Í þessari ferð er dvalið á Hotel Lologo í Hua Hin í 8 nætur og Hotel Montien í Bangkok í 3 nætur.
Flugið
√ Flogið með Icelandair og Emirates. Fyrsta flokks þjónusta alla leið.
√ Einn flugmiði og farangur innritaður alla leið við brottför.
√ Stuttur biðtími í millilendingum.
√ Gisting góðum hótelum með morgunverði.
√ Fjölbreytt afþreying.
√ Akstur til og frá flugvelli í Tailandi
Flogið er í gegnum Oslo og Dubai.
Smelltu hér til að skoða þjónustu Emirates
Íslensk fararstjórn undir traustri stjórn Inga Bærings
Fararstjórinn Ingi Bærings er heimamaður í Taílandi þar sem hann býr í fjallendi nyrst við Chiang Mai sem er skammt frá landamærum Búrma. Ingi er lífskúnster sem hefur starfað við ráðgjöf og kennslu í gegnum árin heima á Íslandi og erlendis. Í Taílandi sýslar hann í húsbyggingum og skógarhöggi auk þess að stúdera mannlíf og náttúru landsins og ekki síst matarmenningu þjóðarinnar. Frú Pía er hans betri helmingur, bæði í lífi og starfi því hún er oft lykilinn að því að tryggja einstaka og nána upplifun farþega á framandi leyndardómum Taílands.
Hotel Loligo er gott og vel staðsett hotel í strandbænum Hua Hin. Fallegur garður og góða sólbaðaðstaða. Hótelið er staðsett u.þ.b. 100 metra frá ströndinni.
Hótel Montien í Bangkok er gott 4 stjörnu, vel staðsett fyrir þá sem vilja skoða heilstu kennileiti borgarinnar. Góður garður er við hótelið og sundlaug. Hótelið fær góða dóma fyrir þjónustu og veitingar.
Komdu á stefnumót við framandi menningu þjóðar sem er fræg fyrir gestrisni og gómsætan mat. Hittu fyrir fólk sem beitir brosinu betur en nokkrir aðrir, njóttu umhverfis sem einkennist bæði af mýkt og mildi og ólgandi fjöri.
Hvað bíður þín í Taílandi. Eigum við að byrja að tala um matinn? Þvílíkar kræsingar. Sagt er að hægt sé að bragða nýjan rétt í hvert mál í Taílandi alla ævi en samt ekki komast langt í gegnum matreiðslubók þjóðarinnar. Krassandi karrý, kókossætt mangó, kraumandi grillréttir, ferskur skelfiskur úr hafinu og allur skalinn sem bragðlaukarnir geta numið. Og þá hafa ávextirnir enn ekki verið taldir, þvílíkt úrval; rambútan, drekaldin, mangústeinn, papæja, dúrían o.fl.
Menning og saga Taílands er svo annar kafli. Þjóð sem hélt sjálfstæði sínu á meðan mestur partur Asíu laut erlendum yfirráðum nýlenduvelda Evrópu. Þjóð sem málamiðlun og útsjónarsemi er tamara en stríð og átök. Þjóð sem virðir trúfrels sem og rétt einstaklinga til að velja sitt kyn eða hlutverk og hefur svo verið í gegnum aldirnar en “katoey” eða þriðja kynið hefur ætíð verið þekkt í Taílandi.
Náttúra Taílands er næg ástæða til heimsóknar. Villtir fílar og tígrisdýr finnast enn í afskekktum skógum og fjallendi, apakettir og nashyrningsfuglar, risaleðurblökur og buffalóar. Fjallasýn er fögur og undraheimar neðansjávar eru stórt ævintýri eða ægifagrir kalksteinklettar við hvíta sandströndina þar sem túrkísblár ylvogur sjórinn fellur að.
BANGKOK - Englaborgin í austri
Bangkok, gamla næturdrottning Austurlanda. Englaborgin í austri. Með sitt vafasama orðspor, geggjun, andstæður og óendanlega fjölbreytileika. Nokkuð skökk og skæld, sumstaðar myrk og krassandi, annars staðar fægð og fínpússuð.
Búddismi og gjálífi, skýakljúfar og gömul hof, götubúllur og svalir barir, pingpongsjóv og listasýningar blandast saman í borg þar sem allt leyfist.
Bangkok fær fyrstu verðlaun fyrir líf og fjör. Í samanburði dottar London, New York drattast áfram, Tokyo er köld, Kaupmannahöfn langdrukkin, París þreytt, Barcelona værukær og Buenos Aires einsleit.
Bangkok er hressileg og krassandi borg en hefur þó á sér margar mjúkar og menningarlegar hliðar og er langt frá því bara sú Bangkok sem þekkt er af endemum, s.s. einsog í kvikmyndinni Hangover 2.
Í samanburði við Evrópu þá eldast borgir í Asíu illa því á meðan evrópubúar eru sífellt að varðveita og hlúa að hinu forna sækist asíubúinn eftir endurnýjun og endurbyggingu, eða kannski má segja að asíubúinn lifi meira í núinu á meðan fortíðarhyggjan og varðveislan einkennir sálarlíf vesturlandabúa.
Bangkok er dæmigerð stórborg í Asíu hvað varðveislu áhrærir og einnig gerir þéttbýlið það að verkum að borgin virkar kaótísk, torskilin og torfær. Bangkok er ekki að finna í grænum görðum, opnum torgum eða kólónískum búlívördum en sýnir sig þess betur í þröngum iðandi, angandi og æsandi öngstrætum eða framandi mörkuðum - hvort heldur votmarkaði að morgni eða sjóræningjamörkuðum að kvöldi. En friðarreitir finnast þó, t.d. fjölmörg falleg hof, sumhver forn og fræg, önnur ný og sérkennileg einsog reðurhofið við Nai Lert eða taóísk hof í kínahverfinu.
Stórborgir sýna oft sínar bestu hliðar og sterkustu einkenni í veitingastöðum og af þeim er nóg í Bangkok. Það eru ekki bara taílenskri og asískir veitingastaðir, heldur er aragrúi af frönskum, þýskum, sænskum, afríkönskum, amerískum og að sjálfsögðu ítölskum stöðum í borginni. Það er t.d. fullyrt að það séu fleiri ítalskir veitingastaðir í Bangkok en ítalir búsettir þar. Síðast þegar talið var töldust tæplega 400 ítalskir veitingastaðir þ.m.t. pizzeríur.
Bangkok byggðist upp á bökkum Chao Phraya fljótsins og við síkiskanala - bæði manngerða og náttúrulega. Lengi hafði verið byggð við bakkana en árið 1778, þegar Chakribræðurnir tóku völdin, var höfuðborg Síam(einsog landið nefndist þá) flutt frá Thonburi, vestan árbakkana að manngerðum hólma í fljótinu sem nefndur er Rattanakosin og dregur veldi núverandi konungsfjölskyldu(Chakri)nafn sitt af af hólmanum.
Bangkok, sem þýðir "þorp villtu ólífutrjánna", er í raun viðurnefni borgarinnar, almennt segja taílendingar Krung Thep eða "Englaborgin" sem er stytting á lengsta staðarnafni í heimi - samvæmt Guinness Book of World Records. Fullt nafn er Krung Thep Mahanakhon Amon Rattanakosin Mahinthara Ayuthaya Mahadilok Phop Noppharat Ratchathani Burirom Udomratchaniwet Mahasathan Amon Piman Awatan Sathit Sakkathattiya Witsanukam Prasit, sem útleggst á íslensku sem; "Hin stórkostlega borg engla, geymslustaður dýrmætra eðalsteina, hið mikilfenglega, göfuga og ósigranlega ríki, hið dýrlega heimili hinna níu konunglegu djásna, hinn konunglegi dvalarstaður og höll, hinn guðdómlegi verndarstaður og hið lifandi afdrep endurfæddra anda."
HUA HIN - Elegant stranddrottning Taílands
Margar ástæður eru fyrir því að Hua Hin er frábrugðinn öðrum strandbæjum Taílands. Fyrst mætti nefna að þetta er elsti og grónasti ferðamannastaður landsins. Hua Hin byggðist upp á fyrrihluta síðustu aldar af betriborgurum Bangkok sem sóttu í fagra friðsæld og þægilegt loftslag Hua Hin, sem á þeim tíma var lítt þekkt þorp fiskimanna og ananasbænda. Staðurinn var eiginlega uppgötvaður af Naris prins sem byggði sér litla höll sem enn er til og nefnist Saen Samran. Bróðir hans, Vajiravudh (Rama VI) konungur fylgdi í kjölfarið og fljótlega hafði hirðin sett niður bungaló og hallir meðfram ströndinni og standa mörg þessara húsa enn og eru notuð af fjölmennri konungsfjölskyldunni. Bhumibol, síðasti konungur Taíland, bjó orðið alfarið í einni af strandhöllunum sem nefnist Klai Kang Won, sem útleggst “Áhyggjurnar óra fjarri” á íslensku.
Þrátt fyrir að ferðafólk sæki mikið til Hua Hin og ferðaþjónusta sé áberandi hefur Hua Hin haldið öllum einkennum þess að vera sannlega taílenskur staður. Þetta er enn ein ástæðan fyrir sérstæði bæjarins. Þessu má sjálfsagt þakka að uppbygging ferðaþjónustu og aðlögun samfélagsins hefur verið jöfn og stígandi í tæpa öld. Enginn kippir sér upp við ferðamenn og alls staðar er fólk velkomið. Bæjarlífið er rólegt og það þarf ekki að fara langt frá Petchakasem götunni, sem er umferðaræð staðarins, til að rekast á búpening á rápi, heyra hanagal og sjá fólk að veiðum í síkjum, vötnum eða sjónum.
Af hverju finnast bestu sjávarréttirnir í Hua Hin?
Smokkfiskurinn þykir ljúffengari í Hua Hin en annars staðar í Taílandi, hvort heldur grillaður með hvítlauk eða karrílagaður að taílenskum sið. Risarækjur í tom-jam súpu, rauðflesk af götugrilli, ferskar ostrur, gufusoðin krabbakló eða heilsteiktur flatfiskur. Allt er þetta hvort öðru ljúffengara og sagt er að taílenski maturinn sé betri í Hua Hin en öðrum ferðamannastöðum vegna fjölda innlendra ferðamanna sem koma til Hua Hin. Taílendingar lifa fyrir mat, ræða mat öllum stundum og eru vart búnir að kyngja síðasta munnbita þegar þeir hafa lagt á ráðin með næstu máltíð.
Auðvitað finnast svo fjölmargir öndvegis vestrænir veitingastaðir. Sænskir, þýskir, amerískir og að sjálfsögðu ítalskir. Svo eitthvað sé nefnt.
Hua Hin er myndarlegur bær með eiginlegum bæjarkjarna auk dæmigerðar strandgötu þar sem veitingastaðir og barir, klæðskerar og nuddstofur raðast þétt saman. Sjávarréttarstaðirnir niður við hafnarsvæðið eru vinsælir af heimamönnum jafnt sem ferðafólki. Frá höfninni hlykkjast götur þar sem barir, næturklúbbar, götusalar, markaðir og veitingastaðir standa hver við annan.
Umkringd fjölbreyttri náttúru með úrvali ævintýra og söguslóða
Hua Hin er ljúfur og þægilegur bær sem býður uppá fjölbreytta þjónustu og afþreyingu. Hestaleigur á ströndinni, bátaleigur, skútusiglingar, fjölbreytt úrval veitingastaða og verslana.
Margir bestu golfvellir Taílands eru í nágrenni Hua Hin, þ.m.t. elsti völlur landsins því auðvitað þurftu prinsar og prinsessur að hafa eitthvað fyrir stafni.
Fyrir náttúruunnendur eru tveir spennandi þjóðgarðar skammt undan. Kaeng Krachan þjóðgarðurinn með fjölskrúðugt fuglalíf og Khao Sam Roi Yot þjóðgarðurinn sem státar t.d. af glæsilegum kalksteinsklettum.
Athugið:
Staðfestingargjald er 100.000 kr. og er óafturkræft. Vinsamlegast kannið forfallatryggingar sem fylgja kreditkortum og/eða heimilistryggingum. Ferðaskrifstofan/fararstjóri áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef veður, umferð eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til. Mikilvægt er að nöfn á bókunum stemmi nákvæmlega við nöfn í vegabréfi. Það er á ábyrgð farþega ef svo er ekki.
Farþegar fá 30 daga visa við komuna til Taílands, án kostnaðar. Aðeins þarf að framvísa vegabréfi á landamærum. Vegabréf þurfa að vera gild í a.m.k. 6 mánuði eftir að dvöl likur.
Athugið: Dagskrá getur breyst t.d. af völdum veðurs, ófyrirsjáanlegra aðstæðna eða góða ástæðu og/eða hugmynda. Að öðru leiti gilda almennir skilmálar Heimsferða