Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Mílanó - Sumar 2019

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Ítalía er rúmlega 300.000 ferkm. að stærð, það er lýðveldi og þar búa um 60 milljónir manna. Á Ítalíu er töluð ítalska en margir skilja og tala ensku. Á Ítalíu er klukkan 2 klst á undan íslenska tímanum frá lok mars til lok októbers – annars er tímamismunur 1 klst frá lok október til lok mars.


VEGABRÉF
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Ítalíu en Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun (visum). Gott ráð er að hafa líka ljósrit af passanum með í för. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið. Farþegar bera einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar.FERÐAMANNASKATTUR
Það þarf að greiða ferðamannaskatt á öllum hótelum í Milano. Skattinn þurfa ferðamenn að greiða sjálfir á viðkomandi hóteli við brottför.  Upphæðin er: 3 EUR á mann á dag á 3* hótelum, 4 EUR á mann á dag á 4* hótelum og 5 EUR á mann á dag á 5* hótelum. Ferðaskrifstofur geta ekki innheimt skattinn.


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flogið er til Milano en flugvöllurinn þar heitir Malpensa Airport. Flugtíminn til Milano frá Keflavík er um 4 klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en 2 klst fyrir áætlaða brottför.TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för,  sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er til Milano með flugfélaginu Neos Air, leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20 kg taska á hvern farþega auk 5 kg í handfarangur (hámarks stærð á tösku í handfarangri 55x40x20 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni.


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn á Ítalíu er Evra (EUR). Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400.

ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Enginn fararstjóri er á vegum Heimsferða í Milano. Hægt er að hringja á skrifstofu Heimsferða í Skógarhlíð 18 í síma 00354 5951000 milli 09:00 – 17:00 virka daga.


SÍMI, RAFMAGN & TÖLVUR
Á Ítalíu er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Ítalíu og í íslenskt númer skal setja inn 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í ítalskt númer skal setja inn 0039- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, að þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu.


DRYKKJARVATN
Á Ítalíu er almennt gott vatn, en í öryggisskyni er farþegum ráðlagt að kaupa drykkjarvatn á flöskum. Í miklum hita er ekki gott að drekka ískalt vatn, betra er fyrir magann að fá vatnið í volgara lagi.


BROTTFÖR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


VERSLANIR
Flestar verslanir eru opnar frá 10:00-20:00 alla daga. Margar verslanir loka í hádeginu eða frá 13:30 – 14:30. Verslanir sem ekki standa við aðal verslunargötur loka sumar fyrr og eru lokaðar á sunnudögum.

Af nógu er að taka þegar kemur að verslun í Milano. Götur eins og Via Monte Napoleone og Corso Venezia eru þekktar fyrir úrval bestu merkjavara í Evrópu. Verslunargatan Corso Buenos Aires hefur þó vinninginn hvað varðar fjölda versluna en við hana standa um 350 verslanir.

TAX-FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.


SAMGÖNGUR
Leigubíla má finna við merkta staura í miðborg Milano, við járnbrautarstöðina og flugvöllinn.

Lest gengur til og frá flugvelli. Linkur á síðu  http://www.malpensaexpress.it/en/
ATH að lestin gengur ekki allan sólarhringinn.

Hægt er að panta miða í rútu til og frá flugvelli hér https://www.malpensashuttle.it/en/index.html
Neðanjarðarlest er í Milano, hægt er að kaupa miða hér https://www.atm.it/en/Pages/default.aspx

ÞJÓRFÉ
Það tíðkast enn að gefa þjórfé á Ítalíu, þeir sem þess vænta eru þjónar á veitingastöðum, barþjónar, hárgreiðslumeistarar, ræstingastúlkur á hótelum og bílstjórar í kynnisferðum.  Vaninn er að gefa 5-10%


ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Fr. Olga Clausen Preatoni, er ræðismaður Íslands í Mílanó. Skrifstofan er á Via Luigi Vitali 2, 20122 Mílanó. Sími: (0039) 02 783 640. Netfang: segreteria@consolatoislanda.it og olgaclausen@iol.it.  

EKKI MISSA AF...
Gamli bærinn
hér er hjarta borgarinnar, þar sem þú finnur ótrúlegt mannlíf, iðandi götur frá morgni til kvölds, veitingastaði, listasöfn, dómkirkjuna, verslanir og skemmtistaði.

Pinacoteca Ambrosiano, eitt frægasta listasafn heimsins með perlum eftir Rafael, Carvaggio, Leonardo, Botticelli o.fl. Pinacoteca di Brera, með mörgum frægustu verkum ítalskrar menningar, m.a. verk eftir listamenn síðustu aldar s.s. Modigliani.
Duomo þriðja stærsta kirkja heimsins og einkennistákn Mílanó. Stórkostleg bygging í gamla bænum sem tók yfir 400 ár að reisa.
Santa Maria della Grazie bygging hennar hófst árið 1463, hún er hvað frægust fyrir að hýsa hið einstaka listaverk Leonardo da Vinci, “Síðasta kvöldmáltíðin”.
Castello Szforzesco, kastali Szforza ættarinnar þar sem listir og menning risu hæst á Ítalíu á miðöldum.
Musei del Castello, listasafið í hinum fræga kastala, Szforzesco.
Basilíka heilags Ambrosíusar, ein elsta og frægasta kirkja Mílanóborgar, byggð árið 379. 
Via Montenapoleone, hér og í götunum í kringum Via Manzoni, via Sant´Andrea og Via della Spiga eru hin frægu tískuhús. 
La Rinascente, frægasta stórverslun Mílanó, beint á móti dómkirkjunni.
Teatro alla Scala, frægasta óperuhús veraldar, byggt á árunum 1776-1778. Húsið fór illa í sprengjuárásum 1943 en var endurbyggt 3 árum síðar.
Galleria Vittorio Emanuele II, opnað 1867. Ein fyrsta yfirbyggða verslunargatan í Evrópu, þar er að finna verslanir, kaffihús, veitingastaði og margt fleira og  tengir gatan,  Piazza del Duomo og Piazza della Scala.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti