Sól
Borg
Golfferðir
Sérferðir
Hreyfing
Sigling
Flugsæti

Búdapest - Vor 2020

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Ungverjaland er um 93 þús km2 að stærð, það er lýðveldi og þar búa um 10 milljónir,  þar af um 2 milljónir í höfuðborginni Budapest. Í Ungverjalandi er töluð ungverska en margir skilja og tala ensku. Í Ungverjalandi er klukkan 2 klst á undan íslenska tímanum frá lok mars til lok októbers – annars er tímamismunur 1 klst frá lok október til lok mars.  Ungverjaland fékk inngöngu í Evrópusambandið 1. maí 2004.


VEGABRÉF
Nauðsynlegt er að hafa gilt vegabréf í ferð til Ungverjalands eins og til annarra landa. Ef ekki er hægt að sýna við innritun á flugvelli, fullgilt og löglegt vegabréf, hafa starfsmenn á Keflavíkurflugvelli ekki heimild til að leyfa viðkomandi farþega að ferðast og er ekki um neinar undanþágur frá því að ræða. Ekki er hægt að fá framlengingu á vegabréfi úti á flugvelli í Keflavík. Gott ráð er að athuga í tíma hvort vegabréf þitt sé enn í gildi og einnig er gott að ferðast með ljósrit af vegabréfi þínu. Þann 24. nóvember 2015 breyttust reglur um vegabréf og eru framlengd vegabréf ekki lengur talin gild ferðaskilríki. Farþegar bera algjörlega einir ábyrgð á því að vegabréf sé gilt og sé viðkomandi meinað að ferðast vegna ófullnægjandi skilríkja, fæst ferðin ekki endurgreidd af hendi ferðaskrifstofunnar. Farþegar með erlent vegabréf þurfa sjálfir að kanna hvort þeir þurfa vegabréfsáritun inn í landið. Gott ráð er að hafa ljósrit af vegabréfinu meðferðis því ef vegabréf glatast er einungis hægt að gefa út nýtt vegabréf hjá Utanríkisráðuneytunni í Vínarborg.


FLUG & FLUGVÖLLUR
Flugvöllurinn í Budapest heitir Budapest Ferenc Liszt International Aiport og er flugtíminn frá Keflavík um 4 ½ klst. Mæta þarf til innritunar á flugvöll eigi síðar en 2 klst fyrir áætlaða brottför.


TAFIR Í FLUGI
Stundvísi er keppikefli Heimsferða en óhjákvæmilega geta orðið tafir á flugi í öllum flugrekstri, sem ferðaskrifstofan getur á engan hátt borið ábyrgð á. Ef verður töf á flugi eftir að innritun á flugvelli hefur farið fram, fer í gang verkferli samkvæmt alþjóðareglum. Þjónustuaðilar á flugvelli (handling agent) skal þá fyrir hönd flugfélagsins veita upplýsingagjöf, úthluta matarmiðum og jafnvel hótel eftir lengd og eðli seinkanna. Farþegar þurfa að fylgjast vel með í kallkerfi flugvallar og gera vart við sig hjá viðkomandi þjónustuaðila (handling agent), til þess að fá upplýsingar. Gott er að hafa hugfast að fyrstu og bestu upplýsingarnar fást á flugvellinum og ferðaskrifstofa eða fararstjóri fær nákvæmlega sömu upplýsingar og farþegi. Verði veruleg töf er gott að hafa hugfast að jákvætt hugarfar er góður ferðafélagi.


TRYGGINGAR
Farþegar bera sjálfir ábyrgð á því að tryggingar þeirra séu í lagi meðan á ferð þeirra stendur. Hafi ferðin verið greidd með kreditkorti, er farþegi oft með góðar tryggingar í þeim kortum. En við bendum farþegum einnig á að hafa með Evrópska sjúkratryggingakortið með í för,  sem veitir rétt á allri nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á ríkisreknum stofnunum í löndum EES. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sjúkratryggingum Íslands (www.sjukra.is). Ef farþegi kýs að fara á einkarekna sjúkrastofnun á hann ekki rétt á endurgreiðslu í öllum tilfellum, því er mikilvægt að kanna tryggingar sínar vel fyrir brottför.


FARANGUR & FARANGURSHEIMILD
Flogið er með flugfélaginu Travel Service og er leyfileg hámarksþyngd á innrituðum farangri 20kg á hvern farþega auk 5kg í handfarangur (hámark stærð á tösku í handfarangri er 56x45x25 cm). Ef farangur skilar sér ekki eða skemmist í flugi verður farþegi að gera skýrslu hjá þjónustuaðila á flugvelli, ef ekki er gerð skýrsla fæst tjónið ekki bætt. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í flugvélinni.


GJALDMIÐILL & KREDITKORT
Gjaldmiðillinn í Budapest er ungversk Forinta (HUF). Athugið að almennt er ekki hægt að nota annan gjaldmiðil í verslunum, en hægt er að skipta öðrum gjaldmiðlum í bönkum. Nánari upplýsingar um gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni má finna á vefsíðunni www.oanda.com. Öll helstu kreditkort er hægt að nota í verslunum og hraðbönkum í borginni, en nauðsynlegt er að vita pin-númer viðkomandi korts. Ef kort tapast, hringið í neyðarnúmer kortafyrirtækjanna og látið loka kortinu: VISA (00354) 525 2000 eða 525 2200. MASTERCARD (00354) 533 1400.


VIÐ KOMU Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjórar Heimsferða taka á móti hópnum á flugvellinum og þeim sem eiga pantaða rútuferð er ekið frá flugvelli að hóteli. Tekur sú ferð um 40-60 mínútur en fer dálítið eftir umferð og á hversu mörg hótel rútan fer. Á leiðinni fara fararstjórar yfir helstu atriði sem að hafa ber í huga, sem og dagskrá kynnisferða o.fl. Ekki er hægt að bóka rútu nema á skrifstofu Heimsferða áður en ferðin hefst. Passið vel upp á að gleyma engu um borð í rútunni.


RÚTUFERÐ TIL & FRÁ FLUGVELLI
Fyrir þá sem eiga pantaða rútuferð til og frá flugvelli, þá er gert ráð fyrir að hver farþegi ferðist með að hámarki 1-2 töskur, auk barnakerru ef við á. Ef ferðast er með annan farangur eins og t.d íþróttabúnað eða rafmagnshjólastóla er ekki öruggt að farangursrými rútunnar sé nægilega stórt til að taka á móti slíkum farangri. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á því ef rútan getur ekki heimilað slíkan farangur og því mikilvægt að fá það staðfest áður en ferðast er. Best er að hafa samband við ferðaskrifstofuna og fá nánari upplýsingar fyrir brottför.


ÞJÓNUSTA Á ÁFANGASTAÐ
Fararstjórar eru fulltrúar ferðaskrifstofunnar á staðnum og sinna farþegum meðan á dvöl þeirra stendur. Ef farþegi telur að eitthvað sé ábótavant varðandi þjónustu hótels eða ónægja er með íbúð/herbergi skal gera farastjóra og/eða starfsfólki hótelsins viðvart, því ekkert er hægt að gera eftir að heim er komið.GISTISTAÐIR
Gestir eru vinsamlegast beðnir að kynna sér reglur hótelsins og virða almennar umgengnisreglur, m.a um næturkyrrð. Samkvæmt alþjóðareglum þarf að losa herbergi/íbúð ýmist fyrir hádegi eða á hádegi á brottfarardegi. Einstaka hótel fer fram á tryggingargjald sem er endurgreitt við brottför ef ekkert tjón hefur orðið á herbergi/íbúð meðan á dvöl stóð. Þá getur hótelið farið fram á kreditkortanúmer sem tryggingu meðan á dvöl stendur.


SÍMI, RAFMAGN & TÖLVUR
Í Ungverjalandi er rafmagnið 220 volt eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er úr íslenskum síma frá Ungverjalandi og í íslenskt númer skal setja inn 00354- á undan símanúmerinu. Ef hringja skal úr íslenskum síma í ungverkst númer skal setja inn 0036- á undan númerinu. Þá er vert að taka fram að þó að hótelið sem dvalið er á, bjóði aðgang að þráðlausu wi-fi, að þá getur internetsambandið á stundum verið höktandi og ekki á það að treysta að fullu.


DRYKKJARVATN
Í Ungverjalandi er kranavatnið drykkjarhæft, en í öryggisskyni er farþegum ráðlagt að kaupa drykkjarvatn á flöskum. Í miklum hita er ekki gott að drekka ískalt vatn, betra er fyrir magann að fá vatnið í volgara lagi.


BROTTFÖR
Þeir sem eiga pantaða rútuferð frá hóteli á flugvöll fá brottfarartíma staðfestan hjá fararstjóra. Einnig má sjá brottfaratíma frá hóteli á dagskrárblöðum sem farþegar fá afhent um borð í flugvélinni á leið út. Farþegar þurfa að skrá sig út af herbergjum fyrir eða um hádegi á brottfarardegi. Hótelmóttakan sér um að geyma farangur fram að brottför ef á þarf að halda. Þeir sem eru eingöngu bókaðir í flugsæti bera sjálfir ábyrgð á því að fá brottfarartíma staðfestan á flugvelli eða skrifstofu Heimsferða á Íslandi í síma 00354-595-1000.


VEÐURFAR
Meðalhiti í Budapest í október er um 13° en hitinn getur orðið hærri eða lægri eftir tíðarfari.  Athugið að hitastigið getur farið niður í allt að 6° að kvöldlagi.  Mælt er með þægilegum fatnaði, góðum götuskóm og alltaf gott að hafa regnhlíf við hendina.


VERSLANIR
Verslanir eru almennt opnar frá kl. 10.00-18.00 en margar ferðamannaverslanir eru opnar lengur. Verslanir í miðbæ Budapest eru almennt opnar á laugardögum frá kl. 9.00 – 13.00. Lokaðar á sunnudögum. Athugið að opnunartími verslana er breytilegur og upplýsingar eru einungis leiðbeinandi. Verslunarmiðstöðvar hafa oft rýmri opnunartíma og eru þær helstu Arena Plaza, West End City Center og Corvin Plaza. Sjá nánari upplýsingar á: 

http://visitbudapest.travel/activities/shopping-in-budapest/

TAX-FREE
Flestar verslanir bjóða upp á svokallað Tax-Free ef keypt er fyrir ákveðna upphæð í viðkomandi verslun. Verslunin fyllir þá út sérstakt eyðublað sem viðskiptavinir þurfa að fá stimplað hjá tollvörðum á flugvellinum við brottför.  Ath. að þetta er gert fyrir innritun á flugvelli og hafa tollverðir leyfi til þess að óska eftir að sjá varninginn sem verslaður var. Í verslun þarf að framvísa vegabréfi þegar sótt er um Tax-Free.


ALMENNINGS SAMGÖNGUR
Gott samgöngunet er í Budapest og eru strætisvagnar, sporvagnar og neðanjarðarlestir (4 línur) að öllu jöfnu á ferðinni frá 4:30-23:15. Miðar eru seldir á neðanjarðarstöðvum, í tóbaksbúðum og söluturnum en ekki í farartækjunum sjálfum. Stimpla verður miðann í þar til gerðum kössum inni í vagninum eða áður en farið er niður í Metro. Stakur miði kostar um 350 HUF en einnig er hægt að kaupa miða til lengri tíma. Sekt fyrir að ferðast miðalaus er um 16000 HUF og eftirlitsmennirnir eru merktir með rauðu ermabandi. Nánari upplýsingar á hótelum, upplýsingamiðstöðvum eða hjá fararstjórum.


LEIGUBÍLAR
Leigubílar í Budapest eru merktir með gulu leyfismerki og skulu þeir vera með gjaldmæli. Áreiðanlegar stöðvar eru t.d. City Taxi (s. 211 1111), Budataxi (s. 233 3333) og Fötaxi (s. 222 2222). Ágæt venja er að spyrja um verð áður en haldið er af stað.


ÞJÓRFÉ
Hér tíðkast að gefa um 5-10% þjórfé á veitingastöðum ef þjónustan er í lagi. Það er góð regla að lesa yfir reikninginn áður en greitt er, því stundum er þjónustugjald innifalið og sést það á reikningi.

LÆKNAR
Góð læknisþjónusta er í boði í Budapest og apótek má finna víða. Hótelmóttökur veita allar nánari upplýsingar, en hikið ekki við að leita til fararstjóra strax ef um alvarleg veikindi er að ræða.


ÍSLENSKUR RÆÐISMAÐUR
Íslenskur ræðismaður er í Budapest: Mr Ferenc Utassy, skrifstofa: Orbánhegyi út. 3, HU-1126 Budapest, s. (361) 4880128, fax: (361) 4880127, netfang: iceconsul@islandia.hu

VEITINGAR & SKEMMTUN
Fjöldi góðra veitingastaða er í Budapest og gestir munu ekki eiga erfitt með að finna “rétta” staðinn. Hægt er að skoða alla helstu veitingastaði Budapest  inn á þessari vefsíðum eins og: http://restaurants.topbudapest.org/ eða http://www.budapest-tourist-guide.com/hungarian-restaurants-in-budapest.html

Mikið framboð er af tónleikum, ballet, óperu og klassískri tónlist í Budapest. Hvergi er tónlistarhefðin sterkari, val um fjölda tónleika á hverjum, hægt er að bóka í gestamótökum á flestum hótelum. Við nefnum sérstaklega Tónlistarakademíuna, Music Academy, sem Franz Liszt stofnaði og  Óperuna, eitt fegursta óperuhús Evrópu, sem upplifun er að heimsækja. Þar stjórnuðu m.a. Gustav Mahler og Puccini.

ÁHUGAVERÐIR STAÐIR
Það er fjöldi áhugaverðra staða sem ekki má fara á mis við þegar maður kemur til Budapest:

Hér nefnum við nokkra:
Citadella: - Gamalt virki á Gellért hæðinni í Buda. Reist af Austurríkismönnum.  “Frelsisstyttan” gnæfir yfir.
Hetjutorgið (Hösök tere): – Hér var miðja þúsaldarafmælisins 1896, hér voru haldnar mikilfenglegar hersýningar á kommúnistatíma. Fallegir og frægir garðar, heimsfræg listasöfn og margt fleira.
Óperuhúsið eitt hið fegursta í Evrópu.  
Þinghúsið, sem byggt er á bökkum Dónár, stórfengleg bygging.
Konungshöllin og allt hverfið þar í kring með mörgum söfnum. Kirkja heilags Stefáns.
Zsinagóga, stærsta samkunduhús Gyðinga í Evrópu.
Athyglisverð söfn af ýmsu tagi. Nánar hjá fararstjórum.

BÖÐ
Budapest er fræg fyrir heilsuböðin sín. Heitir hverir eru undir borginni og voru þeir þegar notaðir af Rómverjum fyrir 2000 árum.

Gellért: XI.Kelenhegyi út. 2-4, Buda. Opið alla vikuna kl. 6 – 20. Glæsilegir Art nouveau salir í  Gellért hótelinu.
Széchenyi: XIV. Állatkerti krt. 11, í stórum skemmtigarði frá 1913 í Pest hlutanum. Opið 6-22. Hérna má sjá fólk tefla á fljótandi taflborðum.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti