Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Parg - Haust 2019

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Lýðveldið Tékkland er landlukt ríki í Mið-Evrópu og vestasta land gömlu austantjaldsríkjanna. Landið var stofnað 1. janúar 1993 þegar Tékkóslóvakía skiptist upp í tvo hluta, Tékkland og Slóvakíu. Höfuðborgin er Prag og er hún jafnframt stærsta borg landsins. Tékkland er tæplega 79.000 km² að stærð og íbúafjöldi telur rúmlega 10 milljónir, þar af um 1,2 milljónir í höfuðborginni Prag. Elstu hverfin, þar á meðal kastalinn í Prag, eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Í Tékklandi er klukkan 2 klst á undan íslenska tímanum frá lok mars til lok októbers – annars er tímamismunur 1 klst frá lok október til lok mars.

VEGABRÉF
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Tékklands eins og til annarra landa. Ef ekki er hægt að sýna við innritun á flugvelli, fullgilt og löglegt vegabréf, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Ekki er hægt að fá framlengingu á vegabréfi úti á flugvelli í Keflavík.  Gott ráð er að athuga í tíma hvort vegabréf þitt sé enn í gildi og einnig er gott að ferðast með ljósrit af vegabréfi þínu. Þann 24. nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki. Farþegar bera algjörlega einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flugvöllurinn í Prag heitir Václav Havel Airport Prague. Flugtíminn til Prag frá Keflavík er um 4 klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en tveimur tímum fyrir áætlaða brottför.


TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upllýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för, sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er með flugfélaginu Smart Wings (ex.Travel Service) og er leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20kg á hvern farþega auk 5kg í handfarangur (hámark stærð á tösku í handfarangri er 56x45x25 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu um málið hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið einfaldlega ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni.


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn í Tékklandi er Tékknesk Kóróna (CZK). Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Nánari upplýsingar um gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni má finna á vefsíðunni www.oanda.com. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400.


VIÐ KOMU
Fararstjórar Heimsferða taka á móti hópnum á flugvellinum og þeim sem eiga pantaða rútuferð er ekið frá flugvelli að hóteli. Tekur sú ferð um 40-60 mínútur en fer eftir umferð og á hversu mörg hótel rútan fer. Á leiðinni fara fararstjórar yfir helstu atriði sem að hafa ber í huga, sem og dagskrá skoðunarferða o. fl. Ekki er hægt að bóka rútu nema á skrifstofu Heimsferða áður en ferðin hefst. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni.


RÚTUFERÐ TIL & FRÁ FLUGVELLI
Fyrir þá sem eiga pantaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með að hámarki 1-2 töskur, auk barnakerru ef við á. Ef ferðast er með annan farangur eins og t.d íþróttabúnað eða rafmagnshjólastóla er ekki öruggt að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að taka á móti slíkum farangri. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað slíkan farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við ferðaskrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.


ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjórar eru fulltrúar ferðaskrifstofunnar á staðnum og sinna farþegum meðan á dvöl þeirra stendur. Ef eitthvað er að varðandi þjónustu hótels eða ónægja með íbúð/herbergi skal gera farastjóra og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.


GISTISTAÐIR
Gestir eru vinsamlegast beðnir að kynna sér reglur hótelsins og virða almennar umgengnisreglur, m.a um næturkyrrð. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi/íbúð ýmist fyrir hádegi eða á hádegi á brottfarardegi. Ef flug er að kveldi bjóða hótel upp á farangursgeymslu þar sem geyma má farangur að brottför. Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.


SÍMI, RAFMAGN, TÖLVUR
Í Tékklandi er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Tékklandi og í íslenskt númer skal setja 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í tékkneskt númer skal setja inn 00420- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, að þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu. 


DRYKKJARVATN
Í Tékklandi er kranavatnið almennt drykkjarhæft, en í öryggisskyni er farþegum ráðlagt að kaupa drykkjarvatn á flöskum. Í miklum hita er ekki gott að drekka ískalt vatn, betra er fyrir magann að fá vatnið í volgara lagi.


BROTTFÖR
Þeir sem eiga pantaða rútuferð frá hóteli á flugvöll fá brottfarartíma staðfestan hjá fararstjóra. Einnig má sjá brottfaratíma frá hóteli á dagskrárblöðum sem farþegar fá sent í tölvupósti fyrir brottför. Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi. Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda. Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


VEÐURFAR
Meðalhiti í Prag í september/október er um 15-18° en hitinn getur orðið hærri eða lægri eftir tíðarfari. Athugið að hitastigið getur farið niður í allt að 7° að kvöldlagi.  Mælt er með þægilegum fatnaði, góðum götuskóm og alltaf gott að hafa regnhlíf við hendina.


VERSLANIR
Verslanir eru almennt opnar frá 10:00-18:00 en margar ferðamannaverslanir eru opnar lengur. Flestar verslanir í miðborg Prag eru opnar alla laugardaga og margar á sunnudögum til kl. 18:00. Athugið að opnunartími verslana er breytilegur. Margar vinsælar fataverslanir t.d HM  eru í Prag og kristall, listmunir og flest sem hugurinn girnst er að finna í búðum borgarinnar.


TAX FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  ATH. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um tax-free. 


ÞJÓRFÉ
Almennt er þjónustugjald ekki innifalið á veitingastöðum og tíðkast því að gefa um 5-10 % þjórfé. Oftast er einnig gefið þjórfé á hárgreiðslustofum, snyrtistofum til leigubílstjóra, burðarmanna og annarra sem veita góða þjónustu.


LÆKNAR & APÓTEK
Góð læknisþjónusta er í Prag og apótek eru víða. Hótelmóttökur veita allar nánari upplýsingar, en hikið ekki við að leita til fararstjóra strax ef um alvarleg veikindi er að ræða


SAMGÖNGUR
Neðanjarðarlestarkerfið - METRO, er gott og einfalt í Prag, aðeins 3 línur. Sporvagnar eru líka þægilegir í notkun og  ganga þeir um alla borg. Kynnið ykkur bestu möguleikana milli gististaðar ykkar og miðborginni.Stakir miðar sem gilda í alla almenningsvagna og lestar kosta um24 CZK (30 mín) eða um32 CZK (90 mín)*. Þeir eru seldir á flestum hótelum, á blaðsölustöðum, í neðanjarðarlestarstöðvum,sjálfsölum við biðstöðvar og víðar, en ekki í vögnunum sjálfum. Ath. að stimpla verður miðana í þar til gerðum kössum  inni í vögnunum eða á biðstöðvunum áður en haldið er af stað.  Á sölustöðum METRO og í sjálfsölum er einnig hægt að kaupa miða sem gilda í lengri tíma.  (*verð í janúar 2015)

Auðvelt er að nálgast leigubíla í Prag, en gætið þess að semja um verð áður en farið er inn í bílinn, því sumir eru frá einkaaðilum með frjálsa álagningu. Hótelin eru flest með eigin leigubíla sem eru á föstu verði sem er oft aðeins hærra verði. Viðmiðunarverð frá hótelum Heimsferða í miðbæ er um 300-350 CZK, fer eftir staðsetningu.  Kynnið ykkur ábendingar fararstjóra um leigubíla, t.d. AAA –radiotaxi, sími (+420) 233 113 311 eða GSM 420 602 331133


ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Þórir Gunnarsson er ræðismaður Íslands í Prag. Skrifstofa : Karlova 20, CZ-110 00 Prague. Sími: (2) 2222 1218. Farsími: 602 310 460. Fax : (2) 2222 1419 Netfang:  thorirprag@hotmail.com

ÞJÓFNAÐUR
Líkt og í öðrum stórborgum, er nokkuð um vasaþjófnað í borginni. Oft má koma í veg fyrir slíkt með því að vera á varðbergi. Athugið að skilja aldrei við ykkur veski, töskur eða annað verðmætt.


MATUR & SKEMMTUN
Fjöldi góðra veitingastaða er í Prag og gestir munu ekki eiga erfitt með að finna “rétta” staðinn. Hægt er að skoða alla helstu veitingastaði Prag inn á þessari vefsíðu: www.squaremeal.cz

TÓNLEIKAR – MENNINGARLÍF
Það er gríðarlega fjölbreytt menningarlíf í Prag og tónleikar og listviðburðir alla daga víða í  borginnni. Hægt er að kaupa miða við innganginn eða á bókunarstofum TicketPro sem eru víða(einnig hægt að versla á netinu www.ticketpro.cz). Frægustu tónleikasalirnir og leikhúsin eru Rudolfinum, aðsetur fílharmóníunnar í Prag,  Estates Theatre, National Theatre, State Opera og  Obecní Dům (menningarhúsið). Athygli er vakin á afar áhugaverðum brúðuleikhúsum, “svörtum” leiksýningunum (Black Theatre) og látbragðsleikjum þar sem tungumálakunnátta er ekki lykilatriði. 


ÁHUGAVERÐIR STAÐIR
Það er fjöldi áhugaverðra staða sem ekki má fara á mis við þegar maður kemur til Prag. Hér nefnum við nokkra:

Staroměstské náměstí. - Gamlabæjar torgið. Hér er hjarta gamla bæjarins, klukkuturninn frægi, Týn kirkjan o.fl.
Václavs torgið – Sögusvið margra kunnra atburða 20. aldar, glæsilegt þjóðminjasafnið og iðandi mannlíf.
Karlsbrúin – kennd við Karl IV, meistaraverk frá 14. öld, endalaus straumur fólks á gangi allan daginn.
Kastalinn – Pražský hrad, hið mikla mannvirki gnæfir yfir borgina, stjórnarsetur í margar aldir. Ótrúleg saga og listir.
Vitus dómkirkjan í kastalanum. Stórkostlegt dæmi um gotneskan arkitektúr, byggingasaga allt frá 14. öld.
Gullna gatan er innan kastalaveggjanna. Litlar listasmiðjur og búðir í litlum húsum.  Hér bjó Kafka um tíma.
Strahov klaustrið, ofan við Kastala, með glæsilegu heimspeki- og guðfræðisalina. Hér var stærsta bókasafn Mið-Evrópu.
Gyðingahverfið –Josefov.  Samkunduhúsin (synagogur) með gyðingasögusöfnum, kirkjugarðurinn frægi og margt fl.
Nikulásarkirkjan í Malá Strana. Eitt fegursta dæmi um evrópskan barokkstíl.
Klementinum.  Núverandi þjóðarbókasafn, áður Jesúítaklaustur. Tónleikar oft í speglakapellunni

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti