Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Vín

Frábær helgarferð til Vínar, tónlistarborgarinnar miklu!

Vinsamlegast athugið að ekki er íslenskur fararstjóri í Vínarborg en neyðarnúmer ferðaskrifstofunnar verður sent farþegum fyrir brottför. Flogið verður til Bratislava og hægt er að kaupa akstur til og frá flugvelli gegn gjaldi. Fararstjóri Heimsferða verður í Bratislava og geta farþegar bæst við í hóp farþega Bratislava í kynnisferð um Vínarborg. 

Vín, höfuðborg Austurríkis, er skemmtileg blanda af gömlum og nýjum tíma. Hér ríkir keisaralegt yfirbragð enda var borgin höfuðaðsetur austurrísku keisaranna í aldaraðir. Glæsilegar byggingar og hallir er að finna á nær hverju einasta götuhorni. Þá ber Vín einnig titilinn „tónlistarborgin“ með reisn enda bjuggu hér allir gömlu meistararnir Mozart, Beethoven, Schubert og Straussfeðgarnir. Íbúðum þeirra hefur verið breytt í söfn sem gaman er að skoða. Einnig er Haus der Musik heimsóknarinnar virði.

Í Vín er gaman að rölta um göngugöturnar í miðbænum, skoða mannlífið eða t.d. skoða vetrarhöllina Hofburg sem er í miðbænum, þar er Djásnasafnið sem geymir kórónur og skart Habsborgaranna. Þá er einnig gaman að fara í Spænska reiðskólann eða í Prunksaal, eitt af fallegustu bókasöfnum heims.

Stephansdom er kennileiti borgarinnar og hægt er að ganga upp 342 tröppurnar í suðurturninum og njóta útsýnis yfir borgina. Á Ringstrasse-hringnum svokallaða eru margar helstu byggingar borgarinnar og fallegir garðar sem gaman er að rölta um. Gaman er að skoða sumarhöllina Schönbrunn, dást að undurfögrum garðinum, heimsækja Hestakerrusafnið, fara í dýragarðinn eða bara fá sér kaffibolla og njóta stundarinnar.

Vín hefur upp á svo margt að bjóða. Möguleikarnir eru endalausir!

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Áhugaverðir staðir

Vínarborg er háborg tónlistar og menningarlíf af öllu tagi blómstrar í borginni.
Óperuhúsin eru heims-þekkt og Vínardrengjakórinn kannast allir við. Þarna eru víðfræg söfn og fallegar byggingar og svona mætti lengi telja.

Listasögusafnið hefur að geyma verk eftir Rebrandt, Rubens, Breugel og marga fleiri.

Leopoldssafnið í Museumsquartier er mjög spennandi með verk eftir t.d. Egon Schiele og Gustav Klimt.

Í austurrísku í Belvedere-höllinni má sjá hið fræga verk Kossinn eftir Gustav Klimt.

Þinghúsið, Ráðhúsið og Ríkisóperan lætur heldur engan ósnortinn.

Náttúrusögusafnið og Tæknisafnið eru einnig mjög spennandi og bæði nýuppgerð og nýtískuleg söfn fyrir alla fjölskylduna. Tæknisafnið er mjög spennandi fyrir alla fjölskylduna og er líka safn fyrir yngstu börnin, sem er safn fyrir börn á aldrinum 2─6 ára þar sem þau geta upplifað tækni með öllum skynfærum.

Borgin iðar af menningu. Í borginni eru líka spennandi staðir fyrir börn og má þar t.d. nefna Zoom-safnið þar sem eru skemmtilegar sýningar fyrir börn á öllum aldri.

Spennandi er að fara á sýningu í Ríkisóperunni (Volksoper) eða á tónleika á fjölmörgum tónlistarstöðum.
Hægt er skoða t.d. á eftirfarandi heimasíðu hvað er í boði og hvernig hægt er að nálgast miða: www.viennaclassic.com/de/home.html/ 

Vefslóðir þekktustu tónleikahúsanna:
Wiener Staatsoper: www.wiener-staatsoper.at
Volksoper Wien: www.volksoper.at
Kammeroper: www.wienerkammeroper.at

Svo er að sjálfsögðu gaman að fara aðeins í Tivólíið, „Prater“, og fara einn hring með parísarhjólinu… eða fara að Dóná, liggja í sólbaði við bakka hennar og slappa af …  eða fara í vínyrkjuþorpið Grinzing og fá sér rauðvínsglas, hlusta á Vínartónlist og njóta lífsins!

Verslun

Í Vín er fjöldinn allur af verslunum, m.a. H&M-verslanir, Forever 21 og allar aðrar helstu keðjur heims en einnig er gaman að þræða hliðargöturnar þar sem margar spennandi litlar verslanir er að finna. Primark er að finna í SCS-verslunarmiðstöðinni og einnig í nýrri verslunarmiðstöð, G3, sem er rétt fyrir utan borgina. Mjög auðvelt er að ferðast um borgina. Neðanjarðarlestir, sporvagnar og strætisvagnar aka um á nokkurra mínútna fresti og hentugt er að kaupa sér ýmist dagskort eða nokkurra daga kort.

Aðalverslunargöturnar í miðbænum eru Mariahilferstrasse og Kärtnerstrasse út frá Stefánskirkjunni. Verslanir eru yfirleitt opnar kl 8:30 -18.00 mánudaga til föstudaga og kl 9:00 – 17:00 á laugardögum. Á sunnudögum eru flestar verslanir lokaðar.

Tax Free
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför. Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.

Veitingar & Skemmtun

Fjöldi veitingastaða og bara er í borginni og Vínar kaffihúsin eru víðfræg.
“Heurigen” staðir með vínum þessa árs eru líka einkennandi fyrir Vín. Bjórstaðir, næturklúbbar og diskótek eru víða og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í þessari lifandi heimsborg. 

Miðbærinn er afar lifandi, veitingastaðir, barir og verslanir eru um allt. Gaman er að fara á kaffihús, fá sér Sacher-tertu og njóta augnabliksins. Dæmigerður veitingastaður í Vín er staður sem Vínarbúar kalla „Beisl“, þetta eru staðir þar sem andrúmsloftið er notalegt og maturinn heimilislegur. Á hverju götuhorni í gamla bænum er að finna veitingastað sem býður upp á mat að hætti Vínarbúa – skylda er að fá sér a.m.k. einu sinni schnitzel!

Næturlíf
Vín er orðin mjög spennandi borg fyrir ungt fólk. Í borginni er hægt að finna frábæra klúbba, eins og Flex við Dónár-kanalinn. Dagskráin þar er fjölbreytt, eins og á flestum öðrum stöðum í borginni. Einnig eru staðir á „Beltinu“ – Gürtel – m.a. Chelsea. „Gnadenlos“ og „Passage“ eru frægir fyrir næturlíf og nokkrir góðir djassstaðir eru einnig í borginni.

Kort

Click to view the location of the hotel