Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Madeira - vor 2019

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

MADEIRA
Eyjan Madeira er  801  ferkm að stærð og liggur í Atlantshafinu um það bil 400 km norður af Tenerife. Eyjan tilheyrir Portúgal. Á Madeira er töluð portúgalska  en flestir skilja og tala ensku. Íbúar eru um  270.000. Höfuðborgin er Funchal á suðaustur strönd eyjunnar, þar búa um 130.000 manns. Á  Madeira er klukkan 1 klst á undan íslenska tímanum frá lok mars til loka októbers – annars er tímamismunur sá hinn sami frá október til loka mars.

FYRIR BROTTFÖR
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Madeira  en Íslendingar þurfa ekki vegabréfsáritun (visum). Vegabréfið þarf að vera í gildi í  a.m.k. 6 mánuði eftir heimkomudag. Vinsamlega athuga það vandlega.  Gott ráð er að hafa líka ljósrit af vegabréfinu með í för. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið. Farþegar bera einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar.


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flogið er til / frá Madeira. Flugvöllurinn þar heitir Funchal Airport. Flugtíminn til Madeira frá Keflavík er um 5 klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en 2 klst fyrir áætlaða brottför.

Sérstakur bíll fyrir töskurnar á Madeira !
Á Madeira er sérstakur bíll sem ekur ferðatöskunum á hvert hótel fyrir sig. Töskurnar fara sem sagt EKKI í farangursgeymslu   rútunnar sem ekur farþegunum á hótelin. Farþegar eru beðnir um að passa vel uppá að ferðataskan sín fari í réttan „tösku“ bíl – merktan því hóteli sem viðkomandi er bókaður á.  Merkið töskur:  Nafn og heimilisfang á Ísland –   svo og símanúmer.


TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkana. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för,  sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Farangursheimild getur verið mismunandi eftir flugfélögum, en upplýsingar um farangursheimild er að finna á flugmiðanum. Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni.


VIÐ KOMU Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjórar Heimsferða taka á móti hópnum á flugvellinum og þeim sem eiga pantaða rútuferð er ekið frá flugvelli að hóteli. Tekur sú ferð um 30 mínútur en fer dálítið eftir umferð og á hversu mörg hótel rútan fer. Ekki er hægt að bóka rútu nema á skrifstofu Heimsferða áður en ferðin hefst. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni.

KLUKKAN
Tímamunur á Íslandi og Madeira eru +1 klst. Kl. 12:00  á hádegi á Madeira er hún 11:00  á Íslandi.


ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjórar eru fulltrúar ferðaskrifstofunnar á staðnum og sinna farþegum meðan á dvöl þeirra stendur. Ef farþegi telur að eitthvað sé ábótavant varðandi þjónustu hótels eða ónægja er með íbúð/herbergi skal gera fararstjóra og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn á Madeira er Evra (EUR). Gengi  EUR er 137.- ( 24.apríl 2019).  Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum.  Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts.  Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: Neyðarsímanúmerin eru: VISA: (+354) 525 2000  -  EUROCARD / MASTERCARD og AMERICAN EXPRESS: (+354) 533 1400


GISTISTAÐIR
Gestir eru vinsamlegast beðnir að kynnar sér reglur hótelsins og virða almennar umgengnisreglur, m.a um næturkyrrð. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi/íbúð ýmist fyrir hádegi eða á hádegi á brottfarardegi. Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.


SÍMI, RAFMAGN & TÖLVUR
Á Madeira er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Madeira og í íslenskt númer skal setja inn 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma til Madeira skal setja inn 00351- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu.


DRYKKJARVATN
Á Madeira er almennt gott vatn, en í öryggisskyni er farþegum ráðlagt að kaupa drykkjarvatn á flöskum. Í miklum hita er ekki gott að drekka ískalt vatn, betra er fyrir magann að fá vatnið í volgara lagi.


BROTTFÖR
Þeir sem eiga pantaða rútuferð frá hóteli á flugvöll fá brottfarartíma staðfestan hjá fararstjóra . Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi.  Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda. Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


VEÐURFAR
Meðalhiti á Madeira í apríl er um 18° en hitinn getur orðið hærri eða lægri eftir tíðarfari.  Athugið að hitastigið getur farið niður í 12° að kvöldlagi.  Mælt er með þægilegum fatnaði, góðum götuskóm og alltaf gott að hafa regnhlíf við hendina, svo og góða flíspeysu.


VERSLANIR
Flestar verslanir eru opnar frá 09:30-13:00  og 15:30-19:30 virka daga, . Margar verslanir í miðborginni loka ekki yfir miðjan daginn og hafa líka opið á mánudögum. Stórverslanir hafa rýmri opnunartíma.


TAX-FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.

SAMGÖNGUR
Leigubílar eru yfirleitt frekar ódýr og hentugur ferðamáti á Madeira. Hægt er að ná í bíl á leigubílastaurum sem eru víðsvegar um borgina og einnig er hægt að hringja og sjá þá móttökurnar á hótelunum um það. Einnig eru tíðar strætisvagnaferðir á milli Lido svæðisins og Funchal, ódýr og þægilegur ferðamáti.


ÞJÓRFÉ
Það tíðkast enn að gefa þjórfé á Madeira, þeir sem þess vænta eru þjónar á veitingastöðum, barþjónar, hárgreiðslumeistarar, ræstingastúlkur á hótelum og bílstjórar, og innlendir fararstjórar í kynnisferðum.  Vaninn er að gefa 5-10%.


LÆKNAR
Ágætis læknisþjónusta er  á svæðinu. Vinsamlega leitið ráða hjá hótelmóttöku  ef á lækni þarf að halda. Apótek (Farmacia) hafa að öllu jöfnu sama opnunartíma og verslanir en í hótelmóttökum má fá upplýsingar um kvöld- og helgarvaktir.  

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti