Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Tenerife - Vetur 2019/2020

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

VEGABRÉF
ATHUGIÐ í tíma hvort vegabréfið ykkar sé í gildi! Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Tenerife. Ef ekki er hægt að framvísa við innritun á flugvelli, fullgildu og löglegu vegabréfi, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Þann  24.nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki. Farþegar bera einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar. Gott ráð er að hafa meðferðis ljósrit af vegabréfinu. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið. Athugið einnig hvað Schengen vegabréfsáritun varðar að hafa fleiri en "single-entry" áritun ef til stendur að ferðast á milli landa sem eru utan Schengen svæðisins á meðan dvöl stendur.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för, sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.

TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upllýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er með ítalska leiguflugfélaginu Neos Air og er leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20kg á hvern farþega auk 5kg í handfarangur (hámark stærð á tösku í handfarangri er 54x40x20 cm).

Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu um málið hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið einfaldlega ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni!

GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn á Tenerife er Evra ( EUR).  Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Nánari upplýsingar um gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni má finna á vefsíðunni www.oanda.com. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400


VIÐ KOMU
Fararstjórar Heimsferða taka á móti hópnum á flugvellinum á Tenerife og ekið er í rútu frá flugvelli og á hótel.  Rútuferðirnar eru bókaðar heima á Íslandi og ekki er hægt að tryggja að laust sé, ef ekki hefur verið bókað fyrirfram. Rútuferð á hótel tekur amk 30 mínútur en gæti verið lengur því það fer eftir því á hversu mörg hótel rútan þarf að fara á með okkar farþega.  Gætið þess að koma sjálf farangri ykkar í rútuna til að tryggja að hann verði ekki eftir á flugvellinum. Ath. að ef farangur skemmist þarf að tilkynna það á flugvelli, ekki er hægt að fá skýrslu gerða eftir að flugvöllurinn hefur verið yfirgefinn og vert að nefna að hvorki farangur né töskutjón eru  bætt ef skýrsla er ekki gerð.


RÚTUFERÐ TIL &  FRÁ FLUGVELLI
Ath þeir sem eru með bókaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með 1-2 töskur  hámark, og kerrur fyrir börnin. Ef ferðast er með annan farangur t.d íþróttabúnað eða  rafmagnshjólastóla er ekki víst að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að hægt sé að taka við því. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað þannig farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við skrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.

KYNNISFUNDUR & VIÐTALSTÍMAR
Á komudegi fer fram kynnisfundur með fararstjórum Heimsferða í rútunni á leið frá flugvelli og á hótel. Við ráðleggjum  öllum að nýta ykkur rútufar fararstjóra frá flugvelli, því réttar upplýsingar í byrjun sumarleyfis geta gert gæfumuninn.  Á kynnisfundum er eyjan Tenerife kynnt og hvað er í boði meðan á dvöl þinni stendur.  Einnig er farið yfir hagnýtar upplýsingar og hvað ber að varast. 

Meðan á dvöl stendur eru fararstjórar með viðtalstíma á hótelum en í  viðtalstímum fer fram skráning farþega í kynnisferðir og alhliða aðstoð við farþega.  Ekki hika við að leita  til fararstjóra ef um veikindi er að ræða. Neyðarsímanúmer fararstjóra er + (34) 673 30 36 40

Ef eitthvað er að varðandi þjónustu hótelanna eða aðbúnaður á herbergi eða íbúð ekki í lagi að þínu mati, verður að láta fararstjóra eða starfsfólk í móttöku hótela vita strax, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.

BROTTFÖR
Farþegar  eru vinsamlegast beðnir að líta í upplýsingamöppu Heimsferða sem finna má á viðkomandi gististað daginn fyrir brottför. Farþegar sem aðeins kaupa flugsæti bera sjálfir ábyrgð á að fá brottfarartíma staðfestan. Vert er að hafa í huga að flugtímar geta breyst frá áður útgefnum áætlunum. Stundvísi er keppikefli Heimsferða en á stundum geta orðið seinkanir í flugi sem ferðaskrifstofan fær engu ráðið.


UPPLÝSINGAMAPPA
Á hverjum gististað er upplýsingamappa Heimsferða.  Í henni er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar,  um kynnisferðir, ferðir strætisvagna, verslanir og áhugaverða staði.  Í möppunum má einnig finna öll þau skilaboð sem fararstjórar þurfa að koma til farþega meðan á dvöl þeirra stendur. 


ÖRYGGISHÓLF Á GISTISTÖÐUM
Þau heita á spænsku "Caja fuerte", en á ensku "safety box".  Við viljum benda gestum á að geyma greiðslukort, gjaldeyri, vegabréf, farseðla og önnur verðmæti í læstu öryggishólfi, sem fást leigð gegn gjaldi í gestamóttöku.  Athugið að farþegar eru sjálfir ábyrgir fyrir lykli hólfsins.
Almennt þarf að greiða fyrir notkun á öryggishólfum,en þó eru undantekningar og þar eru öryggishólfin án aukagjalds, þetta fer þó eftir gististöðum.

UMGENGNISREGLUR GISTISTAÐA
Ætlast er til að ró sé komin á kl. 24:00 og eru gestir vinsamlegast beðnir að taka tillit til þess.  Aðrar mikilvægar reglur er að finna í hótelmóttöku og eru farþegar beðnir um að kynna sér þær. Farþegar sem brjóta þessar reglur eiga á hættu að vera vísað af gististaðnum. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi fyrir eða um hádegi – kynnið ykkur reglur viðkomandi gististaðar varðandi það.


KYNNISFERÐIR
Heimsferðir kappkosta við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá á Tenerife með vandaðri íslenskri leiðsögn. Greiðsla á ferðum og öðru fer fram í hótelheimsóknum og á komufundi, einungis er hægt að greiða með evrum. Athugið að ekki er hægt að greiða með greiðslukortum.


SÓLIN
Við sólbruna eru til mörg góð húsráð, en það besta er kæling. Sé um meiriháttar bruna að ræða ber að hafa tafarlaust samband við lækni. Ástæða er til að benda ykkur á að fara varlega í sólböðin. Gott er að kaupa sér vörn og vera stutt í sólinni fyrstu dagana. Nauðsynlegt er að vera með höfuðfat yfir heitasta tímann. Hafið börnin í bolum fyrst um sinn, og forðist ströndina fyrstu vikuna.

LÆKNAR
Sjúkrahúsið Hospiten Sur er með enskumælandi túlka og er hægt að hringja í gjaldfrjálst símanúmer +34 900 200 143. Einnig er heilsugæslan Villar E Ibarra með enskumælandi túlk, símanúmerið þar er 922 777 870 (00 34 fyrir framan ef hringt er úr íslenskum síma).


DRYKKJARVATN
Vatnið í krönunum er drykkjarhæft í flestum tilfellum en við viljum benda fólki á að kaupa drykkjarvatn, sem inniheldur steinefni (mineral), þar sem steinefnin tapast úr líkamanum í hitanum.
1 – 2 lítrar af vatni á dag er hæfilegur skammtur ásamt öðrum drykkjum.

MAGAVEIKI
Margir verða fyrir því að fá í magann og vilja gjarnan kenna matnum um.  Í fæstum tilfellum er um matareitrun að ræða, heldur er um breytt loftslag, breyttar svefnvenjur eða breytt mataræði  að ræða, einnig ef notaður er mikill klaki í drykki. Ef þið kennið ykkur meins, hafið þá samband við fararstjóra eða lækni.


KREDITKORT
Yfirleitt er hægt að nota kreditkort og ráðleggjum við ferðalöngum að hafa slík kort með sér þó ekki sé nema öryggisins vegna.  VISA og EURO eru jafngild.  Einnig er hægt að taka út peninga á kortin í hraðbönkum, en þá þurfa korthafar að vita PIN númerið sitt. Sumstaðar er beðið um vegabréf þegar greitt er með kreditkorti. Ef kort tapast, hringið í viðkomandi neyðarnúmer og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200.  EURO (00354) 533 1400. Með tilkomu nýrra posa er nauðsynlegt að muna pin númerið sitt!!!Ath þó nokkuð af veitingastöðum og litlum búðum taka ekki við kreditkortum heldur þarf að greiða með pening.


OPNUNARTÍMI BANKA & APÓTEKA   
Bankar eru opnir frá mánudegi - fimmtudaga frá 08:00 – 14:00.  Hraðbankar eru víða en minnt er á að þiggja ekki aðstoð frá ókunnugum við hraðbanka og alls ekki gefa upp pin-númerið. Öruggast er að nota hraðbanka við bankaútibú.
Opnunartími  apóteka er yfirleitt frá kl 09.00 – 19.00, þó er  hægt að finna apótek á Playa Americas þar sem er opið allan sólarhringinn.


ÞJÓRFÉ
Enn er það siður á Spáni að gefa þjórfé, en aðeins ef þið eruð ánægð með þjónustuna.  Vaninn er að gefa um 5% á veitingastöðum, en herbergisþernum er ágætt að gefa 3 – 5 evrur á viku allt eftir því hvort þið eruð ánægð eða ekki. Eins er siður að gefa bílstjórum einhverja smámynt í lok ferðar. Athugið að enginn er skyldugur að gefa þjórfé !!!LEIGUBÍLAR & STRÆTISVAGNAR
Leigubíla er yfirleitt auðvelt að finna.  Innheimt er eftir gjaldmæli en góð regla er að spyrja um verð áður en lagt er af stað. Gott er að taka niður leigubílanúmer bílsins áður en lagt er af stað ef eitthvað skyldi verða eftir í bílnum.
Strætisvagnar ganga um allar strendurnar á Tenerife á um það bil 10 mín. fresti. Hægt er að fá leiðavísir strætisvagna á upplýsingamiðstöðum eða hjá fararstjórum.


ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Það er enginn íslenskur ræðismaður á Tenerife en sá sem er næstur er á Gran Canaria  og heitir Hr. Jaiver Betancor Jorge, Skrifstofa: Avenida de Canarias 22 - bajo Edificio Bitacora , Las Palmas Sími: (928) 365 870. Fax: (928) 360 357 Netfang: canaryislands@icelandconsulate.es.


GOLF
Mjög góð aðstaða er á Tenerife til golf iðkunar, þið getið fengið nánari upplýsingar hjá fararstjórum og í upplýsingamöppu Heimsferða á hótelinu.


BÍLALEIGUBÍLAR
Gaman er að ferðast um Tenerife og auðvelt að fá leigða bílaleigubíla hjá fararstjórum. Komið er með bíla á gististaði og þeir þangað sóttir að notkun lokinni. Hið sama á við um leigu reiðhjóla, mótorhjóla, vespa eða rafskutlna/hjólastóla.

ELDFJALLIÐ TEIDE
Fyrir þá sem hafa áhuga á að fara upp á eldfjallið Teide, þá þarf leyfi til að fara alveg upp á toppinn og tekur það stundum um það bil 2 vikur fyrirfram að fá það leyfi. Hægt er að hafa samband við Heimsferðir til að fá frekari upplýsingar.

FACEBOOK
Endilega gerist vinir að síðu fararstjóra Heimsferða á Tenerife inn á Facebook. Síðuna finnið þið inn á www.facebook.com undir Fararstjórar Tenerife. 
https://www.facebook.com/fararstjorar.tenerife/

MINNT ER Á
Að aldrei er of varlega farið á ferðalögum.  Vasaþjófa er að finna hér eins og um allan heim og því viljum við benda farþegum okkar á að leggja aldrei verðmæti frá sér á glámbekk, því myndavélar, símar, tölvur, töskur og veski eru freistandi í augum þess sem ætlar sér að stela.  Hafið tafarlaust samband við fararstjóra ef verðmætum er stolið af ykkur, sem aðstoðar þá við skýrslugerð á lögreglustöð.  Minnt er á að gott er að vera með allar tryggingar á hreinu áður en haldið er af stað í ferðalag til útlanda.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti