Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Lissabon

Heimsferðir bjóða beint flug til Lissabon í Portúgal sem oft er kölluð San Francisco Evrópu.

Lissabon er stærsta borg og jafnframt höfuðborg Portúgals. Borgin á sér mikla sögu og menningu en er að sama skapi mjög nútímaleg borg. Hún er mjög hæðótt og er byggð á sjö hæðum, sem gerir hana eina af fallegustu borgum Evrópu en borgin er oftar en ekki kölluð San Francisco Evrópu.

Margar merkilegar byggingar og styttur eru við hvert fótmál í miðborginni. Gömul og falleg hverfi setja sinn svip á borgina. Má þar á meðal nefna Baixa, Chiado, Alfama, Bairro Alto og Rossio en öll eiga þau heillandi sögu, hvert á sinn hátt. Gaman er að ganga um miðbæinn, þar er mikið um litlar og þröngar götur en fyrir þá sem vilja skoða meira af borginni er hægt að fara með kláfi upp og niður hæstu brekkurnar.

Verslun
Baixa er aðalverslunarhverfi borgarinnar og þar er hægt að gera góð kaup á munum sem framleiddir eru í Portúgal, s.s. leðurvörum og skóm. Einnig eru þar verslanir sem innihalda merkjavörur. Velþekktar erlendar verslunarkeðjur á borð við H&M, Zara, Adidas og Diesel eru meira og minna staðsettar í Chiado-hverfinu.

Aðalverslunarmiðstöðvarnar eru Colombo ─ ein sú stærsta í Evrópu með yfir 400 verslanir, opin frá kl. 10.00─24.00. Vert er að taka fram að í Colombo má m.a. finna verslunina Primark. Þá er Centro Vasco de Gama með um 170 verslanir og opin frá kl. 09.00─24.00 og El Corte Inglés frá kl. 10.00─22.00. Í Lissabon er einnig að finna Free Port Outlet, í aðeins 20 mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Lissabon en þar er opið frá kl. 10.00─22.00. Þar má finna yfir 140 verslanir og fjölmarga veitingastaði. Þá er Free Port Outlet einnig með litla rútu sem gengur frá Pombal-torginu.

Veitingastaðir og næturlíf
Matarmenningin er mikil í borginni og veitingastaðir oft reknir af fjölskyldum sem bjóða rétt dagsins eða „Pratos do dia“ fyrir sanngjarnt verð. Hvert landsvæði Portúgals hefur sína sérrétti sem oftast innihalda kjöt eða fisk. Saltfiskur eða bacalhau á portúgölsku er sérstaklega vinsæll í landinu enda sagt að Portúgalar kunni 365 leiðir til að elda saltfisk en „Bacalhau à Brás“ og „Bacalhau à Gomes de Sá“ eru vinsælustu aðferðirnar ásamt „Bacalhau de Porto“.

Einnig er mikið um sætindi, og ber þá helst að nefna hið fræga „Pastéis de Belém“ sem er nokkurs konar eggjatart-eftirréttur en rétturinn er afar vinsæll á samnefndum stað í Belem-hverfinu. Portúgalar hafa einnig þróað sína eigin skyndibitamenningu en rétturinn „Francesinha“ er þar vinsælastur, gerður úr brauði, pylsum, kjöti, osti og sósu sem m.a. samanstendur af viskíi og bjór en rétturinn er oftast nær borinn fram með frönskum kartöflum.

Þá er næturlífið mjög fjörugt í borginni og þar er að finna úrval klúbba, bara og tónlistarhúsa. Bairro Alto er aðalhverfið hvað næturklúbba og bari varðar auk þess sem mjög vinsælt er að skemmta sér í Las Docas hverfinu en þar má finna fjölmörg diskótek, bari og veitingastaði. Las Docas er staðsett við hina þekktu „25. apríl“ brú.

Samgöngur
Mjög gott aðgengi er að neðanjarðarlestum í miðborginni og auðvelt að komast á milli staða. Einnig er strætis- og sporvagnakerfið fyrsta flokks. Um 40─50 mín keyrsla er frá flugvellinum og að miðbæ Lissabon en sá tími fer alfarið eftir umferð, sem getur verið gríðarleg á háannatíma dagsins.

Áhugaverð söfn og kennileiti
Chiado-safnið (Museu do Chiado) ─ fremsta nýlistarsafn Portúgals er kennt við Chiado-hverfið.
Carmo-klausturleifarnar (Ruínas do Convento do Carmo) ─ rústir frá jarðskjálftatíma borgarinnar.
Flísasafnið (Museu do Azulejo).
Kastali heilags Georgs (Castelo de Sao Jorge) ─ staðsettur í miðbænum með frábæru útsýni yfir borgina.
Belém-turninn (Torre de Belém)
Landafundamerkið (Monumento aos Descobrimentos).
Jerónimo-klaustrið (Mosteiro dos Jerónimos) ─ var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1983.
Pena-kastalinn í Sintra ─ á heimsminjaskrá UNESCO.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Farþegar

Dagatal

Veldu lengd ferðar

  • 7

Kort

Click to view the location of the hotel

Kynnisferðir

Borgarferð 3.900 kr. /mann

Lissabon er ein af fallegustu borgum Evrópu og á sér mikla sögu og menningu. Sagt hefur verið að besta leiðin til þess að kynnast þessari fallegu borg og upplifa það sem hún hefur upp á að bjóða, sé að villast í gamla borgarhlutanum. Þar er auðvelt að gleyma sér á rölti um hin þröngu steinlögðu stræti, heimsækja söfn, kaffihús og virða fyrir sér mannlífið. En Lissabon er mjög stór borg og að meðtöldum úthverfum telur borgin rúma þúsund ferkílómetra, sem að er um það bil þreföld stærð Reykjavíkur. Því getur verið tilvalið að hefja dvölina á skoðunarferð um borgina með fararstjórum Heimsferða og kynnast betur því sem borgin hefur upp á að bjóða.

Lissabon á það sameiginlegt með Róm, Istanbúl og San Francisco að vera byggð á hæðum og fer það ekki framhjá þeim sem að hyggur á göngur milli borgarhlutanna. Útsýni frá hæðunum er tilkomumikið og það ásamt byggingalist, menningu, sögu og veðursæld gerir borgina eina af eftirsóttustu borgum Evrópu heim að sækja. Í borgarferðinni verður ekið á milli helstu kennileita Lissabon.

Borgarferðin tekur um 4 klst.
Innifalið í verði: Rútuferð og íslensk leiðsögn.

Lágmarksþátttaka í ferð með íslenskumælandi fararstjóra er 20 manns, en bóka þarf kynnisferðir á Íslandi í síðasta lagi 2 vikum fyrir brottför. Ath! uppselt getur verið í ferðina fyrir þann tíma.

Farþegar fá upplýsingar um nákvæman brottfaratíma frá hóteli í kynnisferðirnar hjá fararstjórum við komu í Lissabon