Maspalomas Princess er glæsilegt hótel í Princess hótelkeðjunni, staðsett í rólegu umhverfi í Maspalomas rétt hjá sandöldunum. Hótelið er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá miðbæ Ensku strandarinnar.
Herbergin eru fallega innréttuð, snyrtileg og rúmgóð með stórum svölum eða verönd. Öll herbergi eru með loftkælingu, sjónvarpi og síma ásamt mini-bar og öryggishólfi gegn gjaldi. Á baðherbergi er hárþurrka.
Hótelið er í raun tvískipt, annar hlutinn heitir Tabaiba og hinn Maspalomas en hér er sameiginleg aðstaða fyrir gesti beggja hótela. Gestir Heimsferða geta lent annað hvort á Tabaiba eða Maspalomas. Yfirbragðið hér er með "tropical" ívafi og hér er að finna fallegan sundlaugargarð með sundlaug og sundlaugarbar ásamt tilbúnu strandsvæði. Garðurinn er mjög skemmtilegur og gönguleiðir í honum eru fallegar. Hér er einnig leiksvæði fyrir börnin sem er afgirt.
Veitingastaðurinn er hvort tveggja með hlaðborði sem og matseðli a la carte og einnig eru barir á hótelinu. Boðið er upp á skemmtidagskrá á hótelinu, þá er líkamsræktarsaðstaða, tyrknesk böð, finnsk saunaböð og nuddstofur þar sem hægt panta nudd (gegn gjaldi). Þá er diskótek þar sem boðið er upp á skemmtiatriði, píanóbar með lifandi tónlist og fyrir fjölskyldur með börn er sett upp sérstök barnadagskrá. Á hótelinu eru einnig tennisvellir og mini golf og þá er þetta rétti staðurinn fyrir golfunnendur því stutt er á Campo de Golf golfvöllinn í Maspalomas.
Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu farþega sinna á hótelinu.