Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Lissabon - Vor 2019

ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Lýðveldið Portúgal er um 93.400 km² að stærð og íbúafjöldi telur tæpar 11 milljónir, þar af um 3 milljónir í höfuðborginni Lissabon. Tungumálið, portúgalska, er rómanskt tungumál og er 6. algengasta tungumál heims. Tímamismunur milli Íslands og Portúgal er enginn á veturna en frá lok mars til lok október eru þeir 1 klst á undan okkar klukku (GMT + 1).  

VEGABRÉF
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Portúgals eins og til annarra landa. Ef ekki er hægt að sýna við innritun á flugvelli, fullgilt og löglegt vegabréf, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Ekki er hægt að fá framlengingu á vegabréfi úti á flugvelli í Keflavík.  Gott ráð er að athuga í tíma hvort vegabréf þitt sé enn í gildi og einnig er gott að ferðast með ljósrit af vegabréfi þínu. Þann  24.nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki. Farþegar bera algjörlega einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið.


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flugvöllurinn í Lissabon heitir Portela airport. Flugtíminn til Lissabon frá Keflavík er um 4 tímar og 20 mínútur. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en tveimur tímum fyrir áætlaða brottför.


TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upllýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för, sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.

FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er með ítalska leiguflugfélaginu Neos Air og er leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20kg á hvern farþega auk 5kg í handfarangur (hámark stærð á tösku í handfarangri er 54x40x20 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu um málið hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið einfaldlega ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni!


SÆTABÓKANIR
Heimsferðir bjóða nú viðskiptavinum sínum upp á að velja sér sæti í flugvélinni, gegn gjaldi í síma 595-1000 eða á skrifstofu Heimsferða. Vinsamlegast athugið að sætabókanir geta breyst án fyrirvara vegna breytinga á flugáætlun eða annarra ófyrirsjáanlegra kringumstæðna. Í slíkum tilfellum er ávallt reynt að útvega viðskiptavini sambærilegt sæti með svipaða staðsetningu í flugvélinni, eins og upphafleg bókun segir til um. Athugið að sætabókanir fást ekki endurgreiddar nema að um verulega tilfærslu hafi verið að ræða. Farþegi þarf þá að framvísa brottfararspjaldi sem sýnir úthlutað sæti á viðkomandi flugi. Ákveðnar reglur gilda um farþega í hjólastól. Þeir farþegar geta eingöngu bókað sér sæti við glugga. Farþegum með skerta hreyfigetu er ekki heimilt að bóka sæti fyrir miðju eða við gang.


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn í Portúgal er Evra (EUR). Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Nánari upplýsingar um gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni má finna á vefsíðunni www.oanda.com. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400.


VIÐ KOMU
Fararstjóri Heimsferða tekur á móti hópnum á flugvellinum og þeim sem eiga pantaða rútuferð er ekið frá flugvelli að hóteli. Tekur sú ferð um 30 mínútur en fer eftir umferð og á hversu mörg hótel rútan fer. Á leiðinni fer fararstjóri yfir helstu atriði sem að hafa ber í huga. Ekki er hægt að bóka rútu nema á skrifstofu Heimsferða áður en ferðin hefst. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni


RÚTUFERÐ TIL OG FRÁ FLUGVELLI
Fyrir þá sem eiga pantaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með að hámarki 1-2 töskur, auk barnakerru ef við á. Ef ferðast er með annan farangur eins og t.d íþróttabúnað eða rafmagnshjólastóla er ekki öruggt að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að taka á móti slíkum farangri. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað slíkan farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við ferðaskrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.


ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjóri eru fulltrúi ferðaskrifstofunnar á staðnum og sinnir farþegum meðan á dvöl þeirra stendur. Ef farþegi telur að eitthvað sé ábótavant varðandi þjónustu hótels eða ónægja er með íbúð/herbergi skal gera farastjóra og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.


GISTISTAÐIR
Gestir eru vinsamlegast beðnir að kynna sér reglur hótelsins og virða almennar umgengnisreglur, m.a um næturkyrrð. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi/íbúð ýmist fyrir hádegi eða á hádegi á brottfarardegi. Ef flug er að kveldi bjóða hótel upp á farangursgeymslu þar sem geyma má farangur að brottför. Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.


BROTTFÖR
Þeir sem eiga pantaða rútuferð frá hóteli á flugvöll geta fengið brottfarartíma staðfestan hjá fararstjóra. Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi. Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda. Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


FERÐAMANNASKATTUR
Þann 1. janúar 2016 var settur á ferðamannaskattur í Lissabon. Skattinn þurfa ferðamenn að greiða sjálfir á viðkomandi hóteli. Upphæðin er 2,00 EUR á mann á dag. Ferðaskrifstofur geta ekki innheimt skattinn.

SÍMI, RAFMAGN, TÖLVUR
Í Portúgal er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Portúgal og í íslenskt númer skal setja 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í portúgalskt númer skal setja inn 00351- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, að þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu. 


DRYKKJARVATN
Í Portúgal er almennt gott vatn, en í öryggisskyni er farþegum ráðlagt að kaupa drykkjarvatn á flöskum. Í miklum hita er ekki gott að drekka ískalt vatn, betra er fyrir magann að fá vatnið í volgara lagi.


VEÐURFAR
Meðalhiti í Lissabon í apríl er um 18-20 gráður en hitinn getur orðið hærri eða lægri eftir tíðarfari. Oft er mikill raki í borginni og því gott að drekka nóg af vatni. Ef sólin skín að þá mælum við eindregið með því að borin sé á sig sólarvörn, því sólin getur verið mjög sterk hér.


VERSLANIR
Verslanir eru almennt opnar frá 09-19 mán.-fös. og laugard. kl. 10–14. Matvöruverslanir opna flestar  kl. 08:00. Smærri verslanir og fyrirtæki hafa þá venju að hafa lokað milli 13-15, en undantekningar eru á þessu á þeim svæðum sem mest eru sótt af ferðamönnum. Stórar verslunarmiðstöðvar opna yfirleitt kl. 10:00  og loka ekki fyrr en kl 23-24:00. Flestar þeirra opna einnig á sunnudögum.

Vinsælustu verslunarmiðstoðvar Lissabon eru:
Colombo, ein af stærstu verslunarmiðstöðvum Evrópu.

Amoreiras, er elsta og sögufrægasta verslunarmiðstoð borgarinnar.
Armazens do chiado, þar má finna mikið úrval bóka- og hlómplötuverslana.
Einnig eru verslunarmiðstöðvarnar: Atrium saldanha, Centro Vasco Da Gama og hið spænska El Corte Ingles vinsælar meðal ferðamanna.

TAX FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  ATH. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um tax-free.


ÞJÓRFÉ
Almennt er þjónustugjald ekki innifalið á veitingastöðum og tíðkast því að gefa um 10 % þjórfé. Oftast er einnig gefið þjórfé á hárgreiðslustofum, snyrtistofum til leigubílstjóra, burðarmanna og annarra sem veita góða þjónustu.


SAMGÖNGUR
Almenningssamgöngur í Lissabon eru talsvert aðgengilegar og auðveldar í notkun fyrir ferðamenn. Hægt er að nýta sér strætisvagnakerfi, lestarkerfi (metró), sporvagna og leigubíla, sem að eru á hverju strái í borginni. Leiðarkort strætisvagna og sporvagna má meðal annars finna í upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn (Tourist info), blaðsölubásum eða í miðasölum, Tranvia, um alla borg. Miðar eru seldir á neðanjarðarstöðvum, í tóbaksbúðum og söluturnum en yfirleitt ekki í farartækjunum sjálfum, nema ef um lengri leiðir sé að ræða. Hagstæðast er að kaupa rafrænt dagkort sem auðvelt er að fylla inn á. Hafa ber í huga að sektað er fyrir að ferðast miðalaus. Nánari upplýsingar á hótelum, upplýsingamiðstöðvum eða hjá fararstjórum.

Leigubílar í Lissabon eru merktir Taxi Lisboa. Nokkrar leigubílastöðvar eru starfandi í borginni en bílana má þekkja á lit þeirra. Flestir eru þeir fölgulir eða svartir með grænu þaki. Allir leigubílar sem hafa starfsleyfi i borginni hafa gjaldmæli, en ágæt venja er að spyrja um verð áður en haldið er af stað.

Áreiðanlegar stöðvar eru t.d Tele-Taxis : 21 811 1100 og Rádio Táxis : 21 811 9000

LÆKNAR & APÓTEK
Ágætis læknisþjónusta er í Lissabon og er hægt að fá lækni heim á hótel með milligöngu hótelmóttöku eða fararstjóra. 

Apótek eru opin frá 09:00-13:00 og 15:00-29:00 mánud. - föstud. Nokkur apótek (farmacia) eru á vakt 24 klst. Hótelafgreiðslur og leigubílstjórar vita flest hvaða apótek er á vakt.

ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Fr. Helena Cristina Teixeira Guerra Dundas er ræðismaður Íslands í Lissabon. Skrifstofa : Rua José Ferrao, Castelo Branco, 19, Paco D'Arcos. Sími: 00-351 21 441 1564 Fax: 21 441 1564. Netfang: hdundas@vodafone.pt

ÞJÓFNAÐUR
Líkt og í öðrum stórborgum, er nokkuð um vasaþjófnað í borginni. Oft má koma í veg fyrir slíkt með því að vera á varðbergi. Athugið að skilja aldrei við ykkur veski, töskur eða annað verðmætt.


MATUR & SKEMMTUN
Fjöldi góðra veitingastaða er í Lissabon. En kokkasnilld Portúgala felst ekki í úrvals-matsölustöðum einum og sér, heldur spannar matarmenningin gervalt samfélagið, frá heimilismatseld til frægra "Piri Piri" kjúklingaréttastaða, sjávarréttastaða, Fado og smáréttastaða.  Á flestum góðum sjávarréttastöðum borgarinnar má finna íslenskt sjávarfang matreitt á einstakan hátt og dálæti ferðamanna á hinum fræga og bragðsterka "Piri Piri" kjúklingarétti er löngu orðið víðfrægt.

Hægt er að skoða nokkra veitingastaði inn á vefsíðum eins og:
www.lonelyplanet.com/portugal/lisbon/restaurants

www.golisbon.com/food/golisbon-favourites.html
www.tripadvisor.com/Restaurants-g189158-Lisbon_Estremadura.html
www.sr-fado.com (Mjög vinsæll Fado veitingastaður)

TÓNLEIKAR – MENNINGARLÍF
Mikið framboð er af tónleikum, Fado-danssýningum, og listsýningum í Lissabon. Hægt er að bóka miða í gestamóttöku flestra hótela, vefsíðum safna og sýningarsala eða gera sér ferð í miðasölu á opnunartíma. Einnig munu fararstjórar aðstoða farþega eftir bestu getu.

Hér má skoða nokkrar síkar vefsíður:
Óperuhús São Carlos Theater (einungis á Portúgölsku) Ópera, Ballett, Listdans o. fl.

tnsc.pt/programacao-teatro-nacional-de-sao-carlos-janeiro-a-junho-de-2014

Hér má sjá upplýsingar um tónleika, leikrit, bíóhús o. fl.:
http://live.agendalx.cm-lisboa.pt/
www.viralagenda.com/pt/lisboa/01-05-2014
ticketline.sapo.pt/pesquisa/?month=5&year=2014

ÁHUGAVERÐIR STAÐIR 
Kastali heilags Georgs (Castelo de Sao Jorge) 

Kastalinn og virkisveggir hans gnæfa  yfir borgina og fara  varla fram hjá neinum. Elsti hluti kastalans var byggður af Rómverjum á 6. öld og státar kastalinn af 18 turnum. Saga kastalans er merkileg og útsýni frá honum yfir hluta borgarinnar og ánna Tagus er mikilfenglegt.  Vefsíða : castelodesaojorge.pt/en

Landafundamerkið (Monumento aos Descobrimentos)
52 metra hár minnisvarði við bakka Tagus fljóts sem táknar heimsveldastefnu Portúgala á 15. og 16. öld. Þar má sjá líkneski 33 þekktustu landkönnuða Portúgala.

Jerónimo klaustrið (Mosteiro dos Jerónimos)
Einstaklega falleg bygging í svokölluðum Manúalisma byggingarstíl. Þetta gríðarlega stóra klaustur og kirkja var sett á heimsminjaskrá árið 1983 og er fagurlega skreytt innan sem utan. Grafhýsi frægasta landkönnuðar Portúgala, Vasco da Gama, má finna í kirkjunni sem og grafhýsi eins mesta skálds Portúgal, Luís de Camões.

Belém höllin (Palácio Nacional de Belém)
Lillableik höll, dvalarstaður forseta Portúgal.

Ajuda höllin (Palacío Nacional da Ajuda) 
Íburðamikil höll sem byggð var fyrir konungsfjölskyldu Portúgala árið 1755, eftir jarðskjálftan mikla. Hallargarðurinn er virkilega fallegur.

Kristsstyttan (Cristo Rei)
Styttan var reist árið 1959 til þakkar guði, fyrir að hlífa Portúgal fyrir hörmungum seinni heimstyrjardar. Styttan er um 100 m há og hægt er að komast upp á topp.

Santa Justa lyftan (Elevador de Santa Justa)
Erfitt getur verið að finna lyftuna, en hún er vel falin milli bygginga við þröngar götur miðbæjarins. Lyftan var upphaflega byggð árið 1874, til þess að auðvelda borgarbúum að komast á milli Baixa  og Carmo Square.  Fleiri lyftur voru byggðar í borginni á þessum tíma, en Santa Justa er sú eina sem  stendur eftir.  Á toppnum er kaffihús og fallegt útsýni.

Verslunartorgið (Praça do Comércio)
Einnig þekkt sem Terreiro do Paço, staðsett við Tagus á og markaði upphaf byggðar á miðbæ Lissabonn. Frá torginu liggur bein leið gegn um Rossio hverfið.

Belém turninn (Torre de Belém)
Turninn var byggður á fyrri hluta 16. aldar til að minnast landafunda landkönnuðarins Vasco de Gama. Belém Turninn er glæsilegur fulltrúi hins Manúelska byggingarstíls, sem jafnan er talin vera sér  portúgalskur byggingarstíll. Turninn er á lista yfir Heimsminjar Sameinuðu þjóðanna og er eitt helsta tákn Lissabon.

25. Apríl brúin (Ponte 25 de April)
Oft nefnd systurbrú Golden Gate brúarinnar San Francisco. Mikilfengleg brú yfir Tagus flótið sem dregur nafn sitt af byltingunni miklu 25. apríl 1974, þegar hinum grimma einvaldi Salazar var vikið frá völdum.

Vasco de Gama brúin (Ponte Vasco de Gama)
Byggð yfir Tagus fljótið, er lengsta brú Evrópu, 17,2km.

Þjóðargarðurinn (Parque das Nações)
Hannaður fyrir Heimsýninguna í Lissabon 1998 (Expo 98). 

Carmo klausturleifarnar (Ruínas do Convento do Carmo)
Rústir rómverskrar kirkju og klausturs sem standa enn óhreyfðar frá jarðskjálftanum mikla sem skók borgina 1. nóvember  1755. Áhrifamikil sjón og í göngufæri frá  miðbænum.

Borgarsafnið (Museu da Cidade)
Saga Lissabon frá upphafi til dagsins í dag.
Vefsíða : museudacidade.pt/Paginas/Default.aspx

Sæfara safnið (Museu de Marinha)
Vefsíða: museu.marinha.pt/pt/Paginas/default.aspx

Fado safnið (Museu do Fado)
Vefsíða : museudofado.pt/

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti