Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Krít - sumar 2019

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

FYRIR BROTTFÖR
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Krítar eins og til annarra landa. Ef ekki er hægt að sýna við innritun á flugvelli, fullgilt og löglegt vegabréf, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Ekki er hægt að fá framlengingu á vegabréfi úti á flugvelli í Keflavík. Gott ráð er að athuga í tíma hvort vegabréf þitt sé enn í gildi og einnig er gott að ferðast með ljósrit af vegabréfi þínu. Þann 24.nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki og er það algjörlega á  ábyrgð þess sem ferðast að vegabréf hans sé gilt. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið  Við bendum farþegum á Evrópska sjúkratryggingakortið sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánar hjá Tryggingastofnun ríkisins (www.sjukra.is). Ef farþegar kjósa sjálfir að fara á einkarekna læknastofu, greiða tryggingarfélög ekki alltaf þann kostnað. Í þeim tilfellum þarf sjúklingurinn að bera einhverja sjálfsábyrgð, en það fer eftir tryggingarskilmálum hvers og eins.

TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för, sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.

TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er til Krítar með flugfélaginu Neos Air, leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20 kg taska á hvern farþega auk 5 kg í handfarangur (hámarks stærð á tösku í handfarangri 55x40x20 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni.


VIÐ KOMU
Fararstjórar Heimsferða taka á móti hópnum á flugvellinum á Krít og ekið er í rútu frá flugvelli og á hótel.  Rútuferðirnar eru bókaðar heima á Íslandi og ekki er hægt að tryggja að laust sé, ef ekki hefur verið bókað fyrirfram. Rútuferð á hótel getur tekið um 30 - 60 mínútur. Gætið þess að koma sjálf farangri ykkar í rútuna til að tryggja að hann verði ekki eftir á flugvellinum. Ath. að ef farangur skemmist þarf að tilkynna það á flugvelli,ekki er hægt að fá skýrslu gerða eftir að flugvöllurinn hefur verið yfirgefinn og vert að nefna að hvorki farangur né töskutjón eru  bætt ef skýrsla er ekki gerð.


RÚTUFERÐ TIL &  FRÁ FLUGVELLI
Ath þeir sem eru með bókaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með 1-2 töskur  hámark, og kerrur fyrir börnin. Ef ferðast er með annan farangur t.d íþróttabúnað eða rafmagnshjólastóla er ekki víst að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að hægt sé að taka við því. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað þannig farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við skrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.

BROTTFÖR
Farþegar  eru vinsamlegast beðnir að líta í upplýsingamöppu Heimsferða sem finna má á viðkomandi gististað daginn fyrir brottför. Farþegar sem aðeins kaupa flugsæti bera sjálfir ábyrgð á að fá brottfarartíma staðfestan. Vert er að hafa í huga að flugtímar geta breyst frá áður útgefnum áætlunum. Stundvísi er keppikefli Heimsferða en á stundum geta orðið seinkanir í flugi sem ferðaskrifstofan fær engu ráðið.


UPPLÝSINGAMAPPA
Á hverjum gististað er upplýsingamappa Heimsferða. Í henni er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar,  um kynnisferðir, ferðir strætisvagna, verslanir og áhugaverða staði. Í möppunum má einnig finna öll þau skilaboð sem fararstjórar þurfa að koma til farþega meðan á dvöl þeirra stendur.  

ÖRYGGISHÓLF Á GISTISTÖÐUM
Almennt þarf að greiða fyrir notkun á öryggishólfum,en þó eru undantekningar og þar eru öryggishólfin án aukagjalds, þetta fer þó eftir gististöðum. Við ráðleggjum gestum okkar að strax fyrsta daginn séu leigð öryggishólf til að geyma vegabréf, peninga og önnur verðmæti. Hafið samband við gestamóttöku eða fararstjóra fyrir nánari upplýsingar.

SÓLIN
Sólin á Krít er sterk og því er full ástæða til að fara mjög gætilega. Það er mjög fljótgert að eyðileggja sumarleyfið með því að brenna illa. Farið varlega fyrstu dagana í sólinni á meðan hver og einn finnur hve vel hann þolir sólina og notið alltaf sólarvörn.

KYNNISFERÐIR
Greiðsla á ferðum og öðru fer fram í hótelheimsóknum fararstjóra og á komufundi, einungis er hægt að greiða með evrum. Athugið að ekki er hægt að greiða með greiðslukortum.

LÆKNAR
Læknisþjónusta á Krít er til fyrirmyndar. Leitið upplýsinga um næstu læknastöð í upplýsingamöppu á hóteli.

KREDITKORT
Yfirleitt er hægt að nota kreditkort og ráðleggjum við ferðalöngum að hafa slík kort með sér þó ekki sé nema öryggisins vegna. VISA og EURO eru jafngild. Einnig er hægt að taka út peninga á kortin í hraðbönkum, en þá þurfa korthafar að vita PIN númerið sitt. Ef kort tapast, hringið í viðkomandi neyðarnúmer og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. EURO (00354) 533 1400. Með tilkomu nýrra posa er nauðsynlegt að muna pin númerið sitt!! Ath þó nokkuð af veitingastöðum og litlum búðum taka ekki við kreditkortum heldur þarf að greiða með pening.

Vinsamlegast athugið að mjög víða eru komnir hraðbankar sem tilheyra fyrirtæki sem heitir Euronet. Þetta fyrirtæki tekur hærra þjónustugjald en almennir bankar.

DRYKKJARVATN
Kranavatnið er drykkjarhæft en við mælum frekar með vatni á flöskum til drykkjar.


GISTISTAÐUR
Ætlast er til að ró sé komin á kl. 24:00 og eru gestir vinsamlegast beðnir að taka tillit til þess.  Aðrar mikilvægar reglur er að finna í hótelmóttöku og eru farþegar beðnir um að kynna sér þær. Farþegar sem brjóta þessar reglur eiga á hættu að vera vísað af gististaðnum. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi fyrir eða um hádegi – kynnið ykkur reglur viðkomandi gististaðar varðandi það.                          

Athugið að ef eitthvað er að varðandi þjónustu hótelanna eða aðbúnaður á herbergi eða íbúð ekki í lagi að þínu mati, verður að láta fararstjóra eða starfsfólk í móttöku hótela vita strax, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið. Neyðarnúmer fararstjóra er 00354 822 9039.

ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Ekkert íslenskt sendiráð er í Grikklandi en sendiherra Íslands í Noregi gætir hagsmuna Íslendinga í Grikklandi. Aðalræðismaður Íslands í Grikklandi heitir Hr. Yannis Lyberopoulus. Sími: (210) 492-7737 og Fax númer er: (210) 492-8755. Netfang: yannis@icelandseafood.gr. Heimilisfang: c/o Iceland Seafood, Efklidou 6,, Piraeus.


OPNUNARTÍMI BANKA & APÓTEKA   
Bankar eru opnir frá mánudegi - fimmtudaga frá 08:00 - 13:30 en á föstudögum loka þeir kl: 13:00.  Hraðbankar eru víða en minnt er á að þiggja ekki aðstoð frá ókunnugum við hraðbanka og alls ekki gefa upp pin-númerið.

Apótek á grísku heita Farmakeio og eru merkt með grænum stöfum og grænum krossi. Opnunartími apóteka er frá kl. 09:00 – 14:30 og frá kl. 18:00 – 21:00. Sum eru opin allan daginn. Utan þessa tíma eru apótekin með neyðarvakt. Leigubílstjórar og starfsfólk í hótelmóttöku vita yfirleitt hvaða apótek er á vakt hverju sinni.

VERLSANIR
Hægt er að gera ágætis kaup í Chania og er úrval af  verslunum eins og : HM, Pull & Bear, Oysho, Jumbo, Zara, Sephora,Marks & Spencer og fleiri.Almennt eru verslanir opnar frá 09/10:00-14:30 og 17/18:00-21:00 alla virka daga. Sérstakar ferðamannaverslanir eru þó opnar lengur og jafnvel til kl 23 á kvöldin, líka um helgar.


ÞJÓRFÉ
Það tíðkast enn að gefa þjórfé á Krít, þeir sem þess vænta eru þjónar á veitingastöðum, barþjónar, ræstingafólk á hóteli og bílstjórar í kynnisferðum. Vaninn er að gefa 5-10%, á veitingastöðum.


EKKI MISSA AF
Heimsferðir bjóða upp á úrval kynnisferða á og við Krít í sumar og farþegar okkar eru hvattir til þess að kynna sér hvað er í boði, bæði á komufundi sem og í upplýsingamöppum Heimsferða á gististöðum.  Möguleikarnir eru óþrjótandi hvort sem verið er að leita að afþreyingu eins og köfun, bátsferð eða ferðir á sögufræga staði eins og Knossos/Heraklion, eða eyjuna Santorini, bæjarferð um Chania, Balos og Elfonisi ströndina.  Vinsamlegast athugið að kynnisferðir með íslenskum fararstjóra eru háðar því að a.m.k. 20 manns bóki sig.  Fararstjórar Heimsferða geta aðstoðað farþega við að bóka í ferðir með enskumælandi fararstjórum ef ekki næst næg þátttaka í ferð með íslenskum fararstjóra.


MINNT ER Á
Að aldrei er of varlega farið á ferðalögum. Vasaþjófa er að finna hér eins og um allan heim og því viljum við benda farþegum okkar á að leggja aldrei verðmæti frá sér á glámbekk, því myndavélar, símar, tölvur, töskur og veski eru freistandi í augum þess sem ætlar sér að stela.  Hafið tafarlaust samband við fararstjóra ef verðmætum er stolið af ykkur, sem aðstoðar þá við skýrslugerð á lögreglustöð. Minnt er á að gott er að vera með allar tryggingar á hreinu áður en haldið er af stað í ferðalag til útlanda. 

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti