Parque Cristobal
Hótellýsing

Einkar góður gistivalkostur sem býður upp á fjölbreytta afþreyingu og frábæra staðsetningu á Ensku ströndinni, rétt við Barbacan Sol sem margir Íslendingar þekkja. Að Yumbo Center er aðeins 5─7 mínútna ganga. 

Gististaðurinn samanstendur af 233 smáhýsum með einu til tveimur svefnherbergjum og er hægt að velja á milli margra tegunda af smáhýsum. Öll eiga smáhýsin það sameiginlegt að vera með sjónvarpi, síma, öryggishólfi og verönd með garðhúsgögnum sem snýr út í garð. Á baðherbergjum er hárþurrka. Við hvert smáhýsi er aðeins heimilt að hafa tvo sólbekki. Ef fleiri en tveir aðilar eru í smáhýsunum þá bendum við á sólbaðsaðstöðuna í garðinum. 

Smáhýsi merkt Premier eru með einu svefnherbergi. Í þeim er góð eldunaraðstaða með örbylgjuofni, ísskáp og kaffivél. Hér geta mest 4 manns gist.

Smáhýsi merkt Superior eru einnig með einu svefnherbergi. Þau eru ætluð gestum með allt innifalið þjónustu og eru því ekki með eldhúsaðstöðu. Hér geta mest 3 manns gist.

Smáhýsi merkt family eru með tveimur svefnherbergjum, annað með tvíbreiðu rúmi og hitt með tveimur einbreiðum rúmum. Í þeim er góð eldunaraðstaða með örbylgjuofni, ísskáp og kaffivél. Þessi smáhýsi henta t.d. fjölskyldum með 2 börn eða fyrir 4 fullorðna en þó geta hér allt að 5 manns gist. Hægt er að velja þessi smáhýsi eftir aldri barna, t.a.m. er kids svítan hugsuð fyrir fjölskyldur með yngri börn en teen svítan fyrir fjölskyldur með eldri krakka.

Nánari upplýsingar um smáhýsin má finna hér:

Rooms | HD Parque Cristóbal Gran Canaria (hdhotels.com)

Veitingastaðir, bar og fjölbreytt þjónusta er í boði á hótelinu. Við hótelið er fallegur sundlaugargarður með góðri sólbaðsaðstöðu, sólhlífum og bekkjum en hér eru tvær sundlaugar, barnalaug og nuddpottur. Á hótelinu er fjölbreytt afþreying í boði ásamt skemmtidagskrá. Hér er einnig barnaleiksvæði, barnaklúbbur fyrir allra minnstu börnin, líkamsræktaraðstaða og spilasalur. 

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu farþega sinna á hótelinu. 

Mjög góður valkostur með frábæra staðsetningu á Ensku ströndinni.