Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Hvítu þorpin á Spáni

Grazalema – Jimera de Libar – Montejaque – El Bosque – Ronda
Fararstjóri: Ása Marín Hafsteinsdóttir

Gönguferð um fjalllendi Málaga og Cádiz á Spáni 10. maí í 7 nætur. Við kynnumst hinum „hvítu þorpum“ í göngum okkar um fallegt landslag Andalucíu, en um er að ræða þorp með litlum húsum í andalúsískum stíl sem öll eru hvítmáluð með kalki til varnar hita á sumrin. Gengið er í 3-6 klst. á dag og flokkast göngurnar undir léttar til miðlungserfiðar og henta því flestum sem eru í nokkuð góðu formi.

Gist er í 7 nætur á glæsilegu 4* hóteli, Hotel Fuerte Grazalema. Hótelið er í tæplega 5 km. fjarlægð frá þorpinu Grazalema sem er eitt þekktasta hvíta þorp þessa svæðis, staðsett í 800 m. hæð í þjóðgarði Grazalema fjallanna. Umhverfi hótelsins er fallegt og friðsælt og ef gengið er í þorpið er farið eftir skemmtilegum göngustíg. Í þorpinu eru nokkrir veitingastaðir og kaffistaðir í kringum aðal torg þorpsins, Plaza de España og þar stendur einnig kirkja frá 18. öld. Við skoðum einnig önnur hvít þorp í nágrenninu, Jimera de Libar, Montejaque, El Bosque og hinn þekkta bæ Ronda.

Hotel Fuerte Grazalema er 4* hótel staðsett á afar fallegu og friðsælu svæði í fjallgarði Grazalema. Á hótelinu er útisundlaug, heitur pottur, veitingastaður og bar. Hér er einnig vistvænn matjurtargarður. Herbergin eru með svölum með frábæru útsýni yfir Guadalete-dalinn / Grazalema þorpið og öll eru þau með loftkælingu, gervihnattasjónvarpi, síma og minibar.

Hafðu samband við ferðaráðgjafa í síma 595-1000 til að bóka þessa ferð!

Frá kr. 199.995
Netverð á mann frá kr. 199.995 m.v. 2 fullorðna í herbergi.

Innifalið: Flug, skattar, 23 kg. taska og 10 kg. handfarangur. Gisting á 4* hótelinu „Hotel Fuerte Grazalema“ með morgunverðarhlaðborði í 7 nætur. Kvöldverður á hóteli 10. maí. Akstur, íslensk og enskumælandi fararstjórn í göngur. Akstur til og frá flugvelli.

Ferð miðuð við lágmarksþátttöku 16 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Ferðast til Grazalema

10. maí / fimmtudagur
Flogið er frá Keflavík í morgunflugi og þegar komið er út eru farþegar sóttir út á flugvöll Jerez de la Frontera og þaðan er ekið til þorpsins Grazalema. Frá Jerez til Grazalema eru tæplega 100 km og tekur aksturinn u.þ.b. 1 klst. 25 mín. Gist er á 4* hóteli, Hotel Fuerte Grazalema, í 7 nætur m/morgunverði inniföldum. Kvöldverður er innfalinn. 

Dagur 2 – Grazalema

11. maí / fötudagur
Eftir morgunverð höldum við í okkar fyrstu göngu. Við ætlum að ganga í næsta nágrenni við þorpið Grazalema. Í Grazalema búa um 2.000 manns og er bærinn í 800 m. hæð umkringdur fjöllum allt í kring. Þetta náttúrsvæði hefur verið á heimsminjaskrá Unesco síðan 1977.

Genginn er hringur sem kallaður er „Las Presillas el Puerto del Boyar“ en í honum er gengið á fjallastíg í kringum gilið Peñón del Grazalema. Hækkun er á bilinu 850 m. til 1.250 m. og er lengd göngunnar 9 -12 km. Gangan er talin miðlungserfið og tekur u.þ.b. 5 klst. Eftir gönguna verður stoppað í bænum og geta því allir fengið sér hressingu og skoðað bæinn.

