórkostleg saga sem fylgir þessari fyrrum höfuðborg Krítar og mjög fjölbreytt menning. 

Í þessari hálfsdagsferð ætlum við að ganga saman um gamla bæinn í Chania og fræðast um sögu og menningu þessarar fallegu borgar sem oft er kölluð Litla Feneyjar. Við byrjum göngutúrinn niður við gömlu höfnina þar sem við sjáum mikið af því sem Feneyjingarnir byggðu upp og göngum svo saman um fallegu þröngu göngugöturnar með stoppum víðsvegar um bæinn. Á leiðinn munum við einnig sjá hvar áður stóðu tyrknesk böð, moskur og kirkjur. Við munum ganga eftir aðalgötunni og fara svo í hnífagötuna, þar sem við sjáum gamla borgarvirkið, förum að gamla markaðnum og svo í gegnum leðurstrætið. Við endum svo göngutúrinn á krítverskum veitingastað sem staðsettur er í gamalli sápuverksmiðju. Þar fáum við að bragða á grískri máltíð sem samanstendur af “meze” eða smárréttum, aðalrétti og eftrirétti.

Þríréttuð kvöldmáltíð er innifalin í ferðinni en með matnum er boðið upp á léttvín fyrir fullorðna og gosdrykki fyrir börn.

Athugið, þessi kynnisferð er í boði fyrir alla farþega Heimsferða á Krít og er ekki innifalin í verði ferðarinnar.

Upplýsingar um brottfarartíma og heimkomu má sjá í möppu á gististað á meðan dvöl stendur.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Dagur 3 – Morgun- & Síðdegsjóga

27. maí / sunnudagur 
Morgunjóga
Síðdegisjóga 

 

Dagur 4 – Helgist. & Elafonisi

28. maí / mánudagur
Helgistaðir & Elafonisi
Jóga á Elafonisi-ströndinni

Dagsferðin Helgistaðir & Elafonisi-ströndin

Eftir að hafa fengið okkur góðan morgunverð munum við leggja af stað í ferðina Helgistaðir og Elafonisiströndin.

Við hefjum ferðina á því að aka rétt út fyrir Chania þar sem við heimsækjum nunnurnar í Chrysopigi klaustrinu sem var upphaflega stofnað á 16. öld. Klausturgarðurinn og litlu kapellurnar eru einstaklega fallegar og þarna ætlum við að skoða okkur aðeins um og fræðast um starf systranna og sögu þessa helgistaðar. Rétt fyrir utan klaustrið eru nunnurnar með stórt landsvæði þar sem þær rækta lífrænt grænmeti, ávexti og ólífur en þær vinna mikið að því að fræða börn og unglinga um mikilvægi þess að lifa lífinu á vistvænan hátt og vernda náttúruna. Systurnar framleiða líka og selja m.a. sína eigin ólífuolíu, gefa út bækur, búa til reykelsi, kerti og sápur. Þá mála þær einnig íkon og freskur en íkon eru helgimyndir sem eru oftast málaðar á tré og freskur eru málverk sem eru máluð beint á veggi. Bæði ferskurnar og íkonin sem systurnar mála eru stórkostlega falleg.

Þaðan höldum við í hellinn Agia Sofia sem er staðsettur í 400 m hæð upp í fjöllunum. Nafnið á hellinum táknar „Viska Guðs“ en þetta er stórkostlegur dropasteinshellir sem minnir helst á dómkirkju þegar inn í hann er komið og þar inni er einnig að finna litla kapellu. Þarna hafa fundist fleiri þúsund ára gamlir munir og eru nokkrar goðsagnir sem tengjast þessum helga stað.

Eftir að hafa skoðað hellinn ökum við til Elafonisi sem er sögð vera ein fallegasta strönd í Evrópu. Ströndin er þakin kóralbleikum sandi og er sjórinn kristaltær. Þarna munum við fara í jóga á ströndinni, slaka svo á og njóta fegurðarinnar í nokkrar klukkustundir áður en haldið verður aftur heim á leið seinnipartinn.

Athugið, þessi dagsferð er innifalin í verði ferðarinnar og er eingöngu fyrir þá sem eru í jógaferðinni.

Dagur 5 – Jóga & Tónheilun

29. maí / þriðjudagur
Morgunjóga 
Tónheilun á fullu tungli

Dagur 6 – Jóga & Hugleiðsla

30. maí / miðvikudagur 
Morgunjóga
Síðdegisjóga / hugleiðsla

Dagur 7 – Jóga & Fræðsla

31. maí / fimmtudagur 
Morgunjóga
Fræðsla um jóga

 

Dagur 8 – Morgun- & Sídegisjóga

1. júní / föstudagur 
Morgunjóga
Síðdegisjóga

Dagur 9 – Frjáls tími & Santorini

02. jún / laugardagur 
Frjáls dagur
Kynnisferð til Santorini eyjunnar, valfrjálst.

Santorini
Bókaðu á Krít

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Heilsdagsferð

Þetta er ómissandi ferð til einnar fallegustu eldfjallaeyju Grikklands sem skilur engann eftir ósnortinn. 

Santorini er algjörlega mögnuð eyja þar sem við upplifum sérstaka orku og það er einnig fjölmargt andlegt sem tengist þessari eyju sem við fræðumst um í ferðinni. Saga eldfjallaeyjunnar spannar mörg þúsund ár og er hún sögð geyma leyndarmálið um hið horfna Atlantis.

Við ökum til feneyska hafnarbæjarins Rethymno þaðan sem siglt er með hraðferju yfir til Santorini. Þegar við komum í höfn, þá byrjum við á að aka upp í höfuðstaðinn Fira. Við munum hafa frjálsan tíma í Fira til þess að skoða okkur um. Þar er gaman að ganga um allar þröngu göngugöturnar, kíkja í eitthvað af listagalleríum eða skoða dómkirkjuna.

Eftir að við höfum kvatt Fira, ökum við til bæjarins Oía (Ía) en þar er fyrirhugað að hugleiða um stund. Þetta er einn fallegasti bærinn á eyjunni, með sín einkennandi hvítu hús sem hafa verið byggð inn í klettana, fallegu hvítu kirkjurnar með bláu þökunum, og stórkostlegu útsýni yfir gíginn. Það eru ófáir listamennirnir sem hafa heillast af þessum bæ og sest þar að. Einnig er hann mjög vinsæll á meðal verðandi brúðhjóna til þess að láta pússa sig saman. Í Oía gefst okkur frjáls tími til þess að ganga um götur bæjarins, virða fyrir okkur stórkostlegt útsýnið eða kíkja í einhverjar af þeim fallegu verslunum sem þar er að finna.

Við höldum svo aftur niður á höfn til þess að sigla til baka til Rethymnon og þaðan er ekið til Chania.

Athugið, þessi kynnisferð er í boði fyrir alla farþega Heimsferða á Krít og er ekki innifalin í verði ferðarinnar.

Íslensk fararstjórn miðast við lágmarksþátttöku 20 farþega.

Dagur 10 – Jóga & Kveðjuhóf

03. jún / sunnudagur 
Morgunjóga
Kveðjuhóf – út að borða saman

Dagur 11 – Flogið til Íslands

04. jún / mánudagur 
Morgunjóga
Flugtak frá Chania er kl. 18:25 og lent í Keflavík kl. 21:40.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti