Cap Negret
Hótellýsing

Cap Negret er flott hótel í jaðri Altea þorpsins sem hentar vel fyrir þá sem vilja næði í góðu yfirlæti. Hótelið stendur í fyrstu línu við fallega steinvöluströndina í Altea og er því með glæsilegu útsýni út á haf. Hótelið býður upp á sérstaka hjólaaðstöðu, svo sem geymslu, þrif- og viðgerðasvæði og hefur því verið mjög vinsælt af hjólreiðafólki.

 

Hótel Cap Negret tilheyrir Altea og tekur um 20 mínútur að ganga niður í miðbæ bæjarsins sem er meðal annars þekktur fyrir kirkjuna á hæðinni og þröngu göturnar sem að henni liggja með alls kyns skemmtilegum sérverslunum og veitingastöðum. Benidorm er í u.þ.b. 8 km fjarlægð.

 

Herbergin eru innréttuð í þægilegum jarðlitum, þau eru ekki mjög stór en snyrtileg og björt. Öll eru þau búin sjónvarpi, síma, þráðlausu neti (WiFi) og öryggishólfi (gegn gjaldi). Á baðherbergi er hárþurrka. 

Premier herbergin voru öll tekin í gegn í janúar 2018 og hafa hliðarsjávarútsýni og eru við hliðina á ströndinni. 

 

Hótelið stendur alveg við litla steinvöluströnd, það nálægt að maður heyrir öldurnar leggjast ljúflega að ströndinni ef legið er á bekk í garðinum. Garðurinn er ekki mjög stór en er með sundlaug, barnalaug, sólbekkjum, sólhlífum og snarlbar. Hér er einnig hlaðborðsveitingastaður, verönd með grilli, bar og sundlaugarbar. Þá er líkamsræktaraðstaða og hjólageymsla með góðri aðstöðu fyrir hjólreiðafólk (gegn gjaldi). 

 

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu farþega sinna. 

 

Góður og hagkvæmur kostur!