Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Jólamarkaðir í Þýskalandi

27.nóvember – 2. Desember 2020

Fararstjóri: Erla Erlendsdóttir

Sérstakur ljómi umlykur aðventuna og jólahátíðina í Þýskalandi og hér er einstakt tækifæri að upplifa  jólastemninguna sem þar ríkir. Jólamarkaðirnir  hefjast í lok nóvember og eru þeir opnir fram að jólum. Þeir setja óneitanlega svip sinn á undirbúning jólanna með fagurlega skreyttum húsum og ljósum prýddum miðbæjum og torgum. Jólasöngvar óma og ilmurinn af jólaglöggi og smákökum skapa hina fullkomnu jólastemmningu.

Innifalið: Flug til og frá Frankfurt, skattar, 1 taska /20 kg á mann, sigling í 4 nætur með fullu fæði (boðið upp á kaffi og te með öllum máltíðum, greitt fyrir aðra drykki). Gisting í 1 nótt í Heidelberg á fjögurra stjörnu hóteli með morgunverði. Gönguferðir í fylgd fararstjóra á jólamarkaði þriggja borga. Akstur til og frá flugvelli og á milli áfangastaða. Íslensk fararstjórn. Verð er miðað lágmarksþátttöku 20 manns.

Ekki innifalið: Aðgangseyrir á söfn, aðgangur að kastalanum, tónleika og aðrar kynnisferðir.   


Ferðatilhögun

Dagur 1 – Keflavík – Frankfurt – Koblenz

27.nóvember / föstudagur
Flug með Icelandair til Frankfurt. Brottför kl. 07:25, lending kl. 12:05 að staðartíma. Ekið til Koblenz, um 1,5 klst. akstur, og komið þangað um eftirmiðdag. Innritun á fljótabátinn MS. Johannes Brahms.

Koblenz er ein elsta borg Þýskalands. Íbúafjöldi er rúmlega 112.000. Við Koblenz mætast árnar frægu Mósel og Rín og nefnist staðurinn ”Þýska hornið”. Eftir innritun er haldið í gönguferð um miðborgina. Þar gefst tækifæri til að skoða sig um á jólamörkuðum miðbæjarins, rölta á milli skreyttra sölubása sem bjóða fallegar handunnar vörur og heimagerðan mat. Um að gera að bragða á hinum hefðbundna þýska jólabakstri á borð við "Stollen"-brauð (ávaxtabrauð) sem víða er að finna á aðventunni. Þýskar pylsur eru engu öðru líkar og rjúkandi ilminn af ristuðum möndlum fær enginn staðist. Kvöldverður á skipinu. Siglt frá Koblenz eftir miðnætti til Rüdesheim og komið þangað um hádegisbil á laugardegi.

Dagur 2 - Koblenz

28. nóvember / laugardagur
Skömmu eftir hádegi laugardags er komið til Rüdesheim og þar munum við rölta um bæinn og skoða jólabásana. Hér er tilvalið að koma við á einhverju hinna fjölmörgu veitingahúsa í Drosselstrasse, en þar er einstök jólastemning á þessum tíma árs. Í fallega skreyttum jólabásunum er ýmislegt í boði: alls kyns jólavarningur, skreytingar, handverk, gjafavörur og góðgæti af ýmsu tagi. Góður dagur til að njóta aðventustemningarinnar, kíkja í verslanir, ylja sér við jólaglögg, hlusta á fallega tónlist og njóta lífsins. Kvöldverður um borð í MS Johannes Brahms.

Dagur 3 – Rüdesheim

29. nóvember / sunnudagur
Frjáls morgun. Tilvalið að ganga um jólamarkaðinn í Rüdesheim. Í hádeginu á sunnudeginum er siglt á ný og stefnan sett á háskólabæinn Heidelberg.

Dagur 4 – Heidelberg

30. nóvember / mánudagur
Komið til Heidelberg aðfaranótt mánudags. Háskólaborgin fræga sem stendur við ána Neckar er að margra mati ein fallegasta borg Þýskalands. Borgin er mikil háskóla- og menningarborg og iðar af lífi. Yfir borginni gnæfir tignarlegur kastali og gamlar hallarrústir frá fyrri öldum sem upplýstar eru á kvöldin, setja rómantískan svip á borgina. Ein lengsta göngugata í Þýskalandi, Hauptstrasse, er lífæð og hjarta bæjarins með fjölda verslana, veitingastaða og iðandi mannlíf. Í Þýskalandi er almennt mjög gott að versla og Heidelberg er engin undantekning þar á. Fallegi gamli bærinn er með þröngum götum og gömlum húsum sem mörg hver hýsa skemmtileg kaffi- og matsöluhús, stúdentaknæpur og smáverslanir.

Dagur 5 - Heidelberg

1. desember / þriðjudagur
Haldið frá borði að morgni þriðjudags. Síðustu nóttina verður dvalið á góðu 4* hóteli í borginni: Crown Plaza Heidelberg. Eftir innritun á hótelið verður farið í gönguferð um Heidelberg. Á göngu er best og skemmtilegast að kynnast gamla bænum í Heidelberg, bænum sem listamenn hafa keppst um að skrifa um, mála, lofsyngja eða dásama á annan hátt í gegnum tíðina. Þannig er borgin orðin ódauðleg og í hugum margra ein rómantískasta borg Þýskalands. Stúdentalíf, sagan, athyglisverðar byggingar, þröngar götur, áin Neckar, brýrnar, verslanir, veitingastaðir, jólastemmning og margt fleira ber á góma í göngu um bæinn. Gönguferðinni lýkur í miðbænum. Tilvalið tækifæri að taka litla lest sem gengur  upp að kastalanum sem gnæfir svo tignarlegur yfir bænum. Þaðan er gaman að njóta útsýnisins yfir borgina en einnig að skoða hallarsvæðið og berja augum eina stærstu víntunnu heims, sem þarna er að finna. Um eftirmiðdaginn er tilvalið að njóta aðventustemmningarinnar, kíkja í verslanir, ylja sér við jólaglögg, hlusta á fallega tónlist og njóta lífsins.

Dagur 6 – Heimferð

2. desember / miðvikudagur
Brottfarardagur. Eftir morgunverð er ekið til Frankfurt flugvallar. Aksturinn tekur um eina klukkustund. Flugtak 13:05.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti