TUI Magic Life er mjög gott hótel í Calabria þar sem boðið er upp á “allt innifalið". Hótelið stendur eitt og sér alveg við ströndina með fallegum garði og beinu aðgengi að sandströnd með frábærri sólbaðsaðstöðu. Þá er sundlaugargarðurinn stór og rúmgóður með 5 sundlaugum.
Alls eru 4 veitingastaðir á hótelinu. Aðal veitingastaðurinn “Magico” þar sem snætt er af hlaðborði, “Trottoria” sem býður uppá mat úr héraði, “The Flavor” sem er með alþjóðlegan matseðil og síðan “Fish & grill” sem sérhæfir sig í sjávarréttum. Þá eru 4 barir, þar af einn sem opinn er allan sólarhringinn. Gestir hótelsins geta snætt einu sinni á meðan á dvöl stendur á öðrum stað en á aðalveitingastað hótelsins án endurgjalds. Panta þarf borð í gestamóttöku með fyrirvara. Hægt er að snæða oftar en einu sinni gegn vægu gjaldi.
Allt innifalið á TUI Magic Life inniheldur morgunverð, hádegisverð og kvöldverð, snarl á milli mála, ís, kaffi, kökur og annað bakkelsi. Þá eru drykkir innifaldir allan sólarhringinn, gos, vatn, kaffi, te ásamt innlendum bjór og innlendu léttvíni. Hægt er að versla alþjóðlega drykki á sérstökum bar sem staðsettur er nálægt sundlauginni.
Herbergin eru rúmgóð og vel búin helstu þægindum. Öll með góðu baðherbergi, sjónvarpi, wi-fi tengingu, hárþurrku, og litlum ísskáp. Svalir eða verönd á öllum herbergjum. Öll herbergi eru loftkæld. Hægt er að fá herbergi á sér svæði sem kallast “Private Lodge" en um er að ræða tvær byggingar sem eru með eigin sundlaug og veitingastað sem eingöngu er ætlað gestum sem bóka þau. Þessi herbergi eru aðeins fyrir 18 ára og eldri. Gestir sem bóka sig í “Privat Lodge” hafa einnig aðgang að öllum svæðum hótelsins.
Fjölbreytt skemmtidagskrá er á hótelinu bæði yfir daginn svo og á kvöldin. Hægt er að taka þátt í leikfimi, vatnaíþróttum, tennis, hjólreiðum, blaki eða fótbolta. Þá er einnig skemmtidagskrá sérsniðin að börnum. Aðgangur að heilsurækt kostar aukalega.
Í 10-12 mínútna akstursfjarlægð frá hótelinu er bærinn Pizzo. Hótelið býður uppá skutlu til og frá bænum nokkrum sinnum á dag gegn 10 eur gjaldi (báðar leiðir). Bærinn er sjarmerandi með þröngar götur, verslanir, kaffi- og veitingahús. Ekta ítalskur bær með mikinn sjarma. Einnig er hægt að taka leigubíl á milli hótelsins og bæjarins.
Einnig verður í boði leiga á bílaleigubílum á meðan á dvöl stendur. Bílaleigan kemur þá með bílinn á hótelið kvöldið áður en leigan tekur gildi. Bílaleigan sækir svo bílinn aftur á hótelið.
Athugið: Gistináttagjald 3.50 evrur á mann á dag þarf að greiða beint til hótelsins. Heimsferðir geta ekki innheimt gjaldið.