á mann m.v. 2 fullorðna
Flug með Icelandair til Milano Malpensa. Ein taska allt að 20 kg. Gisting í 7 nætur á 3ja stjörnu hóteli með morgunverði. Ferðir sem taldar eru upp í dagskrá og akstur skv. ferðalýsingu. Þrír málsverðir. Pastagerðarnámskeið með kvöldverði. Aðgangur í heilsulind. Göngu- og staðarleiðsögn eins og við á. Íslensk fararstjórn.
Gistináttaskattur og þjórfé eins og við á hverju sinni.
Bagni di Lucca er einstaklega fallegur lítill bær inn til fjalla í norðurhluta Toskana og er í dag þekktur sem unaðsleg miðstöð fyrir útivist og hreyfingu en fegurðin er þar við hvert fótmál.
Flogið er til Milano Malpensa með Icelandair og ekið þaðan til bæjarins Bagni di Lucca. Þangað er um 3,5 tíma akstur. Gist er á Park Hotel Regina sem er fallegt 3* hótel. Farnar eru mislangar göngur á meðan á dvölinni stendur. Góður tími inn á milli ganga til að njóta þess sem svæðið hefur upp á að bjóða eða slaka á og dekra við sig.
Park Hotel Regina er fallegt og vel búið hótel sem á sér langa sögu á svæðinu, var einu sinni stór Villa. Mjög stór og góður hótelgarður með sólbaðsaðstöðu, sundlaug og nuddpotti. Boðið er upp á morgunverðarhlaðborð sem borið er fram í hótelgarðinum þegar vel viðrar.
Hótelið stendur miðsvæðis í bæjarkjarnanum Bagni alla Villa og þaðan er stutt á alla þjónustu. Herbergin eru öll með loftkælingu og viftu og snúa ýmist að götunni eða eru með garðsýn og sum þeirra eru með svölum. Góð aðstaða er til að sitja úti í garði og njóta umhverfisins. Rúmgóð þriggja manna herbergi eru einnig í boði en það þarf að senda sérstaka fyrirspurn til að bóka þau.
Nafn bæjarins er eiginlega samnefnari yfir þrjá bæi sem nota það sem einskonar regnhlífarnafn. Nafnið þýðir í raun Böðin í Lucca sem er mjög lýsandi og ber bærinn því nafn með rentu. Í dag er Bagni di Lucca þekkt sem miðstöð fyrir útivist með gönguferðum, hjólreiðum, klifri, skíðabrekkum, vatnasporti og ævintýramennsku. Vinsælt er að fara í Gljúfragarðinn (Canyon Park) og á veturna er vinsælt skíðasvæði í Abetone í Appenína fjöllunum.
Náttúruunnendur hafa úr nógu að velja en einnig er hægt að fara í hæglætisfrí því hér er vin fyrir ferðamenn sem vilja láta líða úr sér í friðsælu og fögru umhverfi, burtu frá mannfjöldanum.
Það er stutt til Lucca og Pisa, þannig að það tekur örskamma stund að stinga sér í samband við sumar af þekktustu borgum Toskana.
Bagni di Lucca var einn vinsælasti áfangastaður aðalsins á 18. og 19. öld. Heilsulindirnar, fyrsta spilavítið í Evrópu ásamt mikilli náttúrufegurð var helsta aðdráttaraflið. Vinsældir staðarins urðu líka til þess að hér risu villur af betri og stærri gerðinni, sem enn prýða svæðið. Gestir í Bagni di Lucca í dag fá að njóta náttúrunnar og finna víða vísbendingar um blómatímann og söguleg fótspor.
Svæðið er á þekktri gönguleið pílagríma sem áttu reglulega erindi til Rómar til að hljóta blessun og fyrirgefningu og kallaðar voru Suðurgöngur af Íslendingum. Þessi sögulega leið lá yfir hina frægu Ponte Maddalena brú sem gengur venjulega undir nafninu Djöflabrúin. Brúin er yfir 1000 ára gömul og er ein elsta brú Ítalíu og setur sannarlega svip á umhverfið kringum ána Serchio.
Það er almennt ekki mikið gönguálag í ferðinni og við höfum sniðið ferðirnar og gönguhraðann svolítið eftir hópnum. Einnig er hægt að taka því rólega heima á hóteli einn og einn dag.
Frekari upplýsingar um svæðið