Dagur 3 – Montejaque

12. maí / laugardagur
Við byrjum daginn með góðum morgunverði og ökum síðan af stað í næstu göngu en aksturinn tekur um 35 mínútur. Gangan er að hluta til hringur en gengið er í 12 km og er hækkun / lækkun +/- 450 m.

Gangan er kölluð „Ruta de la Batalla de la Puente de Montejaque“ en gengin er leið um þekkta staði orrustu sem var háð á milli hermanna Napoleón og heimamanna árið 1810. Gengið er um dalinn „Gaduares“, skoðum hellinn „Cueva de Hundidero“ og rústir „Presa de los Caballeros“ stíflunnar. Gangan endar í hinu fallega þorpi „Montejaque“ og þar verður stoppað um stund áður en haldið er upp á hótel að nýju. 

Dagur 4 – Jimera de Libar

13. maí / sunnudagur
Við ökum af stað til Benaoján en þar ætlum við að byrja gönguna í dag en aksturinn tekur um 45 mínútur. Gangan í dag er í léttari kanntinum, hækkun er á bilinu 400 – 500 m. og lengd göngunnar 12 km. Miðað má við að gengið sé í 3 - 3,5 klst. Gengið er um skógi vaxið svæði í grennd við ána Guadiaro og á leiðinni sjáum við hvít þorpin í hlíðum nærliggjandi fjalla. Gangan endar nálægt þorpinu Jimena de Líbar en þar mun rútan ná í okkur og fara með okkur aftur til hótelsins okkar í Grazalema. 

.

Dagur 6 – Ronda

15. maí / þriðjudagur
Ronda er afar fallegur bær og stærsti bærinn af þeim sem heimsóttir eru í þessari ferð en í Ronda búa um 36.000 manns. Ronda stendur fyrir ofan 100 m. háa gjá með stórkostlegri brú sem er kölluð „Puente Nuevo“ eða nýja brúin, þó svo að hún hafi verið byggð á 18.öld! Við höldum í okkar síðustu göngu, í þetta skiptið í næsta nágrenni Ronda en við ætlum að ganga niður í gjána. Gangan er 6- 8 km og kölluð „Ruta de las Murallas de Ronda y los Molinos de Tajo“. Hún er meðalerfið, tekur 3-4 klst. og er hækkun / lækkun á bilinu 600 – 750 m. Við klárum gönguna aftur í Ronda og þar mun fararstjóri enda gönguna með stuttri kynnisferð um bæinn. Í Ronda er gott úrval verslana, veitingastaða og kaffihúsa og því gott að fá þar frjálsan tíma eftir gönguna.

Dagur 5 – El Bosque

14. maí / mánudagur
Í dag er ferðinni haldið til „El Bosque“ og tekur aksturinn 30 mín. Svæðið er mjög gróðursælt enda er þýðingin á El Bosque, „Skógurinn“. Gangan er kölluð „El Sendero del Río Majaceite“. Við göngum frá Benamahoma, meðfram ánni Majaceite til þorpsins El Bosque og þegar þangað er komið munum við hvíla okkur um stund og fá okkur kærkomna hressingu. Á þessari leið er mikill gróður og fjölbreytt dýralíf. Gangan er talin auðveld, lækkun á bilinu 500 m. til 250 m. en gengið er í u.þ.b. 4 klst.

Dagur 7 – Frjáls dagur í Grazalema

16. maí / miðvikudagur
Það er upplagt að eiga þennan síðasta dag til þess að njóta sín og fara í heita pottinn, taka létta göngu niður í þorp Grazalema eða bara njóta lífsins við sundlaugarbakkann! Fyrir þá sem vilja ganga niður í Grazalema þá er hægt að panta leigubílaþjónustu á hótelinu fyrir bakaleiðina sem kostar um 10€.

Dagur 8 – Flogið til Íslands

17. maí / fimmtudagur
Við kveðjum hótelið og Grazalema snemma morguns og höldum til flugvallar Malaga. Aksturinn tekur tæplega 2 klst. Flogið til Keflavíkur með millilendingu.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti