Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Valencia

Valencia er ein af þessum dásamlegu spænsku borgum sem byggir á mikilli sögu og hefð.

Borgin Valencia er ein sú framsæknasta í Evrópu í dag og spennandi heim að sækja. Valencia er fræg fyrir paellu, gamla bæinn, keramiklist, vefnaðarvöru, húsgagnagerð, Valencia-kokteilinn Aqua de Valencia og næturlíf. Í Valencia finnur þú heillandi gamlan borgarhluta, sem iðar af mannlífi, dómkirkju, veitingastaði og frábæra strönd. Það má segja að Valencia hafi allt, hún er vinaleg og lifandi borg sem gott er að versla í og ekki skemmir fyrir að þjóðarréttur Spánverja, paella, leit einmitt fyrst dagsins ljós í borginni yfir viðareldi.

Valencia er þriðja stærsta borg Spánar og ein af þessum dásamlegu spænsku borgum sem byggja á mikilli sögu og hefðum. Rómverjar byggðu borgina á sínum tíma og gáfu henni nafnið Valentia á latínu en borgin er oft kölluð „Litla Barcelona“. Mannlífið í Valencia er litskrúðugt og borgin skemmtileg blanda af gömlum og nýjum tíma. Í dag er Valencia einstök menningarborg og hjarta borgarinnar tifar af listfengi, hvort sem um ræðir arkitektúr, safnalist ýmiss konar eða matarmenningu.

Valencia hefur svo sannarlega blómstrað hin síðustu ár og er borgin nú sífellt vinsælli valkostur fyrir ferðalanga og sérlega vel til þess fallin að dvelja þar yfir langa helgi. Valencia er afar sjarmerandi spænsk borg og þrátt fyrir ört vaxandi ferðamannastraum tala færri ensku en ætla mætti, en þá er bara að grípa til kortsins ef þú ert í leigubíl og vera með nafnið á áfangastaðnum skrifað á blað. Veitingastaðir eru þó nær alltaf með matseðla sína á ensku og þjónar tala nær undantekningarlaust ensku, en komið getur fyrir að afgreiðslufólk í verslunum tali eingöngu spænsku.

Áin Turia skipti borginni í tvo hluta áður fyrr eins og Dóná skiptir Búdapest. Áin Turia flæddi hins vegar um bakka sína um miðja síðustu öld sem olli umtalsverðu tjóni og var árfarvegurinn fluttur til í kjölfarið. Úr varð gríðarlega fallegur garður í miðri borginni, Turia-garðurinn. Garðurinn er sannkölluð útivistarparadís en í honum eru m.a. gönguleiðir ásamt því að hægt er að leigja hjól. Þarna má sjá fjölmargar brýr sem áður tengdu borgarhlutana og þarna er jafnframt lystigarður, kaffihús, barir og í Turia-garðinum er enn fremur að finna Gulliver-leikvöllinn eða Golíat-leikvöllinn sem heitir eftir samnefndri skáldsögu. Leikvöllurinn er gríðarstór ævintýraleg eftirlíking af Golíat þar sem hann lá á jörðinni eftir að hafa verið bundinn niður. Gulliver-leikvöllurinn er algjört listaverk, eins og svo margt í Valencia, en í Turia-garðinum geta allir unað sér vel við leik og slökun.

Valencia er þekkt fyrir klasa bygginga sem kallast „borg lista og vísinda“ eða City of Arts and Science sem er að finna á Turia-svæðinu. Klasinn var hannaður af Santiago Calatrava sem er nú einn af vinsælustu arkitektum heimsins. Arkitektúrinn er „Avant Garde“ og sannkallað augnakonfekt með nútímalegum hvítum byggingum og umgjörðin hreint stórkostleg en þarna má finna afþreyingu fyrir alla. Borg lista og vísinda samanstendur af 5 aðalbyggingum; óperuhúsinu Palau de les Arts Reina Sofia, kvikmyndahúsinu Imax, vísindabyggingunni The Prince Felipe, viðburðabyggingunni Agora og svo að lokum hópi bygginga í gríðarlega stórum garði sem saman mynda sædýrasafnið Oceanografic, eitt það besta í heiminum!

Garðurinn Parque Natural de la Albufeira er einnig meðal þess sem vert er að skoða þegar dvalið er í Valencia. Í Albufeira-garðinum er stærsta stöðuvatn Spánar sem er einnig meðal mikilvægustu votlendissvæða Spánar en um friðland er að ræða. Þarna má sjá sjaldgæfar tegundir vaðfugla og mikið náttúrulíf villtra dýra sem og gróðurlíf. Albufera var áður saltvatnslón en breyttist í ferskvatnslón á 17. öld. Mikið er veitt í lóninu.

Ekki missa af tækifæri til að heimsækja þessa dásamlegu og framsæknu borg Spánar og einfaldlega njóta þess að vera til!

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Áhugaverðir staðir

Barrio del Carmen
Í Camen-hverfinu finnurðu Torres-turnana, sem áður voru 12 talsins, og Serrano-hliðið sem er forn aðalinngangur inn í borgina.

Plaza de la Virgen
Torgið er hjarta miðborgarinnar og þar er dómkirkjan, Valencia Cathedral, en þar er að finna heilagan kaleik, Micalet-turninn, ráðhúsið, gamla bæinn, gotneskan arkitektúr og kaffihús!

Plaza del Mercado
Miðbæjarmarkaðinum Mercado Central ásamt Lonja de la Seda, gamla silkimarkaðinum, og Santos Juanes kirkjunni sem er falleg að innan.

Plaza del Ayuntamiento
Í námunda við Ráðhústorgið finnur þú Plaza del Toros, nautaatshringinn, sem var byggður 1850, ráðhúsið og fleiri fallegar byggingar. Ef þið hafið áhuga á og/eða tíma getið þið athugað hvort það sé „corrida“ eða at í hringnum þessa daga.

Marina de Juan Carlos 1
Við höfn Valencia er tilvalið að borða paella á sjávarréttastað, en þær eru mjög góðar þar, skoða helstu kennileiti hafnarinnar eins og Edificio del Reloj og Veles e Vents. Þar eru líka verslanir og skemmtilegur garður/leiksvæði. Við höfnina eru oft haldnar tónlistarhátíðir og annað sem tengist menningu og listum.

Turia-garðurinn
Garðurinn er byggður á hinum gamla farvegi árinnar Turia sem áður skipti borginni í tvennt. Það er gaman að leigja hjól og hjóla um garðinn sem er um 9 km að lengd, moka sand á Golíat-leikvellinum og enda túrinn í „borg lista og vísinda/City of Arts and Science“ sem er við enda Turia-garðsins.

Borg lista og vísinda
Þetta er klasi bygginga sem var hannaður af Santiago Calatrava en þar eru söfn/salir nefnd eftir meðlimum konungsfjölskyldunnar og eru mjög fjölbreyttir. Ekki sleppa því að heimsækja sædýrasafnið Oceanografic en það er stærsta og flottasta sædýrasafn í Evrópu!

Golf
Það eru fimm golfvellir í Valencia og enn fleiri vellir í næsta nágrenni við borgina. Einn sá besti heitir El Saler og er skráður sem einn af topp 100 bestu golfvöllum í heimi: http://www.top100golfcourses.co.uk...
Upplýsingar um golfvelli í Valencia og nágrenni: http://en.comunitatvalenciana.com/what-to-do/valencia/golf
Club de Golf El Saler (hannaður af Javier Arana): http://www.parador.es/en/offers/normal/parador-de-el-saler-golf-package sími (0034) 961 610 384. Unnt er að leigja golfsett á flestum golfvöllunum.

Verslun

Valencia státar af miklu úrvali verslana líkt og margar borgir en hér má finna öll stærstu vörumerkin.
Verslanir Zara og Mango eru fjölmargar enda spænsk vörumerki en hér eru einnig H&M-verslanir auk Berskha, Pull&Bear, o.fl. Gaman er að rölta um og skoða litlu sjálfstæðu verslanirnar fjarri stórverslununum sem bjóða upp á allt milli himins og jarðar en einnig setur hvert verslunarhverfi upp götumarkað vikulega.

Aðalverslunargatan heitir Colón en þar má finna öll helstu vörumerki s.s. H&M, Zara, Mango, Berskha og fleiri verslanir.
Aðrar og dýrari merkjavörur eru aðallega á Poeta Querol.

Verslanir eru almennt opnar frá 10-22 mán.-fös. og laugard. kl. 10–14. Smærri verslanir og fyrirtæki hafa þá venju að hafa lokað milli kl 14-16, en undantekningar eru á þessu á þeim svæðum sem mest eru sótt af ferðamönnum. 

Í Valencia eru verslunarmiðstöðvarnar El Saler (http://www.elsaler.com/) og Aqua (http://aqua-multiespacio.com/), báðar staðsettar í námunda við „City of Arts & Science“, en einnig er að finna nokkrar El Corte Ingles stórverslanir.
Þá er Primark og fjölda annarra verslana að finna í Bonaire verslunarmiðstöðinni sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum. Ennfrekar er fyrirhugað að opna Primark verslun í miðbæ Valencia en stefnt er að opnun árið 2017.

Stórar verslunarmiðstöðvar opna yfirleitt kl. 10:00 – 22:00 alla daga og til kl 21:00 á sunnudögum.

Central-markaðurinn í Valencia er einnig mjög vinsæll meðal verslunarunnenda en þar er flóamarkaður, götumarkaður og verslunarmiðstöð í fallegum byggingum. Á markaðnum finnur þú úrval af innlendum vörum, s.s. ostum, kjöti, fiski, áfengi, ávöxtum og fleira góðmeti.

Columbus-markaðurinn er þess virði að heimsækja en þar er að finna kaffihús, veitingastaði, bari, bókabúðir og blómabúðir. Vert er að nefna að á sunnudagsmorgnum eru hljómsveitir gjarnan með ókeypis tónleika. Byggingin er í anda Gaudi og gaman er að horfa á fallegt flísalagt skrautið utan á Columbus-markaðinum.

Tax Free
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför. ATH. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um tax-free.

Matur

Í borginni er úrval veitingastaða sem bjóða upp á matargerð frá öllum heimshornum en vinsælustu staðirnir eru þeir sem eru með spænska og Miðjarðarhafsmatargerð.

Tapasbarirnir eru á hverju götuhorni og oftar en ekki eru veitingastaðirnir staðsettir inn í litlum þröngum götum í miðbænum og eru þéttsetnir af bæði ferðamönnum og heimamönnum. Án efa er rétturinn paella einn sá vinsælasti í Valencia auk þess sem paellan er fræg um allan heim. Það eru hins vegar til jafnmörg afbrigði af paellu eins og það eru til margir kokkar en Valencia er óvéfengjanlega heimaland paellunnar.

Heimamenn eru mjög stoltir af afurðum svæðisins og er þjóðardrykkur Valencia „jarðhneturdrykkurinn Horchata“ og kokteilinn „Aqua Valencia“ ekki undanskilin þar.

Kynnisferðir

Heimsferðir bjóða upp á kynnisferðir í Valencia og farþegar okkar eru hvattir til þess að kynna sér hvað er í boði. Kynnisferðir eru bókaðar á í bókunarferlinu eða hjá ferðaráðgjafa Heimsferða. Einnig er hægt að bóka hjá fararstjóra þegar út er komið ef enn er laust í ferðirnar. 

Vinsamlegast athugið að kynnisferðir með íslenskum fararstjóra eru háðar því að a.m.k. 20 manns bóki sig. Fararstjórar Heimsferða geta aðstoðað farþega við að bóka í ferðir með enskumælandi fararstjórum ef ekki næst næg þátttaka í ferð með íslenskum fararstjóra.

Ath. Ekki er hægt að greiða með kreditkortum ef bókað er hjá fararstjóra þegar út er komið og greiða þarf allar kynnisferðir í Evrum.
Ath. Farþegar fá upplýsingar um hvar þeir verða sóttir fyrir kynnisferðirnar úti hjá fararstjórum.

Borgarferð

Ferðin hefst með göngutúr þar sem fararstjóri Heimsferða leiðir hópinn um helstu króka og kima miðborgarinnar.

Skoðunarferðin hefst við hið forna borgarhlið Torre de Serranos, annað tveggja hliða borgarmúranna sem enn standa. Borgarmúrarnir voru reistir á 14. öld, á grunni rómverskra múra og voru hliðin inn í borgina 12 talsins í upphafi. Torre de Serrano var aðalinngangur inn í borgina og gegndi þá mikilvægu hlutverki sem varðturn.

Borgin er einstök menningarborg , iðar af mannlífi, listfengi og byggir á mikilli sögu og hefðum, að ógleymdum einstökum arkitektúr gamalla og nýrri tíma. Í gamla bænum er að finna margar sögufrægar byggingar sem eru þjóðargersemar og bera arkitektúrnum í Valencia gott vitni.

Gengið verður frá Torre de Serranos að ráðhúsi borgarinnar. Þaðan liggur leiðin í gengum miðbæinn með stuttum stoppum við helstu kennileiti svæðisins svo sem ráðhúsið,dómkirkjuna, Micalet turinn (Torre de Miguelete), dómhúsið (Las Cortes Valencianas), hið fornfræga verslunar- og markaðstorg Plaza Redonda og Gotneska silkimarkaðinn (Lonja de la Seda). Markaðurinn sem byggður var á 15. öld er á minjaskrá UNESCO. Hinn gotneski byggingarstíll er í hávegum hafður sem var einkennandi fyrir gullöld verslunar í Valencia.

Gönguferðinni lýkur við miðbæjarmarkaðinn (Mercado Central). Markaðurinn er einn stærsti sinnar tegundar í Evrópu. Þar má finna mikið úrval sælkeravarnings, eins og osta, kjötvörur, fisk, grænmeti og ávexti. Matgæðingar ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og ætti hver og einn að enda góða ferð á því að prófa "þjóðardrykk" Valenciubúa, "jarðhnetudrykkinn" Horchata.

Seinni hluti ferðarinnar er skoðunarferð í rútu þar sem meðal annars er ekið meðfram gamla farvegi árinnar Turia sem skipti borginni í tvo hluta áður en hún flæddi yfir bakka sína um miðja síðustu öld. Árfarvegurinn var færður í kjölfarið. og svæðið er nú einkar skemmtilegur almenningsgarður og útivistarsvæði. Nálægt ósum gamla árfarvegarins er „borg lista og vísinda“ sem er merkilegt safnasvæði fallegra og framúrstefnulegra bygginga hönnuðum af hinum heimsþekkta spænska arkitekt Santiago Calatrava. Liggur leiðin framhjá gömlum og nýjum brúm, s.s Peineta de Santiago, og tækifæri gefst til þess að taka fallegar ljósmyndir yfir borgina.

Innifalið í verði er íslensk leiðsögn og akstur.

Kynnisferðin um Valencia tekur um 4 klst.

Sagunto

Borgin Sagunto liggur um 30 km norður af Valencia við Azahar stöndina (Costa del Azahar ). Borgin byggðist upp á 5. öld fyrir Krist vegna nálægðar sinnar við sjó, þar voru Keltar á ferð og nefndu borgina latneska nafninu Morvedre eða fornu múrar. Nafni borgarinnar var síðar breytt í Sagunto af Rómverjum sem byggðu þar Kastala og virki sem gnæfir yfir borgina.

Saga Sagunto og þau menningarlegu verðmæti sem að finna má í borginni eru einstök. Elsti hluti miðbæjar Sagunto hefur að geyma lítil þröng stræti umlukin fallegum lágreistum húsum. Þar má finna skemmtileg kaffihús, litla veitingastaði og verslanir. Rómverska leikhúsið í Sagunto er eitt af sögufrægustu byggingum Valencia héraðs og stendur í útjaðri gamla Gyðingahverfisins. Þegar gegið er um Sagunto má einnig sjá aðrar fallegar og sögufrægar byggingar s.s.ráðhús borgarinnar (Palau Municipa), Santa Maria kirkjuna, gotnesku kirkjuna Esglèsia del Salvador og Santa Ana klaustrið frá 13 öld sem stendur við eitt helsta kennileiti borgarinnar, Plaça de Pi torgið.

Áhugamenn um ljósmyndun hafa verið hrifnir af myndefni því sem finna má í borginni, þá helst í elsta hluta hennar, Gyðingahverfinu. Mæting í ferðina er við Torres de Serranos í miðbænum.

Ath þessi ferð hentar ekki fyrir þá sem eiga erfitt með gang.

Innifalið í verði er íslensk leiðsögn og akstur.

Kynnisferðin til Sagunto tekur um 4 klst.

Kort

Click to view the location of the hotel