Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Róm - Haust 2019

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Ítalía er rúmlega 300.000 ferkm. að stærð, það er lýðveldi og þar búa um 60 milljónir manna,  þar af um 3 milljónir í borginni Róm. Á Ítalíu er töluð ítalska en margir skilja og tala ensku. Á Ítalíu er klukkan 2 klst á undan íslenska tímanum frá lok mars til lok októbers – annars er tímamismunur 1 klst frá lok október til lok mars.  


VEGABRÉF
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Ítalíu eins og til annarra landa. Ef ekki er hægt að sýna við innritun á flugvelli, fullgilt og löglegt vegabréf, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Ekki er hægt að fá framlengingu á vegabréfi úti á flugvelli í Keflavík.  Gott ráð er að athuga í tíma hvort vegabréf þitt sé enn í gildi og einnig er gott að ferðast með ljósrit af vegabréfi þínu. Þann  24.nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki. Farþegar bera algjörlega einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendiferðaskrifstofunnar. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið.


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flogið er beint til Rómar en flugvöllurinn þar heitir Leonardo da Vinci International Airport (FCO). Flugtíminn til Rómar frá Keflavík er um 4 ½ klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en 2 klst fyrir áætlaða brottför.


TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för,  sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.

Gott er að hafa meðferðis tryggingarkort frá sínu tryggingarfélagi til að flýta fyrir allri afgreiðslu ef eitthvað kemur uppá.

FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er með Neos Air og er leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20kg taska á hvern farþega auk 5kg í handfarangur (hámark stærð á tösku í handfarangri er 55x40x20 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu um málið hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið einfaldlega ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni!


GISTINÁTTASKATTUR
Á gististöðum hér þarf að greiða ferðamannaskatt en skattinn greiða ferðamenn á viðkomandi gististað fyrir hverja gistinótt á mann en gjaldið er misjafnt og miðast við opinbera stjörnugjöf gististaðarins. Ferðaskrifstofur geta ekki innheimt skattinn


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn á Ítalíu er Evra (EUR). Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400.


VIÐ KOMU Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjóri Heimsferða tekur á móti hópnum á flugvellinum og þeim sem eiga pantaða rútuferð er ekið frá flugvelli að hóteli. Tekur sú ferð um 50-60 mínútur, en að sjálfsögðu fer það dálítið eftir umferð og á hversu mörg hótel rútan fer. Á leiðinni fer fararstjóri yfir helstu atriði sem að hafa ber í huga, sem og dagskrá kynnisferða o.fl. Ekki er hægt að bóka rútu nema á skrifstofu Heimsferða áður en ferðin hefst. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni.


RÚTUFERÐ TIL & FRÁ FLUGVELLI
Fyrir þá sem eiga pantaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með að hámarki 1-2 töskur, auk barnakerru ef við á. Ef ferðast er með annan farangur eins og t.d íþróttabúnað eða rafmagnshjólastóla er ekki öruggt að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að taka á móti slíkum farangri. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað slíkan farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við ferðaskrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.


ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjóri er fulltrúi ferðaskrifstofunnar á staðnum og sinnir farþegum meðan á dvöl þeirra stendur. Ef farþegi telur að eitthvað sé ábótavant varðandi þjónustu hótels eða ónægja er með íbúð/herbergi skal gera fararstjóra og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.


GISTISTAÐIR
Gestir eru vinsamlegast beðnir að kynnar sér reglur hótelsins og virða almennar umgengnisreglur, m.a um næturkyrrð. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi/íbúð ýmist fyrir hádegi eða á hádegi á brottfarardegi. Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.


SÍMI, RAFMAGN & TÖLVUR
Á Ítalíu er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Ítalíu og í íslenskt númer skal setja inn 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í spænskt númer skal setja inn 0039- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, að þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu.


VEÐURFAR
Meðalhiti í Róm í nóvember er um 20 gráður en hitinn getur orðið hærri eða lægri eftir tíðarfari. Oft er mikill raki og því gott að drekka nóg af vatni. Ef sólin skín þá mælum við eindregið með notkun sólarvarnar, því sólin getur verið sterk


DRYKKJARVATN
Kranavatnið er vel drykkjarhæft en við mælum frekar með vatni á flöskum til drykkjar, þó ekki sé nema bragðsins vegna. 

Ath! Róm er auðug af góðu drykkjarvatni og víða í borginni eru brunnar eða vatnshanar með rennandi góðu drykkjarvatni. Brunnar með ódrykkjarhæfu vatni eru merktir “Non potabile”.

BROTTFÖR
Þeir sem eiga pantaða rútuferð frá hóteli á flugvöll fá brottfarartíma staðfestan hjá fararstjóra. Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi. Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda. Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


SAMGÖNGUR
Neðanjarðarlestakerfið samanstendur af tveim aksturslínum A og B sem mætast á lestarstöðinni Termini. Þetta er þægilegur og öruggur ferðamáti. Lestirnar ganga á 10 mín. fresti frá kl. 5.30 á morgnana til kl. 23.30.

* Athugið: Miði í Metro er keyptur í blaðasölu. Einn miði kostar um 3 evrur og dugir í rúma klukkustund. Miðann þarf að stimpla áður en farið er í lestina. Upplýsingar um lestarleiðir eru við brautarteinana.

* Fleiri hundruð strætóleiða eru í borginni og ganga vagnarnir frá kl. 5.30 og til miðnættis. Strætisvagnarnir eru síður hentugur valkostur nema fyrir þá sem þekkja kerfið. Þeir fara flóknar leiðir og oft eru mikil þrengsl í þeim.

Til viðbótar eru eftirfarandi leiðir:
Hraðleið » merkt með grænu X fyrir lengri vegalengdir.
Ákveðin leið » merkt með rauðbrúnu E fyrir stuttar vegalengdir á uppgefnum tímum.
Ljósleið » lítill vagn sem fer um gamla miðbæinn.
Næturleið » merkt með N. Gengur frá miðnætti til kl. 5.30. Stoppustöðvarnar eru auðkenndar með merki af uglu.
BIT =  miði í lestina sem gildir aðra leiðina í hámark 75 mín. kostar um 3 EUR á mann. 
BIG =  miði sem gildir ótakmarkað í einn dag í lest eða strætisvagna kostar um 7 EUR á mann.

Leigubílareru yfirleitt frekar ódýr og hentugur ferðamáti í Róm. Fargjaldið er um 10–15  EUR ef ferðast er milli staða í miðbænum. Hægt er að ná í bíl á leigubílastaurum sem eru víðsvegar um borgina og einnig er hægt að hringja og sjá þá móttökurnar á hótelunum um það. Ein stærsta leigubílastöðin er Radio Taxi og símanúmerið er 4242. Varast ber að  þiggja far hjá ómerktum leigubílum, þar sem þeir setja venjulega upp margfalt hærra verð. Merktir leigubílar með gjaldmæli eru niðurgreiddir af borgaryfirvöldum og því ódýr valkostur.

VERSLANIR
Verslanir eru opnar frá kl. 09.30 – 13.00 og kl. 15.30 – 19.30 þriðjudaga til laugardaga. Margar verslanir í miðborginni loka ekki yfir miðjan daginn og hafa jafnvel opið á sunnudögum og mánudögum. Stórverslanir hafa rýmri opnunartíma. Verslanir með samfelldan opnunartíma eru einkum í verslunarhverfinu í nágrenni við Spænsku tröppurnar.

Outlet – Castel Romano
Castel Romano er verslunarmiðstöð um 25 km. suður af Róm. Á þessum stað eru vörur frá um 110 fremstu hönnuðum veraldrar á einum stað: Gucci, Prada, Armani, Fendi, Burberry, Calvin Klein, Diesel, Guess, Valentino og fl. Vörurnar eru seldar með 30-70% afslætti. Sjá nánari upplýsingar um Castel Romano á vefsíðu: http://www.mcarthurglen.it/castelromano/en/the-outlet

Opnunartími: Mán. – fim. 10.00 – 20.00. / Fös. – sun. 10.00 – 21.00
Daglegar brottfarir eru frá Termini lestarstöðinni í Róm: kl. 10.00 / 12.30 / 15.00
Daglegar brottfarir frá Castel Romano til Termini lestarstöðvarinnar í Róm: kl. 11:15 / 13:45 / 17:00 / 20:00

* Góð regla er að spyrja bílstjórann hvort að sú heimferð sem óskað er sé ekki örugglega á þeim tíma sem er auglýstur. Verð á farmiða til og frá Castel Romano er 13 EUR á mann. Borgað er á staðnum. Um 45 mínútna akstur. Rútan stoppar beint fyrir utan aðalinnganginn í Castel Romano og fer til baka frá sama stað.

TAX-FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.


ÞJÓRFÉ
Það tíðkast enn að gefa þjórfé á Ítalíu, þeir sem þess vænta eru þjónar á veitingastöðum, barþjónar, hárgreiðslumeistarar, leigubílstjórar, ræstingastúlkur á hótelum og bílstjórar í kynnisferðum. Vaninn er að gefa 5 –10%.


LÆKNAR & APÓTEK
Góð læknisþjónusta er á staðnum og er hægt að fá lækni heim á hótel með milligöngu fararstjóra.  Íslendingar eru tryggðir innan EES ef um ríkisreknar heilsugæslur og sjúkrastofnanir er að ræða en ekki á einkareknum stofnunum. Mikilvægt er að vera vel tryggður. Opnunartími apóteka er frá 9:00 - 13:00 og 15:30 - 19:30. Nætur og helgidagaþjónusta. Leigubílstjórar vita yfirleitt hvaða apótek er á vakt hverju sinni sem og starfsfólk í hótelmóttöku. 


ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Ræðismaður Íslands í Róm er Hr. Mr. Antonio La Rocca - Honorary Consul General, Heimilisfang: Via dei Monti Parioli 6. 
IT-00197 Roma, sími: 0039 06 320 0818. Netfang: gadisl.roma@gmail.com.

ÞJÓFNAÐUR
Eins og í öðrum stórborgum eiga þjófnaðir sér stað í Róm. Mikið er af skipulögðum vasaþjófnaði á ferðamönnum og ber farþegum að varast slíkt. Athugið að skilja aldrei við ykkur veski, töskur eða annað verðmætt. Góð regla er að vera alltaf með hluti í kjöltunni þegar sest er niður og aldrei leggja frá sér hluti á kaffi- og veitingahúsum þannig að hægt sé að draga það í burtu. Sýnið sérstaka varkárni á stöðum þar sem margmenni er, einkum og sér í lagi í neðanjarðarbrautinni, sem annars er afar hentugur ferðamáti í Róm.


VEITINGASTAÐIR
Rómversk matarmenning er með því besta sem gerist á Ítalíu. Veitingastaðirnir eru ótrúlega fjölbreyttir og á hverju götuhorni. Við nefnum hér nokkra sem eru í alfaraleið:

• Boccondivino - Piazza in Campo Marzio 6 - Sími: +39 06/68308626

• Al 34 - Via Mario de’Fiori 34 - Piazza di Spagna - Sími: +39 06/6795091

• Antica Hostaria Al Vantaggio - Via del Vantaggio 35 - Piazza del Popolo - Sími: +39 06/3236848

• Roma Sparita - Piazza di Santa Cecilia 24 - Trastevere - Sími: +39 06/58363165 - 06/5800757

• Antica Pesa - Via Garibaldi 18 - Trastevere - Sími: +39 06/5809236

• Romolo - Via Porta Settimiana, 8 - Trastevere - Sími: +39 06/5818284

• Armando al Pantheon - Salita dei Crescenzi 31 - Sími: +39 06/68803034

• Flavio al Velavevodetto (Slow Food) - Via Monte Testaccio 97 - Sími: +39 06/5746841

• La Campana - Vicolo della Campana 18 - Sími: +39 06/6875273

HELSTU SÖFN BORGARINNAR
Vatikan söfnin:
Áhugaverð söfn með stórkostlegum listaverkum helstu listamanna í gegnum tíðina, safnað af páfum í aldanna rás. Heimsókn í Vatikansafnið lýkur í Sixtínsku kapellunni sem er einkakapella páfanna og hefur að geyma hin stórbrotnu listaverk Michaelangelos um sköpun heimsins, syndafallið og dómsdag.

Viale Vaticano - Sjá nánar á vefsíðu: http://mv.vatican.va/
Opnunartími: Mán. – lau. 9.00 – 18.00. (Miðasala lokar kl. 16.00. Ath. Best er að panta miða fyrirfram).
Lokað á sunnudögum (nema síðasta sunnudag hvers mánaðar).

Kapitol söfnin:
Musei Capitolini hafa að geyma margar af helstu perlum listasögunnar m.a. eftir Titian, Bellini og Caravaggio. Auk úrvals höggmynda frá keisaratímanum í Róm.

Piazza del Campidoglio - Sjá nánar á vefsíðu: http://en.museicapitolini.org/
Opnunartími: Þri. – sun. 9.00 – 20.00. Lokað á mánudögum.

Rómverska þjóðarlistasafnið:
Museo Nazionale Romano - Villa Massimo hýsir ýmis merk listaverk og hversdagsmuni er gefa góða innsýn í líf borgarinnar til forna. Auk fjölda högg-, fresku- og mosaíkmynda gefur hér m.a. að lýta ýmiskonar verkfæri, borðbúnað, skartgripi og mynt. Piazza del Cinquecento (Framan við Termini aðaljárnbrautarstöðina).

Sjá nánar á vefsíðu: http://archeoroma.beniculturali.it/en/node/482
Opnunartími: Þri. – sun. 9.00 – 19.45. Lokað á mánudögum.

Borghese safnið:
Safnið hefur að geyma nokkur af helstu listaverkum Endurreisnar- og Barrokktímabilsins, m.a. eftir Antonello da Messina, Caravaggio, Raphael, Titian, Bellini, Canova og Bernini.

Piazzale del Museo Borghese - Sjá nánar á vefsíðu: http://www.galleriaborghese.it
Opnunartími: Þri. – sun. 8.30 – 19.30. Lokað á mánudögum. (Ath. Nauðsynlegt er að panta miða fyrirfram).

Vinsamlegast athugið!
Í flestum tilfellum fá farþegar heyrnatól til notkunar á meðan á ferð stendur. Það er mjög mikilvægt að farþegi skili þessu heyrnatóli til fararstjóra í lok ferðar. Ef farþegi týnir eða skilar ekki þessum heyrnatólum þá mun viðkomandi verða að greiða 75 Eur í sekt. Þessar upplýsingar eru hér að gefnu tilefni.

Katakomburnar:
Við Via Appia í suðurhluta Rómar standa grafhýsi og hvelfingar kristinna manna allt frá 2. öld. Þær eru í senn áhrifaríkur og merkilegur vitnisburður um líf forkristinna manna í Róm. Nokkrar þeirra helstu eru:

Katakombur San Sebastiano
Via Appia Antica, 136

+39 06/7850350
Opið kl. 10.00 – 16.30
Lokað á sunnudögum.

Katakombur San Callisto
Via Appia Antica, 110

+39 06/5130151
Opið kl. 9.00 – 12.00 / 14.00 – 17.00
Lokað á miðvikudögum.

Katakombur Priscilla
Via Salaria, 430 

+39 06/86206272
Opið kl. 8.30 – 12.00 / 14.30 – 17.00
Lokað á mánudögum.

ROMA BELLA ROMA
Upplýsingaskrifstofa ferðamála í Róm, sjá vefsíðu: http://www.turismoroma.it
Upplýsingavefur Time Out tímaritsins um Róm, sjá vefsíðu: http://www.timeout.com/rome/
Rómarborgarsjá breska dagblaðsins The Guardian, sjá vefsíðu: http://www.guardian.co.uk/travel/series/rome-city-guide
Rómarvefurinn, íslenskur upplýsingavefur um Róm, sjá vefsíðu: http://www.romarvefurinn.is/

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti