Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Aþena

Heimsferðir bjóða nú í fyrsta sinn Aþenu en borgin er afar lifandi og ein stærsta borg Evrópu og þar er margt að sjá.

Í Aþenu finnur þú aldargamlar byggingar eins og Meyjarhofið, sem er þekktasta hofið, Níkuhofið og Erekþeion, styttur og fjölbreytt hverfi. Akrópólis í Aþenu er þekktasta gríska háborgin en hér áður voru grískar borgir byggðar í hlíðum og voru því kallaðar háborgir en skynsamlegt þótti, út frá hernaðarlegu sjónarmiði, að byggja þær hátt uppi. Einnig voru byggingar sem gegndu trúarlegu hlutverki líka staðsettar í hlíðum en það var vegna þess að Grikkir trúðu því að þá væru þeir nær grísku guðunum. Það er tilvalið að fljúga með okkur til Aþenu og fara í sólarferð á þeim slóðum á eigin vegum. 

Kort

Kynnisferðir

Aþena 9.900 kr. /mann

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Hálfsdagsferð

Kynnisferðin til Aþenu er ein af þeim mest sóttu enda mjög fróðleg og skemmtileg. Hér fáum við að kynnast stöðum sem mörg okkar hafa upplifað í gegnum sögubækur.

Um er að ræða hálfsdagsferð sem veitir góða sýn yfir menningu og áhugaverðustu staði Aþenu. Ferðin byrjar á stoppi við Panathinaiko leikvanginn en þar voru fyrstu Ólympíuleikirnir haldnir árið 1896. Leikvangurinn er einstakur, því fyrir utan sögulegt gildi er hann einn sinnar tegundar, byggður úr hvítum marmara.

Við ökum hjá Zappeion og hofi Seifs, fræðumst um háskólasvæðið í Aþenu og Þjóðbókasafnið ásamt fjölda annarra áhugaverða staða.

Við tökum í lokin góða göngu um fallegan miðbæ Aþenu. Stefnan er tekin á Akrópolis hæðina (aðgangur innifalinn). Athugið að nokkur gangur er upp Akrópolis hæðina, enda þýðir orðið akrópolis háborg, borg sem er að finna hátt uppi.  Marmarinn er sleipur og því gott að vera í góðum skóm. Við göngum í lokin saman að Acropolis safninu og niður að Plaka, gamla miðbæ Aþenu. Hér endar ferðin en við getum vel mælt með því að ganga um Plaka hverfið þar sem mikið af fallegum veitingastöðum og kaffihúsum kúra í þröngum strætum. Hér eru merkar sögur og minjar á nánast hverju götuhorni og þú verður sannarlega ekki ósnortinn af sannri grískri menningu eftir þennan dag.

Poros, Hydra & Aegina - þriggja eyja sigling 11.900 kr. /mann

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Heilsdagsferð

Virkilega skemmtileg heilsdagsferð þar sem silgt er á milli eyjanna þriggja, Poros, Hydra og Aegina.

Við byrjum á rólegri bátsferð þar sem stefnan er tekin á eyjuna Poros. Poros er gróðursæl eldfjallaeyja með skemmtilegu mannlífi og fallegum byggingum í grískum stíl. Hér fáum við frjálsan tíma til að skoða okkur um og kíkja í verslanir.

Við komum okkur aftur fyrir í bátnum og siglum að eyjunni Hydra. Hér stoppum við í tæpa tvo tíma til að skoða þessa einstöku eyju, magnað landslag hennar og steinum hlaðin húsin sem einkenna gríska menningu. Einu ökutækin sem leyfð eru á eyjunni eru sorpbílar svo láttu þér ekki bregða við umferð múldýra, klyfjaðir margvíslegum varningi. Kyrrðin hér er engu lík. 

Síðast en ekki síst er ferðinni heitið til eyjunnar Aegina, hér getur þú tekið þér göngu um bæinn eða keypt þér túr sem fer að hofi Aphaia. Eyjan er í c.a. 50 km fjarlægð frá Aþenu enda sækja Grikkir sjálfir mikið í þessa fallegu eyju til að komast í kyrrð. Aegina er stærst þessara þriggja eyja að flatarmáli og einnig fjölmennust.

Eyjasiglingar eru vinsælar kynnisferðir í Grikklandi og er þessi ferð einna vinsælust af þeim öllum. Notaleg bátsferð sem inniheldur enskumælandi fararstjórn (ásamt íslenskumælandi fararstjóranum okkar), þjóðlega danssýningu og hlaðborð til að gæða sér á. Ship Ahoy!

Sounion höfðinn 5.900 kr. /mann

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Hálfsdagsferð

Boðið er upp á þessa ferð þann 24. spetember. 

Hér skaltu muna eftir myndavélinni.

Í Grikklandi eru margir staðir sem hægt væri að lýsa sem mikilfenglegum, Sounion höfðinn er einn þeirra. Við ökum af stað meðfram sjávarsíðunni með glæsilegt útsýni yfir Saronic flóann en við flóann liggja sum af fallegustu úthverfum Aþenu eins og Glyfada, Vouliagmeni og Varkiza. Aðkoman að Sounion höfðanum er einstaklega falleg þar sem höfðinn rís upp úr sænum. Forn grikkir kunnu svo sannarlega að velja sér byggingarreit fyrir hofin sín því á toppi höfðans trónir Hof Poseidons sem eru minjar frá 5.öld f.k. Við hofið er stórkostlegt útsýni og á góðum degi er hægt að sjá að minnsta kosti 7 eyjar. Þverhnípi er frá barmi Sounion og niður í sjó eða rúmlega 60 metrar.  Blundi í þér skáld eða rithöfundur er hæglega hægt að finna fyrir innblæstri í þessari ferð eins og mörg skáld hafa vitnað um. Einn þeirra, Lord Byron sem heimsótti hofið árið 1810. Nafn Byrons er grafið í eina af súlum hofsins en ekki er þó vitað hvort Byron sjálfur hafi ritað nafnið eða einhver annar. Við hvetjum þátttakendur til að leita uppi áletrunina.

Epídavros, Mýkena & Nafplio 13.400 kr. /mann

Ferð m/íslenskri fararstjórn
Heilsdagsferð

Boðið er upp á þessa ferð þann 2. október.

Um er að ræða heilsdagsferð sem hefst með akstri að Kórinþuskurðinum. Þar stoppum við stutt við til að smella af nokkrum myndum. Við höldum áfram áleiðis til Mýkenu. Mýkena var ein af helstu miðstöðvum grískrar siðmenningar og hernaðar. Mýkena stóð með mestum blóma á árunum 1600-1100 f.Kr. á svokallaðri hetjuöld Grikkja. Við skoðum fornleifar og ríki hins goðsagnakennda Agamemnon. Við fræðumst um vegg Kýklópanna, Ljónahliðið, grafir konunganna og stórkostlegar minjar frá 14. öld f.Kr.   

Hér gerum við svo stutt hlé til að nærast áður en við höldum áfram að gleypa í okkur gríska menningu og landslag.

Við höldum áfram af stað og nú til Nafplio. Nafplio var fyrsta höfuðborg nútíma Grikklands eða allt þar til Aþena tók við því hlutverki árið 1833. Nafplio hefur að geyma mikla menningu og sögulega staði líkt og Palamídi kastalann, virkið á Akronavplía og kirkju heilags Spírídonas svo fátt eitt sé nefnt.

Við endum ferðina á að aka að hinu vel varðveitta, forna leikhúsi Epídavros. Epídavros er enn þann dag í dag nýtt fyrir sýningar og söngleiki en þar er að finna einstakt andrúmsloft og fallegan hljómburð. Epídavros er einnig ein þekktasta læknamiðstöð frá klassíska tímanum í fornöld.

Leikhúsið sem er á Heimsminjaskrá Unesco er talið hafa verið fæðingastaður Asklepíos, heilsuguðs Grikkja og sonar Apollo.

Finndu ferðina þína

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Leitarniðurstöðusýn

Raða eftir

Brottfararstað

Verði

Áfangastað

Tegund ferðar

Stjörnumat

Fæðisval

Farþegar

Dagatal

Sjá leitarniðurstöður sem
Sjá leitarniðurstöður sem
Sýna verð sem
Veldu lágmarksfjölda

Veldu lengd ferðar

  • 13